Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Sömu laun fyrir sömu vinnu? Nei, ekki með evrulaunum

euro Þótt opinberum starfsmönnum muni væntanlega aldrei standa til boða að fá laun sín greidd í evrum að hluta, eru margir - sér í lagi starfsmenn útflutningsfyrirtækja - sem nú þegar hafa þennan háttinn á.

Evrulaun vekja hins vegar upp nokkrar spurningar sem ekki hafa mikið verið ræddar.

Fyrsta spurningin snýr að rétti starfsmanna til að breyta milli þess að fá laun sín greidd í evrum  og krónum.  Stærri sveiflur á gengi krónunnar standa oft yfir mánuðum saman og það er augljóst að ef starfsmenn geta fengið laun sín í evrum á því tímabili sem krónan er að veikjast en skipt síðan yfir og fengið launin í krónum þegar hún er að styrkjast geta þeir hagnast verulega á kostnað launagreiðandans.  Launagreiðendur hljóta því að gera þá kröfu að samningar um greiðslu launa í öðrum gjaldmiðlum séu gerðir til langs tíma - líta þannig á að ef starfsmenn vilja hagnast á þessu fyrirkomulagi þegar krónan veikist, verði þeir líka að taka skellinn þegar hún styrkist.

Önnur spurningin snýr að þeim starfsmönnum sem fá launahækkanir samkvæmt kjarasamningum.  Nú er það svo að þegar samið er um launahækkanir er hluti þeirra hækkana ætlaður til að bæta þá kjararýrnun sem hefur orðið vegna verðbólgu.  Tengist sú verðbólga hins vegar gengisfalli krónunnar (og þar af leiðandi hækkunum á innfluttum vörum), er ljóst að sá sem fær launin í evrum hefur ekki orðið fyrir þeirri kjararýrnun að jafn miklu leyti og sá sem fær krónulaun.   Er þá réttlátt að báðir fái sömu launahækkun?  Verður ekki að semja sérstaklega um hækkanir á evrulaun?

Þriðja spurningin snýr að jafnrétti - ef tveir starfsmenn vinna hlið við hlið við sömu vinnu og fá sömu laun í upphafi, en annar fær laun í krónum og hinn í evrum, er ljóst að með tímanum geta laun þeirra breyst mismikið - þeir fá því ekki lengur sömu laun fyrir sömu vinnu.  Eru allir sáttir við það?
mbl.is SA samþykkja kjarasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan á réttri leið?

Gengi krónunnar hefur nú fallið það mikið að það er að nálgast það sem Púkinn telur ásættanlegt fyrir útflutningsfyrirtækin.  Lágt gengi þýðir auðvitað hækkað verð á innfluttum vörum - Bensín, Prins-póló og allt þar á milli er nú orðið nokkru dýrara en það var fyrir einhverjum vikum - eða ef það hefur ekki hækkað nú þegar mun það gerast á næstu vikum eða dögum.

Þetta gerist þrátt fyrir að Seðlabankinn haldi enn fast við ofurvaxtastefnu sína og reyni með því að fela verðbólguna - já "fela", því raunverulega ætti verðbólgan hér að mælast mun meiri en hún gerir - henni er bara sópað undir teppið með því að halda genginu uppi á röngum forsendum. 

Vandamálið er ekki bara það að Seðlabankinn hafi á undanförnum árum brugðist rangt við - stóra vandamálið er að Seðlabankanum er gert samkvæmt lögum að halda verðbólgunni niðri en hann notar ekki öll þau tæki sem hann hefur til þess og misbeitir þeim tækjum sem hann notar.

Menn virðast sem betur fer að vera farnir að sjá í gegnum þennan blekkingarleik og átta sig á því að það fer að koma að skuldadögunum.  Vandamálið er hins vegar að ef krónan heldur áfram að falla, mun draga verulega á áhuga fjárfesta á jöklabréfunum og ef þau verða ekki endurnýjuð mun það þýða verulegt fjárstreymi úr landi, sem aftur mun leiða til enn frekara falls krónunnar, sem kemur fram sem hækkun á verði innflutts varnings, sem aftur kemur fram sem verðbólga, sem gæti neytt Seðlabankann til að hækka vexti enn frekar í tilgangslausri baráttu sinni við að fela raunverulega vandamálið.


mbl.is Krónan lækkar um 2,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna Íslendingar ekki að gera áætlanir?

Grímseyjaferjan.  Kárahnjúkavirkjun.  KSÍ stúkan.

Eru Íslendingar upp til hópa gjörsamlega óhæfir til að gera áætlanir sem standast?  Af hverju er það regla fremur en undantekning að verkefni fari langt fram úr áætlunum og kostnaðurinn lendi á ríkinu eða borginni og á endanum á skattgreiðendum?

Af hverju gerist það aldrei að neinn taki ábyrgð á að klúðra áætlanagerðinni gjörsamlega?

Er þetta bara enn ein birtingarmynd almenns agaleysis í íslensku þjóðfélagi?


Er byggingabólan sprungin?

Það kom fáum á óvart að byggingafyrirtæki nokkurt skyldi segja upp 95 Pólverjum.  Það kæmi ennfremur ekki á óvart þótt svipaðar fréttir myndu heyrast frá öðrum fyrirtækjum í sama geira.  Þótt allir reyni að bera sig vel, er nokkuð ljóst að sum byggingafyrirtæki standa illa, en sérstaklega þau sem fóru seint af stað með framkvæmdir og standa nú uppi með hálfbyggð hús og enga trygga kaupendur.

Aðrir sem luku framkvæmdum á síðasta ári, seldu sín hús og litu svo á að nóg væri byggt í bili eru hins vegar í góðum málum.

Það vita allir að mikið hefur verið byggt síðustu ár og ný- eða hálfbyggð hús hafa sprottið upp eins og gorkúlur eftir vætutíð um haust.  Hingað til hefur ekki skort kaupendur, en verulega hefur dregið úr sölu á nýjum og notuðum íbúðum síðustu mánuði.   Fólk er hrætt við að taka innlend lán vegna hárra vaxta, sem væntanlega eiga eftir að hækka enn frekar og einnig eru margir hræddir við erlend lán ef alvarlegt gengisfall krónunnar er yfirvofandi.

Það sem helst heldur aftur af  fólki er þó væntanlega sú staðreynd að íbúðaverð hefur hækkað umfram öll velsæmismörk.  Sökudólgurinn er auðfundinn - bankarnir.  Þegar þeir fóru að bjóða hagstæð íbúðalán, sem léttu greiðslubyrði fólks þýddi það í raun ekkert annað en að fólk hafði meiri pening á milli handanna og var reiðubúið til að borga hærra verð fyrir íbúðirnar, þangað til verðið var komið á það stig að greiðslubyrðin af lánum fólks var svipuð og hún hafði verið fyrir aðkomu bankanna.

Munurinn var bara sá að erfiðara var fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð, fasteignaskattar hækka  og fólk var í mun verri stöðu gagnvart hækkandi vöxtum en áður.  Engir græða á þessu, jú nema bankarnir - svo framarlega sem fólk verður ekki gjaldþrota umvörpum og bankarnir neyðast til að leysa til sín illseljanlegar eignir.

Þetta er sú staða sem þjóðin er að vakna upp við núna - eins og að vakna í vafasömu ástandi morguninn eftir tryllt partí með dúndrandi timburmenn.


mbl.is Byggingafyrirtæki segir upp 95 manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Út með álver, inn með...gagnaver?

Púkinn fagnar því að samið hefur verið við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar vegna fyrirhugaðrar byggingar gagnavers (sem hljómar væntanlega betur en "netþjónabú") í Keflavík.

Reyndar verður Púkinn að viðurkenna að hann hafði vissar efasemdir um að af þessum framkvæmdum yrði og kemur þar ýmislegt til.  Eitt af því er kostnaðurinn við gagnaflutningana, eða réttara sagt, verðskrá Farice.

Fyrirtæki Púkans dreifir meiri gögnum en flest önnur íslensk fyrirtæki.  Þegar málið var athugað á sínum tíma kom í ljós að kostnaður við að dreifa gögnunum frá Íslandi var tífaldur kostnaður við að setja upp netþjóna í Bandaríkjunum og dreifa gögnunum þaðan.  Þessi kostnaður, ásamt óáreiðanleika netsambandsins frá Íslandi var einnig ástæða þess að CCP ákvað að staðsetja sína leikjaþjóna erlendis.

Vandamálið með óáreiðanleikann leysist að mestu með tilkomu Danice strengsins og Púkinn gerir ráð fyrir því að Verne Holdings hafi í krafti stærðar fyrirhugaðrar netumferðar náð mun hagkvæmari samningum en öðrum hafa boðist.

Hvað um það, það er ánægjulegt að sjá þennan vísi að orkufrekri, "grænni" starfsemi.  

Fleiri gagnaver, færri álver, takk fyrir.


mbl.is 20 milljarða fjárfesting
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður dagur fyrir svartsýnismenn

Samkvæmt þeim fréttum sem dynja á okkur, þá er loðnustofninn hruninn, bankakerfið að hrynja, krónan og hlutabréfin á góðri leið með a falla niður úr öllu.  Já, og svo er líka tunglmyrkvi að skella á.

Svartara getur það varla orðið.

Það er annars merkilegt með Íslendinga, að þegar þeim er sagt að allt sé á uppleið þá stökkva allir til, spreða peningum (sem þeir eiga ekki) í hlutabréf, fasteignir, nýja jeppa og fleira í þeim dúr, en þegar sömu mönnum er sagt að allt sé á niðurleið,, þá yppa sömu menn bara öxlum og lýsa yfir bjargfastri trú að að þetta muni allt reddast einhvern veginn.

Eru Íslendingar upp til hópa óforbetranlegir og óraunsæir bjartsýnismen?


Hlutabréfin og kristalkúla Púkans

crystalballstocksFyrst spá Púkans um hlutabréfaþróun síðustu daga rættist, er kominn tími til að rýna aftur í kristalkúluna og sjá hvað hún segir um íslenska hlutabréfamarkaðinn næstu mánuðina.

(Spá Púkans frá morgni fimmtudags (sjá hér) var annars sú að lækkun miðvikudagsins myndi ganga til baka fimmtudag og föstudag, en síðan yrði stefnan aftur niður á við eftir helgina.)

Það er nefnilega þannig með kristalkúlur að árangur þeirra við að spá fyrir um þróun hlutabréfa virðist engu verri en árangur fjármálaráðgjafa í Armani jakkafötum - spár þeirra um gengisþróun á síðasta ári rættust ekki sérstaklega vel í það minnsta.

Hvað segir kristalkúlan þá?

Jú, í fyrsta lagi það sem ekki mun gerast.  Hlutabréfamarkaðurinn mun ekki hækka það mikið á þessu ári að hann vinni upp þá lækkun sem varð frá miðju síðasta ári. Þær hæðir munu í fyrsta lagi nást árið 2009.  Þeir sem sitja á sínum hlutabréfum og vonast til að verð þeirra nái fljótlega aftur fyrri hæðum verða fyrir vonbrigðum - það þarf meiri þolinmæði til.

Í öðru lagi sér kristalkúlan óvissu næstu vikurnar - óvissu um það hvort verð bréfa hafi náð botni eða ekki.  Fram til páska gætu komið allmargir dagar þar sem gengið sveiflast upp eða niður um nokkur prósent, en einnig er möguleiki á einni stórri dýfu til viðbótar.

Kristalkúlan sér umsvifamikinn aðila sem tengist mjög ákveðnum stjórnmálaflokki eiga í vandræðum vegna rangra fjárfestinga á undanförnum misserum, en einnig sést unnið að því að bjarga viðkomandi, þannig að óvíst er að þetta komist í hámæli.

Í kristalkúlunni sjást líka ýmsir spekingar stíga fram og tala um að kauptækifæri hafi myndast, en hætt er við að hækkanir af þeim sökum verði skammlífar og gangi fljótlega til baka.

Í kristalkúlunni sést birta aðeins yfir markaðinum þegar vorar og einhver hækkun mun verða frá þeim tíma og til loka ársins 2008, þannig að gengið í árslok gæti orðið eilítið skárra en í ársbyrjun.

---------
Púkinn vill taka fram að hann er ekki fjármála- eða verðbréfaráðgjafi og hefur engin réttindi sem slíkur og ráðleggur engum að haga sínum fjárfestingum í samræmi við það sem hér segir.  Þetta er einungis til gamans gert og enginn ætti að taka þessa spá alvarlega, enda er Púkinn bara lítið skrýtið blátt fyrirbæri með stór eyru sem hefur ekkert vit á neinu. Púkinn vill að lokum taka fram að hann á engin hlutabréf sem eru skráð í íslensku kauphöllinni og hefur enga sérstaka hagsmuni af því hvernig þróunin verður.


mbl.is Spá 30% hækkun á hlutabréfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótakerfið dautt ... eða bara með skrámu?

Cod(NOAA_pic_for_index)Dómurinn í Genf segir að íslenska kvótakerfið uppfylli ekki alþjóðalög og því verði að breyta.   Þetta er að mati Púkans ein stærsta frétt það sem af er þessu ári og búast má við því að nú fari umræðan um kosti og galla kvótakerfisins á fullan gang í þjóðfélaginu enn á ný.

Það eru margvísleg vandamál við kvótakerfið, en það sem þetta ákveðna dómsmál snýst um er sú mismunun að nýliðar sitja ekki við sama borð og þeir sem höfðu veiðireynslu við upptöku kerfisins, heldur þurfa að kaupa kvóta af þeim forréttindahópi sem fékk hann "gefins" á sínum tíma (eða þeim sem þeir seldu kvótann).

En hvað geta stjórnvöld gert?

Augljósasti valkosturinn er auðvitað sá að reyna að hunsa úrskurðinn - breyta ekki kerfinu, en borga sjómönnunum einhverjar bætur til að málið detti dautt niður hvað þá varðar.

Annar valkostur er að setja plástur á kerfið.  Segja t.d. að 2% kvótans fyrnist á hverju ári og sé endurúthlutað - að hluta endurgjaldslaust til nýliða, en afgangurinn sé seldur á uppboði - sem kæmi þá í stað auðlindaskatts á útgerðirnar.  Til að koma í veg fyrir misnotkun þá yrðu að vera einhverjar takmarkanir á framsali "nýliðakvóta" - hann myndi renna aftur til ríkisins sé hann ekki nýttur, og væri ekki framseljanlegur fyrstu 5-10 árin.

Þriðji valkosturinn er að lýsa kerfið dautt og koma með eitthvað betra í staðinn.  Púkinn efast um að nokkuð fullkomið fiskveiðistjórnunarkerfi sé til, en þykist nú samt geta séð fyrir sér kerfi sem hefur alla kosti núverandi kerfis en færri galla.

Hvað um það - það er næsta ljóst að þessi þriðja leið verður ekki valin - það er of mikið í húfi hjá of mörgum ráðandi aðilum.  Bankarnir sem eiga veð í óveiddum kvóta yrðu t.d. ekki hamingjusamir ef ríkið legði niður núverandi kerfi með einu pennastriki og kvótaveðið yrði verðlaust með öllu - og það gildir einu þótt ríkið hafi fullan rétt til að gera það.  Menn munu ekki þora að fara þessa leið.

Nei, Púkinn er nokkuð viss um að sjúklingurinn verður ekki lýstur dauður, heldur verður bara skellt á hann nokkrum plástrum.


mbl.is Íslensk stjórnvöld breyti fiskveiðistjórnunarkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Besti tíminn til að kaupa hlutabréf ...

...er þegar blóðið flæðir um göturnar."  Púkinn man reyndar ekki hver sagði þessi orð, en þau eiga ágætlega við í dag.  Ef fólk er að leita að skammtímagróða á hlutabréfamarkaði, í stað þess að fjárfesta jafnt og þétt, þá skiptir tímasetningin miklu máli, og besti tíminn til að kaupa er þegar allir eru uppfullir af örvæntingu, múgsefjun hefur gripið um sig meðal fjárfesta og allir eru að reyna að selja.

Frá þeim sjónarhóli er það hrein heimska að hlaupa til þegar markaðurinn hefur verið á brjálaðri uppleið mánuðum saman.  Það er enn meiri heimska að vera "gíraður"  undir þeim kringumstæðum - leggja bréfin fram sem veð til að geta fengið lán til að kaupa enn fleiri (veðsett) bréf.

Púkinn er þeirrar skoðunar að hafi einhverjir verðbréfaráðgjafar ráðlagt fólki að gera slíkt um mitt síðasta ár, þá hafi þeir annað hvort ekki verið starfi sínu vaxnir, eða notað sér græðgi og þekkingarleysi fjárfestanna á hátt sem jaðrar við að vera glæpsamlegur.

Nei, þeir sem höfðu vit í kollinum losuðu sig væntanlega við sín bréf með góðum hagnaði og sitja nú með feit veski og bíða eftir góðu tækifæri til að koma aftur inn á markaðinn.

Er þá rétti tíminn til að kaupa núna?  Púkinn er ekki viss - þó þykir honum sennilegt að tímabundnum botni hafi verið náð og einhver hækkun gæti orðið í dag og á morgun....en það kæmi alls ekki á óvart þótt enn meiri lækkanir yrðu síðan, og botninum ekki náð fyrr en eftir mánuð eða jafnvel lengur.


Var spilaborg að hrynja?

house of cards fallingÞað ætti ekki að koma neinum á óvart að fjárfestingafélagið Gnúpur skuli hafa verið meðal þeirra fyrstu sem lentu í vandræðum, þar sem meginhluti eigna þeirra var bundinn í FL Group og Kaupþingi, en þau bréf hafa fallið það mikið í verði að væntanlega standa þau ekki lengur sem veð undir þeim lánum sem Gnúpur hefur tekið.

Samkvæmt vefsíðu Gnúps eru eigendur sem hér segir: 

1. SK Holding Company II ehf.           

  28.2%

2. SKE Holding Company II ehf.             18.2%
3. MK-44 II ehf.                               29.5%
4. Suðurey ehf.                        17.0%
5. Brekka Investment Company II ehf.7.1%


Þeir sem vilja geta síðan dundað sér við að rekja eignarhald félaganna, en sem dæmi eru SKE II ehf. og SK II ehf. í eigu Björns Hallgrímssonar ehf. sem er í eigu Kristins Björnssonar og systra hans, en Magnús Kristinsson og Þórður Már Jóhannesson eru einnig meðal eigenda Gnúps.

Samt...þá kemur þetta Púkanum á óvart.   Hann hélt nefnilega að önnur spilaborg myndi hrynja á undan.


mbl.is Samið um endurskipulagningu Gnúps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband