Laugardagur, 17. maí 2008
Þrjú umslög - lítil saga
Í bananalýðveldinu Langtburtistan áttu sér stað stjórnarskipti. Þegar gamli forsætisráðherrann afhenti þeim nýja lyklana að ráðuneytinu rétti hann honum líka þrjú númeruð umstög og sagði honum að opna þau í réttri röð ef hann stæði frammi fyrir erfiðri krísu í efnahagslífinu.
Nokkrum mánuðum síðar skall fyrsta krísan á og ráðherrann sá fram á að sér yrði ekki vært í embætti mikið lengur að öllu óbreyttu. Hann mundi þá eftir umslögunum þremur og opnaði það fyrsta. Í því var lítill miði sem sagði "Kenndu mér um allt". Ráðherrann fór að þessum ráðum, kenndi röngum ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar um allt sem aflaga hafði farið, og tókst að sannfæra þjóðina að hún yrði að herða sultarólina um stund meðan unnið væri úr þeim vandamálum sem forverar hans bæru ábyrgð á.
Nokkrum misserum síðar stefndi allt aftur á sama veg og ráðherrann opnaði annað umslagið. Í því var miði sem sagði "Kenndu útlendingum og ytri aðstæðum um allt". Ráðherrann fór að þessum ráðum og kenndi erlendum spekúlöntum og óhagstæðri þróun á hrávöruverði á erlendum mörkuðum um ástandið í efnahagslífinu. Þjóðin trúði honum og ró færðist yfir.
Þó koma að því að ólga gaus upp aftur í þjóðfélaginu og ráðherrann opnaði þriðja umslagið skjálfandi höndum. Í því var miði sem sagði "Útbúðu þrjú umslög".
-----------------------
Púkinn getur ekki að því gert, en stundum veltir hann fyrir sér hvort íslenskir ráðamenn eigi eitthvað sameiginlegt með þessum ímynduðu kollegum sínum í Langtburtistan.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Spaugilegt | Facebook
Athugasemdir
ha ha þessi var góður.. og passar merkilega vel við íslenskt samfélag í dag.
Óskar Þorkelsson, 17.5.2008 kl. 10:41
Þarna hittir þú á það...
Hallgrímur Guðmundsson, 18.5.2008 kl. 01:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.