Vetnis-, rafmagns-, etanól-, bíodísel-, metan- og vatnsbílar

Púkinn minntist fyrir nokkrum dögum á svikahrappa sem reyna að telja fólki trú um að það geti knúið bílana sína með vatni (sjá hér).

Hvað um það - þótt hækkandi eldsneytisverð um þessar mundir sé að hluta til afleiðing óheftrar spákaupmennsku, þá er ljóst að til lengri tíma litið þurfa menn að horfast í augu við að framboð á olíu  er ekki ótakmarkað.  Á næstu áratugum munu fleiri og fleiri skipta úr bensín- og díselknúnum ökutækjum fyrir bíla sem ganga fyrir vetni, rafmagni, etanóli eða metan.

Púkinn gæti vel hugsað sér að vera í þeim hópi, en hvert á að stefna?  Sú umræða sem hér hefur verið um vetnissamfélag er góð og gild, en Púkinn verður þó að viðurkenna að hann skilur hana ekki alveg.

Einhverjir hafa drauma um að flytja út vetni, en hagkvæmni þess er minni en að flytja út rafmagn eftir sæstreng, sem aftur er minni en að nýta rafmagnið hér innanlands til að framleiða vörur til útflutnings.  Það er einnig að koma betur og betur í ljós að orkuauðlindir Íslands eru ekki ótæmandi og Púkinn skilur ekki hvernig nokkur getur haldið á lofti hugmyndum um vetniútflutning.

Að auki - hvers vegna ættu vetnisbílar að vera betri en rafbílar? Um allan heim eru í gangi rannsóknir á notkun á vetni sem orkugjafa.  Í þeim löndum sem rafmagn er framleitt með bruna kola eða olíu er gjarnan leitað að hagkvæmum leiðum til að framleiða vetni á annan hátt en með rafgreiningu, eins og til dæmis með því að nota bakteríur sem framleiða vetni sem úrgangsefni.  Verði þessi tækni þróuð frekar er sennilegt að hún verði notuð í stað rafgreiningar.

Það er orkutap fólgið í því að rafgreina vetni og brenna því síðan aftur til að framleiða rafmagn til að knýja vetnisbíla með rafmagnsmótor - hvers vegna ekki nota bara rafmagnið beint? 

Vetnisbílar eru takmarkaðir af því að eingöngu verður hægt að "fylla á" þá á þar til gerðum stöðvum, en rafmagnsbílar stefna í þá átt að hægt verða að stinga þeim í samband heima hjá fólki - hlaða þá yfir nótt í bílskúrnum.

Saga rafmagnsbílanna er athygliverð og Púkinn mælir með því að fólk horfi á myndina Who killed the Electric Car sem mun vera fáanleg á einhverjum vídeóleigum.

Kannski Púkinn fái sér rafmagnsbíl frá Toyota aftir tvö ár eða svo, en það eru fleiri möguleikar í stöðunni og ljóst að margvíslegar breytingar eru að verða á orkubúskap heimsins. 

Við lifum á áhugaverðum tímum. 


mbl.is Bíll sem gengur fyrir vatni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hér eru tveir bloggpistlar um vetni:

Vetni eða rafgeymar sem orkumiðill bifreiða?

Vetni er ekki orkugjafi

 Satt er það púki. Við lifum á áhugaverðum tímum.

Ágúst H Bjarnason, 15.6.2008 kl. 17:15

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Letrið varð óvart svona stórt þegar ég afritaði beint fyrirsögn bloggsíðunnar í athugasemdirnar

Ágúst H Bjarnason, 15.6.2008 kl. 17:31

3 identicon

"...en rafmagnsbílar stefna í þá átt að hægt verða að stinga þeim í samband heima hjá fólki - hlaða þá yfir nótt í bílskúrnum."

Stefna í þá átt?????

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 12:47

4 identicon

Ástæðan fyrir því að menn líta til vetnis frekar en rafgeyma er ekki, hefur aldrei verið og mun aldrei vera að með vetnisframleiðslu sé orkan nýtt betur. Það er vel vitað að sama hversu langt við göngum í vetnisvæðingunni, fáum við aldrei meiri orku úr henni heldur en við þurfum til að búa hana til, í það minnsta ekki með rafgreiningu.  Hugsanlega er hægt að vinna vetni úr endurnýjanlegum orkulindum (eins og ethanól) sem væri frábært, en ég sé það ekki gerast á morgun eða hinn.

Ástæðan fyrir því að menn vilja vetni, er nefnilega sú að það er hægt að brenna það og knýja flugvélar, skip og þungavinnuvélar með því. Það er algerlega óhugsandi að nota jafnvel dýrustu og flottustu og bestu rafhlöður nútímans í dag til þess, af eftirfarandi ástæðum. Allt þetta gildir líka um nýjustu rafhlöðurnar, þó það verði að viðurkennast að mjög margir góðir hlutir eru að gerast í rafhlöðugerð... enda er það lausn á mjög mörgum vandamálum að hafa betri rafhlöður.

1. Þær eru of þungar. Til að koma bíl á 2x hraða, þarf 4x orku. Til að koma honum á 3x hraða, þarf 8x orku, og til að koma honum á 4x hraða, þarf 16x orku. Svona er þetta, þannig að þungavinnuvélar, flugvélar, skip, þyrlur og allt annað sem heldur efnahagspartýinu gangandi mun sennilega aldrei ganga fyrir rafmagni einu saman, vegna þess að það þyrfti svo þungar rafhlöður að maður myndi lenda á þröskuldi þar sem maður þyrfti meiri og meiri orku til að nýta rafhlöðurnar heldur en að knýja það sem er verið að reyna að knýja.

Þyngdin er reyndar ein af erfiðari og alvarlegri vankostum rafhlaðna yfirhöfuð.

2. Það tekur langan tíma að hlaða þær. Virðist ekki skipta miklu máli í fyrstu, en virkilega pældu í því að þurfa að bíða tímunum saman til að geta keyrt í nokkra klukkutíma. Það er annað vandamál mjög erfitt viðfangs. Það eru til svokallaðari "capacitorar" (veit ekkert hvað þeir heita á íslensku) sem taka orku jafn hratt og þeir sleppa henni, en þeir koma ekki til greina í margt annað en varaafl sökum gríðarlegrar þyngdar og fáránlegs kostnaðar. Þó eru athyglisverðar tilraunir í gangi í því að búa til litlar, léttar rafhlöður með einkenni capacitora, en persónulega er ég ekki bjartsýnn á það... er bjartsýnni á að vetnisframleiðsla muni borga sig, satt best að segja.

3. Kraftleysi. Rafmagnsbílar virka ágætlega í snattinu og innanbæjarakstri í góðum skilyrðum. En þegar þú festir þig einhvers staðar, í sandhaugi til dæmis, þá ertu í ansi vondum málum með rafhlöðu, því þá þarftu að eyða allri orkunni í að losa þig, og þá þarftu að fylla á bílinn, sem aftur tekur margar klukkustundir. Sértu á leiðinni í vinnuna er þetta vægast sagt óviðunandi. Tala nú ekki um ef þú ert fastur uppi á heiði vegna þess að... tjah:

4. Kuldi (og reyndar hiti) hefur mjög slæm áhrif á geymslugetu rafhlaðna. Á hörðum íslenskum vetri þyrfti allur bílaflotinn að vera geymdur í bílskúr á næturna, helst hituðum. Hinn kosturinn er að hita bílinn áður en hann er settur í gang og halda á honum hita á meðan hann er í gangi, hvort tveggja sem kostar gríðarlega orku.

Ég er því mjög vonlítill á að rafhlöður eigi eftir að geta leyst málið í bili. En það er rétt sem þú segir, að það er nóg af rafmagni til staðar. Ef það væri ekki fyrir þessa vankana á nútíma rafhlöðum, þá væri ekkert vandamál til staðar, því rafmagn verður einfaldlega framleitt meira eftir því sem meiri eftirspurn er eftir því, og það eru til mjög margar þrælgóðar aðferðir til að búa til rafmagn, meðal annars með fallvatnsvirkjunum. Vandinn er hinsvegar að geyma orkuna í því formi að hún nýtist til þungavinnuvéla, flugvéla, skipa og bíla (sem eiga að geta eitthvað).

En ég er sammála þér um útflutninginn á vetninu, það meikar ekki mikið sens. En að drífa bílaflota Íslands á vetni einu saman, það væri stórkostlegt eitt og sér, og myndi spara gríðarlegar fjárhæðir í viðskiptahalla þar sem öll framleiðsla væri innlend, en svo er auðvitað hitt að við þyrftum líklega að virkja fleiri fossa, sem er auðvitað bara hið besta mál nema maður sé helvítis kommúnisti (lesist Vinstri Grænn) sem hefur engan áhuga á að bjarga náttúrunni með vistvænustu orkuframleiðslu sem við þekkjum.

Virkja meira, sleppa þessum álverum og nota rafmagnið í að búa til vetni, keyra bílaflotann á því. Ef einhver gæti sýnt fram á að þetta væri kostnaðarlegur möguleiki, þá er það engin spurning fyrir mitt leyti, kýla á það og verða fyrst í heiminum til þess!

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 12:57

5 identicon

Bara aukakomment til að setja "vakta athugasemdir" við. :)

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 12:57

6 identicon

Og hér er eitt gott, varðandi vetnisframleiðslu. Gengur ekki á Íslandi, við þyrftum að nota fallvatnsvirkjanir, en sólarrafhlöður eru að þróast mjög hratt líka:

http://www.hydrogen.energy.gov/pdfs/progress07/ii_f_1_perret.pdf

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 13:02

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Það að losna við útblásturinn er einungis hluti vandans. Bifreiðar, hvaða eldsneyti sem þær eru knúnar, leiða til slits á gatnakerfi og gúmmíi. Svifrykið fer ekki fyrr en við gerum almenninlegt almenningsflutningakerfi og spornum við dreifingu byggðar.

Arnar Pálsson, 17.6.2008 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband