Færsluflokkur: Löggæsla
Mánudagur, 24. október 2011
Of vægt tekið á ölvunarakstri
Púkinn auglýsir hér með eftir alþingismönnum (eða konum) sem þora að leggja fram frumvarp um verulega hertar refsingar við akstri undir áhrifum.
Það er ljóst að núverandi kerfi er ekki að virka, miðað við fjölda þeirra ökumanna sem eru teknir nánast daglega - já og sumir oftar en einu sinni á dag.
Sumir hafa verið sviptir ökuréttindum ævilangt en eru samt teknir aftur og aftur.
Hvað er til ráða?
Hér eru nokkrar tillögur:
1) Meðferð. Það mætti skikka þá sem eru teknir undir áhrifum í meðferð. Ef eina ráðið til að fólki skiljist að það á við vandamál að stríða er að vera sendir í meðferð á viðeigandi stofnun, þá verður bara svo að vera.
2) Kyrrsetning bifreiða. Púkinn er þeirrar skoðunar að sé einhver tekinn undir áhrifum, eigi skilyrðislaust að kyrrsetja bifreiðina um tíma - það myndi a.m.k. koma í veg fyrir að menn séu teknir oftar en einu sinni á dag á sömu bifreiðinni. Lögreglan hefur í dag heimild til að kyrrsetja eða leggja hald á bifreiðar, en það er ekki nóg - Púkinn vill sjá þeirri heimild breytt í skyldu.
3) Upptaka bifreiðar. Það má rökstyðja að bílar þeir sem um ræðir séu ekkert annað en tæki sem notuð eru til að fremja með afbrot. Púkans vegna mætti gera bílana upptæka og selja á uppboðum - fá þannig einhverjar krónur í kassann til að standa undir kostnaðinum við þær aðgerðir sem hér er lýst. Það þarf að vísu að hafa undantekningar þegar um bílþjófnað er að ræða og einnig þarf að huga að stöðu og ábyrgð bílasala sem lána bíla til aðila sem aka þeim síðan undir áhrifum. Það að fyrri eigendurnir verða áfram að borga af bílalánunum eftir að hafa misst bílana er að sjálfsögðu bagalegt fyrir viðkomandi, en það er nú einu sinni tilgangurinn.
4) Samfélagsþjónusta. Eitthvað af þessu liði mætti t.d. nota til skúringa á Grensásdeild og öðrum slíkum stöðum - hugsanlega átta einhverjir sig þá á mögulegurm afleiðingum svona hegðunar.
5) Fangelsisvist. Glæfraakstur undir áhrifum er að mati Púkans lítið annað en tilraun til manndráps. Refsingar ættu að vera í samræmi við það - ef það eina sem dugir til að vernda þjóðfélagið gegn viðkomandi er að henda þeim bak við lás og slá, þá verður svo að vera.
Púkinn vill benda á að hækkaðar sektir eru ekki á ofanfarandi lista, enda eru einhverjir stútanna væntanlega eignalausir aumingjar. Í þeim tilvikum sem þeir eiga eignir mætti þó beita hærri sektum, jafnvel í hlutfalli við tekjur viðkomandi - sekta menn um 5-10% árstekna til dæmis.
Ef ekkert verður gert munum við bara halda áfram að heyra sömu fréttirnar aftur og aftur, ásamt fréttum af dapurlegum dauðaslysum inn á milli.
Hvaða alþingismenn þora að gera eitthvað í þessu máli?
Margir ölvaðir og undir áhrifum vímuefna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 6. ágúst 2009
Harðari heimur - þarf að byggja nýtt fangelsi?
Púkinn vill fá nýtt fangelsi, enda búinn að fá nóg af því að glæpamenn af öllum stærðum og gerðum gangi um lausir vegna þess að ekki er hagt að loka þá inni vegna plássleysis.
Hér er ekki verið að vísa til hvítflibbaglæpamanna í bankakerfinu - þeir eru kapítuli útaf fyrir sig og efni í sérstaka bloggfærslu - nei, Púkinn er nú bara að ræða um ofbeldismenn, innbrotsþjófa, dópsmyglara og annan gamaldags ruslaralýð.
Sumt af þessu liði er útlendingar, sem koma hingað gagngert til að stunda afbrot. Hagkvæmast væri að koma þeim úr landi og láta þá sitja af sér dóminn í sínu heimalandi - en sé það ekki hægt, ætti að loka þá inni hér, án möguleika á að mynda nokkur viðskiptatengsl við íslenska aðila í fangelsinu.
Íslenskir smákrimmar eru sumir hverjir að eltast við pening til að fjármagna sína dópneyslu. Púkinn myndi vilja sjá betri meðferðarúrræði standa þeim til boða - en ef þau bregðast, þá er fátt annað að gera en að loka viðkomandi inni - ekki í refsingarskyni, eða vegna fælimáttar sem fangelsisvist ætti að hafa, heldur til þess eins að vernda þjóðfélagið gegn viðkomandi.
Fangelsispláss eru bara fullnýtt á Íslandi - það þarf nýtt fangelsi - sem að auki myndi skapa fjölda starfa í byggingariðnaðinum. Nei, þetta er ekki ókeypis - en er jafnvel ekki dýrara fyrir þjóðfélagið að gera ekkert?
Var ekki verið að segja að það þyrfti að skapa vinnu fyrir fólk í byggingariðnaði?
Tíu ára fangelsi í Papeyjarmálinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 9. mars 2009
Vítisenglar og útrásarvíkingar
Nú nýlega var landamæraeftirlit hert til að koma í veg fyrir komu meðlima Hells Angels til landsins.
Púkinn velti hins vegar fyrir sér hvaða skaða þessir menn gætu unnið íslensku þjóðfélag, samanborið við þann skaða sem aðrir bera ábyrgð á.
"Útrásarvíkingarnir" eru ofarlega á listanum, enda táknmyndir þeirrar græðgivæðingar sem hefur nú lagt þjóðfélagið á hliðina, en sökudólgarnir eru víðar, til dæmis þeir stjórnmálamenn sem bera ábyrgð á einkavæðingu bankann, gölluðum lögum um hlutverk Seðlabankann og sprungnu húsnæðisbólunni.
Sumir af fyrri stórum eigendum bankanna reyna nú að hvítþvo sig, þótt þjóðina gruni að þeir séu önnum kafnir við að flytja fé sitt úr einu skattaskjónu í annað.
Það liggur við að Púkanum finnist að landamæraeftirlitið hafi ekki beinst í vitlausa átt - í stað þess að hindra Hells Angels í að komast til landsins hefði átt að hindra þá sem bera ábygð á hruninu í að komast úr landi. Vélhjólaglæpagengin eru hrein englabörn í samanburði.
Auknar líkur á þjóðargjaldþroti" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)