Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Frekara gengisfall væntanlegt?

Það fór ekki mikið fyrir fréttinni um að sennilega yrði lítið um endurnýjun krónubréfa að ræða á næstunni., en þetta getur haft meiri áhrif en marga grunar.

Eitt af því sem skapaði núverandi erfiðleika í íslensku efnahagslífi var útgáfa þessara krónubréfa með tilheyrandi flæði gjaldeyris inn í landið, sem styrkti krónuna langt umfram það sem eðlilegt og heilbrigt gat talist.  Þessi sterka króna gekk nærri útflutningsfyrirtækjunum, en sendi þjóðina á neyslufyllirí - pallbílar og flatskjáir flæddu inn í landið.

Núna er dæmið að snúast við - krónubréfin eru ekki endurnýjuð, þegar þau renna út, en það þýðir í raun flæði gjaldeyris úr landi, sem undir eðlilegum kringumstæðum mun veikja krónuna.  Stóru endurnýjunardagarnir eru að vísu ekki fyrr en í haust en þá gæti vaxtalækkunarferli Seðlabankans verið hafið, sem mun draga úr áhuga fjárfesta á krónubréfum, þannig að allt er óvíst um hvort þau bréf verða endurnýjuð heldur.

Að mati Púkans er líklegast að krónan haldi áfram að síga og eigi eftir að falla um ein 10% í viðbót á þessu ári, sem að sjálfsögðu mun þýða verðhækkanir á innfluttum varningi sem sem aftur mun stuðla að samdrætti í neyslu.


mbl.is Endurútgáfa krónubréfa ólíkleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um húsnæði

Mörgum kemur á óvart að vísitala íbúðaverðs skuli hækka á höfuðborgarsvæðinu, miðað við þá snöggu kólnun sem hefur orðið á fasteignamarkaðinum, en í raun er þetta mjög eðlilegt.

Vísitalan mælir jú ekki annað en verðbreytingar á þeim eignum sem seljast - hún mælir ekki breytingar á seljanleika.  Hún sýnir ekki ástandið hjá þeim sem sitja uppi með eignir sem þeir geta ekki selt eins og staðan er í dag, enda á hún ekki að gera það.

Fasteignaverð var orðið óraunhæft hér á Íslandi - það var svipuð bóla hér og í mörgum öðrum löndum og þeir sem keyptu þegar verðið var sem hæst gerðu mistök, svo einfalt er það.  Þessi hópur er í þeirri stöðu að skulda jafnvel mun meira en sem nemur verðmæti eignanna, sem er erfitt fyrir marga að sætta sig við.

Það er veruleg tregða hjá mörgum gegn því að lækka verð á húsnæði - það sem sennilega mun gerast er að verðið haldist nokkurn veginn óbreytt næstu mánuðina, en lækki að raunvirði.  Fasteignamarkaðurinn verður ekki eðlilegur aftur fyrr en bólan er að fullu sprungin - spáin um 20% raunverðslækkun er hugsanlega ekki svo fjarri réttu lagi.

Á meðan seljast góðar eignir á góðum stöðum - kannski ekki jafn vel og áður, en þær seljast...og það heldur vísitölunni uppi.   


mbl.is Fjársterkir menn að kaupa húsnæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

deCODE og önnur penny-stock fyrirtæki

deCODE er ekki eina hátæknifyrirtækið sem hefur hrapað á hlutabréfamarkaðinum, en það sem margir vita ekki er hvers vegna $1 márkið er svona mikilvægt.

Ef kaupgengi (bid price) fyrirtækis er fyrir neðan $1 30 viðskiptadaga í röð, hefst afskráningarferli af Nasdaq sjálfkrafa.  Fyrirtækinu eru gefnir 180 dagar til að koma sínum málum í betra lag, en takist það ekki er það afskráð.

Einfaldasta leiðin til að koma hlutabréfaverðinu upp yfir $1 er að gera svokallað "reverse split", sem þýðir í raun að hlutabréfunum er skipt út fyrir færri, en verðmeiri bréf - heildarverðmæti bréfanna breytist ekki.  Í stað þess að eiga t.d. 1000 hluti, metna á $0.7 gætu menn haft 100 hluti, metna á $7.

Slíkt "reverse split" er hins vegar litið ákaflega neikvæðum augum - túlkað sem neyðarúrræði til að halda fyrirtækinu á markaði og vísbending um að stjórnendur sjái ekki önnur ráð til að auka verðmæti bréfanna.

Önnur ráð felast í því að gera fyrirtækið áhugaverðara með því að bæta afkomu þess, eða með því að fá inn fjármagn á einhvern annan hátt.  Hvort tveggja gæti hins vegar reynst nokkuð erfitt eins og markaðsaðstæður eru.

Takist ekkert af þessu er fyrirtækið afskráð af meginlista Nasdaq - orðið svokallað "penny stock" fyrirtæki.  Margir fjárfestingasjóðir mega ekki eiga hluti í slíkum fyrirtækjum og neyðast þá til að selja bréfin, sem að sjálfsögðu sendir verð þeirra enn lægra.  Það er áfram unnt að eiga viðskipti með bréf "penny stock" fyrirtækja, en það er erfiðara og einnig er erfiðara fyrir slík fyrirtæki að afla sér fjármagns.

Púkinn vonast til að deCODE nái að rífa sig upp úr öldudalnum, en til þess er nauðsynlegt að afkoma fyrirtækisins batni eða að góðar fréttir komi frá þeim á næstunni.  Það síðarnefnda er reyndar nokkuð líklegt, þannig að fyrir þá sem fjárfesta í deCODE akkúrat núna gæti verið möguleiki á skjótfengnum gróða á næstunni.  Hvort deCODE er góð fjárfesting til langframa verður tíminn að leiða í ljós.


mbl.is Gengi deCODE niður fyrir 1 dal á hlut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú ert rekin(n)! (en þú mátt sækja um vinnuna þína aftur á lægri launum)

Púkinn frétti af einu sæmilega stóru fyrirtæki sem starfar í grein þar sem allnokkur samdráttur er um þessar mundir.  Launakostnaður er nokkuð hár útgjaldaliður hjá fyrirtækinu, þannig að á þeim bæ var gripið til þess ráðs að segja öllum upp sem voru með 350.000 eða meira í mánaðarlaun.

Þeim er að sjálfsögðu velkomið að sækja um störfin sín aftur, en launin sem verða í boði lækka allnokkuð.  Flestir munu væntanlega gera slíkt - enda kannski ekki mörg önnur störf í viðkomandi grein í boði um þessar mundir.

Það að þurfa að taka á sig hreina launalækkun eða kjaraskerðingu er nokkuð sem Íslendingar eru ekki vanir - geri fólk yfirhöfuð einhverjar fjárhagsáætlanir, þá miðast það við hækkandi laun - eða í versta falli að launahækkanir haldi í við verðlagshækkanir.   Það gerir enginn ráð fyrir að lækka í launum á miðjum starfsaldri.

En, svona er Ísland í dag. 


Vilja bankarnir veikja krónuna?

Það eru hugsanlega einhverjir sem furða sig á því af hverju krónan sé að veikjast.  Hún styrktist jú nokkuð hressilega eftir að fréttir bárust af því samkomulagi Seðlabanka Íslands við seðlabanka Norðurlanda, en sú hækkun er nú gengin til baka.

Hvers vegna?

Púkinn vill minna á eina einfalda staðreynd - eða tvær.

  • Bankar eru ekki góðgerðastofnanir.  Bankar taka ekki ákvarðanir með hagsmuni almennings í huga, heldur með sína eigin hagsmuni.
  • Bankar eru með verulega jákvæða gjaldeyrisstöðu.  Það er þeim því í hag að krónan veikist.  Við erum ekki að tala um neina smáaura hér, heldur tugmilljarða.  Það munar um minna á þessum síðustu tímum.

Það eru að sjálfsögðu ýmsar aðrar ástæður fyrir veikingu krónunnar.  Hrun jöklabréfamarkaðarins og viðvarandi viðskiptahalli eru þar efst á blaði, og það má rökstyðja að frekari veiking krónunnar sé ekki aðeins óhjákvæmileg, heldur beinlínis nauðsynleg.  Púkinn yrði til dæmis ekkert sérstaklega hissa þótt evran stæði í 130 kr í lok sumars.

Tól Seðlabankans eru frekar bitlaus, ríkisstjórnin mun fátt aðhafast af viti og bankarnir hafa hag af því að krónan veikist enn frekar.   Er í alvöru einhver hissa á þróuninni?


mbl.is Krónan veiktist um 0,95% í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samdráttur, atvinnuleysi, niðurskurður, gengisfall

Yfirstandandi samdráttarskeið kemur misilla niður á fólki, en þeir sem verða harðast úti eru ekki bara fyrrverandi "auðmenn" sem neyðast nú  til að losa sig við einkaþoturnar.  Nei, ástandið getur komið harkalega niður á ungu fólki með litla menntun og litla starfsreynslu.   Einhverjir í þessum hópi munu kynnast atvinnuleysi af eigin raun - nokkuð sem Íslendingar hafa varla þekkt síðustu áratugina.

Nýútskrifaðir viðskiptafræðingar sem áttu von á því að geta gengið inn í tryggar, vel launaðar stöður hjá fjármálafyrirtækjunum hafa sumir rekist á að draumastörfin þeirra eru ekki lengur til.

Þau störf sem eru í boði fyrir ungt fólk eru færri og verr launuð en þau voru fyrir ári síðan - á samdráttartímabilum geta fyrirtæki leyft sér að vera vandlátari - geta valið úr umsækjendum í stað þess að verða að taka hvað sem býðst.  Fyrirtæki geta líka leyft sér að bjóða lægri laun og minni fríðindi.

Sumir í þessum hóp hafa stofnað til skulda - keypt sér bíla á gengisbundnum lánum, eða jafnvel keypt sér íbúð - allt miðað við væntingar um góð laun - væntingar sem nú bregðast.


mbl.is Samdrætti spáð í einkaneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíuhreinsunarstöð - nei takk!

Púkanum finnst Arnarfjörður fallegur staður - sjáið bara myndina sem fylgir þessari grein.  Þessi gullna sandströnd er ekki við Miðjarðarhafið - nei, hún er tekin í Arnarfirði síðasta sumar.

Púkinn var alvarlega að íhuga að kaupa jörð í Arnarfirði, en einhver annar varð á undan - og reyndar er Púkinn hálffeginn að ekkert varð af kaupunum, því nú virðist sem til standi að eyðileggja Arnarfjörð með því að reisa þar olíuhreinsunarstöð.

Já, ég segi eyðileggja

Arnarfjörður verður ekki lengur friðsæl náttúruparadís, ef af byggingu olíuhreinsunarstöðvarinnar verður.  Hver vill nærveru við risavaxna, mengandi verksmiðju?

Það eru fáar fyrirhugaðar framkvæmdir sem Púkinn er jafn andvígur og þessi olíuhreinsunarstöð og kemur þar ýmislegt til.

  • Í fyrsta lagi er mengun af svona starfsemi - loftmengun, möguleg frárennslismengun og sjónmengun.  Það má vel vera að íbúum Bíldudals hugnist að fá mengandi stóriðju í næsta nágrenni við sig, en Púkinn er ekki viss um að þeir hafi hugsað dæmið til enda.
  • Í öðru lagi er hætta af mengun vegna stöðugra ferða stórra olíuflutningaskipa.  Veður eru nú ekki alltaf góð á þessum slóðum og aukin umferð olíuflutningaskipa felur í sér aukna hættu á umhverfisslysum.
  • Starfsemi þessarar stöðvar getur með engu móti rúmast innan skuldbindinga Íslendinga samkvæmt Kyoto sáttmálanum.  Forsvarsmenn fyrirtækisins segja það engu máli skipta, því hún fari hvort eð er ekki af stað fyrr en eftir að Kyoto rennur út.  Slíkt viðhorf finnst Púkanum á engan hátt réttlætanlegt.
  • Púkinn nýtur þess að ferðast um Vestfirði, stóriðjulausa landsfjórðunginn, en það er ljóst að ef af þessari framkvæmd verður mun Púkinn taka á sig stóran krók framhjá Bíldudal í framtíðinni.

Púkinn veltir líka fyrir sér hver sé raunverulegur ávinningur af því að reisa svona stöð á Íslandi.  Það eru þegar nægjanlega margar svona stöðvar í heiminum til að vinna þá olíu sem er dælt upp úr jörðinni - og ef eitthvað er, þá fara olíubirgðir heimsins minnkandi, ekki vaxandi.  Hverjir græða á því að setja svona stöð niður á Íslandi?  Eru það aðilar sem ekki fá að starfrækja svona stöðvar erlendis, þar sem fólk er búið að fá nóg af menguninni sem þeim fylgir, eða sér að þær rúmast ekki heldur þar innan Kyoto samkomulagsins?

Það er rætt um að svona stöð muni geta skapað 500-700 störf.   Það munar vissulega um slíkt, en Púkanum er spurn hvort 500-700 manns finnist á svæðinu sem vilji vinna á svona stað, eða hvort þurfi að flytja inn starfsmenn.  Ef raunin verður sú að flestir starfsmennirnir verði frá Austur-Evrópu, er spurning hver raunávinningurinn fyrir Bíldudal sé, svona til lengri tíma litið.

Erlendis er frekar verið að leggja niður olíuhreinsunarstöðvar en að byggja nýjar.  Viljum við virkilega setja upp mengandi verksmiðjur hér, sem aðrir vilja ekki hafa?

Hvers vegna reyna menn ekki að byggja upp greinar sem einhver framtíð er í - mengunarlaus fyrirtæki sem krefjast menntaðra starfsmanna - ekki mengandi stóriðju sem er holað niður í fallegum firði af því að aðrir vilja ekki hafa svona óþverra í túnfætinum hjá sér.  

Hvað um það - Púkinn ætti að ná að skreppa til Arnarfjarðar að leyfa hundinum aftur að leika sér á sandströndinni áður en þessar hugmyndir verða að veruleika.


Þarf krónan að falla meira?

Fréttin um mjög hressilegan viðskiptahalla á fyrsta ársfjórðungi vekur upp spurninguna um hvort frekara fall krónunnar sé yfirvorandi.

Það er unnt að viðhalda háu gengi þrátt fyrir viðskiptahalla ef fjármagn streymir inn í hagkerfið, en það var raunin meðan útgáfa jöklabréfanna stóð sem hæst, en af ýmsum ástæðum eru þau bréf ekki eins eftirsóknarverð núna, þannig að þau munu tæplega styðja við krónuna á næstunni.

Púkinn fékk nýlega í hendur spá um gengisþróun íslensku krónunnar gagnvart evrunni, en þar var því spáð að gengi hennar myndi ná tímabundnu jafnvægi í 115 kr/evra en síðan myndi hún hrynja aftur og fara í 130 kr/evra.

Sjáum til hvort sú spá reynist rétt.

Nú, ef einhverjum finnst þessi spá vera svartsýn, þá vill Púkinn benda á þetta blogg þar sem því er spáð að hagkerfi Bandaríkjanna og alls heimsins muni hrynja.


mbl.is Halli á vöruskiptum 32 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar vilja ekki vita í hvað peningarnir þeirra fara

pie_chart_exampleEinu sinni skrifaði Púkinn heimilisbókhaldsforrit. Þetta var í kringum 1990, þegar tölvuvæðing íslenskra heimila var að hefjast og rök sumra fyrir því að þeir þyrftu tölvu voru meðal annars sú að þannig væri hægt fylgjast betur með fjármálum heimilisins.

Þetta forrit "floppaði" gersamlega.

Púkinn vill nú ekki viðurkenna að það hafi verið vegna þess að forritið var lélegt - þá hefðu menn bara fengið sér sambærileg erlend forrit í staðinn, en sú var ekki raunin.

Skýringin var ekki heldur sú að markaðssetning forritsins væri í ólagi - forritið var markaðssett á sama hátt og önnur forrit Púkans (Púki, Espólín og Lykla-Pétur) á þeim tíma, sem voru þá mest seldu íslensku forritin á heimilismarkaði.

Nei, Púkinn komst að þeirri niðurstöðu að í raun vildu Íslendingar upp til hópa bara ekki vita í hvað peningarnir þeirra færu. Agaleysi í fjármálum er nefnilega ekki bara útbreitt - það er hreinn þjóðarsiður.  Það liggur við að þeir þyki skrýtnir sem hafa sín fjármál á hreinu og vita í hvað hver króna fer - vita hver útgjöld þeirra verða næstu mánuðina, geyma allar kvittanir, versla þar sem hagkvæmast er, hafa varasjóð til að mæta óvæntum útgjöldum og eyða ekki umfram tekjur.

Það eru til undantekningar, en Íslendingar kunna almennt ekki með peninga að fara.

Það er ekki hægt að kenna skólakerfinu um þetta - segja bara að það verði að taka upp fjármálafræðslu - það læra börnin sem fyrir þeim er haft, ekki satt?  Ef börn alast upp við þann hugsanahátt á heimilum að það sé engin þörf á að fylgjast með því í hvað peningarnir fara, þá skiptir engu máli hvort fjármálafræðsla er í boði í skólum eða ekki.


mbl.is „Alvarlegt hve margt ungt fólk er illa statt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vextir af risaláni - fórnarkostnaður vegna krónunnar

Verði af því að ríkissjóður taki þetta risalán, þá er nú ljóst að það verður ekki gefins- eitthvað þarf að borga í vexti af því og Púkinn vill líta á slíkan vaxtakostnað sem hluta af kostnaðinum við að hafa krónuna.

Nú er að vísu ekki ljóst hvort þessi heimild verður nýtt eða á hvaða vöxtum slíkt lán fengist, en það sakar ekki að velta þessu fyrir sér.

Á endanum yrði svona lán greitt til baka, þannig að gjaldeyririnn myndi flæða úr landi, en það má vera að þetta styrki tiltrú manna á íslensku krónuna um stundarsakir - sem er það sem Púkinn er hræddastur um.

Frá sjónarhóli Púkans er gengi krónunnar nokkuð nærri réttu lagi um þessar mundir.   Sterkari króna myndi koma innflutningsaðilum vel og (að hluta til almenningi), en Púkinn efast um að sum útflutningsfyrirtæki þoli mikla styrkingu krónunnar.

Ef krónan styrkist vegna þessara aðgerða og aðgengi fyrirtækja að fjármagni verður áfram takmarkað, er hætt við að eitthvað verði um uppsagnir hjá þeim fyrirtækjum - nú eða þá að fyrirtækin flytja stærri hluta starfseminnar úr landi, þar sem launakostnaður er viðráðanlegri og meiri stöðugleiki ríkir.

Það er væntanlega það sem stjórnmálamennirnir vilja.


mbl.is Heimild til að taka 500 milljarða lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband