Laugardagur, 11. október 2008
Mannlegir harmleikar
Íslenska þjóðin minnir Púkann á hóp fólks sem hefur flúið brennandi hús - stendur fyrir utan og horfir á eldsvoðann. Sumir eru með allar eigur sínar í höndunum, en aðrir eru bara vafðir inn í handklæði og horfa á aleigu sína fuðra upp.
Allir eru að fylgjast með slökkviliðinu fást við eldinn en ekki er enn búið að athuga hvort allir hafi virkilega sloppið út.
Nú þegar eru farnar að ganga sögur um að fleiri en einn hafi ekki höndlað álagið og stytt sér aldur - menn sem voru ríkir fyrir skömmu síðan, en standa nú uppi slyppir og snauðir og geta ekki horfst í augu við það.
Hvort sem þær sögur eru sannar eða ekki, er víst að margir mannlegir harmleikar eru í uppsiglingu. Púkinn veit um ungt fólk sem hefur aldrei á ævinni þurft að horfast í augu við erfiðleika fyrr en núna. Fólk sem vinnur í banka og keypti hlutabréf í bankanum sínum, fullt bjartsýni - já, fékk sér jafnvel myntkörfulán (til viðbótar við bílalánið og húsnæðislánið) til að kaupa fleiri hlutabréf. Nú er allt farið - Fólkið stendur uppi eigna- og jafnvel atvinnulaust og er að reyna að átta sig á hvað gerðist.
Púkinn veit líka um námsmenn erlendis, sem horfa á allar sínar áætlanir í algeru uppnámi - fjárhagsáætlanir í rúst og framtíðin í óvissu.
Jafnvel þeir sem hafa allt sitt á hreinu, sofa með evrubunka undir koddanum og eiga engar innlendar fjárfestingar nema skuldlausar fasteignir og ríkisskuldabréf finna fyrir því sem er að gerast - flestir eiga sennilega vini eða ættingja sem eru í alvarlegum vandræðum.
Það er vonandi að sem flestir hugsi ekki bara um sjálfa sig, heldur líka þá sem verr eru staddir - það er vont að vera eignalaus, en það er verra að vera einmanna og vinalaus líka.
Rússar og IMF sameinist um lán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Á hverjum tíma eru þúsundir einstaklinga á barmi örvæntingar af ýmsum persónulegum ástæðum og sumir stytta sér aldur. Einmana og vinalausir. Og mönnum stendur svo sem á sama um það í þjóðfélaginu. Mér finnst það mjög athyglisvert að þá fyrst þegar menn verða fyrir FJÁRHAGSLEGUM þrengingum skuli koma upp samúð og samkannd. Sem sagt: Einu þrengingarnar í lífi fólks sem þjóðin viðurkennir er peningaleysi - sem auðvitað er slæmt - og það finnst mér segja talsvert um mat hennar á mannlífinu.
Sigurður Þór Guðjónsson, 11.10.2008 kl. 10:52
Það er reginmunur á. Núverandi ástand er eins og náttúruhamfarir - þeir sem verða fyrir þeim bera (flestir) enga ábyrgð. Sá hópur einstaklinga sem almennt er "á barmi örvæntingar af ýmsum ástæðum" ber stundum ábyrgð sjálfur - t.d. vegna áfengisneyslu, spilafíknar, nú - eða jafnvel heilsutjóns vegna óholls lífernis eða slysa vegna áhættusækni.
Þetta á ekki við um alla, en nógu marga til að samúðin er minni.
Svo er það líka að hópurinn núna er margfalt, margfalt stærri.
Púkinn, 11.10.2008 kl. 11:04
Ég hef lengi haft áhyggjur af því hversu þeir svarabræður Pétur Pálsson Þríhross og Júel K. Júels hafa orðið kynsælir í þessu landi.
Vonandi hefjast nú hægfara breytingar á hugarfari fólksins og endurmat á lífsgildum í þessari Sviðinsvík frjálshyggjunnar í okkar alþjóðlega samfélagi.
Ég sé ekki aðrar lausnir í sjónmáli en "eitthvað annað!"
Árni Gunnarsson, 11.10.2008 kl. 13:30
Við skulum heldur ekki gleima því að fuglaflensan er ekki komin til Íslands enn....og vörumst að skjóta fuglana áður en þeir koma til landsins...:) Verum fegin á meðan hún lætur ekki sjá sig....því þá gætum við hugsanlega farið að missa ástvini en ekki peninga.
Elín Einarsdóttir, 11.10.2008 kl. 14:25
Ég held að flestir þeirra sem eru á barmi örvæntingar séu ekki einhvejrir vandræðamenn sem geta sjálfum sér um kennt eins og þú gefur í skyn. Dæmigerð viðbrögð og staðfestir það sem ég var að benda á: aðeins fjárhagslegar þrengingar eru viðurkenndar sem raunverulegar þrengingar.
Sigurður Þór Guðjónsson, 11.10.2008 kl. 14:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.