Færsluflokkur: Samgöngur
Sunnudagur, 14. nóvember 2010
Púkinn vill rafbíl
Púkann langar í rafbíl - en ekki svona smábíl eins og borgarstjórinn er á.
Nei, draumarafbíll Púkans er Tesla-S rafbíllinn - bíll sem lítur út eins og "alvöru" bíll, kemst 480 km á fullri hleðslu og þótt þetta sé ekki ódýrasti bíllinn á svæðinu, þá er rekstrarkostnaðurinn aðeins brot af því sem það kostar að reka bensínbíl.
Já,og svo er reyndar að koma tími til að endurnýja 14 ára gamla Saab bílinn sem Púkinn keyrir venjulega.
Púkinn stökk nefnilega ekki til og endurnýjaði þann bíl á "góðærisárunum", heldur ákvað bara að halda áfram að keyra um á gamla bílnum meðan hann væri vandræðalaus - og það hefur hann verið ár eftir ár eftir ár.
En nú fer bráðum að koma tími á endurnýjun og Púkann langar mikið í svona Tesla bíl um leið og þeir fara í almenna sölu 2012.
Kvartar yfir rafbílnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 24. júní 2009
Inntökukerfi í framhaldsskóla - úr öskunni í eldinn?
Þeir voru margir sem gagnrýndu samræmdu prófin - sumir kennarar sögðu þau skemma skólastarfið, þar sem kennslan beindist eingöngu að þeim í nokkra mánuði, en margir foreldrar voru líka óánægðir - sögðu prófin valda streitu og vera á ýmsan hátt ósanngjörn, án þess þó að það væri útskýrt nánar.
Nú heyra samræmdu prófin sögunni til en eru vandamálin þá horfin?
Nei.
Þvert á móti er ástandið núna mun verra og ósanngjarnara en það var.
Möguleikar nemenda til að komast inn í þá skóla sem þeir sækjast helst eftir eru nú orðnir verulega skekktir af þeirri einföldu ástæði að skólaeinkunnir eru ekki sambærilegar milli skóla.
Í einum tilteknum framhaldsskóla hefur orðið athygliverð breyting á samsetningu nemenda....áður fyrr komust nemendur úr tilteknum grunnskólum nánast aldrei inn í viðkomandi framhaldsskóla - samkvæmt samræmdu prófunum voru þeir nemendur einfaldlega "ekki nógu góðir" - en nú þegar byggt er á skólaeinkunnum hrúgast inn nemendur þaðan - því skólaeinkunnir þeirra skóla eru ekkert frábrugðnar því sem gerist annars staðar, þótt raungeta nemendanna sé hugsanlega minni. Í framhaldsskólanum telja menn líklegt að hluti þessa hóps muni fljótlega flosna upp frá námi, en það er lítið sem þeir geta gert í því.
Það eru ýmsar lausnir á þessu máli. Það væri hægt að viðurkenna mistökin og taka samræmdu prófin upp aftur, eða þá að það mætti leyfa framhaldsskólunum að taka upp inntökupróf fyrir þá nemendur sem sækja um í öðrum skólum en sínum "hverfisskólum". Þannig væri nemendum sem koma úr mismunandi grunnskólum ekki mismunað lengur.
Brotið gegn börnunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 24. september 2008
Hjólreiðastígar...huh!
Púkinn fer venjulega fótgangandi til vinnu, enda með hundinn sinn í för. Leiðin liggur að hluta meðfram hjólreiðastígnum við Lönguhlíð - ef hægt er að nefna hann því nafni, því hann er oft á mörkum þess að vera nothæfur sem slíkur.
Ástæðan er einfaldlega sú að íbúar nærliggjandi húsa nota stíginn sem bílastæði og til undantekninga heyrir að stígurinn sé hindranalaus - nánast alltaf eru einhverjir bílar á stígnum - og þessa dagana er jafnvel einn gámur þar.
Púkinn hefur aldrei orðið var við að neinn þessara bíla fái sektarmiða fyrir að leggja á hjólreiðastíginn, en honum er spurn - hvers vegna er Reykjavíkurborg að þykjast vera að leggja hjólreiðastíga hér og þar, en hirðir síðan ekkert um að halda þeim opnum fyrir hjólreiðafólki?
Er hagt að hringja í eitthvað númer til að leggja fram kvörtun - nú eða bara að láta draga bílana í burtu, eða eiga .þetta bara að vera þykjustuhjólreiðastígar?
Nýtt kort fæst gefins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 18. júní 2008
Fer eldsneytislíterinn í 200 kr. á árinu?
Mörgum finnst sjálfsagt stutt síðan eldsneytislíterinn skreið í 100 kr., en nú sjá menn fram á að hann fari í 200 kr. á næstunni.
Eða hvað?
Eins og allir vita ákvarðast eldsneytisverð af nokkrum þáttum - olíuverði í dollurum, gengi krónunnar gegn dollara, álagningu olíufyrirtækja, en síðast en ekki síst, álagningu ríkisins.
Nú er Púkinn ekki að segja að ríkið eigi að hlaupa til og lækka álögur á eldsneyti - Púkanum finnst það af ýmsum ástæðum ekki endilega vera réttasta leiðin, en í samræmi við þá skoðun Púkans að íslensk stjórnvöld grípi ýmist til rangra aðgerða, eða grípi til réttra aðgerða á röngum tíma, þá kæmi það Púkanum ekki svo mikið á óvart þótt tilkynnt yrði um einhverja tímabundna lækkun álagningar á næstunni.
Eða hvað?
Munum við kannski sjá eldsneytislítrann fara vel yfir 200 kr. eftir allt saman?
Eldsneytisverð hækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Sunnudagur, 15. júní 2008
Vetnis-, rafmagns-, etanól-, bíodísel-, metan- og vatnsbílar
Púkinn minntist fyrir nokkrum dögum á svikahrappa sem reyna að telja fólki trú um að það geti knúið bílana sína með vatni (sjá hér).
Hvað um það - þótt hækkandi eldsneytisverð um þessar mundir sé að hluta til afleiðing óheftrar spákaupmennsku, þá er ljóst að til lengri tíma litið þurfa menn að horfast í augu við að framboð á olíu er ekki ótakmarkað. Á næstu áratugum munu fleiri og fleiri skipta úr bensín- og díselknúnum ökutækjum fyrir bíla sem ganga fyrir vetni, rafmagni, etanóli eða metan.
Púkinn gæti vel hugsað sér að vera í þeim hópi, en hvert á að stefna? Sú umræða sem hér hefur verið um vetnissamfélag er góð og gild, en Púkinn verður þó að viðurkenna að hann skilur hana ekki alveg.
Einhverjir hafa drauma um að flytja út vetni, en hagkvæmni þess er minni en að flytja út rafmagn eftir sæstreng, sem aftur er minni en að nýta rafmagnið hér innanlands til að framleiða vörur til útflutnings. Það er einnig að koma betur og betur í ljós að orkuauðlindir Íslands eru ekki ótæmandi og Púkinn skilur ekki hvernig nokkur getur haldið á lofti hugmyndum um vetniútflutning.
Að auki - hvers vegna ættu vetnisbílar að vera betri en rafbílar? Um allan heim eru í gangi rannsóknir á notkun á vetni sem orkugjafa. Í þeim löndum sem rafmagn er framleitt með bruna kola eða olíu er gjarnan leitað að hagkvæmum leiðum til að framleiða vetni á annan hátt en með rafgreiningu, eins og til dæmis með því að nota bakteríur sem framleiða vetni sem úrgangsefni. Verði þessi tækni þróuð frekar er sennilegt að hún verði notuð í stað rafgreiningar.
Það er orkutap fólgið í því að rafgreina vetni og brenna því síðan aftur til að framleiða rafmagn til að knýja vetnisbíla með rafmagnsmótor - hvers vegna ekki nota bara rafmagnið beint?
Vetnisbílar eru takmarkaðir af því að eingöngu verður hægt að "fylla á" þá á þar til gerðum stöðvum, en rafmagnsbílar stefna í þá átt að hægt verða að stinga þeim í samband heima hjá fólki - hlaða þá yfir nótt í bílskúrnum.
Saga rafmagnsbílanna er athygliverð og Púkinn mælir með því að fólk horfi á myndina Who killed the Electric Car sem mun vera fáanleg á einhverjum vídeóleigum.
Kannski Púkinn fái sér rafmagnsbíl frá Toyota aftir tvö ár eða svo, en það eru fleiri möguleikar í stöðunni og ljóst að margvíslegar breytingar eru að verða á orkubúskap heimsins.
Við lifum á áhugaverðum tímum.
Bíll sem gengur fyrir vatni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 16.6.2008 kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 12. júní 2008
Water4Gas - keyrðu bílinn á vatni
Fyrir aðeins $97 getur þú fengið leiðbeiningar um smíði tækis sem leyfir þér að keyra bílinn þinn á vatni og hlæja að hækkandi eldsneytisverði.
Hljómar þetta eins og það sé of gott til að geta verið satt?
Einmitt.
Þetta er að sjálfsögðu ekkert annað en svikamylla, en nú á tímum ört hækkandi eldsneytisverðs eru margir sem falla fyrir svona bulli.
Aðalvefsíðan sem selur þetta er hér. Þar er ýmislegt sem lítur sannfærandi út við fyrstu sýn, en skoðum þetta aðeins nánar.
Tæknin byggir á því að nota rafgreiningu - kljúfa vatn í vetni og súrefni, sem síðan er blandað saman við eldsneytið - en við bruna þess myndast síðan vatn aftur.
Það er vissulega hægt að knýja vélar á vetni, en það er einn smágalli á því ferli sem hér er lýst - sú orka sem fæst við bruna vetnisins er jafn mikil og sú sem þarf til að rafgreina það í upphafi - eða, reyndar er hún minni, því það er alltaf visst tap í svona kerfum. Þessi orka kemur úr rafkerfinu, sem þýðir að alternatorinn þarf að vinna meira sem því nemur - nokkuð sem krefst aukinnar eldsneytisnotkunar.
Sumir þeirra sem flagga þessari tækni halda því fram að eldsneytissparnaðurinn stafi af því að vegna íblöndunar vetnisins nýti vélin bensínið betur - þannig að í stað þess að nýta aðeins 30% orkunnar sem er bundin í eldsneytinu nýti vélin nú 60%.
Hljómar vel, ekki satt?
Vandamálið er bara það að þetta er ekki það sem rannsóknir sýna - a.m.k. ekki aðrar rannsóknir en þeir sem selja vöruna segjast hafa gert.
Þessi tækni er seld á vefnum og þar sem flestir vita að þar eru margvísleg svik á ferðinni, þá eru sumir sem "gúggla" eftir leitarorðum eins og "Water4Gas scam".
Viti menn - þá kemur upp fjöldi síðna eins og þessi - en þessar síður segja allar það sama: "Ég efaðist fyrst um að þetta gæti staðist, og hélt að þetta væri svikamylla, en svo prófaði ég þetta og það virkar - hallelúja" Síðan kemur hlekkur til að kaupa vöruna. Ætli þessir aðilar fái ekki prósentu af sölunni?
Það er til fjöldinn allur af "eldsneytissparandi" tækjum, sem eiga það sameiginlegt að "vísindin" á bak við þau eru rugl (t.d. seglar til að festa meðfram eldsneytisrörunum til að rétta úr sameindunum) og að raunverulegar rannsóknir sýna að þessi tæki eru í besta falli gagnslaus, en í versta falli auka þau eldsneytiseyðsluna eða geta skapað hættu.
Samt fellur fólk fyrir þessu - já, það eru margir sem lifa góðu lífi á trúgirni annarra.
Olíubirgðirnar duga í 41 ár að mati BP | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |