Er ég blár eða grænn?

Ég er blár, ekki satt?  Sjáið bara myndina af mér - ég er blárri en Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn og Geir H. Haarde til samans.

Samt er ég farinn að efast um minn sanna lit. Mér finnst ég nefnilega vera að verða svolítið grænleitari eftir því sem tíminn líður, og það virðist ágerast eftir því sem styttist í kosningar.

Ég rek fyrirtæki, á allgóðar eignir, hef allsæmilegar fjármagnstekjur og vil skattkerfi sem verðlaunar framtakssemi, en refsar ekki þeim sem sýna dugnað með því að hrekja þá úr landi. Ég ætti samkvæmt því í rauninni að eiga heima í Sjálfstæðisflokknum.  En samt - ég er ekki sáttur við stóriðjustefnuna, með sínum háspennulínum og tilheyrandi loftmengun.  Ég er ekki sáttur við efnahagsóstjórnina heldur. Hávaxtastefnan og ofurkrónan er að murka lífið úr mínu fyrirtæki - ég er nefnilega svo vitlaus að vera með útflutningsfyrirtæki, sem borgar laun í krónum, en hefur tekjur í dollurum og evrum.

Ég er ekki viss um að ég þrauki önnur 4 ár með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn á þjóðarskútunni.

En hvaða aðrir valkostir eru í boði?

  • Framsóknarflokkurinn?  Hjálpi mér - að koma þeim frá völdum væri eitt mesta framfaraskref sem íslenska þjóðin gæti tekið.  Ég vil ekki fleiri Héðinsfjarðargöng og önnur gæluverkefni ætluð til að tryggja einhver jaðaratkvæði - nei, ég vil flokk sem þorir að hugsa til framtíðar og taka ákvarðanir sem gagnast lengur en sem nemur kjörtímabili viðkomandi þingmanna og ráðherra.
  • Frjálslyndir?  Nei takk, ekki þegar Margrét er farin og  lýðskrumararnir úr Nýju afli eru eftir.   Auk þess er mér ekki vel við flokk sem elur á tortryggni í garð útlendinga.  Ég gæti ekki verið án þeirra útlendinga sem vinna hjá  mér, en þeir koma frá 5 heimsálfum.
  •  Samfylkingin?  Ég get stutt sum af þeirra málum.  Ég vil gott heilbrigðis- og menntakerfi og er reiðubúinn að borga minn skerf til samfélagsins til að standa undir því.  Ég er hins vegar svo ósammála mörgum af þeirra baráttumálum að ekki þarf að hafa um það fleiri orð.
  • Vinstri grænir?  Vandamálið er að ég er mjög sáttur við "græna" hlutann af þeirra málflutningi, en það er þetta með "vinstri" partinn sem ég get ekki alveg samþykkt.

Það stefnir í fjölbreytt úrval framboða í komandi kosningum.  Hvorugur hópur aldraðra og öryrkja höfðar til mín, en ég sé þó ljós í myrkrinu, ef Ómar og Margrét Sverrisdóttir ná saman.  

Þar væri loksins kominn raunhæfur kostur fyrir litla blágræna púka eins og mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú minnist á Héðinsfjarðagöng. Helsti báráttumaður fyrir þeim er í stjórnarandstöðunni...Kristján Möller.

Hvað grænu byltinguna varðar þá er ég nú ekki hlyntur henni á þeim forsendum sem bæði Ómar og  VG hafa. ´

Þú talar um erfiðleika í þínu fyrirtæki og kennir væntanlega þenslunni um. Um aldamótin var þensla, hún var ekki vegna stóriðju. Ég held að almenningur eigi stærstan hlut í núverandi þenslu þó auðvitað eigi stóriðjan þátt í henni líka. Þegar bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn þá fór þjóðin á neyslufyllerí. Sá faktor vegur þyngst held ég. Bankarnir dældu 1.400 miljörðum til almennings. Framkvæmdirnar fyrir austan kosta um 250 miljarða. Útlitið er að skána, ekki örvænta

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.3.2007 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband