Er byggingabólan sprungin?

Það kom fáum á óvart að byggingafyrirtæki nokkurt skyldi segja upp 95 Pólverjum.  Það kæmi ennfremur ekki á óvart þótt svipaðar fréttir myndu heyrast frá öðrum fyrirtækjum í sama geira.  Þótt allir reyni að bera sig vel, er nokkuð ljóst að sum byggingafyrirtæki standa illa, en sérstaklega þau sem fóru seint af stað með framkvæmdir og standa nú uppi með hálfbyggð hús og enga trygga kaupendur.

Aðrir sem luku framkvæmdum á síðasta ári, seldu sín hús og litu svo á að nóg væri byggt í bili eru hins vegar í góðum málum.

Það vita allir að mikið hefur verið byggt síðustu ár og ný- eða hálfbyggð hús hafa sprottið upp eins og gorkúlur eftir vætutíð um haust.  Hingað til hefur ekki skort kaupendur, en verulega hefur dregið úr sölu á nýjum og notuðum íbúðum síðustu mánuði.   Fólk er hrætt við að taka innlend lán vegna hárra vaxta, sem væntanlega eiga eftir að hækka enn frekar og einnig eru margir hræddir við erlend lán ef alvarlegt gengisfall krónunnar er yfirvofandi.

Það sem helst heldur aftur af  fólki er þó væntanlega sú staðreynd að íbúðaverð hefur hækkað umfram öll velsæmismörk.  Sökudólgurinn er auðfundinn - bankarnir.  Þegar þeir fóru að bjóða hagstæð íbúðalán, sem léttu greiðslubyrði fólks þýddi það í raun ekkert annað en að fólk hafði meiri pening á milli handanna og var reiðubúið til að borga hærra verð fyrir íbúðirnar, þangað til verðið var komið á það stig að greiðslubyrðin af lánum fólks var svipuð og hún hafði verið fyrir aðkomu bankanna.

Munurinn var bara sá að erfiðara var fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð, fasteignaskattar hækka  og fólk var í mun verri stöðu gagnvart hækkandi vöxtum en áður.  Engir græða á þessu, jú nema bankarnir - svo framarlega sem fólk verður ekki gjaldþrota umvörpum og bankarnir neyðast til að leysa til sín illseljanlegar eignir.

Þetta er sú staða sem þjóðin er að vakna upp við núna - eins og að vakna í vafasömu ástandi morguninn eftir tryllt partí með dúndrandi timburmenn.


mbl.is Byggingafyrirtæki segir upp 95 manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Við höfum verið að sigla inn í eins konar nútíma lénsskipulag þar sem bankarnir eiga í raun stóran hluta landslýðsins. Þeir sem í raun ekkert eiga í húseignum sínum eru og verða áfram lítið annað en leiguliðar. Skuldugur maður hefur augljóslega afsalað sér amk. hluta af sínu frelsi og sjálfstæði og hjá mörgum er ekkert eftir af því og þeir eru bara eins og hverjir aðrir hundar í bandi bankanna.

Baldur Fjölnisson, 4.3.2008 kl. 20:28

2 Smámynd: Hagbarður

Ég held að hún sé við það að springa. Það sagði mér aðili sem þekkir vel til á þessum markaði, að það tæki markaðinn a.m.k. sjö ár að jafna sig á þessu "offramboði" sem hefur verið undanfarin misseri. Bankar eiga eftir að þurfa að leysa til sín óseldar eignir og fjármagna í einhverjum tilfellum kostnaðinn við að koma þeim í söluhæft ástand. Þá eru yfirgnæfandi líkur á auknu atvinnuleysi og fjölgun á gjaldþrotum einstaklinga, sem eykur framboðið á húsnæði. Ekki ólíklegt að þeir sem missa vinnuna leiti eftir störfum erlendis (eykur framboðið enn). Sérstaklega þeir sem hafa einhverja menntun.  "Brain-drain" eftir veisluna. Sumir koma ekki aftur í partíið ef það verður þá haldið annað partí.

Hagbarður, 4.3.2008 kl. 21:37

3 Smámynd: Karl Ólafsson

Fróðleg umræða um annan vinkil á þessu máli hér: http://kristinnp.blog.is/blog/kristinnp/entry/462307/#comments

Karl Ólafsson, 5.3.2008 kl. 01:49

4 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sæll Friðrik og þakka þér pistilinn. Les afar gjarnan skrif þín þó að ég skilji ekki oft eftir athugasemdir hérna.

Núna finnst mér hins vegar sem reynslumaður úr fasteignaheiminum að ég verði að koma hérna að örfáum punktum sem ég kýs að sjá sem staðreyndir.

1. Megin ástæða verðbólunnar sem myndaðist á markaði var vegna stjórnleysi þjóðarinnar, það að hægt sé að fá lánaða peninga einhversstaðar verður seint hægt að "kenna öðrum" um. Við erum þau sem kjósum að skuldbinda okkur, afar gjarnan um efni fram því miður.

2. Hef ekki séð nema einn banka enn sem komið er taka virkan þátt á fasteignamarkaði og hafa þannig bein áhrif á verð á markaði. Reyndar afar stór gerandi þar, en get ekki nefnt nafn því að þá kemur meiðyrða lögreglan í bloggheimum og skammar mig. En þessi tiltekni banki hefur verið afar aktívur við að yfirbjóða lóðarverð með stórfelldum yfirboðum þar í útboðum og síðan hefur enginn verktaki getað komist inn á þau svæði sem bankinn kaupir nema í gegnum lánveitingar hjá þeim og þá að sjálfsögðu með kaupum á lóðum á þessu "nýja" markaðsverði sem var þá í raun skapað fyrst og fremst af bankanum.
Hvað er það annað en að hafa veruleg áhrif á markað þegar að yfirboðin eru langt yfir öðrum boðum?

3. Bankarnir allir munu vissulega hagnast á því til lengri tíma litið að þurfa að leysa til sín eignir og endurselja þegar að markaðurinn er hagstæðari, en ég get samt ekki kennt þeim almennt um ástand sem er aðallega tilkomið vegna stjórnlausrar hegðunar þjóðarinnar.

Virkilega góðar umræðurnar líka á síðu Kristinns P.

En af hverju er engin að spyrja að því hvernig breyta megi hegðunarmynstri þjóðarinnar?

Af hverju erum við öll að leyta að "öðrum" sökudólgum?

Ég geri mér grein fyrir að þessi bólga hefur áhrif á marga sem ekki tóku þátt, en er samt ekki fjöldanum um að kenna?

Baldvin Jónsson, 6.3.2008 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband