Færsluflokkur: Vefurinn
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Fjársvikamál?
"Dvergpúðlur til sölu, aðeins 80.000 krónur". Dvergpúðlur eru vinsælar í Japan, og þegar þær voru boðnar til sölu nýverið á um helmingi venjulegs markaðsverðs stukku þúsundir kvenna til og keyptu sér púðlu.
Eða þannig.....
Sumum kaupandanna fannst að vísu svolítið skrýtið að nýju púðlurnar þeirra fúlsuðu við hundamat, en það var ekki fyrr en japanska kvikmyndastjarnan Maiko Kawakami lýsti þeim vandræðum í spjallþætti í sjónvarpinu og sýndi mynd af púðlunni sinni að sannleikurinn kom í ljós.
Þetta voru nefnilega lömb.
Já, lömb. Þau eru nefnilega mjög sjaldgæf í Japan og margir Japanir vita ekki nákvæmlega hvernig þau líta út.
Þetta kallar maður víst fjársvikamál, eða hvað?
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. apríl 2007
Sala ISNIC
Púkanum finnst sumt skrýtið við söluna á ISNIC, en sú sala snertir Púkann beint, því hann er einn hinna 20 hluthafa sem eftir eru í fyrirtækinu.
Það er margt skrýtið við þetta mál. Söluverðið er sagt fáránlega hátt, þannig að litlar líkur virðast á að þjónustan lækki í verði, en það er spurning hversu eðlilegt það í rauninni sé að eignarhald svona fyrirtækis færist í hendur póstsins (Modernus er að sjálfsögðu bara leppur).
Sambærileg fyrirtæki í öðrum löndum eru venjulega sjálfstæð, sjálfseignarstofnanir eða hálf-opinber fyrirtæki, en ekki peningamaskínur.
Púkinn býst nú við að til lengri tíma verði afleiðingarnar þær að fleiri og fleiri velji þann kost að skrá .com lén í stað .is lénanna.
Hvað um það - nú er spurningin sem snýr að Púkanum hversu mikils virði hans (pínulitli) eignarhlutur sé - Vodafone átti 98% en síðustu 2 prósentin skiptust á milli allra hinna hluthafanna, þar á meðal Púkans.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 13. mars 2007
Íslenska - gott mál
Púkinn fagnar þessari úthlutun, enda er íslenskunám ein mikilvægasta forsenda þess að þeir útlendingar sem hingað koma geti aðlagast íslensku þjóðfélagi.
Púkanum finnst hins vegar svolítið skorta á að upplýsingar um það íslenskunám sem er í boði séu aðgengilegar á þægilegan hátt, þannig að útlendingar geti fundið þær upplýsingar án aðstoðar íslenskumælandi aðila.
Það er hægt að nota Google til að leita að "íslenskukennsla" og þá finnur maður til að mynda síðu Alþjóðahússins, en þar eru allar upplýsingar á íslensku - sem er frekar gagnslítið fyrir útlendinga. Þar eru einnig síður á fjölmörgum öðrum tungumálum, en engar upplýsingar virðist þar vera að finna um íslenskunámið.
Á vef Vinnumálastofnunar má finna upplýsingar á ensku, en þær eru takmarkaðar og virast ekki vera á fleiri tungumálum.
Er einhver staður þar sem upplýsingum um íslenskunám er safnað saman á helstu tungumálum?
90 milljónir króna veittar í íslenskukennslu fyrir útlendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 10. mars 2007
Barnaklámsnetlöggan
Þar sem allir eðlilegir einstaklingar hafa viðbjóð á barnaklámi virkar það oft vel að veifa barnaklámsflagginu til að auka eftirlit með tölvunotendum eða takmarka réttindi þeirra á einhvern hátt. Það er erfitt fyrir menn að vera á móti aðgerðum af þessari tegund án þess að verða úthrópaðir sem perravinir.
Málið er hins vegar ekki svo einfalt.
Púkinn hefur áður skrifað um tengt efni - samanber þessa grein.
Nú ætlar Púkinn hins vegar að fullyrða að tilraunir til að stöðva dreifingu óþverrans á þann hátt sem dönsk stjórnvöld eru að ræða um eru einfaldlega ekki vænlegar til árangurs.
Netfyrirtæki geta vissulega lokað á aðgang að einstökum vefsíðum, en í þessum tilvikum myndu síðurnar bara færast annað, eða jafnvel vera komið fyrir á tölvum einstaklinga án þeirra vitundar.
Það eru þekkt dæmi um það að brotist hafi verið inn á tölvur og þær notaðar til að hýsa þjóna til dreifingar á margvíslegu kolólöglegu efni. Í einhverjum tilvikum hafa eigendur tölvanna síðan lent í verulegum vandræðum fyrir vikið.
Ef stjórnvöld ætlast hins vegar til að netfyrirtækin horfi ekki á uppruna efnisins, heldur ritskoði það hreinlega, er málið enn fáránlegra. Burtséð frá því að mögulega er þetta efni sent dulkóðað á milli manna, er í hæsta máta vafasamt að notendur sætti sig við almenna ritskoðun, til að unnt sé að leita að svona efni.
Eitt enn sem menn hafa verið að horfa á er að skylda netfyrirtækin til að geyma öll gögn um samskipti langt aftur í tímann. Hugsunin er þá að ef einhver perri er gripinn, þá séu hans samskipti skoðuð til að athuga uppruna efnisins og síðan væntanlega gerð húsleit hjá öllum öðrum sem hafa fengið efni frá sömu stöðum. Það eru hins vegar ýmis tækni- og siðferðisleg rök gegn þessu.
Eða, eins og Púkinn sagði áður - þetta er ekki alveg svona einfalt.
Barnaklám af Netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10. mars 2007
Ábyrgð bloggelítunnar
Undir fyrirsögninni "Umræðan", sem áður hét "Valin blogg", birtast greinar eftir valda menn og konur. Í þessum hóp eru landsþekktir einstaklingar og fólk sem fellur í hóp virkra bloggara sem hafa eitthvað málefnalegt fram að færa. Úr þessum flokki eru þau blogg síðan valin sem birtast á forsíðu mbl.is, en það beinir umferð til þeirra, sem aftur heldur við vinsældum elítunnar. Samkvæmt lauslegri könnun sem Púkinn gerði, þá "á" þessi hópur stærsta hluta topp-50 listans og virðist lítið breytast frá viku til viku.
Púkanum varð í dag hugsað til þess að hve miklu leyti þessi lokaði hópur getur meðvitað, eða ómeðvitað stýrt bloggumræðunni.
Skoðum eitt dæmi. Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir er einn fulltrúi bloggelítunnar - þetta er ekki meint neikvætt, því þótt Púkinn sé vissulega ósammála mörgu sem kemur frá henni (og Samfylkingunni almennt) er Bryndís þekkt manneskja, virkur bloggari og skrif hennar málefnaleg, þannig að hún á fyllilega skilið að vera í þessum hóp. Sem stendur er Bryndís í 36. sæti á topp-50 listanum.
Bryndís bendir í dag á bloggsíðu Kristna Þjóðarflokksins, sem henni finnst furðuleg og er ljóst að hún mun væntanlega ekki verða sammála því sem þar mun koma fram í framtíðinni. Með því að birta hlekk yfir á síðuna gerir Bryndís fólk forvitið (já, Púkann líka) og margir heimsækja síðuna fyrir vikið og hefur hún nú fengið hátt í 200 heimsóknir í dag.
Síðan fékk þannig verulega athygli sem hún hefði annars aldrei fengið. Vond auglýsing er betri en engin auglýsing, ekki satt? Var það þetta sem Bryndís vildi - vekja athygli á aðilum sem hún virðist verulega ósammála?
Bloggelítan er að hluta eins og forystusauðir, sem leiða umræðuna, en verða að gæta sín að villast ekki í þokunni og falla fyrir björg.
(Það að Púkinn er sammála Bryndísi um Kristilega Þjóðarflokkinn er síðan allt annað mál og Púkinn er reyndar farinn að hafa alvarlegar áhyggjur af því að hafa tvisvar á jafn mörgum vikum verið sammála Samfylkingarmanneskju - hitt málið varðaði strætisvagnafargjöld)
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 8. mars 2007
island.is og ísland.is
Þegar ákveðið var að selja lén með séríslenskum stöfum árið 2004 var vitað að vandamál gætu komið upp vegna mögulegra árekstra.
Af þeim sökum var þeim sem áttu íslensk lén veittur forgangur í 6 mánuði til að skrá samsvarandi lén með séríslensku stöfunum. Sem dæmi má nefna olis.is og olís.is.
Væri þessi réttur ekki nýttur fyrir 1. jan. 2005 féll forgangurinn niður - svo einfalt er það.
island.is var skráð í febrúar 2002 af forsætisráðuneytinu. Þeim stóð síðan til boða 2004 að eignast ísland.is, en af einhverjum ástæðum nýttu þeir sér ekki þann rétt.
Í mars 2005, þegar forgangur ráðuneytisins er fallinn niður, fær Netvistun skráð lénið xn--sland-ysa.is, einnig þekkt sem ísland.is. Samkvæmt reglum ISNIC, sem voru hreinar og skýrar, var það þeirra réttur.
Það hefði verið betra ef forsætisráðuneytið hefði nýtt sér þann rétt sem það hafði 2004, en þar sem það var ekki gert, er ljóst að ráðuneytið verður að hætta að tala um ísland.is, eða semja við Netvistun um kaup á því léni.
Aðalfundur ISNIC er eftir viku - skyldi þetta verða til umræðu þar?
Netvistun á Ísland en forsætisráðuneytið Island | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt 9.3.2007 kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 2. mars 2007
Netlöggan mætt á staðinn
Púkanum finnst það athyglivert að notendur séu hvattir til að leita til lögreglunnar ef þeim berast grunsamleg gylliboð, því Púkinn á bágt með að trúa því að lögreglan hafi hreinlega mannskap til að sinna þessu verkefni ef allir myndu beina svona bréfum til hennar.
Nú er Púkinn að sjálfsögðu með póstsíu (sjá hér) sem sér um að hreinsa megnið af svona rusli úr póstinum hans, en ef það er skoðað sem sían stoppar kemur fljótt í ljós að magn svona rusls er gífurlegt.
Púkinn hefur nefnilega notað tölvupóst í rúm átján ár og hefur ekki komist hjá því að lenda á fjölda ruslpóstslista.
Lausleg yfirferð á þeim pósti sem sían lokaði á í dag leiðir í ljós 27 tilboð um kaup á Viagra, Cialis eða öðru slíku, 5 tilraunir til að reyna að plata Púkann til að gefa upp lykilorð í PayPal eða heimabanka, 2 tilraunir til að fá Púkann til að aðstoða við peningaþvætti, 7 tilraunir til að fá Púkann til að fjárfesta í einhverjum vafasömum "penny-stock" bréfum og svo framvegis - yfir 50 grunsamleg gylliboð alls.
Púkinn trúir því ekki að lögreglan vilji fá ruslpóstinn hans, en hafi hún áhuga er henni það velkomið.
Lögreglan ítrekar aðvaranir sínar vegna gylliboða á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 1. mars 2007
Ný not fyrir salat
Þessi mynd synir salathaus - ef þú sæir hann í ísskápnum myndir þú halda að hann biði þess að vera skorinn niður, ekki satt?
Eh, nei.
Þessi salathaus er í rauninni dulbúið öryggishólf, ætlað til að fela skartgripi og önnur verðmæti inní, í von um að þjófum myndi aldrei detta í hug að stela salati úr ísskápnum.
Unnt er að panta þetta öryggishólf hér, en framleiðandinn býður einnug upp á bækur og gosdósir með innbyggðum hólfum.
Púkinn er nú ekki alveg viss, en hann efast nú samt um að mikill markaður sé fyrir þessar vörur.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. febrúar 2007
Hvað er barnaklám - hluti 2
Er hægt að kæra einstakling fyrir misnotun á sjálfum sér? Púkanum finnst skrýtið ef svo er. Púkinn er reyndar ekki löglærður, en hann hélt að það væri nú þannig að lögum sem eru sett til verndar ákveðnum hópi væri almennt ekki beitt gegn meðlimum þess hóps.
Með öðrum orðum - er eðlilegt að lögum gegn barnaklámi sé beitt gegn börnum? Í hluta 1 af þessari grein benti Púkinn á Jeremy og Amber, sem gerðu þau mistök að taka myndir af sér í rúminu.
Það eru fleiri dæmi um það sem Púkanum finnst óeðlileg beiting svona laga, til dæmis þetta. 15 ára stúlka sendi nektarmyndir af sjálfri sér til annarra í tölvupósti og var fyrir vikið kærð fyrir misnotkun á barni, framleiðslu og dreifingu barnakláms. Það er nokkuð ljóst að hún var sek um dreifinguna - en Púkinn setur ákveðið spurningarmerki við misnotkunina. Að mati Púkans þyrfti umrædd stúlka frekar á sálfræðiaðstoð en því að vera kærð fyrir misnotkun og þurfa að dragnast með barnaníðingsstimpil á sér ævilangt.
Púkinn vill ekki að neinn misskilji sig - hann vill sjá verulegar hertar refsingar handa þeim sem misnota börn, en ef lögin eru óljós, eða skilgreiningar í þeim eru óljósar er hætta á að annað af tvennu gerist - annað hvort gæti lögunum verið beitt í tilvikum þar sem það er umdeilanlegt, eins og í ofanfarandi dæmum, eða einhverjir sem ættu refsingar raunverulega skildar sleppa fyrir horn vegna gata í lögunum.
Hvort tveggja er slæmt.
Þess vegna er það mikilvægt að skilgreiningar í lögunum séu ótvíræðar og Púkinn spyr því aftur "Hvað er barnaklám". Svarið við þeirri spurningu er nefnilega ekki svo einfalt og það er nokkurt magn efnis sem liggur á "gráu" svæði.
Tökum nokkur dæmi:
- Klámmyndir af börnum, framleiddar af þeim sjálfum. Púkinn bendir á ofanfarandi sem dæmi um það.
- "Hentai" Grófar teiknimyndir í japönskum "manga" stíl. Ef þær sýna börn, er það þá barnaklám? Engin raunveruleg börn voru (mis)notuð við gerð myndanna, en áhugi á þeim gæti borið vitni um verulega brenglaðan hugsanahátt.
- Tölvugrafík fer stöðugt batnandi og eitthvað mun vera um tölvugert klámefni. Nú veit Púkinn ekki hvort nokkuð slíkt efni sýnir börn, en sé svo er spurningin hvort um "barnaklám" sé að ræða. Hvað ef tölvugrafíkin batnar svo í framtíðinni að myndirnar verða óþekkjanlegar frá raunveruleikanum?
- Ungar "fyrirsætur". Það munu vera einhver dæmi um það að myndir séu teknar af "barnalegum" stúlkum, sem í raun eru 18 ára eða eldri (og eru löglegar þar sem þær eru framleiddar), en líta út fyrir að vera yngri. Er þetta barnaklám? Verjandi manna sem væru gripnir með slíkt myndefni gæti hugsanlega rökstutt að svo væri ekki - myndirnar sýni ekki börn - þær bara líti út fyrir það.
- Photoshop-breyttar myndir. Hér er um svipaðan hlut að ræða, nema hvað myndir (sem eru löglegar þar sem þær eru framleiddar) eru teknar og þeim breytt til að láta "fyrirsæturnar" líta út fyrir að vera yngri en þær eru.
Nú má vera að þetta sé ekki vandamál í raunveruleikanum, þar sem flestir sem eru gripnir með efni á svona "gráu" svæði eru væntanlega einnig með "harðara" efni, sem engin spurning er að flokkist sem barnaklám, og er þá hægt að dæma viðkomandi fyrir vörslu þess. Púkinn vill hins vegar benda þeim sem vilja tjá sig um barnaklám á nauðsyn þess að hafa á hreinu hvað þeir eiga við.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. febrúar 2007
Samtök tilvistarskertra
Púkinn á við tilvistarkreppu að stríða - eða væri réttara að kalla það "tilvistarskerðingu"? Hann er nefnilega ekki til - svona í vissum skilningi.
Púkinn hefur enga kennitölu og tilvist hans er ekki viðurkennd af hinu opinbera. Hann getur ekki fjarfest í hlutabréfum eða höfðað meiðyrðamál, svo dæmi sé tekið um þá mismunun sem Púkinn og aðrir tilvistarskertir einstaklingar búa við.
Púkinn er ekki einn um að búa við þetta vandamál, en tilvistarskerðing er útbreiddari en margir myndu halda. Meðal þekkra einstaklinga með tilvistarskerðingu má nefna Andrés Önd, Stekkjastaur og alla hans fjölskyldu, já og líka Silvíu Nótt.
Við, tilvistarskertir einstaklingar höfum fengið okkur fullsadda á þeirri mismunum sem viðþurfum að búa við og stefnum að stofnun samtaka til að standa vörð um hagsmuni okkar.
Tilvistarskertir einstaklingar allra landa, sameinist!
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)