Miðvikudagur, 17. nóvember 2010
Merkingarlaust bull um eignarhald auðlinda
Sumir frambjóðendur til stjórnlagaþings segja að setja eigi í stjórnarskrána klausu um að náttúruauðlindir skuli vera sameign þjóðarinnar. Að mati Púkans eru þessir aðilar hreinir moðhausar, sem ekkert erindi eiga á þingið.
Þessi frasi "Náttúruauðlindir Íslands eru sameign íslensku þjóðarinnar" hljómar svo sem ósköp fallega - svona eins og "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir", en þegar betur er að gáð, er þetta merkingarlaust kjaftæði - innihaldslaus klisja sem á ekkert erindi í stjórnarskrána.
Púkinn var einn þátttakenda á þjóðfundinum og þar heyrðist þessi frasi nokkuð oft, en þeir sem héldu þessu á lofti virtust almennt ekki hafa á hreinu hvað þetta þýddi.
Skoðum nokkur atriði.
- Hvaða náttúruauðlindir er verið að tala um - allar, eða bara sumar? Fólk nefnir gjarnan jarðvarma, orku fallvatna og fiskinn í sjónum, en hvað með aðrar náttúruauðlindir? Í sumarbústaðalandinu mínu vex bláberjalyng - náttúruauðlind sem unnt er að nýta - á berjalyngið mitt að verða sameign þjóðarinnar? Hvað með menn sem hafa ræktað upp skóg, eða sleppt silungi í tjörn sem þeir eiga? Ef aðeins tilteknar auðlindir eiga að verða "sameign þjóðarinnar", væri þá ekki nær að tilgreina þær sérstaklega heldur en að tala um allar auðlindir almennt?
- Hvað með auðlindir sem í dag eru sannanlega í einkaeign. Ef ég ætti t.d. land með jarðvarma sem ég nýtti til að hita upp gróðurhús - ætti þá að taka mína eign af mér og þjóðnýta hana? Hvaða bætur fengi ég? Er fólk að tala fyrir allsherjar Sovét-Íslands þjóðnýtingu allra auðlinda? Ekki gleyma því að 72. grein stjórnarskrárinnar segir "Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir."
- Hvað þýðir að eitthvað sé "sameign þjóðarinnar"? Getur þjóðin sem slík átt eitthvað? Eiga menn við að íslenska ríkið sé eigandi auðlindanna, eða eiga menn við eitthvað annað - og þá hvað? Óskýrir slagorðakenndir frasar eiga að mati Púkans ekkert erindi í stjórnarskrána - hún á að vera skýr og ekki rúm fyrir hártoganir og túlkanir sem breytast eftir því hvernig pólitískir vindar blása.
- Skiptir eignarréttur á auðlindum einhverju máli? Púkinn vill bera þetta saman við það sem gilti í gömlu Sovétríkjunum, þegar sagt var að verkamennirnir ættu verksmiðjurnar sem þeir unnu í. Þeir höfðu að vísu engan möguleika á að ráðstafa þeirri "eign" og nutu ekki arðsins af henni, en þeir "áttu" verksmiðjuna. Það skiptir nefnilega engu máli hver "á" auðlindina - það skiptir bara máli hver nýtir hana og hver fær arðinn af nýtingunni.
Málið er einfalt - jafnvel þótt í stjórnarskránni væri merkingarlaus klisjukenndur frasi um sameign þjóðarinnar á auðlindunum, þá væri það eftir sem áður hið opinbera sem réði því hverjir nýttu auðlindina og hvert arðurinn af nýtingunni rynni. Svo dæmi væri tekið, þá myndi svona frasi ekki breyta neinu um kvótakerfi eða möguleika fyrirtækja eins og Geysir Green Energy til að nýta auðlindir hér. Þjóðin má svosem "eiga" auðlindina, en stjórnvöld ákvarða sem fyrr hver nýtir hana.
Þessi frasi "Náttúruauðlindir Íslands eru sameign íslensku þjóðarinnar" myndi nákvæmlega engu breyta.
Eignarhald auðlinda mikilvægasta málið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Facebook
Athugasemdir
Sammála Friðrik. Hef margoft lýst þessum skoðunum mínum á blogginu mínu og í athugasemdum. Og fiskurinn í sjónum er ekki frekar náttúruauðlind en lax og silungur í ám og vötnum. Þetta eru hlunnindi en ekki auðlind. Það er nýtingarrétturinn sem allt snýst um og hann bindum við ekki í stjórnarskrá held ég.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 17.11.2010 kl. 13:54
Sem oftar er ég hjartanlega sammála Púkanum, en þori þó ekki að orða hlutina eins umbúðalaust og hann. Eftir lesturinn á kynningarbæklingnum um frambjóðendur til stjórnlagaþingsins, er ég akkúrat engu nær um hverju þetta annars áhugasama fólk um velferð okkar hinna vill breyta í stjórnarskránni og ég er hræddur um að flest viti þau það ekki sjálf ef marka má bæklinginn. Ég átti orðastað við einn frambjóðandann, Björn Guðbrand, í heita pottinum um daginn (vissi reyndar ekki þá að hann væri í framboði). Hann vildi kjósa forsetann í beinni kosningu og veita honum alvöruvald á við Frakklandsforseta, og sagði jafnframt að með þessu yrði valddreifingin MEIRI. Heyr á endemi! Núverandi þingræði og ráðherraræði dreifir valdinu nokkuð jafnt milli ráðherranna og þeir einir mynda ríkisstjórnina hverju sinni. Og vel að merkja þá fer hver og einn ráðherra persónulega með vald sitt, ekki flokkurinn eins og margir halda.
Við höfum því sem kjósendur nokkuð beinan aðgang að 8-12 manneskjum sem fara með framkvæmdarvaldið hverju sinni. Fækkun ráðherra þýðir minni valddreifingu og superforseti að frönskum eða bandarískum sið þýddi enn meiri samanþjöppun valdsins. Óþolandi er hvað sumt af þessu fólki sem er í framboði veit í raun lítið um það sem það ætlar að fjalla um. Hvar eru sérfræðingarnir? Ég sé ekki betur en að okkar ágæta stjórnarskrá (lög nr. 37/1944) hafi bara reynst okkur ágætlega - líka undanfarin tvö ár þegar verulega hefur reynt á hana og grundvallarlögin sem hún geymir. Ef ekkert bitastætt kemur fram hjá einhverjum alvöruframbjóðendum til stjórnlagaþings, er sennilega best að sita heima á kjördag. Lítil þátttaka myndi gelda þingið.
Jens Pétur Jensen, 17.11.2010 kl. 13:57
Hárétt. Það má við þetta bæta að sérfræðingar okkar á sviði lögfræði hafa bent á að hugtökin "sameign þjóðarinnar" hefur enga þýðingu í eignarétti og ómögulegt að beita þvíumlíku ákvæði. Það er einungis til "eignir ríkisins" og "eignir lögaðila". "Þjóðin" getur aldrei er ekki lögaðili. Ég vona að stjórnarskráin fyllist ekki af ópraktískum moðreyk, þar er stærsta hættan við að halda stjórnlagaþing á þessum tímum.
hs, 17.11.2010 kl. 14:28
ÉG hef einmitt tekið þessa nálgun á umfjöllunina um náttúruauðlindir. Það þarf að móta stefnu um nýtingu þeirra.
Ætlum við að halda áfram að vera hráefnisútflutningsland á vísu þriðja heims landa sem eru viðstöðulaust arðrænd
Eða ætlum við að þróa framleiðslu í landinu sem skilur eftir virðisauka og bætir almenn lífskjör á vísu vestræns velferðarsamfélags.
Þetta er í raun það sem styrinn stendur um hvað sem öllu orðagjálfri líður.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 17.11.2010 kl. 16:02
Púkinn lætur ekki að sér hæða.
Gísli Ingvarsson, 17.11.2010 kl. 20:38
Mætum á Austurvöll fimmtud. kl. 14.00, biðjum Alþingi um Frjálsar handfæra veiðar,
sem leysa fátæktar og atvinnu vanda Íslendinga!
Aðalsteinn Agnarsson, 17.11.2010 kl. 20:53
Eyjólfur G Svavarsson, 17.11.2010 kl. 21:54
Það sem fólk er að hugsa er væntanlega að koma í veg fyrir framsal auðlinda í hendur erlendra auðhringa. A þær haldist í Íslenskri eigu og skili arði inn í samfélagið. Ekki óeðlilegur varnagli finnst mér, ef við viljum halda sjálfrði. Margir þeirra, sem bjóða sig fram er alþýðufólk, sem ekki er sjóað í stjórnmálum en meinar vel og mér finnst það ákaflega hrokafullt af þér að tala svona niður til þess og gera því upp skoðanir. Það sem vantar hér er að orða hugsun sína og marmið og ég efast ekki um að það verði gert, þegar umræður hefjast á þinginu um útfærslur slíkra hugmynda.
Í kynningum er ekkert svigrúm til að fara í smáatriði og útfærslur. Það kemur síðar. Það er t.d. ástæða fyrir nefndum hjá hinu opinbera.Eru hugmyndir raunhæfar? Er hægt að móta reglur betur , þannig að samfélagsgrunnurinn sé betur tryggður? Til dæmis.
Þú féllst þó nokur þrep á mínum lista við þessi skrif, sem og viðhlæjendur þínir.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2010 kl. 04:31
"Það er auðvitað verið að tala um að auðlindin þín lendi ekki í höndum útlendinga"
Það er nú bara barnaskapur að halda aðfrasi eins og "Náttúruauðlindir Íslands eru sameign íslensku þjóðarinnar" myndi breyta einhverju um það.
Eins og ég sagði, þá skiptir engu máli hver "á" auðlindina - heldur hver nýtir hana og hirðir arðinn af henni. Jafnvel þótt svona ákvæði væri inni í stjórnarskránni gætu stjórnvöld eftir sem áður ákveðið að veita fyrirtækjum í erlendri eigu rétt til að nýta auðlindina.
Svonaákvæði er einfaldlega gersamlega merkingalaust og á ekkert erindi í stjórnarskrána - og það er þess vegna sem ég efast um að þeir sem ekki sjá það eigi nokkuð erindi á stjórnlagaþingið.
Flóknara er það ekki.
Hljómar kannski hrokafullt, en er það rangt?
Púkinn, 18.11.2010 kl. 11:14
Ég leita eftir frambjóðendum sem hyggjast standa vörð um fullveldisákvæðið í núgildandi stjórnarskrá. En það er erfitt að átta sig á því hverjir þeir eru, þetta upplýsingablað sem dreift var inná heimilin er ekki nógu skilmerkilegt.
Guðrún Sæmundsdóttir, 18.11.2010 kl. 12:10
Ég vil benda Púkanum á að allt er hægt þegar viljinn er fyrir hendi. Hægt er að orða hlutina þannig að þeir skiljist, en ég viðurkenni að það er nokkurt vandaverk. Tryggja þarf t.d. landeigenda orkujarða ókeypis afnot af orku til einkanota.
Guðrún, ég mun berjast fyrir ákvæði í stjórnarskrá um að Ísland sé frjálst og fullvalda ríki.
Elín Erna Steinarsdóttir, 18.11.2010 kl. 18:09
Púkinn er greinilega einn af þeim sem sér erfitt verkefni og segir strax "nei þetta er ómögulegt og ekki hægt".
Það er einmitt nauðsynlegt að setja inn ákvæði þess efnis að þær auðlindir sem ekki eru í einkaeigu (svo púkinn geti áfram stundað berjatínslu) séu í þjóðareigu og að nýtingarrétt á þeim auðlindum er ekki hægt að framselja án þess að a) um það séu sett lög, b) i stað komi endurgjald sem taki eðlilegt viðmið af verðmæti nýtingarréttarins c) að framsalið sé ekki varanlegt og myndi ekki eignarrétt af neinu tagi, t.d. veðrétt eða framsalsrétt.
Ef þetta er ekki gert er allt eins víst að við munum standa frammi fyrir því að þegar (eða ef) olía finnist við Ísland þá verði sú auðlind afhent útgerðarmönnum vegna þess að "þeir nota svo djö... mikið af olíu strákarnir og eiga þetta skilið fyrir dugnaðinn".
Magnús Birgisson, 19.11.2010 kl. 11:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.