Færsluflokkur: Matur og drykkur
Föstudagur, 20. apríl 2007
Er matvöruverslunum treystandi til að selja áfengi?
Púkinn hefur ekki látið sjá sig hér á blog.is síðustu vikurnar, enda hefur hann verið í fríi á sólarströnd, þar sem svo margt annað er hægt að gera en að hanga á Netinu.
Meðal þess var að sitja úti á góðum kvöldstundum, narta í osta og hráskinku og sötra rauðvín sem var keypt í matvöruversluninni á næsta horni.
Púkanum varð stundum hugsað til þess hversu notalegt það væri nú ef staðan væri svona á Íslandi - ef mann langaði í eina góða rauðvísflösku væri nóg að skjótast út á næsta horn.
Ekki vantar áhugann hjá matvöruverslunum eða SVÞ, auk þess sem skoðanakannanir hafa sýnt að stór hluti landsmanna er fylgjandi því að léttvín og bjór verði selt í matvöruverslunum.
Hins vegar...
Púkinn er nefnilega ekki viss um að íslenskum matvöruverslunum sé treystandi til að selja léttvín. Í dag eru í gildi aldurstakmarkanir varðandi kaup á tóbaki, en reynslan hefur sýnt að á mörgum stöðum er auðvelt fyrir kaupendur undir þeim aldursmörkum að nálgast tóbakið. Verslanirnar eru ekki að standa sig og ekki hefur Púkinn séð mikil merki þess að þessar verslanir séu sviptar heimild til að selja tóbak til lengri eða skemmri tíma, þannig að eftirlitið er ekki heldur í lagi.
Nú er það reyndar skoðun Púkans að tóbak sé mun hættulegra en léttvín, en hvað um það - samkvæmt landslögum gilda aldurstakmarkanir um kaup á hvoru tveggja.
Ef verslunum er ekki treystandi til að selja tóbak nema til þeirra sem hafa náð tilsettum aldri, er einhver ástæða til að ætla að eitthvað annað verði uppi á teningnum með léttvínið?
Þriðjudagur, 20. mars 2007
ZERO áhugi
Það er ekki oft að auglýsingar virka öfugt á Púkann - gera það að verkum að hann einsetur sér að sniðganga viðkomandi vöru.
Þessum "Coca Cola ZERO" auglýsingum sem hefur rignt yfir Púkann nýlega tókst þetta þó. Púkinn skilur vel að gallharðir femínistar setji sig upp á móti auglýsingunum, en sjálfur hefur Púkinn aldrei talið sig til þess hóps.
Nei, það sem ergir Púkann er að auglýsingarnar eru svo hallærislegar að þær vekja með honum þörf til að skipta um útvarpsrás ef hann heyrir þær.
Það má vera að Púkinn sé bara orðinn of gamall - hafi ekki þann húmor sem til þarf til að meta auglýsingarnar, enda virðist þeim fyrst og fremst vera beint að karlmönnum undir tvítugu, en hvað Púkann varðar, þá er niðurstaðan ZERO áhugi.
Nei, Púkinn heldur sig við sódavatn eða sykurlaust 7up.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 16. mars 2007
Bruðl dagsins - snobbskyndibiti
Pítsur eru fljótlegur og frekar ódýr matur, ekki satt? Ef matseðillinn hjá Nino's Bellisima í New York má sjá þar pítsu með sýrðum rjóma, graslauk, humar, laxahrognum, wasabi og fjórum tegundum af kavíar.
Verðið er "aðeins" 1000 dollarar, eða 250 dollarar fyrir hverja sneið.
Púkinn fær sér reyndar mjög oft pítsu, en af einhverjum ástæðum höfðar þessi ekki til hans - og það er ekki bara vegna verðmiðans?
Þetta er reyndar ekki dýrasta pítsa heims. Sú er næstum fjórum sinnum dýrari, en það er væntanlega út af gullflögunum sem er sáldrað yfir hana. Eins og Púkinn hefur minnst á áður er gull leyfilegt bætiefni í mat, með sitt eigið E númer.
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Krækiberjalíkjör
Púkinn er hlyntur öllu sem stuðlar að aukinni fjölbreytni í íslensku atvinnulífi - sérstaklega þegar um er að ræða eitthvað sem er umhverfisvænt og er ekki bundið við einn ákveðinn landshluta. Hver veit nema niðurstaðan af þessu verði til dæmis íslenskur krækiberjalíkjör, eins og sá sem er þegar framleiddur í Nova Scotia eða Noregi.
Fleiri tegundir standa til boða auk þeirra sem vaxa villtar á Íslandi eins og krækiber, bláber, aðalbláber. Einnig vaxa jarðarber villt hér, þótt þau séu reyndar ekki eiginleg "ber". Hrútaber eru líka til, en tæplega raunhæfur kostur. Það er síðan spurning um orðalag í lögunum - mega menn brugga úr því sem þeir rækta í görðum sínum og gróðurhúsum? Þá höfum við rifsber, sólber, stikilsber, hindber, brómber og jafnvel vínber, svo ekki sé nú minnst á margvíslegar grænmetis- og kryddjurtir.
Hins vegar finnst Púkanum vera ákveðin mismunun á ferðinni hér. Hvers vegna er þetta takmarkað við íslensk ber og jurtir? Í Finnlandi vaxa til dæmis rúmar 30 tegundir af berjum sem hægt er að brugga úr - Púkanum finnst svolítið óréttlátt að hann megi ekki brugga moltuberjasnafs, nú svo að ekki sé minnst á að greinarmunur er gerður á íslenskum vínberjum og innfluttum.
Hitt er síðan annað mál að með þessu er verið að lögleiða það sem hefur verið stundað á mörgum stöðum árum saman, mörgum til ánægju. Gott mál.
Megi brugga íslensk vín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. mars 2007
Namm, namm, brúðarkjóll
Valenty Shtefano var að fara að kvænast og hann átti sér draum - hann langaði til að búa til brúðarkjól handa konunni sinni tilvonandi. Það var bara eitt smáatriði - hann var útlærður kokkur, en ekki fatahönnuður.
Ekki vandamál.
Niðurstaðan varð þessi kjóll hér, búinn til úr 1500 litlum rjómabollum.
Það sem Púkinn veltir fyrir sér er hvað varð um kjólinn á eftir. Ætli brúðhjónin hafi tekið hann með sem nesti í brúðkaupsferðina?
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 02:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 12. mars 2007
Skyndi-skyndibitar
Sumum finnst hraðinn stöðugt fara vaxandi í þjóðfélaginu - of mikið sé um það að fólk sé að flýta sér að hlutum sem það ætti njóta þess að gera rólega.
Púkinn rakst nýlega á gott dæmi um þetta - bakaraofn sem framleiðendurnir segja að geti eldað matinn 15 sinnum hraðar en hefðbundinn ofn.
Þetta nýja tækniundur nefnist TurboChef Speedcook og byggir á öflugum blástursofni sem beinir heitum loftstraumi bæði ofan og neðan að réttinum. Þar að auki er örbylgjutæknin notuð til að hita réttinn innanfrá á sama tíma.
Verðið er rúm hálf milljón, en nánari upplýsingar má fá hér.
Púkinn er nú ekki alveg sannfærður um að hann myndi vilja svona skyndi-skyndi-skyndibita.
Sunnudagur, 11. mars 2007
Maurakökur
Púkinn hefur alltaf verið hrifin af óvenjulegum mat og hefur fyrir vikið prófað ýmsa skrýtna hluti víða um heiminn. Þessi mynd hér sýnir þó einn rétt sem Púkinn hefur aldrei komist í tæri við.
Yanomami ættbálkurinn í frimskógum Venezuela notar maura til matargerðar á ýmsa vegu, en af einhverjum ástæðum hefur það hráefni ekki náð miklum vinsældum.
Á matarsýningu sem var haldin fyrir nokkrum dögum voru hins vegar kynntar maurasmákökur, væntanlega til að sameina hefðbundna matargerð og þetta sérstaka hráefni.
Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt - ristaðir, sykraðir maurar þekkjast í Suður-Afríku og eru jafnvel borðaðir eins og poppkorn í kvikmyndahúsum. Engisprettur og ýmsar bjöllur er einnig unnt að matreiða á marga vegu.
Vandamálið er bara það að hér á Íslandi eru flest skordýr svo lítil að erfitt væri að búa til áhugaverða rétti úr þeim.
Nammi...namm.
Laugardagur, 10. mars 2007
Xenu-dagurinn er í dag
Í dag er rétti dagurinn til að klæða sig í geimverubúning og detta ærlega í það.
Það er að minnsta kosti skoðun þeirra sem halda upp á Xenu daginn á hverju ári á þeim laugardegi sem er næstur 13. mars, fæðingardegi Ron L. Hubbard, stofnanda Vísindakirkjunnar - þessa furðulega söfnuðar sem John Travolta og Tom Cruise tilheyra.
Vísindakirkjan hefur reyndar lítið að gera með vísindi - en því meira með vísindaskáldsögur. Þeir sem ganga í söfnuðinn fá reyndar ekki að heyra um Xenu strax. Fyrst þurfa þeir að fara í gegnum langt ferli sem tekur einhver ár og borga milljónir fyrir kennsluna sem verður dýrari með hverju skrefinu.
Þegar safnaðarmeðlimir hafa borgað allmargar milljónir og náð svokölluðu OT-3 stigi, þá fá þeir að heyra söguna um Xenu.
Sú saga er svona:
Einu sinni fyrir langa löngu (fyrir 73 milljónum ára til að vera nákvæmur) var einvaldur í geimnum sem nefndist Xenu. Xenu stjórnaði öllum plánetunum í okkar hluta Vetrarbrautarinnar, þar á meðal jörðinni, nema hvað hún hét Teegeeack á þeim tíma.
Xenu átti við vandamál að stríða. Það var offjölgun á öllum plánetunum hans, eða um 178 milljarðar á hverri plánetu. Xenu vildi leysa offjölgunarvandamálið og hann var með áætlun.
Xenu tók sér einræðisvald og með aðstoð geðlækna lét hann kalla eftir milljörðum lífvera til að skoða skattaframtöl þeirra, en í staðinn var þeim gefin lömunarsprauta.
Síðan var þeim raðað í geimskip sem litu alveg eins út og DC-8 flugvélar, nema þær höfðu eldflaugahreyfla.
Þessum geimskipum var síðan flogið til jarðarinnar, þar sem einstaklingunum var staflað í kringum eldfjöll. Þegar því var lokið var vetnissprengjum komið fyrir í eldfjöllunum, þær sprengdar samtímis og allir voru drepnir.
Sagan endar ekki hér. Þar sem þessar lífverur höfðu sálir (þetana), þurfti að plata sálirnar til að koma ekki aftur. Þeim var því safnað saman með rafgildrum og þeim pakkað í kassa sem var farið með í kvikmyndahús, þar sem sálirnar voru látnar eyða mörgum dögum í að horfa á þrívíddarmyndir sem sögðu þeim að þær væru Guð, djöfullinn eða Jesús.
Þegar myndasýningunni lauk og sálirnar yfirgáfu kvikmyndahúsið hengu sálirnar saman, því þær höfðu séð sömu myndirnar og héldu að þær væru sama veran. Þessir sálnaklasar tengdust síðan þeim líkömum sem enn voru til.
Hvað Xenu varðar, þá var hann að lokum tekinn til fanga og lokaður inn í fjalli þar sem honum er haldið í orkusviði sem er knúið af eilífðarrafhlöðu.
Svona endar sagan - þetta er ástæðan fyrir öllum vandamálum mannanna - við okkur hanga klasar af andlegum sníkjudýrum, sálir geimvera sem voru sprengdar í tætlur.
Er þetta heimskuleg saga? Já, en þetta er ein af mikilvægustu trúarsetningum safnaðarins - stórisannleikurinn sem meðlimir fá loksins að vita eftir veruleg fjárútlát og margra ára meðferð, þar sem þeir eru tengdir við lygamæli langtímum saman og yfirheyrðir.
Sem sagt, góð ástæða fyrir okkur hin til að fara í geimverubúning og detta í það.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 9. mars 2007
Má bjóða þér bjórvömb?
Það hefur aldrei þótt eftirsóknarvert að vera með bjórvömb og talið merki um óheilbrigt líferni og hreyfingarleysi.
Nú er hins vegar bandarískt fyrirtæki farið að bjóða upp á bjórvambir til sölu - á 40 dollara auk flutningskostnaðar. Þetta er belgur sem hangir framan á maga viðkomandi, auk sogrörs þannig að ,menn geti fengið sér bjórsopa þegar þá langar til.
Áhugasömum er hér með bent á beerbelly.com
Fyrirtækið markaðssetur einnig útgáfu fyrir konur, undir nafninu WineRack og er reyndar sem stendur að leita að fyrirsætum - þær sem hafa áhuga eru beðnar að senda fyrirtækinu tölvupóst með upplýsingum um skálastærð.
Það er sama hvað hver segir - Púkann langar ekki í bjórvömb í jólagjöf.
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Vítamín eru góð (í hófi)
Það er ekkert nýtt að bent sé á skaðleg áhrif af ofneyslu vítamína, en Púkinn vill nú samt minna á að ekki eru öll vítamín undir sömu sök seld.
Til einföldunar má skipta vítamínum í tvo flokka, vatnsleysanleg og fituleysanleg.
Fituleysanlegu vítamínin geta safnast upp í líkamanum og það eru þau sem geta valdið eiturverkunum og geta verið lífshættuleg í óhófi. Þetta eru A, D, E og K vítamín.
Ofneysla A vítamíns getur valdið einkennum eins og flagnandi húð, hárlosi, beinverkjum, en ofneysla D vítamíns getur valdið hægðatregðu, þunglyndi og almennum slappleika. Enn stærri skammtar geta síðan valdið lífshættulegri nýrnabilun. E og K vítamín geta einnig valdið eitrunum, en þær eru mun sjaldgæfari, enda er mun algengara að fólk taki inn stóra skammta af A og D vítamínum, til dæmis með lýsisneyslu, en E og K.
Púkinn hefur einnig heyrt að ísbjarnalifur innihaldi það mikið magn af A (og D) vítamínum að hún sé stórhættuleg en grænlenskir veiðimenn munu víst hafa lært þá lexíu fyrir longu síðan.
Eins og Púkinn sagði, þá er þetta ekkert nýtt.
Vatnsleysanlegu vítamínin (B og C) eru hins vegar meinlausari þótt þau séu tekin í óhófi þar sem hjá fólki með eðlilega nýrnastarfsemi skiljast þau jafnóðum út með þvagi. Samt er ofneysla þeyrra ekki alveg meinlaus. Púkinn notaði sjálfur á sínum tíma mikið af C-vítamíni á formi freyðitaflna, þegar hann var að venja sig af kókdrykkju. Var svo komið að dagneyslan mun hafa verið um 2 grömm af C-vítamíni.
Áhrifin létu ekki á sér standa - hlandið í Púkanum varð svo súrt að hann endaði á spítalanum með nýrnasteina.
Síðan þá hefur Púkinn farið varlega í vítamínneyslunni.
Fjörefnin banvæn? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)