Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Fyrirtæki flýja land

Af hverju ætti einhver heilvita maður að vera að rembast við að reka fyrirtæki hér á landi sem annað hvort flytur út vörur eða þjónustu?

Efnahagsóstjórn síðustu ára hefur gengið mjög nærri mörgum útflutningsfyrirtækjum með því að styrkja krónuna langt umfram það sem eðlilegt er.  Ástandið hefur að vísu aðeins skánað undanfarið, þótt rökstyðja megi að krónan sé enn of hátt skráð og þyrfti að falla enn frekar.

Útlendingastofnun lokar á hæft fólk frá löndum  utan EES og hrekur jafnvel úr landi fólk sem hingað er komið - jafnvel lykilstarfsmenn hjá fyrirtækjum.  Það er skortur á menntuðu og hæfileikaríku fólki hérlendis - fái fyrirtæki ekki að ráða það fólk hingað til lands, er þeim stundum nauðugur einn kostur að setja upp starfsstöðvar eða útibú erlendis - og ekki borga starfsmenn þeirra skatta hingað.

Himinháir vextir hafa hækkað fjármagnskostnað upp úr öllu valdi - og ekki geta fyrirtæki sótt sér nýtt fjármagn með því að fara á hlutabréfamarkaðinn - a.m.k. ekki ef um minni fyrirtæki er að ræða.

Loforð stjórnvalda, t.d. um stuðning við hátækni hafa reynst marklaus með öllu - er það nokkur furða að fólk í þeim greinum horfi til landa eins og Írlands eða Kanada þar sem skilningur ríkir á að til eru fleiri atvinnugreinar en álbræðsla.

Er það nokkur furða að fyrirtæki hugsi sér til hreyfings - stefni til annarra landa þar sem ekki er eitthvað Matadorhagkerfi - stefni til landa þar sem stöðugleiki ríkir og seðlabankar sem njóta trausts?


mbl.is Hætta á að fyrirtæki flytji út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkandi íbúðaverð

Þessi lækkun á íbúðaverði er nú ekki mikil, enda eru hlutfallslega fáar sölur á bak við þessar nýjustu tölur.  Púkinn spáir því að mun hraðari lækkun verði á komandi mánuðum, þegar fleiri sem þurfa að selja eignir neyðast til að slá af verðinu til að koma þeim út.

Ef verðbólgan fer vaxandi og íbúðarverð stendur í stað eða lækkar jafnvel að krónutölu, þá jafngildir það að sjálfsögðu verulegri raunlækkun þar sem verðið heldur ekki í við verðbólguna.

Nei, steinsteypa verður ekki örugg fjárfesting næsta árið. Ætli það sé ekki óhætt að reikna með 10% raunlækkun eða svo.


mbl.is Vísitala íbúðaverðs lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um stýrivexti

Í flestum stærri löndum eru stýrivextir seðlabanka mjög virkt stjórntæki.  Það sem Seðlabanki Íslands virðist ekki vilja skilja er að þannig er því ekki farið hér.

Vextir hafa áhrif á aðsókn í lánsfé, en því aðeins að lántakandi eigi ekki annarra kosta völ.  Hér á Íslandi hafa hækkaðir vextir í raun ekki haft þau áhrif sem þeir myndu hafa víðast erlendis - að draga úr lántökum, því að á undanförnum misserum hefur fólk í staðinn tekið gengisbundin lán með mun lægri vöxtum.  Það er að vísu að koma í bakið á viðkomandi núna vegna gengisfalls krónunnar, en það er annað mál. Þettaþekkist ekki meðal almennings erlendis - þar dettur engum í hug að taka lán í öðrum gjaldmiðli en sínum eigin og þess vegna bíta vaxtahækkanir annarra seðlabanka.

Púkinn telur einnig sennilegt að Seðlabankinn muni hækka vexti frekar - ekki vegna þess að það sé vænlegt til að halda verðbólgunni niðri, heldur vegna þess að Seðlabankinn kann engin önnur ráð - þetta er klassíska staðan að ef eina verkfærið sem einhver á er hamar, þá líta öll vandamál út eins og naglar.

Verðbólgan mun að líkindum lækka þegar líður á árið og Seðlabankinn mun væntanlega þakka það sinni vaxtastefnu, en staðreyndin er að það mun ekkert hafa með málið að gera - verðbólgulækkunin mun stafa af lækkun íbúðaverðs og samdrætti í útlánum banka, vegna verra aðgengis þeirra að lánsfé. 


mbl.is Glitnir spáir stýravaxtahækkun í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er vont, það er vont...og það versnar

Fasteignaverð fer lækkandi og menn spá 5% lækkun.  Púkinn telur það varlega áætlað og sennilegra að lækkunin verði 10% að meðaltali.  Það er enn mikill fjöldi eigna í byggingu og það geta ekki allir eigendur þeirra leyft sér að sitja á þeim og bíða uns markaðurinn jafnar sig.

Einhverjir (bæði húsbyggjendur og verktakar) munu verða gjaldþrota og bankarnir eignast eignirnar - bankarnir geta ólíkt öðrum leyft sér að bíða í nokkur ár með að selja - en það gildir ekki um þá sem eru að reyna að selja í dag.

Púkinn spáir áframhaldandi verðlækkunum á fasteignum næstu mánuði.


mbl.is Mesta lækkun á verði einbýlishúsa í tæp 7 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er smávegis kjaraskerðing nauðsynleg?

Íslendingar virðast ætlast til þess að kjör þeirra batni stöðugt.  Þetta á kannski sérstaklega við um yngra fólk sem aldrei hefur kynnst raunverulegum samdrætti og kjararýrnun.

Þessa dagana kvartar fólk yfir hækkunum á verði eldsneytis og öðrum innfluttum varningi.  Sumir virðast líta þannig á að hér sé um tímabundin óþægindi að ræða, sem hljóti að ganga yfir - aðrir líta svo á að hér sé um "vandamál" að ræða, sem stjórnvöld verði að leysa.

Púkinn er annarrar skoðunar - hann lítur svo á að þjóðin hafi lifað um efni fram í allnokkurn tíma og fólk verði einfaldlega að átta sig á því að "gömlu góðu dagarnir" séu ekki að koma aftur alveg á næstunni.

Verð hlutabréfa rauk upp langt umfram það sem eðlilegt mátti telja - V/H hlutfall markaðarins var komið út yfir öll velsæmismörk, fólk var farið að slá lán til að taka þátt í hlutabréfabraski og ýmis önnur einkenni hlutabréfabólu voru sýnileg.

Sama á við um gjaldmiðilinn.  Krónan var orðin allt, allt of sterk, sem sást meðal annars á því að meðaljóninn var farinn að taka 100% myntkörfulán til að kaupa risapallbíl frá Bandaríkjunum - og það þarf nú varla að minna á hvað þeir sem ekki töldu sig meðaljóna voru að gera.

Svo...*púff* krónan féll og margir sitja uppi með sárt ennið.  Ungt fólk sem er að átta sig á því að það á minna en ekkert í bílunum sínum - skuldar kannski 175% af verðmæti hans, svo ekki sé nú minnst á fasteignamarkaðinn.

Já fasteignamarkaðurinn - Púkanum finnst það furðulegt að einhverjum skuli hafa komið á óvart að íbúðaverð skyldi hækka, þannig að vonlaust yrði fyrir ungt fólk að kaupa sér sína fyrstu íbúð.  Fólk átti að geta sagt sér þetta - þegar bankarnir komu og buðu fólki upp á "hagstæð" lán, þá þýddi það meiri peninga að eltast við takmarkað framboð.  Eðlileg afleiðing er að varan hækkar, uns jafnvægi er náð. 

Líta maður hins vegar yfir allt sviðið er niðurstaðan einföld - þjóðin hefur lifað um efni fram og verður að gjöra svo vel að sætta sig við smávægilega kjaraskerðingu á næstunni - það er ekki hægt að velta öllum vandamálum endalaust á undan sér.

Svona fullyrðing er ekki líkleg til vinsælda, og því mun varla nokkur stjórnmálamaður taka undir þþetta, en sannleikurinn er stundum óþægilegur. 


mbl.is Seðlabankastjóri segir ástandið stöðugt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýfunni ekki lokið

rollercoaster_bigPúkinn verður reyndar að viðurkenna að hann hefur næsta lítið álit á matsfyrirtækjum eins og Fitch, enda gáfu þau þeim erlendu bönkum sem mestu töpuðu á bandarísku ruslbréfavafningunum hæstu einkunn, allt fram á síðasta dag.

Það eru hins vegar margir sem taka mark á þessum fyrirtækjum og tilkynning Fitch í dag gefur til kynna að matið á íslenska ríkinu og bönkunum verði sennilega lækkað á næstunni - með fyrirsjáanlegum afleiðingum á gengi krónunnar og hlutabréfa.

Það er hætt við að einhverjir fái í magann við að sitja í þessum rússibana.


mbl.is Lánshæfi bankanna endurskoðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvenns konar vandi í efnahagsmálum - er það Seðlabankinn og ríkisstjórnin?

500krGeir heldur því fram að tvenns konar vandi sé í efnahagsmálum - lausafjárkreppa og óvæntur skortur á gjaldeyri.

Púkinn er hins vegar þeirrar skoðunar að grunnvandamálið sé miklu einfaldara - markmið Seðlabankans sé einfaldlega rangt.  Málið er að Seðlabankanum er samkvæmt lögum skylt að halda verðbólgunni niðri umfram allt.  Þar falla menn í þá gildru að hálf-persónugera verðbólguna, eins og hún lifi sjálfstæðri tilveru, en sé ekki einkenni undirliggjandi vandamáls.

Þetta er svona svipað og ef læknir legði á það alla áherslu að halda sótthita sjúklings niðri með hitalækkandi lyfjum - en hirða ekki um það að sjúklingurinn sé með grasserandi sýkingu.

Markmið Seðlabankans ætti að vera að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu - jafnvel þótt það þýddi smávægilega verðbólgu stundum.

Seðlabankinn hækkaði til dæmis vexti til að halda verðbólgunni niðri, en þetta leiddi til fáránlegrar styrkingar krónunnar, sem nú er gengin til baka með hávaða og látum.  Það sem Seðlabankinn hefði átt að gera hefði verið að stórauka gjaldeyrisforðann samtímis - selja krónur og kaupa gjaldeyri.  Krónan hefði þá ekki styrkst eins mikið, og þegar kom að falli hennar hefði Seðlabankinn getað mildað það fall með sínum sterka gjaldeyrisvarasjóði.

Þetta hefði þýtt stöðugra gengi krónunnar, betri afkomu útflutningsfyrirtækja, minna kaupæði Íslendinga og færri sem hefðu gert þau mistök að taka lán í erlendum gjaldmiðli - ja, almennt meiri stöðugleika, en því miður - það er ekki markmið Seðlabankans, eins og það er skilgreint samkvæmt lögum.


mbl.is Geir: Tvennskonar vandi í efnahagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árásir á krónuna - eða leit að blóraböggli?

Sú hugsun læðist að Púkanum að með tali um rannsókn á því hvort áhlaup hafi verið gert á krónuna sé verið að reyna að draga athyglina frá hagstjórnarmistökum undanfarinna missera.

Púkinn vill reyndar byrja á að gera skýran greinarmun á árásum á bankakerfið og árásum á gjaldmiðilinn.  Tilhæfulausar fréttir um peningaflótta úr útibúum íslensku bankanna í Bretlandi virðast nefnilega mjög gott dæmi um árásir á bankana - það er nefnilega alkunna að ein besta leiðin til að koma bönkum í vandræði og láta hlutabréf þeirra hrynja er að koma af stað orðrómi um að þeir séu í vandræðum.  Sennilegustu sökudólgarnir að baki þessum orðrómi eru að sjálfsögðu þeir sem hafa tekið sér neikvæða stöðu í hlutabréfum bankanna og vilja sjá verð þeirra lækka áður en þeir loka stöðum sínum.

Árásir á krónuna eru hins vegar allt annar handleggur, en Púkinn hefur ekki séð neinar raunverulegar vísbendingar um slíkt.  Staðreyndin er sú að gengi krónunnar hefur verið allt, allt of hátt um þónokkurn tíma.  Gengdarlaus viðskiptahalli, innflutningsbrjálæði Íslendinga og vandræði útflutningsfyrirtækjanna eru augljósustu vísbendingarnar um það. Þessu háa gengi hefur verið haldið uppi með okurvöxtum Seðlabankans, en slík staða gengur ekki til lengdar.  Eins og Púkinn hefur ítrekað sagt síðustu mánuðina, þá er þar um spilaborg að ræða - það var ekki spurning um hvort gengi krónunnar myndi hrynja, heldur hvenær.

Bankarnir vissu þetta og að sjálfsögðu birgðu þeir sig upp af gjaldeyri - annað hefði verið hreint ábyrgðarleysi.

Gengið er sennilega á eðlilegu róli þessa dagana og tilraunir til að styrkja krónuna aftur munu bara leiða til þess að hrunið mun endurtaka sig síðar.

Nei, mönnum finnst ekki gaman að láta segja sér að þeir verði bara að sætta sig við 30% hækkun á matarverði og öðrum innfluttum varningi, en svona er það nú bara - íslenska þjóðin hefur lifað um efni fram og nú þarf hún að vakna upp og borga reikninginn.

Það má að vísu vera að einhverjir hafi hjálpað krónunni að falla, svona svipað og spilaborgin fellur ef ýtt er við einu spili, en það er tæplega "árás".  Nei, Púkanum finnst að hér sé verið að leita að blóraböggli til að draga athyglina frá þeirri staðreynd að stefna ráðamanna hefur einfaldlega ekki virkað.


mbl.is FME rannsakar árásir á krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnubílstjóradólgar

truckerPúkinn hefur vissar efasemdir um gáfnafar þeirra atvinnubílstjóra sem hafa staðið fyrir mótmælum undanfarið. Þeim er nefnilega að takast að eyðileggja alla þá samúð sem almenningur hafði með sjónarmiðum þeirra.  Vandamálið er nefnilega að aðgerðirnar bitna ekki á þeim sem bera á einhvern hátt ábyrgð á ástandinu, heldur á öllum almenningi, sem er að verða þreyttur á að komast ekki leiðar sinnar vegna þess sem ekki er hægt að kalla annað en dólgshátt.

Ef aðgerðirnar hefðu verið markvissari - t.d. ef bílarnir þeirra hefðu fyrir tilviljun bilað beint fyrir utan innkeyrslurnar á bílastæðum Alþingis og Seðlabankans, myndi fólk sennilega ennþá hafa fulla samúð með þeim - hátt eldsneytisverð bitnar jú á flestum, þótt í minna mæli sé.

Dólgsháttur til lengri tíma er hins vegar ekki til þess fallinn að auka samúð fólks - ekki frekar en síendurtekin verkföll mjólkurfræðinga hér á árum áður.

Nú er Púkinn ekki að segja að hann hafi ekki skilning á þeim óþægindum sem þessi stétt hefur orðið fyrir vegna eldneytishækkana, en ólíkt almenningi á sínum fólksbílum, þá hafa atvinnubílstjórarnir þó þann möguleika til lengri tíma litið að velta kostnaðinum yfir á þá sem kaupa þeirra þjónustu.  Það er hins vegar erfitt að fást við þetta meðan eldsneytishækkanirnar ganga yfir og viðbrögð stjórnvalda hafa ekki verið til fyrirmyndar.

Það er hins vegar ekkert nýtt að aðgerðir stjórnvalda fari illa með tilteknar atvinnustéttir.  Hið falska, háa gengi krónunnar undanfarin misseri hefur t.d. gengið mjög nærri ýmsum útflutningsfyrirtækjum og hrakið sum í þrot en önnur úr landi. Þau fyrirtæki reyndu hins vegar ekki að vekja athygli á sínum málstað með dólgshætti.

Nú er Púkinn ekki að segja að menn verði bara að sætta sig við þetta.  Það er eitt og annað sem stjórnvöld gætu gert, en þar mætti t.d. nefna að lækka álögur á díselolíu, þannig að söluverð hennar yrði lægra en söluverð bensíns, eins og hugmyndin var í upphafi.

Það mætti líka tímabundið lækka eldsneytisgjaldið um sambærilega krónutölu og nemur hækkun virðisaukaskatts vegna hækkandi innkaupsverðs.  Þannig myndi ríkið fá jafn margar krónur í vasann og áður, en ekki græða á hækkandi innkaupsverði.  Þannig fyrirkomulag væri sanngjarnt að mati Púkans.


mbl.is „Ráðamenn vakni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristalkúla Púkans

crystalballstocksUm miðjan janúar sagði kristalkúla Púkans: "Fram til páska gætu komið allmargir dagar þar sem gengið sveiflast upp eða niður um nokkur prósent, en einnig er möguleiki á einni stórri dýfu til viðbótar." (sjá greinina hér)  Púkinn vill láta öðrum eftir að meta hversu vel sú spá gekk eftir, en þar sem hún náði ekki nema fram til páska er kominn tími á nýja spá.

Og hvað segir kristalkúlan  nú?

Almennt

Ráðamenn munu halda áfram að taka rangar ákvarðanir, eða taka réttar ákvarðanir á röngum tíma.  Þeir munu þakka sér allt sem fer til betri vegar, en kenna óviðráðanlegum eða óvæntum ytri aðstæðum um allt sem aflaga fer.

Stjórnvöld með vit í kollinum myndu afnema stimpilgjöldin nú strax, til að koma í veg fyrir frost og alvarlegt verðfall á fasteignamarkaði og lækka eldsneytisgjald, a.m.k. sem nemur hækkun á virðisaukaskatti vegna hækkandi innkaupsverðs, þannig að ríkissjóður fái sömu krónutölu í vasann og áður, en sé ekki að græða á hækkandi olíuverði.  Púkinn efast hins vegar um að mikið vit sé í kollum íslenskra ráðamanna.

Ýmsir aðilar, svo sem byggingavöruverslanir og bílaumboð sem hafa hagnast vel á undanförnum misserum sjá nú fram á verulegan samdrátt í sölu og "hagræðing" verður væntanlega helsta umræðuefnið á neyðarfundum stjórnenda þeirra á næstunni.

Útflutningsfyrirtækin draga nú sum andann léttar.  Þau hafa mörg barist við allt of hátt gengi krónunnar undanfarið, sem hefur gengið nærri sumum þeirra, en svo framarlega sem þau hafa ekki þurft að taka erlend lán til að fjármagna sig ætti næstu 12 mánuðir að vera bærilegir - nú nema launahækkanir hérlendis éti upp allan ágóðann af gengisfalli krónunnar. 

Hlutabréfin

Kristalkúlan segir þokkalegar líkur á því að tímabundnum botni hafi verið náð núna um páskana, en í upphaflegu spánni sinni gerði Púkinn ráð fyrir að um þetta leyti yrði botninum náð fyrir árið.  Það má vera að það gangi eftir, en því miður er enn möguleiki á umtalsverðu falli til viðbótar, vegna óróa á erlendum mörkuðum - sérstaklega tengdum bankakerfinu.  Með öðrum orðum, það sem eftir lifir af þessu ári gerist annað af tvennu.  Annað hvort mun hlutabréfamarkaðurinn mjakast upp á við, þótt hann muni ekki ná þeim hæðum sem hann náði síðasta sumar eða markaðurinn gæti fallið um 20-30% viðbótar og það fall yrði leitt af bönkunum.

Gengið

Púkinn er þeirrar skoðunar að gengi krónunnar um þessar mundir sé nálægt því að vera "rétt" - kaupæði og viðskiptahalli Íslendinga á undanförnum mánuðum er merki um að gengið hafi verið allt of hátt.  Þjóðin hefur einfaldlega lifað um efni fram og máttlausar og rangar aðgerðir Seðlabankans hafa ekki gert það sem ætlast var til.

Já, mönnum svíður undan hækkandi verði og hækkandi höfuðstólum lána í erlendri mynt, en þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess sem á undan er gengið.  Púkinn ætlar hins vegar ekki að spá fyrir um gengisþróunina næstu mánuðina - krónan gæti styrkst um 15%, fallið um 30 % eða hvað sem er þess á milli.

Húsnæðismarkaðurinn

Húsnæðismarkaðurinn er ekki frosinn, en margir eiga von á lækkunum á fasteignaverði á næstunni og slíkar væntingar leiða til þess að fólk heldur að sér höndum, sem aftur leiðir til þess að þeir sem "verða" að selja neyðast til að lækka verðið.   Sennilega er raunhæft að gera ráð fyrir 10% verðlækkun á árinu að meðaltali - sem því miður mun þýða að margir (sér í lagi þeir sem tóku erlend lán) munu skulda meira í núsnæðinu sínu en sem nemur verðmæti þess.

--- 

Púkinn vill taka fram að hann er ekki fjármála- eða verðbréfaráðgjafi, hefur engin réttindi sem slíkur og ráðleggur engum að haga sínum fjárfestingum í samræmi við það sem hér segir.  Þetta er einungis til gamans gert og enginn ætti að taka þessa spá alvarlega, enda er Púkinn bara lítið skrýtið blátt fyrirbæri með stór eyru sem hefur ekkert vit á neinu. Púkinn vill að lokum taka fram að hann á engin hlutabréf sem eru skráð í íslensku kauphöllinni og hefur enga sérstaka hagsmuni af því hvernig þróunin verður.


mbl.is Mikil velta á skuldabréfamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband