Færsluflokkur: Fjármál
Fimmtudagur, 24. júní 2010
Það ætti að rannsaka íslensku þjóðina.
Það er gott mál að rannsaka hvernig þessi uppákoma með gengisbundnu lánin gat eiginlega átt sér stað, en Púkanum finnst eiginlega meiri þörf á að rannsaka hvers vegna Íslendingar eru svo mikil fífl að kjósa yfir sig aftur og aftur gersamlega óhæfa ráðamenn.
Það má nefna Valgerði Sverrisdóttur sem dæmi - hún var ráðherra og ein þeirra rúmlega 30 þingmanna sem samþykktu á sínum tíma þau lög sem dómur Hæstaréttar byggði á.
Það hefði mátt halda að einhverja þessara þingmanna hefði mátt gruna að lánin stæðust ekki þau lög sem þeir samþykktu - en lét einhver þingmannanna þá skoðun í ljós?
Núna stígur Valgerður fram og segir að þetta hafi alltaf verið vitað - núna getur hún talað þegar afglöp hennar í starfi eru fyrnd og hún getur róleg tekið við þeim eftirlaunum sem henni eru greidd fyrir vel unnin störf....eða þannig.
Samt er sökin ekki að öllu leyti hennar - það voru jú íslenskir kjósendur sem kusu þá þingmenn sem settu þau lög sem á endanum rústuðu efnahagslífi þjóðarinnar. Það voru íslenskir kjósendur sem kusu þá þingmenn sem einkavinavæddu bankana, innleiddu athugasemdalaust evrópskar reglugerðir, lögðu Þjóðhagsstofnun niður, breyttu lögum um Seðlabankann, þannig að hann hálfneyddist til að hækka stöðugt vexti með alvarlegum afleiðingum, opnuðu á "hagkvæmari" íbúðalán og hömpuðu útrásarvíkingunum.
Það voru líka íslenskir kjósendur sem kusu þá stjórn sem nú situr - stjórnina sem átti að bjarga landinu úr þeim brunarústum sem fyrri stjórnir báru ábyrgð á, en hefur því miður valdið vonbrigðum, nánast frá fyrsta degi.
Eru íslenskir kjósendur upp til hópa fífl?
Vill rannsókn á gengislánum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 22. júní 2010
Eiga allir að borga sínar skuldir (eða bara sumir)?
Púkanum finnst merkilegt að sumum þeirra sem höfðu hæst um að íslenskir útrásarvíkingar og óreiðumenn ættu að borga sínar skuldir finnist eðlilegt að aðeins hluti þjóðarinnar borgi sín fasteigna- og bílalán til baka.
Púkinn er um margt ósammála Merði Árnasyni (sem og öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar), en verður þó að viðurkenna að í þetta sinn hefur hann rétt fyrir sér - það er ekki réttlátt að ákveðinn hluti þjóðarinnar fái einfaldlega að sleppa við að borga sínar skuldir.
Gengistryggð bílalán eru ekki stóra vandamálið hér - það setur þjóðfélagið ekki á hliðina þótt þeir sem tóku þau lán fái þau afskrifuð að hluta, með því að gengisbindingin verði felld niður og ekkert komi í staðinn.
Stóra vandamálið eru gengistryggðu núsnæðislánin, sem eru mun stærri, til mun lengri tíma og veitt af bönkunum. Væru þessi lán látin breytast í óverðtryggð lán með 2-3% vöxtum, myndu þau brenna upp á lánstímanum, enda engar líkur til að verðbólgan á Íslandi haldist lægri en vaxtaprósentan.
Þetta gæti haft í för með sér verulega veikingu bankanna, sem myndi á endanum bitna á öllum, í formi hærri vaxta og hærri skatta. Það er ekki réttlæti í því að þeir sem voru varkárir og forðuðust gengistryggðu lánin þegar ljóst var að fall krónunnar væri fyrirsjáanlegt verði að taka á sig auknar byrðar vegna þeirra sem tóku áhættu.
Púkinn vill gjarnan sjá réttlæti, en það verður að vera réttlæti fyrir alla - ekki bara suma.
Þess vegna er eðlilegt að gera eins og Mörður leggur til - að gengistryggðum ánum verði breytt í vísitölutryggð lán með lágum vöxtum. Þá sitja allir skuldarar við sama borð, óháð því hvort þeir tóku gengisbundin lán eða ekki. Síðan má grípa til almennra aðgerða eins og að færa niður höfuðstól allra lánanna eða annað í þeim dúr.
Það er síðan allt annað mál hvernig á að taka á málum þeirra sem hafa þegar orðið gjaldþrota, eða lent í vandræðum vegna þess að þeir hafa ekki getað staðið í skilum með gengistryggðu lánin.
(Púkinn vill taka fram að lokum að hann á ekki beinna persónulegra hagsmuna að gæta - er hvorki með gengistryggð lán eða vísitölubundin).
Vill verðtryggingu á lánin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (48)
Fimmtudagur, 17. júní 2010
Hvað kemur í staðinn fyrir gengistrygginguna?
Margir virðast trúa því að gengistryggðu lánunum verði breytt þannig að gengistryggingin verði bara felld niður og eftir standi óverðtryggð lán með 2-3% vöxtum, sem verðbólgan muni éta upp.
Púkinn telur þetta tæplega raunhæfar væntingar.
Lögfræðingar lánafyrirtækjanna munu væntanlega vísa til þess að heimilt er að breyta samningum eftirá séu þeir augljóslega ósanngjarnir og einföld niðurfelling gengisbindingarinnar væri augljóslega ósanngjörn fyrir lánveitandann, þar sem lántakandinn myndi ekki einu sinni endurgreiða raunverðmæti lánsins.
Það er hins vegar ekki alveg svo einfalt að lánafyrirtækin geti einhliða breytt skilmálunum en Alþingi getur hins vegar sett lög um hvað skuli koma í stað gengisbindingarinnar.
Alþingi er hins vegar milli steins og sleggju. Verði lánunum t.d. breytt í óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, eða verðtryggð lán (miðað við íslenska vísitölu), með föstum vöxtum ofaná, munu margir lántakendur uppgötva að staða þeirra batnar í raun lítið (og háð því hvenær lánið var tekið og til hversu langs tíma, gætu jafnvel einhverjir tapað á breytingunni). Stjórnvöld myndu verða sökuð um að ganga erinda fjármálafyrirtækjanna og mörg málaferli gætu farið af stað.
Geri Alþingi ekkert mun mikil óvissa verða ríkjandi mánuðum saman og stjórnvöld sökuð um að sinna ekki skyldu sinni.
Láti Alþingi hins vegar lánin standa óverðtryggð með lágum vöxtum munu þýsku bankarnir og aðrir þeir sem lánuðu fjármögnunarfyrirtækjunum væntanlega höfða skaðabótamál. Það mun einnig koma upp óánægja hjá þeim sem gerðu sér grein fyrir áhættunni við að taka gengisbundin lán, en héldu sig við venjuleg verðtryggð lán í íslenskum krónum.
Fólkið sem sýndi varkárni og forðaðist þá fáránlegu áhættu sem fólst í því að taka gengisbundin lán yrði allt í einu í mun verri stöðu en þeir sem tóku áhættuna - þessi hópur myndi væntanlega krefjast leiðréttinga á sínum málum.
Púkinn spáir því langvinnum málarekstri og að þegar upp verður staðið verði það aðallega lögfræðingarnir sem muni græða á þessu öllu saman.
Sleppa ekki frá skuldunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Laugardagur, 5. september 2009
Tillaga til lausnar á vanda (sumra) heimila
Það eru engar töfralausnir til. Það er hins vegar hægt að koma með lausnir sem myndu leysa úr vanda margra, án þess að kosta of mikið, eða bitna á öðrum þegnum þjóðfélagsins.
Púkinn vill leyfa sér að koma með eftirfarandi tillögu:
- Sumir gerðu þau mistök að festa kaup á nýrri fasteign áður en þeir voru búnir að selja þá gömlu og sitja nú upp með tvær eignir eftir að fasteignamarkaðurinn fraus. Vanda þeirra má að hluta leysa með fasteignafélagi í eigu lífeyrissjóða eða hins opinbera sem myndi kaupa aðra eignina á raunhæfu verði með það í huga að leigja hana út eða selja hana eftir nokkur ár þegar fasteignamarkaðurinn tekur við sér. Til að hindra misnotkun yrða að takmarka þetta úrræði við íbúðarhúsnæði í eigu fjölskyldna - ekki skúffueignarhaldfélaga.
- Ef fjölskylda á aðeins eina fasteign og afborganir af áhvílandi lánum eru orðnar henni um megn má útfæra þetta þannig að fasteignin renni til fasteignafélags, en áhvílandi skuldir umfram verðmæti fasteignarinnar verði felldar niður. Fólk fengi síðan rétt til að búa áfram í húsnæðinu gegn greiðslu sanngjarnrar leigu.
Er lausnin fólgin í fasteignafélögum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Mánudagur, 31. ágúst 2009
Bílalán í erlendri mynt - heimska eða vítavert athæfi?
Sparsemi og þolinmæði virðast sjaldgæfir eiginleikar meðal Íslendinga. Þeir þóttu skrýtnir árið 2007 sem vildu spara sér fyrir bíl, staðgreiða hann, aka á honum skuldlausum frá fyrsta degi - og láta hann endast í 10 ár eða meir.
Nei, stór hluti þjóðarinnar vildi það nýjasta og það besta...og vildi það strax. Bíl núna...borga seinna.
Fólki var boðið upp á "hagstæð" gengisbundin lán til að fjármagna bílakaupin, en fáir hlustuðu á þá sem vöruðu við og sögðu slík lán vera hreina heimsku, nema fyrir þá sem hefðu tekjur í erlendum gjaldeyri.
Margir tóku þessi lán á þeim tíma þegar ljóst var að krónan var allt, allt of hátt skráð. Það var engin spurning um hvort gengi krónunnar myndi falla hressilega - spurningin var bara hvenær hún félli og hversu mikið.
Sumir þeirra sem tóku þessi lán gerðu sér grein fyrir gengisáhættunni, en litu svo á að jafnvel þótt gengið félli um 15%, þá væru þeir samt betur staddir en ef þeir hefðu tekið lán í íslenskum krónum á miklu hærri vöxtum. Aðrir virðast hreinlega ekki hafa gert sér grein fyrir hættunni, eða ekki trúað því að krónan gæti fallið um 30-40-50%.
Það er hins vegar sennilegt að margir aðilar innan bankakerfisins hafi gert sér grein fyrir hættunni - sérstaklega seinni hluta ársins 2007 og síðar, þegar ljóst var hvert stefndi. Samt héldu bankarnir og fjármögnunarfyrirtækin áfram að bjóða þessi lán.
Púkinn er þeirrar skoðunar að í mörgum tilvikum þá hafi þessir aðilar verið að nýta sér vanþekkingu fólks á áhættunni - og héldu áfram að bjóða upp á lán án þess að vara við því að líkurnar væru að aukast á því að greiðslubyrðin af láninu gætu snaraukist.
Það er hins vegar ekki bara við bankana að sakast. Hluti ábyrgðarinnar liggur líka hjá öllum þeim sem tóku þessi lán, í stað þess að láta gamla bílinn duga aðeins lengur og spara fyrir nýjum bíl á meðan.
Allt að 12 milljón króna bílalán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Mánudagur, 17. ágúst 2009
Sjálfstæðisflokkurinn stórskaðar Ísland
En hvað það væri nú gaman ef formaður Sjálfstæðisflokksins myndi viðurkenna ábyrgð flokksins á því hvernig staða Íslands er í dag...
...viðurkenna ábyrgð flokksins á að hafa (ásamt Framsóknarflokkinum) klúðrað einkavæðingu bankanna gersamlega.
...viðurkenna ábyrgð flokksins á að hafa ekki lögleitt regluverk sem hélt aftur af fjárglæframönnunum,á þeim tíma þegar flokkurinn var leiðandi í stjórn landsins.
...viðurkenna að flokkurinn brást gersamlega (ásamt Samfylkingunni) á þeim tímapunkti þegar allt hrundi.
Já, það væri gaman ef menn gætu viðurkennt hvar stór hluti ábyrgðarinnar liggur.
Stórskaðar hagsmuni Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 7. ágúst 2009
Skyldulesning um Icesave
Púkinn ætlaði að blogga um Icesave í dag, en ákvað þess í stað að benda á grein eftir Marinó G. Njálsson, sem segir allt það sem Púkinn vildi sagt hafa.
Hér er sem sagt skyldulesning um Icesave: Sterkustu rökin gegn Icesave
„Það er búið að semja!“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 29. júlí 2009
Barnaleg umræða um Evru á Íslandi
Púkanum finnst ótrúlegt að það skuli enn vera fólk á Íslandi sem trúir því að við getum tekið upp Evruna í náinni framtíð og að það muni verða allra meina bót.
Í því tilefni er ástæða til að ítreka eftirfarandi:
Ef svo fer að Íslendingar gangi í ESB (sem Púkinn vonar að gerist ekki) og við ákveðum að sækja um inngöngu í myntbandalagið of taka upp Evruna, munum við ekki fá neinn afslátt frá þeim skilyrðum sem eru sett.
Við munum þurfa að uppfylla kröfurnar um vaxtastig, gengisstöðugleika og fjárlagahalla - kröfur sem við höfum átt erfitt með að uppfylla hingað til.
Málið er hins vegar það að ef við myndum uppfylla þær kröfur - þá væri efnahagsástandið hér að við þyrftum ekki á Evrunni að halda.
Pólverjar fjarlægjast evruna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Mánudagur, 6. júlí 2009
Orsök vandamáls: Of mikið lánsfé ... Lausn vandamáls: Meira lánsfé
Er það bara ég, eða finnst einhverjum öðrum það hljóma skringilega að tala um lánsfé sem lausn vandamála?
Nú er ég ekki bara að vísa til þess að óheftur aðgangur að "ódýru" lánsfé átti stóran þátt í þeim vandræðum sem nú þjaka marga aðila, heldur ekki síður til þeirrar staðreyndar að lán eru...lán.
Þau þarf að borga fyrr eða síðar og lántaka skuldsettra aðila er í raun bara frestun vandamála.
En...kannski er Púkinn bara skrýtinn - Púkinn vill nefnilega ekki taka lán - frekar að spara fyrir hlutum þangað til hann hefur efni á þeim.
Aðgangur að lánsfé lausnin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 2. júlí 2009
Bregst Seðlabankinn enn?
Púkinn gagnrýndi hávaxtastefnu Seðlabankans á dögum "góðærisins". Í dag vill Púkinn líka gagnrýna vaxtastefnuna, en á allt öðrum forsendum.
Skoðum þetta aðeins nánar. Á þeim árum þegar allt sýndist vera á uppleið hér á landi töldu menn sér trú um að hér væri verðbólga og þensla sem nauðsynlegt væri að slá á. Það var að vísu rétt að hér var þensla, sér í lagi á húsnæðismarkaði - drifin áfram af aðgengi að "ódýru" lánsfé.
Seðlabankinn beitti þá þeirri hagfræðikennslubókartækni að hækka vexti - á þeirri forsendu að hækkandi vextir ættu að slá á þenslu...en það virkaði ekki. Hvað var að?
Vandamálið er að sú kenning að hækkandi stýrivextir dragi úr þenslu byggir á þeirri forsendu að stýrivextirnir stjórni þeim vaxtakjörum sem almenningi og fyrirtækjum bjóðast. Þegar vextir eru hækkaðir verður dýrara að fá pening að láni til framkvæmda og fjárfestinga, þannig að þær minnka, sem þýðir að slegið er á þensluna.
Þetta er kenningin - en hvers vegna virkaði þetta ekki? Jú, ástæðan var einfaldlega að fyrrnefnd forsenda var röng - fyrirtækjum og einstaklingum buðust erlend lán á "góðum" kjörum - mun lægri vöxtum en í boði voru á Íslandi, þannig að íslenskir stýrivextir snertu ekki marga lántakendur.
Þegar þessi þróun varð ljós hefði Seðlabankinn að sjálfsögðu átt að hætta þessum tilgangslausu stýrivaxtahækkunum og beita þess í stað aðferðum sem hefðu virkað, en nei....vaxtahækkanirnar héldu áfram.
Þessir síhækkandi vextir höfðu ekki þau áhrif á þensluna sem vonast var til, en stuðluðu hins vegar að því að styrkja krónuna - erlent fjármagn fæddi inn í landið og Íslendingar töldu sér trú um að þeir væru ríkir ... hlupu til og keyptu sér flatskjái og pallbíla.
Ef Seðlabankinn hefði gefist upp á vaxtahækkunarstefnunni og þess í stað hækkað bindiskyldu bankanna til að hafa hemil á útlánagleði þeirra, eða keypt gjaldeyri til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann og halda aftur af hinni óeðlilegu styrkingu krónunnar, þá hefði ástandið ef til vill ekki þróast á þann veg sem það gerði.
Hvað um það...hér þarf ekki að rekja hvernig Seðlabankinn, ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið brugðust gersamlega og hvernig allt hrundi á endanum, en nú er staðan aftur sú að Seðlabankinn þráast við að halda vöxtunum uppi.
Nú eru það hins vegar ekki bara einstaka sérvitringar sem gagnrýna vaxtastefnuna, heldur forsvarsmenn fyrirtækja, launþega og jafnvel ríkisstjórnin sjálf.
Rökstuðningurinn fyrir háum vöxtum núna er fyrst og fremst sá að styðja verði við krónuna - ef stýrivextir væru snarlækkaðir myndi það draga úr tiltrú á krónuna og valda algeru hrapi hennar ef gjaldeyrishöftin væru afnumin.
Það er að vísu sá galli á þessu að erlendir aðilar hafa þegar misst alla tiltrú á krónunni - þeir sem eiga eignir í íslenskum krónum vilja helst sleppa burt með það sem þeir geta og hvort vextirnir hér eru góðir eða ekki skiptir einfaldlega ekki máli - þeir treysta einfaldlega ekki íslenska fjármálakerfinu.
Önnur rök eru sú að stýrivextir megi ekki vera lægri en sem nemur verðbólgu í viðkomandi hagkerfi. Það má færa góð hagfræðileg rök fyrir þessu, en þau rök eiga við þegar aðstæður eru "eðlilegar" - ekki þegar nánast algert kerfishrun hefur átt sér stað.
Þvert á móti má halda því fram að við núverandi aðstæður sé réttlætanlegt að láta Seðlabankanum "blæða út"með því að hafa neikvæða raunstýrivexti tímabundið. í þeim tilgangi að halda sem flestum fyrirtækjum landsins gangandi.
Seðlabankinn er hins vegar enn fastur í beitingu hagfræðikennslubókakenninga, en hugsar ekki um heildarhagsmuni þjóðarinnar ... ekki frekar en áður.
Stýrivextir áfram 12% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)