Kristalkúla Púkans

crystalballstocksUm miðjan janúar sagði kristalkúla Púkans: "Fram til páska gætu komið allmargir dagar þar sem gengið sveiflast upp eða niður um nokkur prósent, en einnig er möguleiki á einni stórri dýfu til viðbótar." (sjá greinina hér)  Púkinn vill láta öðrum eftir að meta hversu vel sú spá gekk eftir, en þar sem hún náði ekki nema fram til páska er kominn tími á nýja spá.

Og hvað segir kristalkúlan  nú?

Almennt

Ráðamenn munu halda áfram að taka rangar ákvarðanir, eða taka réttar ákvarðanir á röngum tíma.  Þeir munu þakka sér allt sem fer til betri vegar, en kenna óviðráðanlegum eða óvæntum ytri aðstæðum um allt sem aflaga fer.

Stjórnvöld með vit í kollinum myndu afnema stimpilgjöldin nú strax, til að koma í veg fyrir frost og alvarlegt verðfall á fasteignamarkaði og lækka eldsneytisgjald, a.m.k. sem nemur hækkun á virðisaukaskatti vegna hækkandi innkaupsverðs, þannig að ríkissjóður fái sömu krónutölu í vasann og áður, en sé ekki að græða á hækkandi olíuverði.  Púkinn efast hins vegar um að mikið vit sé í kollum íslenskra ráðamanna.

Ýmsir aðilar, svo sem byggingavöruverslanir og bílaumboð sem hafa hagnast vel á undanförnum misserum sjá nú fram á verulegan samdrátt í sölu og "hagræðing" verður væntanlega helsta umræðuefnið á neyðarfundum stjórnenda þeirra á næstunni.

Útflutningsfyrirtækin draga nú sum andann léttar.  Þau hafa mörg barist við allt of hátt gengi krónunnar undanfarið, sem hefur gengið nærri sumum þeirra, en svo framarlega sem þau hafa ekki þurft að taka erlend lán til að fjármagna sig ætti næstu 12 mánuðir að vera bærilegir - nú nema launahækkanir hérlendis éti upp allan ágóðann af gengisfalli krónunnar. 

Hlutabréfin

Kristalkúlan segir þokkalegar líkur á því að tímabundnum botni hafi verið náð núna um páskana, en í upphaflegu spánni sinni gerði Púkinn ráð fyrir að um þetta leyti yrði botninum náð fyrir árið.  Það má vera að það gangi eftir, en því miður er enn möguleiki á umtalsverðu falli til viðbótar, vegna óróa á erlendum mörkuðum - sérstaklega tengdum bankakerfinu.  Með öðrum orðum, það sem eftir lifir af þessu ári gerist annað af tvennu.  Annað hvort mun hlutabréfamarkaðurinn mjakast upp á við, þótt hann muni ekki ná þeim hæðum sem hann náði síðasta sumar eða markaðurinn gæti fallið um 20-30% viðbótar og það fall yrði leitt af bönkunum.

Gengið

Púkinn er þeirrar skoðunar að gengi krónunnar um þessar mundir sé nálægt því að vera "rétt" - kaupæði og viðskiptahalli Íslendinga á undanförnum mánuðum er merki um að gengið hafi verið allt of hátt.  Þjóðin hefur einfaldlega lifað um efni fram og máttlausar og rangar aðgerðir Seðlabankans hafa ekki gert það sem ætlast var til.

Já, mönnum svíður undan hækkandi verði og hækkandi höfuðstólum lána í erlendri mynt, en þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess sem á undan er gengið.  Púkinn ætlar hins vegar ekki að spá fyrir um gengisþróunina næstu mánuðina - krónan gæti styrkst um 15%, fallið um 30 % eða hvað sem er þess á milli.

Húsnæðismarkaðurinn

Húsnæðismarkaðurinn er ekki frosinn, en margir eiga von á lækkunum á fasteignaverði á næstunni og slíkar væntingar leiða til þess að fólk heldur að sér höndum, sem aftur leiðir til þess að þeir sem "verða" að selja neyðast til að lækka verðið.   Sennilega er raunhæft að gera ráð fyrir 10% verðlækkun á árinu að meðaltali - sem því miður mun þýða að margir (sér í lagi þeir sem tóku erlend lán) munu skulda meira í núsnæðinu sínu en sem nemur verðmæti þess.

--- 

Púkinn vill taka fram að hann er ekki fjármála- eða verðbréfaráðgjafi, hefur engin réttindi sem slíkur og ráðleggur engum að haga sínum fjárfestingum í samræmi við það sem hér segir.  Þetta er einungis til gamans gert og enginn ætti að taka þessa spá alvarlega, enda er Púkinn bara lítið skrýtið blátt fyrirbæri með stór eyru sem hefur ekkert vit á neinu. Púkinn vill að lokum taka fram að hann á engin hlutabréf sem eru skráð í íslensku kauphöllinni og hefur enga sérstaka hagsmuni af því hvernig þróunin verður.


mbl.is Mikil velta á skuldabréfamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kristalkúla segir þú, supernatural powers og alles ha ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 13:45

2 Smámynd: Karl Ólafsson

Sæll Púki,

viltu kannski líka setja fram spá um það hversu mikið af starfsfólki mun (f)losna frá íslensku bönkunum, t.d. á upplýsingatæknisviðinu?

Karl Ólafsson, 28.3.2008 kl. 14:06

3 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Upplýsingatæknideildirnar verða þær alsíðustu til að láta fólk fara, bæði hjá bönkum og annars staðar, það er gríðarleg vöntun á góðu tölvufólki...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 28.3.2008 kl. 18:43

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Púki, ég er ekki fjármálasérfræðingur...frekar en þú, en kristalkúla þin er góð!..:-)

Sérstaklega..."Stjórnvöld með vit í kollinum myndu afnema stimpilgjöldin nú strax, til að koma í veg fyrir frost og alvarlegt verðfall á fasteignamarkaði og lækka eldsneytisgjald, a.m.k. sem nemur hækkun á virðisaukaskatti vegna hækkandi innkaupsverðs, þannig að ríkissjóður fái sömu krónutölu í vasann og áður, en sé ekki að græða á hækkandi olíuverði.  Púkinn efast hins vegar um að mikið vit sé í kollum íslenskra ráðamanna. "

...síðan sé ég í minni "kristalkúlu" að allt hitt fer eftir þiunni kúlu, meira og minna! 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.3.2008 kl. 21:19

5 Smámynd: Sigurjón

Það er nefnilega það.  Ég er nokkuð sammála þessari spá...

Sigurjón, 30.3.2008 kl. 03:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband