Þriðjudagur, 7. október 2008
Leitað að sökudólgum

Yfirstandandi atburðir koma Púkanum svosem ekkert á óvart - síðustu tvö árin hefur verið ljóst að ástandið væri óstöðugt og að skuldadögum myndi koma fyrr eða síðar.
Púkinn þarf hins vegar ekki að svipast um eftir sökudólgum. Þeir eru auðfundnir.
Alþingismenn og ráðherrar
Efstir á blaði Púkans eru þeir ráðamenn sem hafa tekið arfavitlausar ákvarðanir undanfarin ár. Þeir sem hafa lesið skrif Púkans ættu að hafa séð þessa gagnrýni, en meðal þess sem um ræðir er sú ákvörðun að leggja niður Þjóðhagsstofnun og setning rangra laga um markmið Seðlabankans.
Púkinn vill endurtaka það sem hann sagði áður (sjá þessa grein):
Ráðamenn munu halda áfram að taka rangar ákvarðanir, eða taka réttar ákvarðanir á röngum tíma. Þeir munu þakka sér allt sem fer til betri vegar, en kenna óviðráðanlegum eða óvæntum ytri aðstæðum um allt sem aflaga fer.
Púkanum finnst ekki mikið mark takandi á ráðamönnum sem segja að núverandi ástand komi þeim á óvart. Fólk með vit í kollinum sem fylgdist með því sem var á seyði, sá að hverju stefndi og margir gerðu sínar ráðstafanir í samræmi við það.
Hvað varðar þau afdrifaríku mistök sem gerð voru varðandi Seðlabankann vill Púkinn vísa á þessa grein og sömuleiðis þessa.
Það má rökræða hvort það hafi líka verið mistök að einkavæða bankana - Púkinn er nú reyndar ekki þeirrar skoðunar, en það ferli hefði mátt vera öðruvísi og eftirlitið meira.
Seðlabankinn
Púkinn er þeirrar skoðunar að Seðlabankinn hafi brugðist þjóðinni, með því að beita ekki öllum þeim verkfærum sem hann hafði til að hafa stjórn á ástandinu áður en allt var komið í óefni.
Það sem er efsta á blaði er að Seðlabankinn hefði getað sett hömlur á útlánagleði bankanna með því að hækka bindiskyldu þeirra. Það hefði haldið aftur af styrkingu krónunnar, hefði dregið úr neyslufylliríinu og hefði dregið úr þörf bankanna að slá lán erlendis.
Vandamálið er bara það að hefði Seðlabankinn tekið þessar (réttu) ákvarðanir hefði verið ráðist að honum úr öllum áttum. ASÍ (og fleiri) hefðu sakað hann um að koma í veg fyrir að Íslendingar gætu eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum, með því að draga úr möguleikum bankanna til að veita húsnæðislán og SA (og fleiri) hefðu sakað um að reyna að hefta útrás íslenskra fyrirtækja.
Nei, það er ekki auðvelt að taka réttar en óvinsælar ákvarðanir og Seðlabankinn var ekki fær um það.
Bankarnir
Hluti af sökinni liggur að sjálfsögðu hjá bönkunum sjálfum - þeir sköpuðu sér gífurlega áhættu með misræmi í löngum og stuttum lánum. Tóku skammtímalán og veittu langtímalán. Þetta virkar meðan menn geta rúllað boltanum á undan sér, en það eru margir mánuðir síðan hættumerki tóku að sjást. Sumir hluthafa bankanna gerðu sér fyllilega grein fyrir þessu og komu sér út í tíma, en aðrir sitja í súpunni.
Gráðugir, skammsýnir Íslendingar
Enn einn hluti af sökinni liggur hjá þeim stóra hluta þjóðarinnar sem tók þátt í vitleysunni. Fólk sem fagnaði þegar gengi krónunnar var allt, allt of sterkt og eyddi langt um efni fram - keypti sér húsnæði, pallbíla og risaplasmaskjái eins og peningar væru eitthvað sem spryttu upp eins sveppir í september.
Velkomin til raunveruleikans - partýið er búið og nú taka timburmennirnir við.
![]() |
Lokað fyrir viðskipti áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.