Olíuhreinsunarstöð - nei takk!

Púkanum finnst Arnarfjörður fallegur staður - sjáið bara myndina sem fylgir þessari grein.  Þessi gullna sandströnd er ekki við Miðjarðarhafið - nei, hún er tekin í Arnarfirði síðasta sumar.

Púkinn var alvarlega að íhuga að kaupa jörð í Arnarfirði, en einhver annar varð á undan - og reyndar er Púkinn hálffeginn að ekkert varð af kaupunum, því nú virðist sem til standi að eyðileggja Arnarfjörð með því að reisa þar olíuhreinsunarstöð.

Já, ég segi eyðileggja

Arnarfjörður verður ekki lengur friðsæl náttúruparadís, ef af byggingu olíuhreinsunarstöðvarinnar verður.  Hver vill nærveru við risavaxna, mengandi verksmiðju?

Það eru fáar fyrirhugaðar framkvæmdir sem Púkinn er jafn andvígur og þessi olíuhreinsunarstöð og kemur þar ýmislegt til.

  • Í fyrsta lagi er mengun af svona starfsemi - loftmengun, möguleg frárennslismengun og sjónmengun.  Það má vel vera að íbúum Bíldudals hugnist að fá mengandi stóriðju í næsta nágrenni við sig, en Púkinn er ekki viss um að þeir hafi hugsað dæmið til enda.
  • Í öðru lagi er hætta af mengun vegna stöðugra ferða stórra olíuflutningaskipa.  Veður eru nú ekki alltaf góð á þessum slóðum og aukin umferð olíuflutningaskipa felur í sér aukna hættu á umhverfisslysum.
  • Starfsemi þessarar stöðvar getur með engu móti rúmast innan skuldbindinga Íslendinga samkvæmt Kyoto sáttmálanum.  Forsvarsmenn fyrirtækisins segja það engu máli skipta, því hún fari hvort eð er ekki af stað fyrr en eftir að Kyoto rennur út.  Slíkt viðhorf finnst Púkanum á engan hátt réttlætanlegt.
  • Púkinn nýtur þess að ferðast um Vestfirði, stóriðjulausa landsfjórðunginn, en það er ljóst að ef af þessari framkvæmd verður mun Púkinn taka á sig stóran krók framhjá Bíldudal í framtíðinni.

Púkinn veltir líka fyrir sér hver sé raunverulegur ávinningur af því að reisa svona stöð á Íslandi.  Það eru þegar nægjanlega margar svona stöðvar í heiminum til að vinna þá olíu sem er dælt upp úr jörðinni - og ef eitthvað er, þá fara olíubirgðir heimsins minnkandi, ekki vaxandi.  Hverjir græða á því að setja svona stöð niður á Íslandi?  Eru það aðilar sem ekki fá að starfrækja svona stöðvar erlendis, þar sem fólk er búið að fá nóg af menguninni sem þeim fylgir, eða sér að þær rúmast ekki heldur þar innan Kyoto samkomulagsins?

Það er rætt um að svona stöð muni geta skapað 500-700 störf.   Það munar vissulega um slíkt, en Púkanum er spurn hvort 500-700 manns finnist á svæðinu sem vilji vinna á svona stað, eða hvort þurfi að flytja inn starfsmenn.  Ef raunin verður sú að flestir starfsmennirnir verði frá Austur-Evrópu, er spurning hver raunávinningurinn fyrir Bíldudal sé, svona til lengri tíma litið.

Erlendis er frekar verið að leggja niður olíuhreinsunarstöðvar en að byggja nýjar.  Viljum við virkilega setja upp mengandi verksmiðjur hér, sem aðrir vilja ekki hafa?

Hvers vegna reyna menn ekki að byggja upp greinar sem einhver framtíð er í - mengunarlaus fyrirtæki sem krefjast menntaðra starfsmanna - ekki mengandi stóriðju sem er holað niður í fallegum firði af því að aðrir vilja ekki hafa svona óþverra í túnfætinum hjá sér.  

Hvað um það - Púkinn ætti að ná að skreppa til Arnarfjarðar að leyfa hundinum aftur að leika sér á sandströndinni áður en þessar hugmyndir verða að veruleika.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

þetta bara má ekki gerast

mjög flott mynd hinsvegar! 

halkatla, 31.5.2008 kl. 12:10

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta sínir að það er peningurinn sem ræður. Það virðist enginn að stjórnmála klíkunni segja neitt við þessu. Það er bara svo að flestar þjóðir eru búnar að setja stopp á olíuhreinsistöðvar nema ó/vanþróaða Ísland.

Valdimar Samúelsson, 31.5.2008 kl. 16:24

3 Smámynd: Ellý

Svo innilega sammála þér. Það er bara ítrekað verið að eyðileggja landið okkar og allt sem það gæti staðið fyrir.

Náttúru auðlindir, heilsa, fegurð. Og svo vill stjórnin bara mengun og viðbjóð. Ég er mjög sorgmædd yfir þessu. 

Ellý, 31.5.2008 kl. 17:11

4 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Ég vil gjarnan sjá pappírsverksmiðju á íslandi sem breytir öllum dagblaðspappír og öðrum pappír sem til fellur í klósettpappír og þurrkur. þarmeð sparast mikil orka við flutning á endurvinnslupappírnum til Svíþjóðar og svo WC pappír hingað.

Nú einnig vil ég sjá meiri matvælaframleiðslu og mætti athuga með repjuræktun og fleira  jafnvel nýta jarðvarma sem víða finnst eða byggja yfir akra og skaffa þeim birtu með raflýsingu.

Svo er ég Frikki minn með endalausar nýsköpunarhugmyndir í mínum kolli, meira að segja á þínu sviði ef þú hefur áhuga

En olíuhreinsunarstöð nei takk !!

Guðrún Sæmundsdóttir, 31.5.2008 kl. 22:31

5 Smámynd: booboo

500 til 700 störf bjarga ekki Vestfjörðum. Hættan á umhverfisslysi í firðinum er líklega ekki mikil en ef svo færi þá erum við ekki að tala um neina smá eyðileggingu. Það  sem ég er þó hræddastur við  er  umferð  risaoliuskipa  mjög nálægt  okkar landi og válynd veður, sem við sem höfum verið til sjós könnumst við. Það er skelfilegt að hugsa til þess hvað getur gerst.

booboo , 31.5.2008 kl. 22:36

6 Smámynd: Magnús Jónsson

þvílík hræsni sem birtist hér í öllu, bæði grein og athugasemdum, þú hefur líklega farið í Arnarfjörð á reiðhjólinu þínu Púkinn, ég var í sveit í á Fífustöðum í Arnarfyrði sem gutt, allt þar í eiði nú engin hefur áhuga á neinu þar ef frá er talin listaverk Samúels í Selárdal, að frysta heilan landhluta til að hundur geti hlaupið um fjöru það er ekki allt í lagi hjá ykkur sem hér hafið verið að tjá ykkur, bara 500 til 700 störf mundu gerbreyta öllu á vestfjörðum það er hámark ábyrgðarleysisins að gera lítið úr slíku skömm þín er booboo, Guðrún vil hreinsa pappír og veit greinilega ekkert um hvað hún er að tala það er gríðarlega flókið efnaferli að hreinsa pappír þannig að óhætt sé að skeina sér með honum og skapar nánast meiri mengun heldur en að brenna sama pappír, annað hvort eruð þiðð öll yllqa upplíst eða......

Magnús Jónsson, 1.6.2008 kl. 00:06

7 Smámynd: Magnús Jónsson

AnnA: Líklega hefur Bæjarstjórn vesturbyggðar áhyggjur af aumu atvinnuástandi á síu svæði (landshluta ef þú skilur það betur) fyrst, og hugsanlega geta einhverjir haft sama sjúka hugsunarhátt og þú ert að gefa í skin hérna en ég tel það harla ólíklegt, þegar um kjörna fulltrúa er að ræða, það hlýtur að vera ömurlegt að horfa á húsin í þorpunum sem fólkið hefur yfirgefið vegna þess að enga atvinnu er að hafa, og horfa svo á skrif fólks sem er svo veruleikafyrt hérna á mölinni að halda því að fólki að Vestfirðir séu best geymdir í eiði áfram,  hugsa fyrst tjá sig svo á við í dag eins og  forðum .

Magnús Jónsson, 1.6.2008 kl. 00:58

8 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Guðrún vil hreinsa pappír og veit greinilega ekkert um hvað hún er að tala það er gríðarlega flókið efnaferli að hreinsa pappír þannig að óhætt sé að skeina sér með honum og skapar nánast meiri mengun heldur en að brenna sama pappír

Já ég vil endilega sjá tölur um þessa "gífurlegu mengun" sem pappírshreinsunin veldur Allavega er þá eðlilegra að við íslendingar berum þá mengun sjálf, heldur en að láta Svía sitja í súpunni!

Magnús ég er nú uppalin á vestfjörðum  og þekki vel þar til, ertu til í að fórna núverandi atvinnu vestfirðinga af veiðum, ferðamannaþjónustu og fleiru, við hugsanlegt olíuslys?

Guðrún Sæmundsdóttir, 1.6.2008 kl. 12:32

9 Smámynd: Einar Indriðason

Svo er það þessi spurning:  Hvaða vinnuafl mun vinna þarna?  Íslenskir Vestfirðingar?  Eða ... Lægra launaðir austur-evrópubúar, sem gera minni kröfur til launa?  (En hafa það þó miklu betra hérna, heldur en í austur-evrópu?)

Einar Indriðason, 1.6.2008 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband