Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Uppsagnir hjá fjármálafyrirtækjunum?

Þótt fjármálafyrirtækin neiti því öll að uppsagnir séu á döfinni, þá mislíkar þeim væntanlega ekki að þessi orðrómur sé í gangi.

Ástæðan er augljós - þetta gefur þeim tækifæri til að halda aftur af launahækkunum - starfsmenn eru ekki líklegir til að pressa á miklar hækkanir ef þeir telja starfsöryggi sitt ekki tryggt.

Hvað raunverulegar uppsagnir varðar, þá er líka ljóst að enginn stóru bankanna vill verða fyrstur til að hefja þær - slíkt væri veikleikamerki og gæti haft neikvæð áhrif á ímynd fyrirtækisins - og þar með gengi hlutabréfanna, sem ekki má við meiri áföllum.

Ef svo fer að fyrirtækin neyðist til að grípa til uppsagna, verður að sjálfsögðu reynt að gefa því jákvæða ímynd - kynna það sem merki um sveigjanleika fyrirtækisins og það hversu fljótt það sé að bregðast við breyttum aðstæðum.

Nei, Púkanum þykir sennilegast að fyrirtækin muni í lengstu lög reyna að ná fram fækkun án uppsagna - með því að ráða ekki í stöður sem losna einhverjum ástæðum, heldur færa fólk til eftir þörfum.  Það gæti hins vegar orðið lítið um nýráðningar á næstunni, sem eru slæmar fréttir fyrir þann fjölda viðskiptafræðinga sem er að ljúka námi og taldi sig geta gengið að vísum, vel launuðum störfum í fjármálafyrirtækjunum.

Góðærinu er lokið...í bili að minnsta kosti.


mbl.is Fækkar um 650 í fjármálageiranum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þín bíður sending ....

posturPúkinn ætti fyrir löngu að vera hættur að verða hissa á stirðbusaganginum í kerfinu, en þó er ennþá unnt að koma honum á óvart.

Meðal þess sem Púkinn er áskrifandi að er erlent tímarit sem kemur út mánaðarlega og því dettur öðru hverju inn um lúguna hjá Púkanum tilkynning frá Íslandspósti: "Þín bíður sending..."

Þá þarf Púkinn að taka sér frí úr vinnunni næsta dag, keyra bæjarenda á milli (því það er nú ekki svo gott að pósthúsið sé í göngufjarlægð frá heimili eða vinnustað), til þess að borga 64 krónur í virðisaukaskatt.

Já - heilar 64 krónur.

Það er nú ekki þannig að Púkinn sé því eitthvað mótfallinn að ríkið fái sinn virðisaukaskatt - síður en svo, en sé heildarmyndin skoðuð - dettur einhverjum heilvita manni í hug að þetta sé í raun þjóðhagslega hagkvæmt - vinnutap og akstur - allt til þess að borga 64 krónur einu sinni í mánuði?


Spilaborgin - hluti 2

house of cards fallingÞann 18. október skrifaði Púkinn grein (sjá hér) um orðróm sem hann hafði heyrt úr bankageiranum um aðila sem stefndu í alvarleg vandræði.  Þótt engin nöfn væru nefnd sáu einhverjir hverja var átt við ... og mikið rétt, vandræði FL Group urðu öllum ljós nokkrum vikum síðar.

Nú í dag heyrði Púkinn annan orðróm - þar var ekki um fyrirtæki að ræða, heldur verulega umsvifamikinn einstakling, en samkvæmt sögunni hefur verðfall ýmissa bréfa gert það að verkum að í stað þess að vera milljarðamæringur er hann tæknilega nánast gjaldþrota.

Sagan sagði að hann yrði að sjálfsögðu ekki gerður gjaldþrota - til þess væru ítök viðkomandi of mikil.  Hvort þetta er rétt eða ekki, veit Púkinn ekki fyrir víst, þannig að viðkomandi aðili verður ekki nafngreindur hér, en kannski finnur einhver út hvern Púkinn á við - en það verður hver að eiga við sig.

Fólki er hins vegar  velkomið að velta fyrir sér ástæðum þess að svona sögur fara á kreik - er það vegna illkvittni eða öfundar - hafa allir  bara gaman af því að smjatta á slúðri, þótt þeir vilji kannski ekki kannast við það?


Elsta atvinnugreinin

Púkinn ætlaði nú upphaflega ekki að skrifa neitt um þessa vændiskonu í Chile sem seldi 27 tíma "þjónustu" til styrktar góðgerðarmálum, en hér kemur nú samt mynd af viðkomandi auk hlekks á viðtal við hana.

Líf hennar hefur ekki verið eintómur dans á rósum samkvæmt því sem þar segir.

Góðgerðarstofnunin sem upphaflega átti að fá peningana mun hins vegar hafa hafnað þeim, samkvæmt þessari grein.

Meira hefur Púkinn ekki að segja um þetta mál.


mbl.is Kynlíf í góðgerðarskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband