Laugardagur, 10. mars 2007
Barnaklámsnetlöggan
Þar sem allir eðlilegir einstaklingar hafa viðbjóð á barnaklámi virkar það oft vel að veifa barnaklámsflagginu til að auka eftirlit með tölvunotendum eða takmarka réttindi þeirra á einhvern hátt. Það er erfitt fyrir menn að vera á móti aðgerðum af þessari tegund án þess að verða úthrópaðir sem perravinir.
Málið er hins vegar ekki svo einfalt.
Púkinn hefur áður skrifað um tengt efni - samanber þessa grein.
Nú ætlar Púkinn hins vegar að fullyrða að tilraunir til að stöðva dreifingu óþverrans á þann hátt sem dönsk stjórnvöld eru að ræða um eru einfaldlega ekki vænlegar til árangurs.
Netfyrirtæki geta vissulega lokað á aðgang að einstökum vefsíðum, en í þessum tilvikum myndu síðurnar bara færast annað, eða jafnvel vera komið fyrir á tölvum einstaklinga án þeirra vitundar.
Það eru þekkt dæmi um það að brotist hafi verið inn á tölvur og þær notaðar til að hýsa þjóna til dreifingar á margvíslegu kolólöglegu efni. Í einhverjum tilvikum hafa eigendur tölvanna síðan lent í verulegum vandræðum fyrir vikið.
Ef stjórnvöld ætlast hins vegar til að netfyrirtækin horfi ekki á uppruna efnisins, heldur ritskoði það hreinlega, er málið enn fáránlegra. Burtséð frá því að mögulega er þetta efni sent dulkóðað á milli manna, er í hæsta máta vafasamt að notendur sætti sig við almenna ritskoðun, til að unnt sé að leita að svona efni.
Eitt enn sem menn hafa verið að horfa á er að skylda netfyrirtækin til að geyma öll gögn um samskipti langt aftur í tímann. Hugsunin er þá að ef einhver perri er gripinn, þá séu hans samskipti skoðuð til að athuga uppruna efnisins og síðan væntanlega gerð húsleit hjá öllum öðrum sem hafa fengið efni frá sömu stöðum. Það eru hins vegar ýmis tækni- og siðferðisleg rök gegn þessu.
Eða, eins og Púkinn sagði áður - þetta er ekki alveg svona einfalt.
Barnaklám af Netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 14:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.