Færsluflokkur: Matur og drykkur

Dýr (og vonandi góður) eftirréttur

expensive-ice-cream-sundaeFrá árinu 2004 hefur veitingastaðurinn Serendipity 3 í New York boðið upp á þennan eftirrétt sem sést hér og nú nýverið var hann pantaður í 15. skipti.

Það mætti halda að þessi litla sala bæri vitni um að rétturinn væri ef til vill ekki mjög góður, en ástæðan er ef til vill frekar verðið -  um 80 þúsund krónur að meðtöldu þjórfé.

Í uppskriftinni er vanilla frá Madagascar og Tahiti, Amedei Porcelana, dýrasta súkkulaði heims, gylltur kavíar og gullþynnur.

Já, gullþynnur.

Gull er nefnilega leyfilegt bætiefni í mat og með E-númerið E-175. 

Ef einhver hefur hug á að panta sér þennan rétt, er viðkomandi bent á að gera það með fyrirvara, því það tekur nokkra daga að undirbúa hann.


Of latur til að sækja bjórinn?

bjorkastFinnst þér gott að sitja í sófanum, horfa á sjónvarpið og sötra bjór, en átt í vandræðum því þú nennir ekki að standa upp og sækja bjórinn í ísskápinn?

Ef svo er, þá er þetta fyrir þig - ísskápur með innbyggðum bjórkastara.

John Cornwell hannaði ísskáp með fjarstýringu sem tekur 24 bjórdósir.  Þegar hann ýtir á takka í fjarstýringunni fer í gang lyfta, sem sendir eina dós upp í bjórvörpuna, sem hendir dósinni síðan yfir til notandans.

John segir að líkurnar á að fá dósirnar í höfuðið minnki með aukinni notkun.

Unnt er að sjá tækið í notkun hér


Ný not fyrir salat

iceberg-safe_2491_mdÞessi mynd synir salathaus - ef þú sæir hann í ísskápnum myndir þú halda að hann biði þess að vera skorinn niður, ekki satt?

Eh, nei.

Þessi salathaus er í rauninni dulbúið öryggishólf, ætlað til að fela skartgripi og önnur verðmæti inní, í von um að þjófum myndi aldrei detta í hug að stela salati úr ísskápnum.

Unnt er að panta þetta öryggishólf hér, en framleiðandinn býður einnug upp á bækur og gosdósir með innbyggðum hólfum.

 Púkinn er nú ekki alveg viss, en hann efast nú samt um að mikill markaður sé fyrir þessar vörur.


Hamborgari fyrir þá virkilega svöngu

giant_burgerErtu svangur?  Ertu virkilega, virkilega svangur?

Ef svo er, þá gæti þetta verið fyrir þig.  Veintingastaðurinn Denny's Beer Barrel Pub í Clearfield, Pa. býður nú upp á 60 kílóa hamborgara.

 Hann inniheldur 40 kíló af kjöti,  120 ostsneiðar, fimm lauka, 12 tómata og annað eftir því.

Verðið er aðeins 379 dollarar, en ekki fylgja upplýsingar um fjölda hitaeininga.

Super Size hvað.....


80 þúsund króna morgunverður?

expensive-omeletViltu borga 80 þúsund krónur fyrir morgunverðinn?  Þú getur gert það á Le Parker Meriden hótelinu í New York, ef þú pantar þér þessa eggjaköku hérna.

Uppskriftin inniheldur egg og humar - já og rúmlega 280 grömm af sevruga kavíar.

Verðið er 1000 dollarar, en síðan þurfa menn eitthvað að drekka og svo verður að bæta við þjórfé eins og hefðin er í New York. 

Þetta lítur nú nokkuð girnilega út, en er það 80 þúsund króna virði?


Kentucky Fried Cruelty

pam-harlemPamela Anderson hefur fundið sér tilgang í tilverunni - að berjast gegn illri meðferð á kjúklingum og hvetur hún nú til þess að fólk sniðgangi KFC veitingastaðinn vegna misþyrminga þeirra á kjúklingum.

Handa þeim sem ekki sannfærast eftir að hafa horft á vídeóið hennar, kemur Pamela með enn ein rök - kjötát veldur getuleysi. 

Þeim sem hafa áhuga á þessu uppátæki hennar er bent á þennan hlekk.

Nú er Púkinn sjálfur í þeim hópi sem forðast KFC - ekki vegna dýraverndunarsjónarmiða, heldur sökum þess að KFC er eini staðurinn á Íslandi þar sem Púkanum hefur verið boðið upp á úldið kjöt.

Samt finnst Púkanum svona barátta missa ofurlítið marks - Púkinn man ekki til þess að Pamela hafi barist gegn slæmri menðferð á mannfólki, en að mati Púkans er ekki síður þörf á því.


"Smells like shit, tastes like heaven"

durian"Smells like shit, tastes like heaven" voru orð sölumanns á markaðstorgi í Singapore sem var að selja Durian ávexti, en Durian er einnig þekktur sem "Konungur ávaxtanna".

Þar sem Íslendingum finnst gaman að telja saklausum erlendum ferðamönnum trú um að þeir verði nú að prófa hákarl og brennivín gat ég ekki þekktur fyrir annað en að prófa þetta fyrirbæri.

Ég gat að vísu ekki farið með ávöxtinn heim á hótelið, þar sem 15.000 dollara sekt lá við því - vegna lyktarinnar þarf víst að framkvæma tímafreka og kostnaðarsama hreingerningu á herberginu eftir að þessi ávöxtur kemur þangað inn.

Lyktin, já - hvernig á að lýsa henni?  Jafnvel mestu aðdáendur ávaxtarins viðurkenna að hún sé ekki góð, en þeir sem hata hann taka sterkar til orða: "..eins og rotnandi lík, fyllt með niðurgangsdrullu holdsveikrasjúklings frá helvíti.." var ein lýsing sem ég rakst á.  Önnur lýsing sagði "..svínaskítur, terpentína og laukur, auk gamals leikfimisokks..".

Bragðið, hins vegar ... það er ekki í neinu samræmi við lyktina - ekki vont og vel þess virði að prófa - þótt ekki sé til annars en bara til að geta sagst hafa prófað það. 

Þeim sem hafa áhuga á að kynnast durian nánar er bent á þessa vefsíðu


Pssst...viltu kaupa maura?

story.ant.afpPúkinn hefur heyrt um margar leiðir sem menn nota til að narra peninga út úr þeim sem eru trúgjarnari eða fáfróðari en þeir sjálfir.

Eitt það frumlegasta upp á síðkastið er uppátæki manns að nafni Wang Zhendong, sem seldi fólki lifandi maura, eins og þá sem eru notaðir í sumum héruðum Kína í te eða seyði sem er vinsælt gegn ýmsum kvillum eins og liðagigt.

Wang seldi fólki maura og lofaði góðri ávöxtun fjárfestingarinnar handa þeim sem myndu ala maura.  Hann þóttist síðan reiðubúinn til að kaupa fullvaxna maura til baka fyrir umtalsvert fé.

Alls voru um 100.000 samningar um mauraeldi gerðir uns spilaborgin féll, en þá kom í ljós að allar lýsingar Wangs á verksmiðjunni sem átti að framleiða mauraseyðið voru hreinn uppspuni.

Ávinningur Wangs var um 25 milljarðar íslenskra króna - já, glæpir geta borgað sig.

Wang war síðan dæmdur til dauða síðastliðinn þriðjudag.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband