Færsluflokkur: Menning og listir
Mánudagur, 19. febrúar 2007
Er þetta list? (hluti 1)
Púkinn á stundum svolítið erfitt með að skilja hvað menn telja "list". Tökum til dæmis gjörning sem danski listamaðurinn Kristian von Hornsleth framkvæmdi í Uganda, þar sem hann fékk íbúa eins þorps til að breyta um nafn og taka upp nafnið sitt sem eftirnafn.
Þorpsbúum var greitt fyrir með kúm og svínum, en Kristian tók myndir af nýjum skilríkjum þeirra og hélt sýningu á þeim í listasafni.
Frumlegt? Já.
Listrænt? Púkinn er ekki viss.
Þetta er í sjálfu sér ekki vitlaus leið til að vekja athygli á óæskilegum vestrænum menningaráhrifum sem fylgja gjarnan þróunaraðstoð.
En er þetta list ?
Föstudagur, 16. febrúar 2007
"23:00 Orgy at Austurvöllur"
Púkinn var að skoða dagskrá fyrir þetta Snowgathering 2007 og var að velta fyrir sér hvort séraðgerðadeild femínista myndi standa fyrir mótmælum og uppákomum við einstaka atburði.
Fjöldamótmæli við Bláa lónið klukkan 3 á laugardegi? Mótmælastaða við Geysi á föstudeginum?
Það sem Púkinn furðaði sig hins vegar á var hvaða "ice restaurant" er um að ræða - annað hvort hefur Púkinn misst af einhverju, eða um einhvern misskilning er að ræða.
Annars er dagskráin ósköp venjuleg ferðamannadagskrá, nema ef undanskilin er föstudagsheimsóknin á strippbúlluna. Hverju áttu menn eiginlega von á - bjóst fólk við dagskrárliðum eins og "23:00 Orgy at Austurvöllur" ?
Púkinn sér eiginlega ekki hvernig er hægt að nefna þetta "þing" eða "ráðstefnu" - það er nú ekki eins og verið sé að halda fyrirlestra eða vörukynningar.
Annars mundi Púkinn eftir svolitlu sem femínistarnir hafa ekki minnst á. Það mun víst vera þannig að meðaltekjur kvenstjarna í klámmyndabransanum eru umtalsvert hærii en karlmanna í sömu grein.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 16. febrúar 2007
Málvillur hjá mbl.is
Við lestur sumra frétta á mbl.is veltir Púkinn fyrir sér hvort frændi hans, prentvillupúkinn sé kominn í aukavinnu á Morgunblaðinu.
Skoðum aðeins þessa frétt um atkvæðagreiðslu á Bandaríkjaþingi.
..þar sem ákvörðun George W. Bush Bandaríkjaforseta um að senda auka herlið til Íraks.
"þar sem ávörðun HVAÐ" ? "..verður rædd"? "...verður sennilega samþykkt"? "..verður sennilega hafnað"? Það vantar endann á setningunni - hún er merkingarlaus eins og hún er.
Þetta hefur verið fyrstu umræðurnar...
Ha? Þetta hljómar nú eins og eitthvað sem einhver sem er bara búinn með fyrsta daginn á íslenskunámskeiði myndi segja..."Mig tala gott íslenska".
Umræðuefnið ávörðun Bush um að senda 21.500 aukalið til Íraks
Lengi getur vont versnað. Það er hreinlega erfitt fyrir Púkann að taka fréttirnar alvarlega þegar greinarnar eru morandi í svona málvillum
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. febrúar 2007
Leðurólar og sveittir, naktir karlmenn
Blóma, konfekt- og hjálpartækjasalar fagna væntanlega auknum vinsældum Valentínusardagsins á Íslandi.
Púkinn er nú sjálfur frekar hlyntur hinum íslensku konu- og bóndadögum, en í tilefni Valentínusardagsins finnst Púkanum viðeigandi að rifja upp uppruna hans.
Í Róm var til forna haldinn hátíðlegur hin svonefnda Lupercalia hátíð 15. febrúar, en tilgangur hennar var að bægja frá illum öndum og tryggja frjósemi.
Þessi hátíð fólst í því að tveimur geithöfrum og hundi var slátrað, og blóði þeirra síðan smurt á unga karlmenn. Síðan voru ólar skornar úr skinni geitanna og karlmennirnir hlupu naktir um götur borgarinnar, sveiflandi ólunum.
Konur og stúlkur stilltu sér upp meðfram hlaupaleiðinni og reyndu að verða fyrir höggum ólanna, en það átti að tryggja frjósemi.
Púkinn ætlar ekkert að fullyrða um hvort það að vera slegnar með skinnólum af blóðugum, nöktum og sveittum karlmönnum hefur örvandi áhrif á konur, en svo mikið er víst að hátíðin lifði allt til ársisns 494 í Róm.
Árið 496 var Valentínusardagurinn tekinn upp þann 14. febrúar og leðurólunum var skipt út fyrir blóm og konfekt - að minnsta kosti í flestum tilvikum.
Púkinn lætur öðrum eftir að meta það hvort sveittu, nöktu karlmennirnir hafi horfið líka.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. febrúar 2007
Fólk er fífl
Púkinn komst fyrir löngu að því að fólk væri fífl, þannig að hann er bara feginn að vera lítið blátt kríli sem enginn tekur alvarlega.
Áður en menn hlaupa upp og gagnrýna hindúa (sem segjast reyndar fyrst og fremst vera að berjast gegn vestrænum menningaráhrifum, en ekki trúaráhrifum). ættu menn kannski að líta sér nær.
Eru Vesturlandabúar eitthvað skárri þegar að því kemur að berjast gegn framandi menningaráhrifum?
Það sem er hinsvegar nýtt í þessu ákveðna tilviki er að lýsa baráttuaðferðunum fyrirfram - það er einfalt og blátt áfram að berja fólk í klessu, en venjulega þegja menn um þær fyrirætlanir sínar þangað til á hólminn er komið.
Púkanum finnst það alltaf dapurlegt þegar fólk er ekki tilbúið að umbera hegðun annarra, þegar sú hegðun veldur engum skaða, en, eins og Púkinn hefur sagt bæði hér og hér...
Fólk er fífl
Harðlínu hindúar hóta pörum barsmíðum á Valentínusardaginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 13. febrúar 2007
Er Silvía Nótt púkaleg?
Púkinn er, eðli málsins samkvæmt, sérfræðingur í öllu sem getur kallast púkalegt. Þar sem sumir vilja meina að Silvía Nótt falli í þann hóp hefur Púkinn tekið málið til vandlegrar athugunar.
Púkinn á það einnig sameiginlegt með Silvíu Nótt að vera ekki nema að hluta raunverulegur - heldur bara sérstök hlið persónuleika "eiganda" síns.
Púkinn hefur því miður ekki fengið Silvíu Nótt í heimsókn ásamt lífvörðum sínum, en slík uppátæki vekja svipuð viðbrögð og annað athæfi hennar - þessa tilfinningu sem Púkinn kýs að nefna broshroll.
Þetta stafar af árekstri tveggja ósjálfráða viðbragða - annars vegar langar Púkann til að hlæja vandræðalega, en hins vegar til að hlaupa öskrandi í burtu, haldandi um eyrun.
Broshrollur er hins vegar þreytandi til lengdar, þannig að niðurstaða Púkans er að þótt Silvía Nótt sé ekki púkaleg, er hún orðin svolítið þreytt - hugmyndin er gjörnýtt.
Púkinn á hins vegar 11 ára gamlan púkaunga, og mörgum jafnaldra hennar finnst Silvía Nótt ennþá vera fyndin, þannig að ef til vill heldur aðdáendahópurinn Silvíu Nótt á lífi enn um sinn.
Silvía Nótt herjar á bloggara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. febrúar 2007
Veggjasóðar
"Graffiti-listamenn" - já einmitt það - huh! Púkinn er hugsanlega til í að samþykkja þá sem listamenn sem krota á veggi sem þeir hafa leyfi til að sóða út - en flestir af þessum svokölluðu "listamönnum" eru ekkert annað en illa siðaðir sóðar.
Óagaðir, treggáfaðir og illa upp aldir strákgeplar sem bera ekki virðingu fyrir eigum annarra.
Púkinn rekur fyrirtæki með einni hlið sem ligguar að göngustíg. Eitt hans fyrsta verk á hverjum morgni er að athuga vegginn, hvort hann hafi fengið að vera í friði yfir nóttina. Það bregst því miður oft og þarf Púkinn þá að taka sér pensil í hönd og mála yfir krotið, því ef það fær að vera óhreyft í einhverja daga virkar það eins og segull á aðra veggjakrotara.
Púkann langar mest til að koma upp myndavél sem fylgist með veggnum, en æ...það má hann víst ekki vegna persónuverndarlaganna.
Lögreglan tekur ekki á þessu, skólakerfið stendur sig ekki í stykkinu og foreldrarnir hafa brugðist.
Stundum finnst púkanum skrýtið að það þurfi leyfi til að hafa hund, en ekki til að ala upp börn.
Er graffiti veggjakrot? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 13.2.2007 kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 11. febrúar 2007
Snjótippi ?
Fyrst salernisskálar geta flokkast sem list (samanber þessa grein), þá finnst Púkanum að snjóstytta af tilteknum líkamsparti karlmanna ætti að geta talist list líka.
Rétt?
Nei, RANGT, að minnsta kosti samkvæmt lögregluþjóninum sem í síðustu viku sektaði John Knowles um 80 pund fyrir ósæmilegt athæfi á almannafæri vegna slíks snjólistaverks.
Þetta vekur upp ýmsar spurningar.
Myndi svona listaverk líka varða við lög á Íslandi?
Hvaða fyrirmynd notaði listamaðurinn? Sjálfan sig?
Hvað er eiginlega að fólki?
Eins og Púkinn hefur sagt áður, þá finnst honum mannkynið skrýtin dýrategund, en vilji einhverjir nánari upplýsingar um þetta tiltekna mál er þeim bent á þessa grein.
Menning og listir | Breytt 13.2.2007 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. febrúar 2007
Nytjalist ?
Það er merkilegt að listfræðingar halda varla vatni yfir listrænu gildi hlandskálar, en þar sem óumdeilt er að hlandskál hefur ákveðið notagildi er niðurstaðan greinilega sú að hér sé um "nytjalist" að ræða.
Nytjalist er að sjálfsögðu ætluð til þess að vera notuð, en sá hængur er á að séu hlandskálar notaðr til þess sem þær eru raunverulega hannaðar, þá er hætt við því að einhverjir myndu ekki átta sig á að um nytjalist sé að ræða, heldur bara venjulega, ólistræna hlandskál.
Nei, til að fyrirbyggja slíkan misskilning skulu hér eftir allar hlandskálar Púkans ekki bara nefnast listaverk, heldur verður hönnun þeirra virkilega að bera með sér að um listrænar hlandskálar sé að ræða.
Þegar gestir koma í heimsókn og þurfa að míga í hlandskálar Púkans mun ekki fara á milli að þeir eru að nota nytjalist, ef hlandskálarnar líta út eins og þær sem hér eru myndir af.
Skilorðsbundinn dómur fyrir að skemma fræga hlandskál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 13.2.2007 kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)