Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Verðbólgan er ÞÉR að kenna

Púkinn hefur oft lýst þeirri skoðun sinni að almenn umræða um verðbólgu á Íslandi sé á algerum villigötum, því flestir skilja ekki eðli og ástæður hennar - líta á hana sem eitthvað ógurlegt skrímsli sem lifi sjálfstæðri tilveru, en ekki einkenni undirliggjandi vandamáls.

Þessi vankunnátta er að ýmsu leyti þægileg fyrir stjórnmálamenn - þeir komast nefnilega hjá því að taka nokkra ábyrgð á ástandinu, en geta kennt öllum öðrum um - bönkunum sem lána of mikið, launþegum sem krefjast launahækkana, versluninni sem okrar á neytendum, erlendum aðstæðum sem hækka verð á vörum.

Stjórnmálamenn segja viðurkenna hins vegar aldrei að verðbólgan geti verið þeim að kenna.  Viðurkenna ekki að fjárlagahalli er verðbólguhvetjandi - viðurkenna ekki að lögin sem skilgreina mikilvægasta markmið Seðlabankans sem baráttu gegn verðbólgu eru tilgangslaus ef hið opinbera berst í raun gegn aðgerðum Seðlabankans með þensluhvetjandi aðgerðum.

Það er þægilegt að geta kennt öðrum um ástandið og dregið þannig athyglina frá eigin ábyrgð.


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um gengi krónunnar

Púkinn hefur áður gagnrýnt þá sem tala um verðbólgu eins og hún lifi sjálfstæðri tilveru - tala um nauðsyn þess að ná henni niður, en líta algerlega fram hjá því að verðbólgan er ekkert annað en einkenni undirliggjandi vandamála og ef ekkert er gert til að eyða orsökum verðbólgunnar eru allar tilraunir til að berjast gegn henni einni og sér dauðadæmdar.

Ef fólk er beðið að útskýra hvað verðbólga er, tala flestir um hækkanir á verði vöru og þjónustu.  Það er hins vegar gagnlegra að líta á þetta á annan veg - að raunverulegt verðmæti gjaldmiðilsins sé að minnka.

En hvers vegna minnkar verðmæti krónunnar?  Jú, grunnvandamálið er halli á fjárlögum eða halli á viðskiptajöfnuði.  Hvort tveggja leiðir til þess að krónan okkar rýrnar að verðmæti, sem kemur síðan fram eins og verðbólga.  Veik króna dregur úr innflutningi og styrkir útflutning, sem lagar viðskiptajöfnuðinn, svona til lengri tíma litið.  Vaxtahækkanir Seðlabankans vinna hins vegar gegn þessari leiðréttingu, með því að halda gengi krónunnar óeðlilega háu.

Fjárlagahallinn er annað mál - sum ár hefur verið afgangur af fjárlögum á Íslandi, en þau eru fleiri árin þar sem halli hefur verið á þeim og hann oft verulegur.  Að lagfæra það er ekki hlutverk Seðlabankans - en það er erfitt fyrir ríkisvaldið að saka Seðlabankann um að sinna ekki verkefni sínu, nema ríkið geri sitt líka.


mbl.is Stýrivextir áfram 15,50%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa Íslendingar glatað öllu verðskyni?

peningarÞað er ekkert nýtt að fjallað sé um hátt matvælaverð á Íslandi og eins og áður keppast allir við að benda á meinta sökudólga - vondu kapítalistana sem halda uppi verðum í skjóli fákeppni, vondu framsóknarmennina sem berjast fyrir tollmúrum til verndar íslenskum landbúnaði, nú eða þá bara meinlausari þætti eins og smæð íslenska markaðarins og hlutfallslega háan flutningskostnað.

Það sem Púkinn vill hins vegar minnast á er sú einkennilega árátta Íslendinga að líta bara á þetta sem eðlilegan hlut - "svona er þetta bara" og halda áfram að draga upp veskið.

Púkinn hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að Íslendingar kunni ekki með peninga að fara og það verður seint sagt að Íslendingar séu upp til hópa hagsýnir -  það er undantekning að rekast á einhvern sem heldur heimilisbókhald og oftast virðist fólk ekki einu sinni vita í hvað það eyðir peningunum sínum.

Hefur þjóð sem hegðar sér þannig yfir höfuð einhvern rétt til að kvarta, þegar bent er á að verðlag hér sé óeðlilega hátt? 


mbl.is Verð á mat 64% hærra en í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjararýrnun: Æskileg og óhjákvæmileg

bankruptcy_250x251Púkinn hlustaði á forsætisráðherra og bankamenn tala um framtíðarhorfur á fundi í gær.  Það sem Púkanum þótti einna athygliverðast var það viðhorf að almenn kjaraskerðing væri ekki aðeins óhjákvæmileg, heldur líka nauðsynleg.

Með öðrum orðum - það væri nauðsynlegt að það verðbólguskot sem nú stendur yfir fengi að ganga í gegn án þess að til víxlhækkana launa og verðlags kæmi. Einfalda framsetningin á þessu er að sjálfsögðu sú að fólk verði að gjöra svo vel að sætta sig við að laun þess hækki ekki til jafns við verðlagshækkanir.

Þetta er að sjálfsögðu ekki nokkuð sem fólk vill heyra, en staðreyndin er einfaldlega sú að þjóðin hefur lifað um efni fram undanfarin ár - Púkinn gerir sér að vísu fulla grein fyrir því að margir hafa haft það skítt en þeir eru fleiri sem hafa haft það "of" gott, samanber tölur um fjölda seldra flatskjáa.

Íslendingar eru orðnir góðu vanir - og líta á það sem náttúrulögmál að kjör þeirra fari batnandi með hverju ári - kaupmáttaraukningin sé meiri í dag en í gær.

Því miður ... þetta er bara ekki svona.

Við stöndum frammi fyrir samdrætti og margir munu þurfa að sætta sig við það að kjör þeirra munu versna.  Afborganir fara hækkandi af gengistengdum lánum, fasteignir seljast ekki, fyrirtæki keppast ekki lengur um að bjóða nýútskrifuðum viðskiptafræðingum vinnu.  Einhverjir munu þurfa að losa sig við einkaþoturnar sínar og aðrir að láta gamla bílskrjóðinn duga eitt ár í viðbót.

Boðskapurinn er sá að ef þjóðin lifir um efni fram, þá kemur fyrr eða síðar að skuldadögunum.  Kjaraskerðingin mun koma misilla niður á fólki.  Sumir fá minni yfirvinnu eða lægri launahækkanir, aðrir missa vinnuna eða komast í þrot vegna þess að fjármagn er dýrt eða illfáanlegt.

Það þýðir ekkert að heimta að kjörin haldist áfram jafn góð og þau voru - það verður að ná fram "þjóðarsátt" um kjararýrnun. 

Sá ræðumaður sem lagði mesta áherslu á þetta minntist að vísu ekki á hvort hann myndi ganga á undan með góðu fordæmi og þiggja lægri laun, en reyndar þykir Púkanum nú sennilegt að laun margra bankamanna muni eitthvað lækka - yfirstandandi samdráttur ætti að hafa í för með sér lækkaða bónusa.

Púkinn bíður nú spenntur eftir því að sjá hvort stjórnmálamennirnir skerði sín eigin kjör, áður en þeir fara að tala um nauðsyn "þjóðarsáttar" til að halda launahækkunum niðri.


Kauphöll án fyrirtækja?

Fyrirtækjum í Kauphöllinni fer stöðugt fækkandi - Flaga og FL Group eru nú á förum þaðan og ekki virðast í sjónmáli nein fyrirtæki sem stefna á skráningu þar.

Það gæti fækkað enn frekar á næstu misserum, til dæmis ef fyrirtæki sem bæði eru skráð sameinast eða ef fleiri fyrirtæki hlaupa burt með skottið milli fótanna. 

En koma ekki bara ný fyrirtæki í staðinn? 

Varla - Það er ekki auðvelt fyrir smærri fyrirtæki að fara á markað hér á landi.   Umstangið er gífurlegt og það er jafnvel varla erfiðisins virði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að láta sig dreyma um skráningu á markað.  Stóru fyrirtækin eru ýmist þegar skráð (eða skráð og afskráð), nú eða hafa lýst því yfir að þau ætli ekki á markað.

Ef svo fer fram sem horfir er hætt við að eftir nokkur ár verði orðið tómlegt í kauphöllinni.


mbl.is Afskráning samþykkt á hluthafafundi FL Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðalánasjóður réttlætir tilvist sína

Þessa dagana heyrist ekkert í þeim sem vildu leggja Íbúðalánasjóð niður.  Ástæðan er einföld - það sjá allir hvernig ástandið væri ef Íbúðalánasjóður væri ekki til staðar nú þegar bankarnir hafa nánast algerlega skrúfað fyrir lánveitingar til íbúðarkaupa.

Ef ekki væri fyrir Íbúðalánasjóð væri fasteignamarkaðurinn ekki bara hálflamaður - hann væri dauður - steindauður og sennilega nálykt af honum líka.

Bönkunum ber engin skylda til að halda áfram að lána húskaupendum þegar illa stendur á hjá þeim sjálfum.  Þeir ákváðu upp á sitt einsdæmi að bjóða upp á þessi lán og geta hætt því ef þeir vilja.  Íbúðalánasjóður heldur hins vegar áfram að lána, sama hvernig ástandið í efnahagsmálum er - en með því sannar hann tilvistarrétt sinn, eða sýnir öllu frekar fram á að hann er nauðsynlegur - bönkunum er ekki treystandi til að sitja einir að því að veita þessa þjónustu.


mbl.is Fasteignasalar óska eftir fundi með félagsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningur við rannsóknir og þróun

Púkinn á sér draum - að hér á Íslandi verði stutt við rannsóknir og þróun af sama myndugleika og í mörgum nærliggjandi löndum, þar sem ráðamenn gera sér grein fyrir mikilvægi þess að styðja við þessi svið.  Menn geta velt fyrir sér hvers vegna hér á Íslandi sprettur ekki upp fjöldi hátæknifyrirtækja, en ástæður þess eru margvíslegar - þar á meðal hversu fjandsamlegt umhverfið hér er slíkum fyrirtækjum.

Því miður er Púkinn þeirrar skoðunar að íslenskir ráðamenn muni klúðra málinu - "afrekaskrá" þeirra hingað til bendir nefnilega til þess að ráðamenn séu hræddir við alla hátækni sem þeir skilja ekki.

Púkinn er hræddur um að ráðamenn hér fari þá leið að setja upp opinbert styrkjaapparat (þar sem eingöngu tiltekin verkefni verða styrkt - ekki "stöðug" þróunarvinna og fyrirtæki þurfa að eyða helmingi styrksins að gera skýrslur um verkefnin)

Nú, eða að farin verði sænska leiðin, og fyrirtækjum veittur skattafrádráttur sem nemur hluta rannsókna- og þróunarkostnaðar -  sem er gott og blessað fyrir þau fyrirtæki sem eru farin að skila hagnaði, en nýtist þeim ekkert sem eru að reyna að komast á það stig.

Síðan þykjast ráðamenn verða hissa þegar fyrirtækin flytja rannsókna- og þróunarvinnuna úr landi


mbl.is Marel: Fimm milljarðar í rannsóknir og þróun á hverju ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar skilja ekki verðbólgu

inflationpicPúkinn er þeirrar skoðunar að flestir Íslendingar skilji ekki eðli verðbólgu. 

Verðbólgan er persónugerð hérlendis - menn tala um hana eins og hún lifi sjálfstæðri tilveru og hægt sé að berjast við hana eina og sér - tala um "nauðsyn þess að kveða niður verðbólgudrauginn" eða að "verðbólgubálið geisi".

Þetta er þvættingur.

Púkinn kýs að líkja verðbólgunni við sótthita hjá sjúklingi - myndi fólki ekki þykja eitthvað athugavert við lækni sem legði alla áherslu á að ná niður sótthita sjúklings, en hirti ekkert um alvarlega, undirliggjandi sýkingu?

Það sama á við um Seðlabankann - lögum samkvæmt er honum gert að hafa það að meginmarkmiði halda verðbólgunni niðri og hann notar þau tól og tæki sem hann hefur - vaxtabreytingar og bindiskyldu - svona svipað og að ef læknar gerðu ekkert annað en að gefa fólki hitalækkandi lyf.

Það er engin furða að aðgerðir Seðlabankans virki ekki, því ekki er hreyft við þeim þáttum sem valda varðbólgunni - verðbólga er einkenni undirliggjandi vandamála og ef ekki er tekið á þeim vandamálum þá helst hún áfram há - nú eða (svo vísað sé aftur í fyrri samlíkingu) sjúklingurinn nær sér upp á eigin spýtur eða deyr.

Skoðum nú aðeins nokkur mistök sem hafa verið gerð.

  • Þegar bankarnir fóru að bjóða upp á húsnæðislán á "góðum" vöxtum þýddi það aukið framboð á peningum (í höndum kaupenda) eð eltast við takmörkuð gæði (eignir til sölu). Það þurfti ekki mikla hagfræðiþekkingu til að sjá fyrir að þetta myndi hafa í för með sér verðhækkanir á húsnæði, uns sársaukamörkum yrði náð - þ.e.a.s. meðalafborganir yrðu jafnháar og þær voru áður með gömlu "óhagstæðu" lánunum.  Það sem Seðlabankinn hefði átt að gera á þessum tímapunkti hefði verið að hemja útlánagleði bankanna með því að auka bindiskylduna, en nei - Seðlabankinn hleypti þessum verðhækkunum í gegn og túlkaði þær síðan sem verðbólgu sem þyrfti að berjast gegn með hækkuðum vöxtum.
  • Seðlabankinn tók einnig þá ákvörðun að virkjana- og álversframkvæmdir fyrir austan væru verðbólguhvetjandi og það þyrfti að berjast gegn þeirri væntanlegu verðbólgu með hækkuðum vöxtum.  Þarna gleymdist að stór hluti  greiðslnanna fór til erlendra aðila, eða til erlendra verkamanna sem sendu þá peninga úr landi, en dældu þeim ekki inn í hagkerfið hér.  Verðbólguáhrifin voru því í raun mun minni en Seðlabankinn miðaði "fyrirbyggjandi" aðgerðir sínar við.
  • Þegar Seðlabankinn hækkaði vextina tók krónan að verða áhugaverð fyrir spákaupmenn, sem sáu sér leik á borði að hagnast á vaxtamunarviðskiptum - krónubréfunum svokölluðu. Bankarnir stórgræddu líka á þessu sem milliliðir - þeir þurftu bara að fá Íslendinga til að taka lán á móti og það var ekki vandamál - það var nóg af fólki sem var til í að fá pening lánaðan til að kaupa hluti sem það í rauninni hafði ekki efni á.   Gerði Seðlabankinn eitthvað til að vinna gegn þessu, þótt honum hefði átt að vera ljóst að þetta myndi raska stöðugleika í efnahagslífinu?  Nei.
  • Málið var nefnilega að útgáfa krónubréfanna styrkti íslensku krónuna, sem gerði allan innflutning ódýrari, sem stuðlaði að því að halda verðbólgunni niðri.  Það er jú lögum samkvæmt markmið Seðlabankans - ekki að viðhalda stöðugleika og draga úr viðskiptahalla.
  • Þetta var hins vegar skammgóður vermir - svona eins og að pissa í skóinn sinn.  Þessi ofursterka króna var á góðri leið með að sliga útflutningsfyrirtækin - sum þeirra lögðu upp laupana eða fluttu starfsemina úr landi, en önnur drógu úr starfsemi eða steyptu sér í skuldir (nú nema álverin, sem bjuggu við ódýrt rafmagn, lækkandi hráefnisverð og hækkandi afurðaverð, þannig að þau kvörtuðu ekki).
  • Svo byrjar að hrikta í spilaborginni og að lokum fellur hún - afleiðingarnar þekkja allir.

Núna um þessar mundir eru allir að kvarta og heimta aðgerðir.  Miðað við afrekaskrá ríkisstjórna og Seðlabanka á undanförnum árum er Púkinn næsta viss um að ýmist verði gripið til rangra aðgerða - nú eða þá réttra aðgerða á röngum tíma.  Vaxtahækkanir virka ekki til að drepa niður verðbólguna, ef gengi krónunnar er leyft að hækka á sama tíma - það er bara uppskrift að áframhaldandi óstöðugleika og annarri kollsteypu.  Púkinn er þeirrar skoðunar að gengi krónunnar sé "rétt" um þessar mundir, en ef Seðlabankinn lækkar ekki vextina fljótlega þá mun hún styrkjast aftur - nokkuð sem yrði sjálfsagt vinsælt hjá mörgum því erlendu lánin og innfluttar vörur myndu lækka - en það er bara ekki forsenda fyrir þeirri lækkun - ef við viljum sterkan gjaldmiðil þá verður að ná niður viðskiptahalla og og byggja styrk krónunnar á raunverulegum útflutningsverðmætum, en ekki gerviverðmætum, sem byggja á engu öðru en gjaldmiðlabraski vegna ofurvaxta hérlendis. 


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur? Útflutningsverðlaun?

Púkinn á svolítið bágt með að skilja fyrir hvað Baugur hlýtur útflutningsverðlaun forseta Íslands. 

Sú hlið á starfsemi Baugs sem helst snýr að íslensku þjóðinni varðar verslunarrekstur og þar með innflutning á vörum til Íslands.  Sá rekstur hefur haft hag af sterkum gjaldmiðli undanfarin misseri - hagnast á þeirri sömu ofurkrónu og hefur verið að gera út af við þau raunverulegu útflutningsfyrirtækja sem eru starfandi hér á Íslandi.

Hagsmunir Baugs og hagsmunir útflutningsfyrirtækja fara ekki saman - svo einfalt er það.

Ef um "útrásarverðlaun" væri að ræða, þá væri þetta gott og blessað - en að gefa Baugi útflutningsverðlaun jafngildir því að slá blautri tusku framan í alla þá sem reyna að stunda útflutning héðan frá Íslandi.


mbl.is Baugur Group hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar fjármálafræðslu í skólana?

500kronurFréttir um nauðungarsölur á húsnæði og aukningu á fjölda þeirra sem þurfa að leita til ráðgjafa þegar fjármál þeirra eru komin í óefni vekur upp spurninguna hvort ekki sé nauðsynlegt að efla fræðslu um fjármál í skólakerfinu.

Í  grunnskóla er nú reyndar námsgrein sem nefnist 'Lífsleikni', þar sem meðal annar eru skilgreind markmið eins og að nemendur "geti metið eigin tekjur og útgjöld og rekstur heimilis".

Gott mál, en það er bara ekki nóg áhersla á það sem raunverulega þyrfti að kenna, eins og til dæmis eftirfarandi reglur:

Bankar eru ekki góðgerðastofnanir.  Þeir hugsa um sinn hag - ekki þinn. Ef þeir vilja lána þér pening er það vegna þess að þeir vilja græða á þér - ekki vegna þess að þeir vilja vera góðir við þig.  Ef þú stendur ekki í skilum með greiðslurnar, þá ert það þú sem lendir í vandræðum - ekki þeir.

Heimurinn er fullur af fólki sem vill komast yfir peningana þína. Ef einhver gerir þér tilboð sem hljómar of gott til að vera satt, þá máttu vera viss um að það er eitthvað vafasamt á ferðinni.

Smáa letrið í samningunum sem þú skrifar undir er ekki til að vernda þig, heldur þann sem samdi samninginn.

 ...og svo framvegis.  Með öðrum orðum - Púkanum finnst að það þurfi að kenna fólki að láta ekki draga sig á asnaeyrunum - og að sú fræðsla eigi að byrja í grunnskólanum.


mbl.is Fleiri nauðungarsölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband