Kjararýrnun: Æskileg og óhjákvæmileg

bankruptcy_250x251Púkinn hlustaði á forsætisráðherra og bankamenn tala um framtíðarhorfur á fundi í gær.  Það sem Púkanum þótti einna athygliverðast var það viðhorf að almenn kjaraskerðing væri ekki aðeins óhjákvæmileg, heldur líka nauðsynleg.

Með öðrum orðum - það væri nauðsynlegt að það verðbólguskot sem nú stendur yfir fengi að ganga í gegn án þess að til víxlhækkana launa og verðlags kæmi. Einfalda framsetningin á þessu er að sjálfsögðu sú að fólk verði að gjöra svo vel að sætta sig við að laun þess hækki ekki til jafns við verðlagshækkanir.

Þetta er að sjálfsögðu ekki nokkuð sem fólk vill heyra, en staðreyndin er einfaldlega sú að þjóðin hefur lifað um efni fram undanfarin ár - Púkinn gerir sér að vísu fulla grein fyrir því að margir hafa haft það skítt en þeir eru fleiri sem hafa haft það "of" gott, samanber tölur um fjölda seldra flatskjáa.

Íslendingar eru orðnir góðu vanir - og líta á það sem náttúrulögmál að kjör þeirra fari batnandi með hverju ári - kaupmáttaraukningin sé meiri í dag en í gær.

Því miður ... þetta er bara ekki svona.

Við stöndum frammi fyrir samdrætti og margir munu þurfa að sætta sig við það að kjör þeirra munu versna.  Afborganir fara hækkandi af gengistengdum lánum, fasteignir seljast ekki, fyrirtæki keppast ekki lengur um að bjóða nýútskrifuðum viðskiptafræðingum vinnu.  Einhverjir munu þurfa að losa sig við einkaþoturnar sínar og aðrir að láta gamla bílskrjóðinn duga eitt ár í viðbót.

Boðskapurinn er sá að ef þjóðin lifir um efni fram, þá kemur fyrr eða síðar að skuldadögunum.  Kjaraskerðingin mun koma misilla niður á fólki.  Sumir fá minni yfirvinnu eða lægri launahækkanir, aðrir missa vinnuna eða komast í þrot vegna þess að fjármagn er dýrt eða illfáanlegt.

Það þýðir ekkert að heimta að kjörin haldist áfram jafn góð og þau voru - það verður að ná fram "þjóðarsátt" um kjararýrnun. 

Sá ræðumaður sem lagði mesta áherslu á þetta minntist að vísu ekki á hvort hann myndi ganga á undan með góðu fordæmi og þiggja lægri laun, en reyndar þykir Púkanum nú sennilegt að laun margra bankamanna muni eitthvað lækka - yfirstandandi samdráttur ætti að hafa í för með sér lækkaða bónusa.

Púkinn bíður nú spenntur eftir því að sjá hvort stjórnmálamennirnir skerði sín eigin kjör, áður en þeir fara að tala um nauðsyn "þjóðarsáttar" til að halda launahækkunum niðri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er ekki hægt að mæla velferð einstaklinga og þjóða einungis í peningum. En það sem er nauðsynlegast að gera hér núna er að hækka dagvinnulaunin verulega og láta Íslendinga vinna á daginn en lofa þeim ekki að skreppa sýknt og heilagt úr vinnunni á daginn í alls kyns ónauðsynlegar útréttingar.

Í Noregi eru iðnaðarmenn ekki að gaufa í "yfirvinnu" frameftir öllum kvöldum. Og í Englandi eru enskir iðnaðarmenn sífellt að skreppa í te en þar hafa pólskir iðnaðarmenn teið með sér í vinnuna.

Enda þótt heildartekjur einhvers dragist saman er ekki þar með sagt að velferð viðkomandi og fjölskyldu hans minnki. Hann getur til dæmis farið úr starfi með mikilli yfirvinnu í annað starf með mun minni, eða jafnvel engri, yfiirvinnu og haft þannig mun meiri tíma fyrir fjölskyldu sína og tómstundir, liðið betur og fengið færri atvinnutengda sjúkdóma, sem þýðir minni kostnað fyrir þjóðfélagið.

Þannig getur almennur samdráttur í yfirvinnu þýtt hér stóraukna velferð og mun minni kostnað fyrir þjóðfélagið, ekki síst ef vinnuframlagið eykst í dagvinnunni gegn því að fólk fái hér hærri laun fyrir hana.

Þorsteinn Briem, 9.5.2008 kl. 12:38

2 Smámynd: Púkinn

Þetta er svosem allt rétt - kannski pólitíkusarnir reyni að matreiða þetta á þennan hátt - að þótt krónunum fækki í vasanum þurfi fólk ekki að hafa það neitt verr.

Púkinn, 9.5.2008 kl. 13:41

3 Smámynd: Einar Indriðason

Það mun aldrei gerast að pólitíkusar muni segja:  "Ég ætti kannski að sýna gott fordæmi, og gera sjálfur það sem ég er að predika".  Kannski Jóhanna, jú.  En, fráleitt aðrir.

Einar Indriðason, 9.5.2008 kl. 14:46

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hækkun dagvinnulauna hér er samningsatriði á milli fulltrúa atvinnurekenda og launþega. Með mikilli hækkun dagvinnulaunanna munu vinnuveitendur krefjast meiri afkasta á dagvinnutímanum, sem leiðir til mun minni yfirvinnu og meiri lífsgæða hér.

Íslenskir atvinnurekendur eru í samkeppni við vinnuveitendur í nágrannalöndunum um gott vinnuafl og þegar yfirvinna dregst hér mikið saman fara margir Íslendingar til starfa erlendis, því þeir geta ekki lifað af dagvinnulaununum hér. Og margir Íslendingar fara einnig til starfa erlendis vegna þess að þeir vilja ekki vinna mikla yfirvinnu.

Ef við missum mikið af góðu vinnuafli úr landi og Íslendingar koma ekki úr námi erlendis verða lífskjörin hér verri en ella. Og þetta er að gerast einmitt núna. Verð á bensíni og mat er hins vegar svipað í Noregi og hérlendis. Og húsnæði í Ósló kostar líka sitt. Samt flytja margir Íslendingar þangað, enda þótt þeir geti auðveldlega fengið vinnu hér.

Þorsteinn Briem, 9.5.2008 kl. 17:00

5 Smámynd: Kári Harðarson

Það góða við verðbólgu er að þeir sem höfðu hæstu launin missa hlutfallslega mest því lækkkunin er hlutfallsleg.  Eftir 10% verðbólgu missir sá sem hafði  200 þúsund krónur í laun 20 þúsund en sá sem hafði milljón missir hundrað þúsund.

Ef báðir aðilar fá svo 20 þúsund krónu launahækkun sem andsvar við verðbólgunni hafa þeir færst aðeins nær í launum.  Þannig gæti maður litið á verðbólgu sem sanngjarnan valkost ef það þarf að dreifa kjaraskerðingu á landslýð.  Skjótið mig nú niður

Kári Harðarson, 12.5.2008 kl. 11:36

6 Smámynd: Púkinn

Ja, ef almenn sátt væri um krónutöluhækkanir, já.... en ég sé ekki alla hópa samþykkja það.

Púkinn, 13.5.2008 kl. 08:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband