Færsluflokkur: Menning og listir
Laugardagur, 28. apríl 2007
Teiknimyndasögur fyrir alla
Það ríkja ekki sömu viðhorf til myndasögublaða á Íslandi eins og í Japan, þar sem þær eru vinsælt lestrarefni meðal allra aldurshópa, en hér á landi virðast vinsældirnar takmarkaðri við yngri aldurshópa.
Séu þau blöð sem verða í boði í Nexus hins vegar þau sömu og þau sem eru í boði í Bandaríkjunum (sjá hér), þá er þar á meðal ýmislegt efni sem ætti að höfða til víðari hóps.
Púkinn á sjálfur reyndar oft leið í Nexus - ekki vegna teiknimyndasagnanna, heldur vegna bóka ("Fantasy" og "Science Fiction") og spila, en Nexus býður upp á mikið úrval borðspila og handbóka fyrir alls kyns hlutverkaleiki.
Með öðrum orðum - góð búð - gott mál.
Jóakim aðalönd gefins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Sóðabælið Reykjavík
Það er varla hægt að ganga um götur án þess að sjá útkrotaða húsveggi, ljósastaura og aðra fleti sem stráksóðarnir hafa útbíað.
Já, ég segi STRÁKsóðarnir, því það sama virðist gilda hér og erlendis að þetta eru nánast eingöngu strákar, gjarnan á aldrinum 10-14 ára, oft frá erfiðum heimilum, með lélega sjálfsímynd og gengur illa í skóla, hvort sem það er vegna athyglisbrests, greindarskorts eða einhvers annars.
Þeir krota "töggin" sín á veggi - heimskulegar skammstafanir eins og "AS", "SC", "HB", "LOO5" og svo framvegis - hafa sennilega ekki hæfileika til að gera neitt flóknara en það.
Púkinn ætlaði nú reyndar ekki að eyða tímanum í að vorkenna þessum greyjum, heldur að velta fyrir sér siðferðislegri ábyrgð byggingarvöruverslananna sem selja spreybrúsana hverjum sem er án takmarkana.
Það er sennilega til of mikils mælst að þessi fyrirtæki sýni svolitla ábyrgðartilfinningu og setji sjálfviljug einhverjar takmarkanir á þessa sölu - miðað við magnið af veggjakroti græða þeir sennilega þokkalega á þessu, fyrst á að selja spreybrúsana og síðan á að selja fórnarlömbunum efni sem ætluð eru til hreinsunar.
Skamm...skamm...skamm...
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Ættfræðisetur íslands?
Eins og Púkinn hefur minnst á áður, þá hefur hann áhuga á ættfræði. Honum þótti því athyglivert að heyra af hugmyndum um stofnun Ættfræðiseturs Íslands.
Það má deila um það hvort þetta sé of stórt nafn á litla stofnun og hvort fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir þessu, en miðað við þær umtalsverðu fjárhæðir sem Vesturfarasetrið á Hofsósi fékk, þá kæmi það Púkanum ekki á óvart þó þessar hugmyndir myndu ganga upp.
Á meðan er Íslendingabók opin almenningi endurgjaldslaust, en hefur neyðst til að segja upp meirihluta starfsmanna sinna, þannig að starfsemin er nú aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Ef það væri ekki fyrir innflytjendur...
Eins og þeir vita sem þekkja Púkann þá hefur hann mikinn áhuga á ættfræði.
Sú umræða sem hefur verið í gangi hérlendis um innflytjendur varð til þess að Púkinn ákvað að athuga hversu mikið væri um innflytjendur í ættum Íslendinga. Landnámsmennirnir voru að sjálfsögðu innflytjendur síns tíma, en Púkinn vill nú líta fram hjá þeim og skoða bara innflytjendur seinni tíma - eftir siðaskipti til dæmis.
Niðurstöðurnar voru athygliverðar.
Í ættartré Púkans má finna allnokkra inflytjendur og erlenda aðila sem höfðu hér viðdvöl um lengri eða skemmri tíma, svo sem danskan kaupmann, Westy Petræus, sem var hér um aldamótin 1800.
Púkinn tók sæmilega stórt handahófsúrtak af Íslendingum og athugaði ættartré þeirra. Í allmörgum tilvikum fundust einhverjir svipaðir innflytjendur eða erlendir forfeður, en í einstaka tilvikum þurfti að fara lengra aftur í aldir, jafnvel allt til manna eins og Erasmusar, sonar Villadts, sem kom hingað skömmu eftir siðaskipti.
Í handahófsúrtaki Púkans ver hins vegar enginn sem hafði enga innflytjendur meðal forfeðra sinna, eða erlendar greinar í ættartrénu.
Niðurstaðan - jú, ef það væri ekki fyrir innflytjendur, þá værum við ekki hér.
Laugardagur, 24. mars 2007
Ælukeppnin mikla
Það er dapurlegt ef einu hæfileikar manna liggja á sviði drykkjuþols. Það er jafnvel enn dapurlegra að einhverjir fást til að gera sig að fíflum á almannafæri með því að taka þátt í kappdrykkjukeppni.
Púkinn vorkennir reyndar þeim sem þurfa að þrífa upp æluna á eftir, en uppákomur eins og þessar eru dæmi um það hvers vegna Púkinn skilur stundum ekki mannfólkið.
Nú svo er auðvitað möguleiki að menn drepi sig á þessu, annað hvort fljótlega ef þeir kafna í eigin ælu, eða fá áfengiseitrun, nú eða ef menn leggja ofneyslu áfengis á vana sinn, þá á lengri tíma með skorpulifur eða öðrum vandamálum.
Kannski eru þeir bara að gera genamengi þjóðarinnar greiða með því að fjarlægja sig á þann hátt úr því?
Getur leitt til dauða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. mars 2007
Íslenska - gott mál
Púkinn fagnar þessari úthlutun, enda er íslenskunám ein mikilvægasta forsenda þess að þeir útlendingar sem hingað koma geti aðlagast íslensku þjóðfélagi.
Púkanum finnst hins vegar svolítið skorta á að upplýsingar um það íslenskunám sem er í boði séu aðgengilegar á þægilegan hátt, þannig að útlendingar geti fundið þær upplýsingar án aðstoðar íslenskumælandi aðila.
Það er hægt að nota Google til að leita að "íslenskukennsla" og þá finnur maður til að mynda síðu Alþjóðahússins, en þar eru allar upplýsingar á íslensku - sem er frekar gagnslítið fyrir útlendinga. Þar eru einnig síður á fjölmörgum öðrum tungumálum, en engar upplýsingar virðist þar vera að finna um íslenskunámið.
Á vef Vinnumálastofnunar má finna upplýsingar á ensku, en þær eru takmarkaðar og virast ekki vera á fleiri tungumálum.
Er einhver staður þar sem upplýsingum um íslenskunám er safnað saman á helstu tungumálum?
90 milljónir króna veittar í íslenskukennslu fyrir útlendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 10. mars 2007
Kunna bloggarar ekki íslensku?
Púkinn tók sig til í morgun og las allnokkur blogg af handahófi - blogg frá fólki sem hann hafði aldrei heimsótt áður. Það sem sló Púkann var hver algengt það var að bloggin væru illa skrifuð og morandi í málvillum af ýmsum gerðum.
Nú er Púkinn ekki að ræða um einfaldar innsláttarvillur - þær geta komið fyrir hjá öllum og Púkinn finnur reglulega slíkar villur í eigin skrifum. Það getur líka verið að höfundurinn sé haldinn lesblindu og geri villur eins og að víxla stöfum. Slíkt er afsakanlegt. Það sem um er að ræða hér eru villur þar sem orð eru skrifuð í samræmi við óskýran framburð, eða villur sem Púkinn hélt að enginn gerði eftir 10 ára aldur.
Púkinn safnaði saman nokkrum dæmum um þessar villur:
aðalega, afþreyging, byðja, bæjinn, dáldið, eikkað, einhvað, einhverntímann, einhvernveginn, einhvert, einkunina, eiturlif, engan, enþá, fáranlega, fjarðlægja, fyritæki, fæturnar, góðann, gríðalega, haldiði, hlítur, hvorukynsorð, hyggðist, hæðsti, kerjum, kvíður, leikskólan, meiraðseigja, næginlega, orusta, ransókn, samþykt, sistkyni, sífelt, sjálfann, stiðja, systkyni, snylld, soldið, stæðstu, Svíðþjóð, svoldið, umræðuni, vitiði, væntalega, örvinlun.
Púkinn skilur þetta varla, en hann hefur nokkrar tilgátur.
- Stafsetningarkennslu hefur hrakað.
- Ungt fólk les minna í dag en fyrir nokkrum áratugum og máltilfinning þess er lakari en hún var.
- Sumir eru einfaldlega lélegir í stafsetningu, en fyrir tíma bloggins var sá hópur ekki að tjá sig á almannafæri á sama hátt - jafnvel lesendabréf þeirra voru leiðrétt fyrir birtingu.
Vandamálið er það að það gildir einu hversu merkilegt það er sem höfundurinn hefur fram að færa - séu skrifin morandi í villum virkar það illa á aðra lesendur - meðvitað eða ómeðvitað dregur það úr áliti þeirra á höfundinum og því sem viðkomandi hefur fram að færa.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 7. mars 2007
Hestaat
Fyrr á öldum var hestaat stundað hér á landi. Þótt Íslendingar stundi það ekki lengur tíðkast það enn á nokkrum stöðum í heiminum, þar á meðal hjá MIao þjóðflokknum í Kína, en síðustu 500 árin hefur það verið fastur liður í sumarhátíð þeirra.
Dýraverndunarsamtök berjast gegn þessu, en Kínverjar láta sér fátt um finnast og er hestaat jafnvel liður í dagskrám margra ferðamanna.
Púkinn er lítið hrifinn af svona íþróttum, ekki frekar en nautaati, en honum finnst nú samt að frekar ætti að banna hnefaleika - þar eru þó menn að slasa hvern annan.
Svo er auðvitað alltaf spurning um hvort það ssé hræsni að berjast gegn svona íþróttum - en fara síðan og fá sér góða steik á eftir.
Laugardagur, 3. mars 2007
Íslenskir munkar?
Púkinn efast um að margir Íslendingar séu reiðubúnir til að ganga í klaustur, þannig að ef af stofnun munkaklausturs í Reyðarfirði verður, þá má væntanlega gera ráð fyrir að flestir munkanna erði erlendir. Það er hvorki gott né slæmt í sjálfu sér - það bara er þannig.
Hins vegar eru skoðanir Púkans á klaustrum nokkuð blendnar. Hér á Íslandi gegndu klaustrin óneitanlega mikilvægu hlutverki fyrr á öldum og eiga stóran þátt í því að menningararfur okkar Íslendinga varðveittist.
Klausturlíf getur einnig sjálfsagt verið gott fyrir marga - það er væntanlega minni streita þar en á flestum öðrum stöðum.
Ýmislegt gott hefur einnig komið frá klaustrum í gegnum tíðina og má þar á meðal nefna nótnaskrift og rannsóknir Mendels,
Hins vegar finnst Púkanum klaustur nú á vissan hátt vera tímaskekkja og hefur alvarlegar efasemdir um að klaustur uppfylli þarfir í nútíma þjóðfélagi sem ekki er unnt að gera á annan hátt.
Klaustur á Kollaleiru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Ertu eldri borgari (í anda) ?
Púkinn átti nýverið leið inn á vef Námsgagnastofnunar og rakst þar á síðu um orð í máli eldra fólks.
Púkanum brá. Það er nefnilega þannig að Púkinn vill ekki telja sig eldri borgara, en hann þekkti nánast öll orðin á listanum og notar sum þeirra reglulega.
Púkinn notaði síðan þennan lista til að búa til "eldriborgarapróf", sem hann lagði fyrir ættingja og vinnufélaga.
Prófið er í 3 hlutum:
- Þú færð 1 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 3 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: altan, betrekk, húmbúkk, kamína og útstáelsi.
- Þú færð 2 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 5 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: bíslag, bolsía, dannaður, gallósíur og kaskeiti.
- Þú færð 5 stig fyrir hvert af þessum orðum sem þú þekkir og 10 stig fyrir hvert sem þú notar reglulega: blankskór, fortó, gesims, ranimosk og sufflör.
Niðurstaðan:
Færri en 20 stig: Þú ert ung(ur) í anda
20-40 stig: Þú þykir svolítið forn í tali.
Fleiri en 40 stig: Fólk undir fertugu á erfitt með að skilja þig. Kannski ertu bara svona gömul sál.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)