Sömu laun fyrir sömu vinnu? Nei, ekki með evrulaunum

euro Þótt opinberum starfsmönnum muni væntanlega aldrei standa til boða að fá laun sín greidd í evrum að hluta, eru margir - sér í lagi starfsmenn útflutningsfyrirtækja - sem nú þegar hafa þennan háttinn á.

Evrulaun vekja hins vegar upp nokkrar spurningar sem ekki hafa mikið verið ræddar.

Fyrsta spurningin snýr að rétti starfsmanna til að breyta milli þess að fá laun sín greidd í evrum  og krónum.  Stærri sveiflur á gengi krónunnar standa oft yfir mánuðum saman og það er augljóst að ef starfsmenn geta fengið laun sín í evrum á því tímabili sem krónan er að veikjast en skipt síðan yfir og fengið launin í krónum þegar hún er að styrkjast geta þeir hagnast verulega á kostnað launagreiðandans.  Launagreiðendur hljóta því að gera þá kröfu að samningar um greiðslu launa í öðrum gjaldmiðlum séu gerðir til langs tíma - líta þannig á að ef starfsmenn vilja hagnast á þessu fyrirkomulagi þegar krónan veikist, verði þeir líka að taka skellinn þegar hún styrkist.

Önnur spurningin snýr að þeim starfsmönnum sem fá launahækkanir samkvæmt kjarasamningum.  Nú er það svo að þegar samið er um launahækkanir er hluti þeirra hækkana ætlaður til að bæta þá kjararýrnun sem hefur orðið vegna verðbólgu.  Tengist sú verðbólga hins vegar gengisfalli krónunnar (og þar af leiðandi hækkunum á innfluttum vörum), er ljóst að sá sem fær launin í evrum hefur ekki orðið fyrir þeirri kjararýrnun að jafn miklu leyti og sá sem fær krónulaun.   Er þá réttlátt að báðir fái sömu launahækkun?  Verður ekki að semja sérstaklega um hækkanir á evrulaun?

Þriðja spurningin snýr að jafnrétti - ef tveir starfsmenn vinna hlið við hlið við sömu vinnu og fá sömu laun í upphafi, en annar fær laun í krónum og hinn í evrum, er ljóst að með tímanum geta laun þeirra breyst mismikið - þeir fá því ekki lengur sömu laun fyrir sömu vinnu.  Eru allir sáttir við það?
mbl.is SA samþykkja kjarasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Athyglisverðar pælingar. Hver getur svarað þessu?

Landfari, 10.3.2008 kl. 15:11

2 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Athyglisverðar vangaveltur!

1. Ég sé ekki fyrir mér að fyrirtæki fari að greiða út í Evrum eða annarri mynt nema þeir hafi tekjur í þeirri mynt.  Hitt væri of mikil gengisáhætta.  Ef svo færi þá væri einfaldlega gerður ráðningasamningur upp á það launafyrirkomulag sem starfsmaðurinn gæti auðvitað sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara en það er ekkert víst að vinnuveitandinn hefði áhuga á að gera samning við hann aftur.  Það er reyndar alveg klárt að ef vinnuveitandinn væri að tapa á þessu þá myndi hann aldrei skrifa undir.  Taki hann hins vegar inn tekjur í íslenskum krónum og Evrum þá sæi hann sér alveg eins fært að rokka á milli eftir árferði.  Það er hins vegar eðli samninga að vinnuveitandinn myndi vilja lækka laun starfsmannsins eða beita öðrum aðferðum sem gerðu það að verkum að báðir aðilar myndu skipta hagnaðinum á milli sín á einhvern hátt.  Ef ég greiði þér 100 þús. og þú færð 200 þús. í vasann vegna þess að ég samþykkti að greiða þér í Evrum þá hlýt ég að fara fram á að lækka launin niður í 75% þannig að við högnumst báðir. Ekki satt?

2. Launahækkanir í kjarasamningi eru ákvarðaðar út frá þeirri kostnaðarhækkun sem atvinnurekandinn semur um að verða fyrir.  Honum er síðan tiltölulega sama hvernig sá kostnaður dreifist, upp að vissu marki alla vega.  Ef launþegi nr. 1 vill borga niður gengisáhættu launþega nr. 2 þá  er hann auðvitað bara að gera það með því að lækka eigin hækkun á móti.

3. Ef annar óskar eftir því að fá launin sín í Evrum en ekki hinn þá hljóta báðir að taka afleiðingunum hvort sem þeir hækka eða lækka í launum.

4. Lykilatriðið er auðvitað hjá hverjum liggur gengisáhættan?  Ef starfsmaður fær greitt í Evrum en hefur alla sína neyslu í krónum þá getur ráðstöfunarfé viðkomandi sveiflast verulega milli mánaða.  Þessu hafa margir erlendir námsmenn lent í þegar þeir hafa fengið námslán í íslenskum krónum en verið í námi erlendis og haft neysluna sína í þarlendri mynt.

Starfsmaðurinn vill því væntanlega einungis hafa þann hluta launa sinna í erlendri mynt sem hann nýtir til að greiða tiltekin erlend lán sem hann hefur tekið.  Hinn hlutann vill hann fá í þeirri mynt sem hann nýtir dags daglega.

Fyrirtækið vill líka fráleitt taka á sig gengisáhættuna þannig að henni yrði annað hvort dreift á milli beggja eða þá að starfsmaðurinn tæki hana á sig sem væri mikil áhætta.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 10.3.2008 kl. 17:20

3 Smámynd: Einar Jón

Held að ég sé ekki að upplýsa um nein leyndarmál, en ég vinn í fyrirtæki sem býður upp á útborgun 10-40% launa í evrum. Ekki er mögulegt að fá útborgað inn á gjaldeyrisreikning v. skattaflækja (segja þeir), svo að menn semja um vissa upphæð sem er "breytt í evrur", og síðan er borgað út í ÍSK og skattar og gjöld tekin af lokaupphæðinni. Starfsmaður má segja upp samningnum hvenær sem er, en fær þá ekki að gera nýjan samning síðar.

Svona virkar það hjá okkur:
Ef Jón og Kalli hafa 250þ á mánuði og Jón vill taka 40% evrulaun er 100þ "skipt í evrur" á gengi þess dags sem hann ákveður að skipta. Ef gengið var 9.0909 (des 2007) fær Jón "jafngildi 1100evra".

Í hverjum mánuði eftir það fær hann útborgaðar 150þ+"jafngildi 1100evra á gengi 1. þess mánaðar". Sem dæmi má taka að 1. mars var gengið ~99,8kr, svo að Jón fær 150þ+1100*99.8=259780 og "græðir" því tæp 10þ (fyrir skatt).

Þegar Kalli sér að Jón er að græða og vill byrja að fá evrulaun í dag skiptir hann 100þ á genginu 105.1 og fær því aðeins "jafngildi 951 evra". Því er kominn fastur 149evra (~15þ) launamunur á þessum 2 starfmönnum sem áður höfðu sömu laun.

Það skiptir því miklu máli hvert gengið er þegar skipt er í evrulaun, en ef skuldir beggja eru í evrum gæti Kalli í raun komið betur út...

Einar Jón, 10.3.2008 kl. 18:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband