Færsluflokkur: Vefurinn
Mánudagur, 14. maí 2007
Veirur eru ekki vandamál
Í tilefni af því málþingi sem fyrirhugað er hér á landi næstu tvo daga um prófanir á veiruvarnaforritum, þá langaði Púkann til að varpa fram þeirri fullyrðingu að tölvuveirur eru í raun ekki vandamál. Tölvuveirur eru nefnilega mjög sjaldséð fyrirbæri og það er nánast óþekkt að nokkur tölva smitist af slíku.
En bíðum nú við - það kannast allir við þann ófögnuð sem kemur í tölvupósti eða á annan hátt, stelur upplýsingum , eyðir gögnum og gerir tölvurnar stundum óstarfhæfar - hvað á Púkinn þá við með því að halda því fram að veirur séu nánast ekki til.
Það er nefnilega málið. Þessi forrit sem fólk fær inn á tölvurnar eru ekki veirur, heldur allt aðrar tegundir af óværu. Þessi forrit falla helst í eftirfarandi flokka (en þess ber þó að gæta að mörg forritanna sameina eiginleika tveggja eða fleiri flokka).
Bakdyr: Forrit sem setja upp aðgang á tölvunni þannig að aðrir aðilar geti tengst henni utan úr heimi og sett forrit inn á hana.
"Bot": Forrit sem leyfir utanaðkomandi aðila að stjórna tölvunni og er þá talað um að tölvan sé "zombie". Margar slíkar tölvur eru síðan gjarnan tengdar saman í net undir stjórn einnar aðaltölvu, en það "zombienet" er síðan hægt að (mis)nota í margvíslegum tilgangi. Jafnvel kemur fyrir að aðgangur að slíkum netum sé seldur eða leigður hæstbjóðandi.
Rusldreififorrit: Forrit sem nota tölvutenginguna sem er til staðar til að dreifa ruslpósti á kostnað eiganda tölvunnar.
Hlerunarforrit: Forrit sem hlerar samskipti tölvunnar yfir netið og reynir að stela aðgangsupplýsingum, kreditkortanúmerum og öðru slíku.
Eiginlegar veirur eru hins vegar orðnar mjög sjaldséðar - innan við 1% þess sem menn rekast á í dag.
Málþing um tölvuveiruvarnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Sæstrengur - getur það verið vitlausara?
Enn og aftur kemur í ljós að stjórnvöldum er ekki alvara þegar þau tala um að "...efla hátækni á Íslandi", "...gera Ísland að þekkingarsamfélagi" eða annað í þeim dúr. Þau geta bruðlað með peninga í óþarfa eins og Héðinsfjarðargöng, en að styðja af alvöru við byggingu á undirstöðum þekkingarsamfélags...nei.
Nú á að leggja annan sæstreng til Evrópu og hafa hann í höndum sama rekstraraðila og rekur FarIce í dag. Það skal enginn reyna að telja mér trú um að verðið fyrir notkun strengsins komi til með að lækka við það - frekar hækka ef eitthvað er, því ekki vex notkunin bara við það að nýr strengur sé tekinn í notkun, en fjármagnskostnaðurinn vex hins vegar.
FarIce er dýr og íslenskir aðilar sem dreifa miklum gögnum nota hann ekki nema þau neyðist til. Staðreyndin er sú að kostnaður við að dreifa gögnum yfir Farice er allt að tífaldur kostnaður við að dreifa þeim frá netþjónabúum erlendis, en það, ásamt núverandi óáreiðanleika sambandsins er til dæmis ástæða þess að þjónarnir fyrir EVE Online eru í London, en ekki á Íslandi.
Nú, svo er það sú ákvörðun að leggja bara streng til Evrópu. Þegar Cantat strengurinn verður lagður niður verðum við ekki með neina beina tengingu við Bandaríkin eða Kanada. Ætla menn síðan í alvöru að reyna að sannfæra bandaríska aðila um að Ísland sé góður kostur til að reka netþjónabú? Þá hefði nú verið betra að leggja streng í suður og tengjast Hibernia strengnum sem liggur fyrir sunnan land.
Púkinn getur ekki tekið svona menn alvarlega.
Botnrannsóknir vegna nýs sæstrengs í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Púkinn mættur til starfa
Innrás púkanna er hafinn. Hlauppúkinn, piparpúkinn og frændur þeirra hafa komið sér fyrir í sælgætisgeiranum og nú er röðin komin að fjölmiðlunum.
Villuleitarpúkinn er mættur til starfa hér á blogginu og mun hann gera sitt besta til að villuleita skrif bloggara. Þess ber reyndar að gæta að hann er svolítið takmarkaður - ræður ekki vel við erlend orð eða orð með fleiri en einni villu, en Villuleitarpúkinn lofar að gera sitt besta til að leita uppi allar einfaldar innsláttarvillur, en þær geta komið upp hjá öllum - líka þeim sem telja stafsetningu sína fullkomna.
Við púkarnir vonum bara að allir séu sáttir við að fá aðstoð hjá litlum, glottandi, rauðum púka með horn og hala.
Leiðréttingapúki á blog.is | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 7. maí 2007
Nýburar á Netinu
Nýlega komst Púkinn að því að nokkur sjúkrahús birta myndir af öllum nýburum á Netinu, ásamt upplýsingum um foreldra, fæðingardag og jafnvel lengd og þyngd.
Púkinn er nú oft svolítill nöldurpúki og hefur gaman af að benda á það sem aflaga fer, en þetta framtak finnst Púkanum það gott að sjálfsagt er að hrósa því, þar sem þetta gefur fjarstöddum vinum og ættingjum kost á að sjá nýjustu meðlimi þjóðfélagsins.
Svo er Púkinn líka áhugasamur um ættfræði, þannig að hann fagnar alltaf birtingu svona upplýsinga.
Þau sjúkrahús sem birta þessar upplýsingar eru:
Sambærilegar upplýsingar eru því miður ekki birtar á Akureyri, Reykjavík eða á Austurlandi.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 5. maí 2007
Hvað á að kjósa? Taktu próf á vefnum.
Púkanum var nýlega bent á þessa slóð á vefnum, en þar er fólki gefið tækifæri á að svara nokkrum spurningum á vefnum og síðan er reiknað út hvaða flokk viðkomandi eigi helst samleið með.
Púkinn tók prófið og fékk út að hann ætti að kjósa Íslandshreyfinguna, sem kom honum nú ekkert svo voðalega á óvart.
Það var hins vegar athyglivert að prófa að segjast enga skoðun hafa á neinum málum ... þá var Púkanum sagt að hann ætti samleið með Samfylkingunni.
Það var nefnilega það.
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Novator og Novator
Púkinn var að leita á Netinu að upplýsingum um Novator og komst að því að þetta nafn er notað af mörgum mismundandi aðilum á mörgum mismunandi sviðum.
- Novator KS-172 AAM-L er langdrægt rússneskt flugskeyti, sem reyndar er ekki í framleiðslu sem stendur, en viðræður munu vera í gangi milli Rússlands og Indlands um sameiginlega þróun og framleiðslu þess.
- Novator.com er í eigu bandaríska fyrirtækisins Novator sem sérhæfir sig í útvistun hugbúnaðarlausna fyrir markaðssetningu á Netinu.
- Novator.co.uk og Novator.is er í eigu fjárfestingafyrirtæki Björgólfs.
- Novator.se er í eigu sænska fyrirtækisins Novator, sem sérhæfir sig í umhverfisvænni orku.
- Novator er einnig nafn skips sem nú er statt undan strönd Norður-Noregs. Hér má sjá hvar það er á hverri stundu.
- Novator mun einnig vera nafn á krossviðarverksmiðju í Vologda héraði í Rússlandi, samkvæmt þessari vefsíðu.
- Novator.nu er í eigu fyrirtækis sem virðist sérhæfa sig í að búa til göt.
Ætli það hafi aldrei orðið ruglingur vegna þessa?
Novator selur 65% hlut í búlgörsku fjarskiptafélagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 28. apríl 2007
Hver seldi fálkaorðuna?
Undanfarið hefur fálkaorða verið til sölu á eBay. Þetta er að sjálfsögðu óeðlilegt - það er ætlast til að svona orðum sé skilað inn við andát þess sem fékk orðuna.
Það sem veldur Púkanum hins vegar heilabrotum er spurningin um hver átti þessa orðu.
Á ljósmyndinni sem fylgir af afhendingarskjalinu er greinilegt að um stórkross er að ræða, veittur af Vigdísi Finnbogadóttur, og ártalið er 1990 að því er virðist.
Spurningin er hver viðtakandinn er - Púkinn getur hreinlega ekki lesið það, en sýnst vera um "Dr. Gerhard ....... sendiherra" að ræða, en textinn er nokkuð óskýr.
Ekki reyndist mikið gagn að vefnum í þessu tilviki, a.m.k. fann Púkinn ekki upplýsingar um orðuveitingar fyrir 1996, en ef til vill er einhver sem sér hvaða orða það er sem verið er að selja.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 28. apríl 2007
Kristilegt klám
Stundum rekst Púkinn á undarlegar bandarískar vefsíður. Síður sem eru þess eðlis að hann getur ekki annað en hrist höfuðið, og verið feginn að þrátt fyrir að íslenskt þjóðfélag sé (því miður) stöðugt að líkjast því bandaríska mekra og meira, þá eigum við enn alllangt í land með að ná þeim í vitleysisgangi.
Bandaríkjamenn framleiða víst meira af klámefni en nokkur önnur þjóð en þeir eru líka sú vestræna þjóð sem tekur trúmál hvað alvarlegast. Það er því ef til vill ekki undarlegt að upp komi spurningar um kristilegt klám, eða réttara sagt, hvaða skilyrði klámefni þurfi að uppfylla til að teljast kristilegt.
Þessi vefsíða svarar þeirri spurningu.
Jamm, jamm og jæja - enn einn moli af upplýsingum sem ég þurfti virkilega ekki að vita.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Að búa til betra blogg
Á þeim tíma sem Púkinn hefur verið hér á blog.is, hefur hann rekið augun í nokkra hluti sem mætti lagfæra að hans mati.
Það má vera að ekki séu allir sammála, en vonandi komast einhverjar þessara ábendinga til skila.
Hverjar eru svo tillögurnar?
Skoðum fyrst bloggelítuna, en það er hinn handvaldi hópur 50-60 einstaklinga sem lenda í "Umræðunni". Þar eru margir góðir pennar, málefnalegir og skemmtilegir, en að sumu leyti er svolítið einhæft að sjá alltaf sömu einstaklingunum hampað á þennan hátt. Það mætti að skaðlausu stækka hópinn og auka þannig fjölbreytnina.
Í öðru lagi eru það bloggflokkarnir, en það mætti gjarnan endurskoða þá svolítið - Púkinn saknar þess að sjá ekki flokk eins og "Verslun og viðskipti" til dæmis.
Í þriðja lagi er það misnotkun fólks á aukaflokkakerfinu. Það eru allt of margir sem hafa þann leiða ávana að troða greinum sínum í flokka þar sem þær eiga alls ekki heima, og "ýta" þannig burt greinum þeirra sem reyna að sýna almenna kurteisi. Það er í raun engin ástæða til að leyfa meira en 2-3 aukaflokka.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Cantat - loksins
Púkinn fagnar því að Cantat skuli nú loksins vera kominn aftur í lag.
Léttir Púkans er sjálfsagt meiri en flestra (sem fólk ætti að skilja ef það athugar höfundarupplýsingarnar til að sjá hver stendur á bak við Púkann) því fyrirtæki Púkans byggir jú á því að geta dreift gögnum fljótt og vel yfir Netið.
Meðan Cantat hefur verið bilaður, hefur öll umferðin farið í gegnum FarIce strenginn, sem hefur nú ekki verið til fyrirmyndar hvað bilanir snertir, þannig að síðustu 4 mánuðina hefur Púkinn haft af því verulegar áhyggjur að þessar sæstrengsbilanir gætu kippt fótunum undan fyrirtæki hans.
Eftir sem áður er staðan sú að Cantat er kominn til ára sinna og Teleglobe fyrirtækið er ekki það besta og áreiðanlegasta í þessum geira.
Það eru uppi fyrirætlanir um nýjan streng til Evrópu, en þegar Cantat verður aflagður þá munum við vera í þeirri stöðu að hafa enga beina tengingu vestur um haf.
Það lítur ekki vel út því ef einhverjir ætla að reyna að markaðssetja Ísland sem vænlegan kost til hýsingar á netþjónabúum, þá er hætta á að þeir verði hreinlega ekki teknir alvarlega miðað við núverandi stöðu mála.
Við værum betur sett ef sá kostur hefði verið valinn að leggja streng í suður til að tengjast Hibernia strengnum sem liggur þvert yfir hafið, en Púkanum skilst að Síminn hafi verið því mótfallinn, enda hefur hann lagt í verulegan kostnað við hafsbotnsathuganir annars staðar.
Púkinn vill að lokum lýsa þeirri skoðun sinni að skeytingaleysi varðandi sæstrengina lýsir því betur en margt annað hversu lítið er að marka orð stjórnmálamanna um upplýsingaþjóðfélag. Ef þeir vilja ekki byggja upp undirstöður slíks þjóðfégs mun það aldrei verða að veruleika.
Nei, þá er nú betra að þeirra mati að byggja nokkur Héðinsfjarðargöng.
Viðgerð á CANTAT-3 sæstrengnum lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)