Ég vil ráða fólk í vinnu...

Nú þegar endalausar fréttir berast af niðurskurði hér, hagræðingu þar og uppsögnum út um allt, þá er Púkinn svolítið úr takt við þjóðfélagið, því hann myndi gjarnan vilja ráða nokkra starfsmenn.

Aðstæðurnar eru ágætar - fyrirtæki Púkans er í útflutningi, með nánast allar sínar tekjur í evrum og dollurum og engar erlendar skuldir sem íþyngja rekstrinum.

Púkann vantar líka nokkra tölvumenn, Windows og Perl forritara og þessa dagana ætti að vera auðveldara að finna fólk en oft áður.

Málið er bara ekki alveg svona einfalt.  Púkinn á nú ekki von á því að verða fyrir tjóni vegna þess að fyrirtækið er íslenskt, enda hefur verið reynt að leyna því eftir getu - Ísland hefur nefnilega ekkert sérstaka ímynd í upplýsingatækniheiminum - enda ekki skrýtið, þar sem stjórnvöld hér á landi hafa aldrei sýnt viðleitni til að styðja við þann geira.

Það eru hins vegar ýmis önnur atriði sem skapa óvissu.

Það er gífurleg óvissa varðandi gengismálin á næstunni.  Fyrir fyrirtæki sem byggir starfsemi sína á útflutningi er erfitt að gera framtíðaráætlanir ef ekki er hægt að sjá fyrir hversu margar krónur munu fást fyrir evrurnar og dollarana á næstu mánuðum. Núverandi veiking krónunnar hjápar að vísu þónokkuð til,  en hún þarf að standa í allmarga mánuði til að vega upp þann skaða sem ofurkrónustefnan olli á sínum tíma.  Það eykur líka óvissuna að nú er orðið erfitt að flytja gjaldeyri hingað - nú síðast í gær tilkynnti sænski bankinn sem greiðslukortaviðskiptin fara í gegnum að þeir gætu ekki lengur sent okkur gjaldeyrinn okkar beint.

Annað vandamál er þessi almenna óvissa sem nú ríkir - hugsanlega fara einhverjir viðskiptavinir á hausinn eða draga saman seglin og salan minnkar af þeim sökum - það er einfaldlega ekki enn orðið ljóst hvort framundan er víðtæk heimskreppa eða ekki.

Nei, óvissan er einfaldlega of mikil til að Púkinn geti leyft sér að ráða fólk sem stendur ... sjáum til eftir nokkrar vikur.


mbl.is Yfir 50% aukning á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Góðar pælingar. Sem útflytjandi í 24 ár þá hef ég horft upp á marga verskmiðjuna rjúka upp en eigandann svo gjaldþrota í ofsterka rússíbanagenginu hér. Ég átti í verksmiðjum sem töpuðust helst vegna sterkara gengis þegar Icesavarar og Krónubréfakarlar mergsugu krónuna af vöxtum en létu landann vera í víxilvímu um stund.

Þegar gatan virðist greið framundan, þá eru óvissuþættirnir fjölmargir, en verstir þeirra eru stjórnmálamenn og gjörðir þeirra. Síðan er það almannarómur. Ef vel gengur, þá er sagt um verskmiðjueigandann: „níðingurinn sem arðrænir fólkið sitt“. En ef t.d. hráefni rýkur upp í verði en afurðaverð niður, þá er sagt: „hann er nú meiri vitleysingurinn, sjáðu hvernig hann klúðrar góðum bisniss“. Þannig að ekki á að hlusta áalmannaróm í þessu.

Ívar Pálsson, 23.10.2008 kl. 23:33

2 Smámynd: Sigurjón

Það ætti ekki að skorta tölvunarfræðinga á lausu eftir nokkrar vikur.  Menn úr bönkunum, hugbúnaðarverktakafyrirtækjum og svo mætti lengi telja...

Sigurjón, 24.10.2008 kl. 01:12

3 Smámynd: LM

Það er nú ekki víst að margir tölvunarfræðingar losni við þessar bankahörmungar en örugglega einhverjir. 

Ég geri ráð fyrir því að Púkinn þurfi úrvalsmenn og það þrengir hópinn enn meir.

Tek undir það sem þú segir um viðhorf stjórnvalda.  Upplýsingatækni hefur aldrei átt upp á pallborðið hjá íslenskum pólitíkusum.  Fókusinn nær ekki út fyrir þungaiðnað í dreifbýli.

Ef við hefðum styrkt upplýsingatækniiðnaðinn í stað þess að niðurgreiða raforku til þungaiðnaðar þá værum við sjálfsagt í betri málum í dag.

LM, 25.10.2008 kl. 00:48

4 Smámynd: Einar Indriðason

Ég man eftir fundi hjá Skýrslutæknifélaginu um aukin stuðning stjórnvalda við þekkingarfyrirtæki.  Fyrstur á dagskrá var Geir "aðhöfumst ekkert" H. Haarde.  hann steig í pontu með mikla lofsræðu og mikil loforð, hvað það væri nú bjart og hægt að styðja mikið við, og þetta væri eitt af fjöreggjum þjóðarinnar.

Eftir sína ræðu, þá afsakaði Geir "aðhöfumst ekkert" H. Haarde sig, sagðist þurfa að fara á fund út í bæ, og rauk út.

Þar með missti hann af því að heyra innlenda aðila tjá sig um hversu "vel" stjórnvöld hefðu tekið undir og stutt við þekkingariðnaðinn hingað til.  (Semsagt, ekki.)

Meðal þeirra sem þar töluðu, og voru ekki sáttir við aðgerðir stjórnvalda, þar var púkinn.  Og ekki sáttur. 

Einar Indriðason, 25.10.2008 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband