Útflutningsfyrirtækin: Ljós í myrkrinu

Þegar bankamanían stóð sem hæst voru útflutningsfyrirtækin algerar hornrekur.  Þessi fyrirtæki sem hafa tekjur í erlendum gjaldmiðli en útgjöld að hluta (eða jafnvel mestu leyti) í íslenskum krónum, urðu að sæta því að fá færri og færri krónur fyrir dollarana sína og evrurnar.

Þetta gerðist á sama tíma og launakostnaður rauk upp í mörgum greinum, þegar bankarnir soguðu til sín tölvufræðinga, stærðfræðinga, verkfræðinga og viðskiptafræðinga.

Ef útflutningsfyrirtækin báru sig aumlega og reyndu að benda á að hin óeðlilega sterka króna ógnaði hag þeirra, var þeim efnislega sagt að halda sér saman - það væru bara eðlileg ruðningsáhrif ef þeim væri ýtt út af markaðnum.

Núna er staðan breytt.  Þau útflutningsfyrirtæki sem ekki tókst að útrýma horfa nú fram á betri tíma.  Sum þeirra fluttu að vísu starfsemi sína að hluta úr landi þegar ástandið var sem verst, önnur drógu saman seglin eða steyptu sér í skuldir, en einhver eru þó enn eftir.

Núna er allt í einu gott að eiga skuldlaust útflutningsfyrirtæki, sem flytur út vörur eða hugvit en fær í staðinn harðan gjaldeyri.

Það var kominn tími til.


mbl.is Hagnaður Össurar eykst um 480%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Stefánsson

Eins dauði er annars...

Jón Stefánsson, 11.10.2008 kl. 17:57

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Sæmundur [fróði] lét púka í fjósið hjá fjósamanni sem honum þótti of blótsamur en með þeim hætti hugðist hann sýna honum að kölski hefði blótsyrði og illan munnsöfnuð mannanna handa sér og púkum sínum til viðurværis.

Fjósamanni tókst að stilla sig í nokkurn tíma og sá hann að púkinn horaðist með hverju dægri. Þó kom að því að hann hellti yfir hann óttalegum illyrðum og hroðalegu blóti en þá lifnaði púkinn við og varð svo feitur og pattaralegur að við sjálft lá að hann hlypi í spik þar sem hann lá á básnum sínum."

Þorsteinn Briem, 12.10.2008 kl. 04:08

3 Smámynd: Púkinn

Púkinn er nú ekki bara að tala um sitt fyrirtæki, heldur útflutningsfyrirtæki almennt...

Púkinn, 12.10.2008 kl. 16:32

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fleiri krónur í kassann fyrir útflutning á vöru og þjónustu. Gott til dæmis fyrir landsbyggðina, sjávarútveginn og ferðaþjónustuna. Fleiri hótel reist hérlendis. Og vextir lækka hér loks á næstunni.

Þorsteinn Briem, 12.10.2008 kl. 18:34

5 Smámynd: Kebblari

Það er mjög mikilvægt að framleiðslufyrirtækin fái fókus, við verðum að hlúa vel að þeirri þekkingu sem við höfum í landinu, sér í lagi þeirri þekkingu sem felst í því að búa til verðmæti. Sjómenn og útgerðamenn eru í þessu efni mjög mikilvæg auðlind. Einnig frumkvöðlar í t.d. þorskeldi, svo sem Hraðfrystihúsið Gunnvör fyrir Vestan.

Ég var á ferðinni um Snæfellsnes um helgina og ræddi þar við sjómenn. Þeir fengu ekki uppsveifluna og sjá ekki alveg niðursveifluna, eru til í að fá verðbréfamiðlarana í áhöfn, þeir eru alveg til í að afhenda ríkinu kvótann ef ríkið afskrifar skuldirnar, frétti af einum öryrkja í Ólafsvík sem skuldar 1.8 milljarða. Mér var sagt það væri ok því það væri Sparisjóðurinn í Keflavík sem ætti kröfuna á hann, og veðið væri í óseljanlegum kvóta.

Kebblari, 12.10.2008 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband