Færsluflokkur: Vefurinn
Laugardagur, 17. febrúar 2007
Pssst...viltu kaupa maura?
Púkinn hefur heyrt um margar leiðir sem menn nota til að narra peninga út úr þeim sem eru trúgjarnari eða fáfróðari en þeir sjálfir.
Eitt það frumlegasta upp á síðkastið er uppátæki manns að nafni Wang Zhendong, sem seldi fólki lifandi maura, eins og þá sem eru notaðir í sumum héruðum Kína í te eða seyði sem er vinsælt gegn ýmsum kvillum eins og liðagigt.
Wang seldi fólki maura og lofaði góðri ávöxtun fjárfestingarinnar handa þeim sem myndu ala maura. Hann þóttist síðan reiðubúinn til að kaupa fullvaxna maura til baka fyrir umtalsvert fé.
Alls voru um 100.000 samningar um mauraeldi gerðir uns spilaborgin féll, en þá kom í ljós að allar lýsingar Wangs á verksmiðjunni sem átti að framleiða mauraseyðið voru hreinn uppspuni.
Ávinningur Wangs var um 25 milljarðar íslenskra króna - já, glæpir geta borgað sig.
Wang war síðan dæmdur til dauða síðastliðinn þriðjudag.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. febrúar 2007
"23:00 Orgy at Austurvöllur"
Púkinn var að skoða dagskrá fyrir þetta Snowgathering 2007 og var að velta fyrir sér hvort séraðgerðadeild femínista myndi standa fyrir mótmælum og uppákomum við einstaka atburði.
Fjöldamótmæli við Bláa lónið klukkan 3 á laugardegi? Mótmælastaða við Geysi á föstudeginum?
Það sem Púkinn furðaði sig hins vegar á var hvaða "ice restaurant" er um að ræða - annað hvort hefur Púkinn misst af einhverju, eða um einhvern misskilning er að ræða.
Annars er dagskráin ósköp venjuleg ferðamannadagskrá, nema ef undanskilin er föstudagsheimsóknin á strippbúlluna. Hverju áttu menn eiginlega von á - bjóst fólk við dagskrárliðum eins og "23:00 Orgy at Austurvöllur" ?
Púkinn sér eiginlega ekki hvernig er hægt að nefna þetta "þing" eða "ráðstefnu" - það er nú ekki eins og verið sé að halda fyrirlestra eða vörukynningar.
Annars mundi Púkinn eftir svolitlu sem femínistarnir hafa ekki minnst á. Það mun víst vera þannig að meðaltekjur kvenstjarna í klámmyndabransanum eru umtalsvert hærii en karlmanna í sömu grein.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 16. febrúar 2007
iPhone undratækið
Svona fyrir þá sem eru orðnir þreyttir á ýktri markaðssetningu undratækja kemur hér svolítið til að horfa á svona í lok vinnuvikunnar:
iPhone - undratækið sem getur allt
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 16. febrúar 2007
Málvillur hjá mbl.is
Við lestur sumra frétta á mbl.is veltir Púkinn fyrir sér hvort frændi hans, prentvillupúkinn sé kominn í aukavinnu á Morgunblaðinu.
Skoðum aðeins þessa frétt um atkvæðagreiðslu á Bandaríkjaþingi.
..þar sem ákvörðun George W. Bush Bandaríkjaforseta um að senda auka herlið til Íraks.
"þar sem ávörðun HVAÐ" ? "..verður rædd"? "...verður sennilega samþykkt"? "..verður sennilega hafnað"? Það vantar endann á setningunni - hún er merkingarlaus eins og hún er.
Þetta hefur verið fyrstu umræðurnar...
Ha? Þetta hljómar nú eins og eitthvað sem einhver sem er bara búinn með fyrsta daginn á íslenskunámskeiði myndi segja..."Mig tala gott íslenska".
Umræðuefnið ávörðun Bush um að senda 21.500 aukalið til Íraks
Lengi getur vont versnað. Það er hreinlega erfitt fyrir Púkann að taka fréttirnar alvarlega þegar greinarnar eru morandi í svona málvillum
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Lögfræðingar í Undralandi
Baugsmálið vakti Púkann til umhugsunar um undarlega hegðun lögfræðinga og í framhaldi af því komst hann að því að árlega eru ýmsar viðurkenningar veittar á því sviði.
Samkvæmt The Times í London var sigurvegari ársins 2006 lögfræðingurinn Bob Moodie, sem mætti fyrir rétt klæddur eins og Lísa í Undralandi til að vekja athygli fjölmiðla á því sem hann taldi vera yfirhilmingu stjórnvalda.
Dómari ársins var Florentino Flore jr. sem var vikið frá störfum eftir að hann hafði lýst því yfir að hann nyti aðstoðar þriggja ósýnilegra dverga, Luis, Armand og Angel við dómarastörfin.
Vitni ársins var Gail Sheridan, sem bar vitni í máli manns hennar gegn News of the World, sem hafði sagt hann taka þátt í kynsvalli. Gail sagði manninn sinn svo leiðinlegan að það skemmtilegasta sem hann gerði um helgar væri að lesa orðabækur til að finna löng orð til að nota í Scrabble.
Sigurvegari í flokki vonlausra málssókna var lögfræðingurinn Jens Lorek, sem leitaði einstakinga sem hefðu verið numdir á brott af geimverum, til að geta höfðað mál fyrir þeirra hönd.
Og svo finnst fólki Baugsmálið vera skrípaleikur....huh!
Dómari stöðvaði skýrslutöku saksóknara í Baugsmálinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Ævintýrið um OZ
Púkinn lifir og hrærist í heimi hátækni og gerir sitt besta til að fylgjast með því hvað er á döfinni hjá íslenskum fyrirtækjum í tækni- og tölvugeiranum.
OZ getur reyndar varla talist íslenskt fyrirtæki lengur, enda eru höfuðstöðvar þess í Montreal og meginhluti hluthafa erlendir. Saga OZ er um margt ótrúleg og þá helst að fyrirtækið skuli hreinlega enn vera til, eftir allt sem fyrirtækið hefur gengið í gegnum.
Skoðun Púkans er að það sé einna helst að þakka þæfileikum stjórnenda til að endurskilgreina eðli og tilgang fyrirtækisins og dugnaði þeirra við að fá stöðugt nýja samstarfsaðila og fjárfesta, þegar fyrri fyrirætlanir bregðast.
Margir töpuðu umtalsverðu fé á fjárfestingum í OZ á sínum tíma, en slíkt er eðli áhættufjárfesstinga í ungum fyrirtækjum - meirihluti þeirra rennur út í sandinn en inn á milli má finna fyrirtæki sem skila hluthöfum sínum fjárfestingunni margfaldri til baka.
Það sem Púkanum finnst hins vegar athygliverðast er hve hagur OZ tók að vænkast eftir að fyrirtækið flutti aðalstöðvar sínar til Kanada. Þetta er í sjálfu sér ekki skrýtið - Kanadastjórn hefur stuðning á mikilvægi þess að styðja við hátæknifyrirtæki meðan þau eru að koma undir sig fótunum, en það sama getur Púkinn því miður ekki sagt um íslensk stjórnvöld.
Ef til vill horfir til betri vegar eftir næstu kosningar - sumar þeirra hugmynda sem komu fram á nýafstöðnu sprotaþingi eru góðra gjalda verðar, þótt Púkinn efist nú um að þær komist til framkvæmda nema í útvatnaðri mynd. Staðreyndin er einfaldlega sú að sjórnmálamenn eru hræddir við að styðja við hluti sem þeir skilja ekki.
Lausnir OZ til 85 milljóna notenda um allan heim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. febrúar 2007
Bloggaragræðgi
Púkinn er svolítill fýlupúki í dag. Það sem pirrar hann er sú árátta sumra bloggara að troða greinum sínum í flokka þar sem þær eiga alls ekki heima.
Það eru ákveðnir flokkar sem Púkinn forðast - má þar á meðal nefna "Enski boltinn", "Íþróttir" og "Ljóð". Hins vegar eru aðrir flokkar þar sem hann les nánast hverja grein - "Tölvur og tækni" og "Vísindi og fræði" eru þar á meðal.
Sumir bloggarar hafa hins vegar þann leiða ósið að troða greinunum sínum í fjölda flokka þar sem þær eiga alls ekki heima - ef menn skoða til dæmis flokk eins og "Matur og drykkur" má sjá þar fjölda greina sem snúast ekki á neinn hátt um mat og drykk.
Afleiðingin af þessu er sá að erfiðara og seinlegra er að finna þær greinar sem raunverulega tilheyra þeim flokkum sem þær eru settar í.
Ástæða þessarar hegðunar er væntanlega hrein bloggarargræðgi - fólk vill að sem flestir lesi greinarnar þeirra, en kærir sig kollótt um þau áhrif sem þetta hefur á bloggið sem heild.
Hver er lausnin - ætti að setja takmörk við t.d. 3-4 aukaflokka? Eru einhverjar greinar þess eðlis að þær eigi heima í 10 eða fleiri flokkum?
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 12. febrúar 2007
Gerviblogg
Um næstu áramót ganga í gildi lög í Bretlandi sem heimila lögsókn gegn þeim sem blogga á fölskum forsendum - þykjast til að mynda vera viðskiptavinir fyrirtækja en eru í raun starfsmenn þeirra eða eigendur, í þeim tilgangi að blekkja væntanlega viðskiptavini.
Lögin munu einnig ná yfir þá sem birta ritdóma um eigin bækur, en þykjast bara vera "lesandi í Vesturbænum", eða annað því um líkt.
Nú ætla ég ekkert að fullyrða um það hversu útbreitt þetta vandamál er hérlendis, en þessi bresku lög byggja á reglugerð ESB sem væntanlega nær einnig til EES-landsins Íslands.
Munu stjórnmálamenn hér á landi setja blogglög á komandi misserum?
Nánari upplýsingar má finna hér.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 11. febrúar 2007
Maður bítur hund
John B. Bogart, ritstjóri New York Sun sagði eitt sinn "Ef hundur bítur mann þá er það ekki frétt. Ef maður bítur hund, þá er það frétt."
Þessu er einnig nátengt ástæðu þess að maður sér aldrei fréttir um þau lögbrot og hneykslismál sem stjólrmálamenn og aðrir þekktir einstaklingar lenda ekki í.
Í samræmi við það að það sé frétt þegar maður bítur hund, þá fylgir hér nýleg frétt um það efni: Sjá þennan hlekk.
Maður á flótta undan lögregluhundi réðst á hundinn og beit hann.
Hundurinn beit til baka.
Hundurinn vann.
Púkanum finnst fólk vera skrítið. Hundar eru svo miklu einfaldari og hegðun þeirra rökréttari.
Vefurinn | Breytt 13.2.2007 kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)