Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Þriðjudagur, 7. október 2008
Vandamál erlendra starfsmanna íslenskra fyrirtækja
Mörg íslensk fyrirtæki hafa erlenda starfsmenn og hvort sem þeir fá borgað í krónum eða evrum vilja margir þeirra senda peninga úr landi og heim til sín eða ættingja sinna.
Nú í dag bregður hins vegar svo við að settar eru hömlur á þá fjármagnsflutninga. Ég vona sannarlega að hér sé einungis um tímabundnar ráðstafanir vegna atburða gærdagsins, en standi þetta ástand lengur en nokkra daga er ljóst hvað mun gerast: Öll þau fyrirtæki sem hafa tekjur í erlendum gjaldeyri munu hætta að flytja hann til Íslands, en leyfa honum að sitja á sæmilega öruggum reikningum erlendis og borga launin þaðan.
Þetta mun gera gjaldeyrisstöðuna hérlendis enn verri en áður. Já - enn eitt dæmið um "pissa-í-skóinn-sinn" efnahagsstjórnina á Íslandi.
Gengið getur verið frábrugðið á milli banka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 7. október 2008
Eru íslenskir námsmenn erlendis í útrýmingarhættu?
Gengisfall krónunnar undanfarið er mikið áfall fyrir íslenska námsmenn erlendis, enda eru námslán þeirra ekki bundin gjaldmiðli þess lands sem þeir stunda nám í.
Leiðrétting - jú, lánin munu víst vera bundin gjaldmiðlinum, en ekki á "opinberu" gengi Seðlabankans, heldur eru menn að fá gjaldeyrinn sinn á því gengi sem kreditkortafyrirtækjunum þóknast, þannig að vandamálið er til staðar - bara aðeins öðruvísi en Púkinn hélt...það er langt síðan Púkinn var blankur námsmaður.
Ef hér á Íslandi hefði verið "alvöru" efnahagsstjórn, hefðu námslánin átt að vera gengistengd við "opinbert" gengi, þannig að námsmenn þyrftu ekki að bíða upp á von og óvon eftir fréttum af gengi krónunnar til að sjá hvort þeir hafi efni á salti í grautinn næsta mánuðinn.
Ef ekkert er að gert, má búast við að einhverjir hrökklist úr námi - einstaklingar sem þjóðin hefði þurft á að halda, svona til lengri tíma litið, ef við viljum halda þekkingar- og menntunarstigi hér á landi viðunandi.
Púkinn hefur hins vegar fulla trú á því að í samræmi við þá stefnu sína að taka rangar ákvarðanir (eða réttar ákvarðanir á röngum tíma), muni stjórnvöld ákveða að gera ekki neitt.
Evran dýr hjá kortafyrirtækjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 7. október 2008
Leitað að sökudólgum
Yfirstandandi atburðir koma Púkanum svosem ekkert á óvart - síðustu tvö árin hefur verið ljóst að ástandið væri óstöðugt og að skuldadögum myndi koma fyrr eða síðar.
Púkinn þarf hins vegar ekki að svipast um eftir sökudólgum. Þeir eru auðfundnir.
Alþingismenn og ráðherrar
Efstir á blaði Púkans eru þeir ráðamenn sem hafa tekið arfavitlausar ákvarðanir undanfarin ár. Þeir sem hafa lesið skrif Púkans ættu að hafa séð þessa gagnrýni, en meðal þess sem um ræðir er sú ákvörðun að leggja niður Þjóðhagsstofnun og setning rangra laga um markmið Seðlabankans.
Púkinn vill endurtaka það sem hann sagði áður (sjá þessa grein):
Ráðamenn munu halda áfram að taka rangar ákvarðanir, eða taka réttar ákvarðanir á röngum tíma. Þeir munu þakka sér allt sem fer til betri vegar, en kenna óviðráðanlegum eða óvæntum ytri aðstæðum um allt sem aflaga fer.
Púkanum finnst ekki mikið mark takandi á ráðamönnum sem segja að núverandi ástand komi þeim á óvart. Fólk með vit í kollinum sem fylgdist með því sem var á seyði, sá að hverju stefndi og margir gerðu sínar ráðstafanir í samræmi við það.
Hvað varðar þau afdrifaríku mistök sem gerð voru varðandi Seðlabankann vill Púkinn vísa á þessa grein og sömuleiðis þessa.
Það má rökræða hvort það hafi líka verið mistök að einkavæða bankana - Púkinn er nú reyndar ekki þeirrar skoðunar, en það ferli hefði mátt vera öðruvísi og eftirlitið meira.
Seðlabankinn
Púkinn er þeirrar skoðunar að Seðlabankinn hafi brugðist þjóðinni, með því að beita ekki öllum þeim verkfærum sem hann hafði til að hafa stjórn á ástandinu áður en allt var komið í óefni.
Það sem er efsta á blaði er að Seðlabankinn hefði getað sett hömlur á útlánagleði bankanna með því að hækka bindiskyldu þeirra. Það hefði haldið aftur af styrkingu krónunnar, hefði dregið úr neyslufylliríinu og hefði dregið úr þörf bankanna að slá lán erlendis.
Vandamálið er bara það að hefði Seðlabankinn tekið þessar (réttu) ákvarðanir hefði verið ráðist að honum úr öllum áttum. ASÍ (og fleiri) hefðu sakað hann um að koma í veg fyrir að Íslendingar gætu eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum, með því að draga úr möguleikum bankanna til að veita húsnæðislán og SA (og fleiri) hefðu sakað um að reyna að hefta útrás íslenskra fyrirtækja.
Nei, það er ekki auðvelt að taka réttar en óvinsælar ákvarðanir og Seðlabankinn var ekki fær um það.
Bankarnir
Hluti af sökinni liggur að sjálfsögðu hjá bönkunum sjálfum - þeir sköpuðu sér gífurlega áhættu með misræmi í löngum og stuttum lánum. Tóku skammtímalán og veittu langtímalán. Þetta virkar meðan menn geta rúllað boltanum á undan sér, en það eru margir mánuðir síðan hættumerki tóku að sjást. Sumir hluthafa bankanna gerðu sér fyllilega grein fyrir þessu og komu sér út í tíma, en aðrir sitja í súpunni.
Gráðugir, skammsýnir Íslendingar
Enn einn hluti af sökinni liggur hjá þeim stóra hluta þjóðarinnar sem tók þátt í vitleysunni. Fólk sem fagnaði þegar gengi krónunnar var allt, allt of sterkt og eyddi langt um efni fram - keypti sér húsnæði, pallbíla og risaplasmaskjái eins og peningar væru eitthvað sem spryttu upp eins sveppir í september.
Velkomin til raunveruleikans - partýið er búið og nú taka timburmennirnir við.Lokað fyrir viðskipti áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 23. september 2008
Evran inn um bakdyrnar...eða hvað?
Púkinn er að velta fyrir sér hvort ASÍ eða einhverjir aðrir muni reyna að koma evrunni inn með "bakdyraleiðinni" á næstunni.
Með því á ég við eftirfarandi leið:
- Krónunni væri haldið áfram sem opinberum gjaldmiðli og gengi hennar látið fljóta gegn evru eins og verið hefur. Evrur eru ekki notaðar sem almennur gjaldmiðill á Íslandi (Þetta er til að komast hjá þeim kröfum sem gerðar eru til þess að mega formlega taka upp evruna)
- Öll laun væru gengistengd - ekki bara hjá einstaka starfsmönnum útflutningsfyrirtækja. Launþegar myndu áfram fá útborgað í íslenskum krónum, en fjöldi króna myndi ráðast af gengi evrunnar á hverjum tíma.
- Í stað vísitölutryggðra reikninga myndi fólk geyma eignir sínar í bönkunum í gengistryggðum reikningum.
- Allar skuldir einstaklinga og fyrirtækja væru gengisbundnar.
Þeir sem mæla með þessari leið segja að með henni sé allri gengistengdri óvissu um afkomu heimilanna eytt. Skuldirnar sveiflast að vísu upp og niður, en eignirnar og tekjurnar gera það líka.
Málið er hins vegar ekki svona einfalt, en svo virðist sem þeir sem mæla með bakdyraleiðinni hugsi málið aldrei til enda.
Þetta myndi draga stórlega úr eftirspurn eftir krónum, með tilheyrandi gengishrapi krónunnar og óðaverðbólgu. Áhrifin yrðu að vísu milduð af því að gengisfallið myndi þýða að fólk fengi sjálfkrafa fleiri krónur í vasann, en þeir sem væru nógu vitlausir til að eiga krónur myndu sjá þær brenna upp.
Útflutningsfyrirtæki (og aðrir sem hafa tekjur í raunverulegum "hörðum" gjaldeyri væru í góðum málum, en innflutningsfyrirtæki og hið opinbera væru í vandræðum.
Allar forsendur fyrir fjárlagagerð ríkisins myndu hrynja, nema ef fjárlögin væru í raun gerð í evrum -- en það myndi jafngilda algeru vantrausti ríkisins á krónunni - sem myndi gera hana að verðlausum gjaldmiðli.
Það eru allmargir gallar til viðbótar, en niðurstaðan er einföld - "bakdyraleiðin" gengur ekki.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 12. september 2008
Krónan - og þriðja leiðin.
Því er stundum haldið fram að það séu aðeins tvær raunhæfar leiðir í gjaldeyrismálum íslendinga, en Púkinn vill hins vegar halda því fram að í boði sé þriðja leiðin, sem ekki aðeins sé raunhæf, heldur jafnvel besti valkosturinn.
Fyrrnefndar tvær leiðir eru annars vegar að halda í krónuna með öllum hennar kostum og göllum og hins vegar að ganga í ESB og stefna að því að taka upp evruna í framhaldi af því. Aðrar leiðir eins og tvíhliða samstarf séu einfaldlega ekki raunhæfir kostir.
Þriðja leiðin er hins vegar í boði.
Sú leið er einfaldlega að stefna að því að uppfylla þær fimm kröfur sem eru gerðar til ríkja sem vilja taka upp evruna, en halda áfram í krónuna. Sem hluta af þeirri lausn þarf hins vegar að breyta lögum um markmið Seðlabanka íslands, þannig að í stað þess að hafa aðeins verðbólgumarkmið, skuli hann hafa þau þrjú markmið fyrst eru talin hér á eftir. Hin tvö markmiðin snúa að hinu opinbera, en á þeim bæ verða menn að viðurkenna að Seðlabankinn getur ekki sinnt sínu hlutverki ef hið opinbera vinnur beinlínis gegn honum.
Hver eru þá þessi fimm markmið?
- Verðstöðugleiki (verðbólga minni en 1.5% hærri en í þeim 3 ESB löndum þar sem hún er lægst)
- Vaxtamunur - vextir ekki nema 2 prósentustigum hærri en í ofangreindum 3 löndum.
- Stöðugleiki í gengismálum - gjaldmiðillinn má ekki sveiflast nema 15% upp og niður.
Hin tvö markmiðin snúa að hinu opinbera og varða fjárlagahalla (innan við 3% af VLF) og skuldir hins opinbera (innan við 60% af VLF)
Seðlabankinn hafði áður einungis gengisstöðugleika sem markmið, en nú hefur hann einungis verðstöðugleika sem markmið - nokkuð sem vonandi flestir eru farnir að sjá að gengur ekki upp. Markmið Seðlabankans verður að vera að viðhalda almennum stöðugleika og til þess dugar ekki að einblína á eitt markmið.
Ef við værum í ESB og uppfylltum ofanfarandi skilyrði, þá mættum við taka upp evruna, en Púkinn vill leyfa sér að fullyrða eftirfarandi:
Ef við uppfylltum skilyrði fyrir upptöku evru myndum við ekki þurfa á henni að halda.
Vilja ekki krónuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Föstudagur, 11. júlí 2008
Húrra, húrra, krónan fellur!
Púkinn fylgir ekki alveg straumnum, því hann fagnar gengisfalli krónunnar - eða, réttara sagt, leiðréttingu krónunnar, því frá sjónarhóli Púkans er gengi krónunnar eðlilegt um þessar mundir, eftir að hafa verið allt, allt of hátt á síðasta ári.
Nú er fólk ekki lengur að sýna þá heimsku að taka myntkörfulán til að fjármagna kaup á risapallbílum eða öðrum óþarfa, viðskiptajöfnuðurinn er að komast í lag, og loksins er orðið lífvænlegt hér fyrir raunveruleg útflutningsfyrirtæki.
Púkinn er þar ekki að tala um álfyrirtækin, sem byggja á innflutningi á hráefnum, nota sér niðurgreidda raforku og flytja á endanum hagnaðinn út til erlendra eigenda. Púkinn er heldur ekki að tala um Baug, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands. (e.t.v. fyrir að flytja út peninga, eða hvað).
Nei, Púkinn er að tala um raunveruleg útflutningsfyrirtæki, hvort sem þau flytja út fisk, hugvit eða eitthvað annað þar á milli. Fyrirtæki sem hafa tekjur í evrum og dollurum, en launakostnað í íslenskum krónum - fyrirtæki sem koma með gjaldeyrinn inn í landið.
Síðasta ár ver erfitt þessum fyrirtækjum en nú, með gengisfalli krónunnar, eru þau loksins orðin samkeppnishæf - launakostnaður hérlendis er sambærilegur við það sem gerist erlendis, þannig að þessi fyrirtæki þurfa ekki lengur að flytja störfin út landi til að lifa af.
Húrra fyrir krónunni!
Krónan veiktist um 2,2% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 7. júlí 2008
"...fullorðið fólk með meðalgreind..."
Eftirfarandi athugasemd barst við síðustu grein Púkans:
Á ekki fullorðið fólk með meðalgreind að geta sagt sér að það sé áhætta í því að skulda of mikið og einnig hitt að það kosti einfaldlega mikið að taka fé að láni.
Púkinn fór að velta fyrir sér hversu stór hluti þeirra sem er að lenda í vandræðum sé einmitt ekki í hópnum "fullorðið fólk með meðalgreind".
Mikið af ungu fólki hefur enga reynslu af öðru en góðæri - það hefur aldrei lent í raunverulegu gengisfalli, verðbólgu eða atvinnuleysi - er það nokkur furða að einhverjir úr þessum hópi kunni hreinlega ekki að fara með fé?
Og hvað með þá sem ekki ná meðalgreind? Það er jú helmingur þjóðarinnar.
Ég skal endurtaka þetta
Helmingur þjóðarinnar hefur greind undir meðaltali.
Er hægt að gera þær kröfur til allra í þeim hópi að þeir skilji áhættuna? Það er svosem ekki hægt að gera mikið í þessu - ekki er hægt að krefjast þess að fólk fari í greindarpróf áður en það fær að taka lán, en það er vel hugsanlegt að vandræði einhverra stafi einmitt af því að fólk skilur ekki áhættuna - skilur ekki hvað er t.d. varasamt við myntkörfulán.
Sunnudagur, 6. júlí 2008
Komið að skuldadögunum
Þegar allt stefnir í óefni leitar fólk að sökudólgi. Sumir kenna bönkum um - þeir hvöttu fólk til að taka lán til að fjármagna kaup á megnasta óþarfa, ýttu gengistengdum lánum að fólki þegar ljóst var að krónan var allt, allt of hátt skráð og stuðluðu að því að þrýsta húsnæðisverði upp úr öllu.
Aðrir kenna fjármálaspekúlöntum um - með fjárfestingum í jöklabréfum og öðrum tugmilljarðaviðskiptum mögnuðu þeir upp sveiflur í hagkerfinu.
Enn aðrir kenna þjóðinni sjálfri um - of margir hegðuðu sér eins og þeir væru að fá peninga gefins - hunsuðu varnaðarorð um stöðu krónunnar og fasteignabóluna. - slógu baralán og eyddu og eyddu.
Sannleikurinn er einhvers staðar þarna á milli - það er enginn einn sökudólgur.
Eiga erfitt með að borga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 3. júlí 2008
Er Seðlabankinn verri en gagnslaus?
Eftir að hafa skoðað málið er Púkinn þeirrar skoðunar að hér á Íslandi sé í gangi "pissa-í-skóinn-sinn" efnahagsstjórn.
Púkinn hefur oft lýst þeirri skoðun sinni að aðgerðir Seðlabankans séu rangar, eða a.m.k. rangt tímasettar. Það er reyndar ekki við bankann einan að sakast - margar af ákvörðunum stjórnvalda eru sama marki brenndar - þjóna skammtímahagsmunum en eru gagnslausar eða beinlínis skaðlegar, svona til lengri tíma litið.
Skoðum til dæmis einhverja heimskulegustu ákvörðun undanfarinna ára - þegar ákveðið var að hækka lánahlutfall Íbúðalánasjóðs.
Jó, sem skammtímalausn leit þetta vel út - með því að lána stærri hlutakaupverðsins gætu fleiri eignast sína eigin íbúð....eða hvað?
Raunverulegt verðmæti þeirra tekna sem fólk aflar sér eykst ekki við þessa aðgerð - það eina sem gerist er að meiri peningar eru settir í umferð - fleiri krónur að keppa umtakmörkuð gæði. Að sjálfsögðu leiddi þetta til hækkunar á húsnæðisverði. Húsnæðisverð mun að sjálfsögðu ná jafnvægi á endanum - það þarf bara hressilega raunlækkun til, sem mun á endanum leiða til þess að fjöldi fólks skuldar meira í íbúðunum sínum en sem nemur mögulegu söluverði þeirra. Þangað til þessari stöðu er náð, helst íbúðaverð hins vegar enn hátt, þannig að erfiðara verður fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð - já, þegar upp er staðið verður þetta hinn endanlegi afrakstur hækkunar lánahlutfallsins.
Þeir sem keyptu íbúðir á þeim tíma sem bólan var í hámarki geta sjálfum sér um kennt - það voru margir sem vöruðu við ástandinu.
Þetta hækkaða húsnæðisverð var túlkað af Seðlabankanum sem verðbólga sem yrði að berjast gegn. Púkinn lítur á það sem grundvallarmistök, enda hefur það sýnt sig að aðgerðir Seðlabankans (vaxtahækkanirnar) voru gjörsamlega áhrifalausar og gerðu í raun ástandið bara verra.
Háu vextirnir gerðu vaxtaskiptasamninga og útgáfu jöklabréfanna að áhugaverðum kosti, sem þýddi umtalsvert streymi gjaldeyris inn í landið.
Ef hér hefði verið alvöru Seðlabanki, myndi hann hafa notað tækifærið og styrkt gjaldeyrisvarasjóðinn á þessum tímapunkti, en nei...það var ekki gert, með þeim afleiðingum að gengið fór bara hækkandi og hækkandi. Útflutningsfyrirtækin voru hrakin úr landi, eða neydd til að draga saman seglin, en þjóðin fór á eyðslufyllerí - flatskjáir, pallbílar og einkaþyrlur streymdu inn í landið.
Gerði Seðlabankinn eitthvað til að sporna gegn þessari þróun? Hann hefði getað haldið gengi krónunnar eðlilegu með því að auka gjaldeyrisvarasjóðinn, eða sett hömlur á bankana með því að auka bindiskyldu þeirra, en nei ... bankinn gerði ekkert nema að hækka vextina meir og meir ... gagnslaus og jafnvel skaðleg aðgerð.
Það er þannig með alvarleg fyllirí að þeim fylgja timburmenn, og þeim hefur þjóðin fengið að kenna á núna þegar spilaborgin hrundi.
Gengi krónunnar er loks orðið eðlilegt og jöfnuður er að nást milli útflutnings og innflutnings, en það hefur hægst á hjólum atvinnulífsins - a.m.k í mörgum greinum. Sú kólnun er óhjákvæmileg, jafnvel nauðsynleg, en það er líka ljóst að það getur tekið tíma að koma hlutum af stað aftur. Sú ákvörðun Seðlabankans að gera ekki neitt í bili bendir ekki til þess að neinn viðsnúningur verði næsta árið.
Stýrivaxtalækkun frestast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 18. júní 2008
Fer eldsneytislíterinn í 200 kr. á árinu?
Mörgum finnst sjálfsagt stutt síðan eldsneytislíterinn skreið í 100 kr., en nú sjá menn fram á að hann fari í 200 kr. á næstunni.
Eða hvað?
Eins og allir vita ákvarðast eldsneytisverð af nokkrum þáttum - olíuverði í dollurum, gengi krónunnar gegn dollara, álagningu olíufyrirtækja, en síðast en ekki síst, álagningu ríkisins.
Nú er Púkinn ekki að segja að ríkið eigi að hlaupa til og lækka álögur á eldsneyti - Púkanum finnst það af ýmsum ástæðum ekki endilega vera réttasta leiðin, en í samræmi við þá skoðun Púkans að íslensk stjórnvöld grípi ýmist til rangra aðgerða, eða grípi til réttra aðgerða á röngum tíma, þá kæmi það Púkanum ekki svo mikið á óvart þótt tilkynnt yrði um einhverja tímabundna lækkun álagningar á næstunni.
Eða hvað?
Munum við kannski sjá eldsneytislítrann fara vel yfir 200 kr. eftir allt saman?
Eldsneytisverð hækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)