Þriðjudagur, 4. nóvember 2008
Vill þjóðin nýja flokka?
Púkinn er nokkuð viss um að Sjálfstæðisflokkurinn mun berjast gegn þingrofi og kosningum, enda biði hans ekkert annað en afhroð væri kosið á næstu mánuðum...en fari nú svo að kosningar yrðu innan árs, eru einhverjir trúverðugir valkostir í boði?
Púkinn lætur sig dreyma um að fram á sjónarsviðið komi Endurreisnarflokkurinn, skipaður fólki með vit í kollinum og báðar fætur á jörðinni - flokkur sem er fær um að takast á við fyrirliggjandi vandamál. Líkurnar á því eru hins vegar því miður mjög litlar. Púkinn vill leyfa sér að spá eftirfarandi:
Í næstu kosningum (hvenær svo sem þær verða) munu núverandi flokkar bjóða fram, og þótt einhverjar endurnýjanir verði í einhverjum þeirra mun heildarsvipurinn verða lítið breyttur. Allnokkrar líkur eru á klofningi í nokkrum flokkum og mögulegum sérframboðum óánægðra hópa innan þeirra. Einhver ný framboð munu koma fram, ýmist jaðarframboð sérhópa, eða óánægjuframboð lýðskrumara, sem aftur munu lognast út af eða klofna eftir eitt kjörtímabil
Er Púkinn svartsýnn? Kannski, en stóra vandamálið er að það fólk sem Púkinn myndi vilja sjá á þingi hefur engan áhuga á að taka þátt í þeim leðjuslag sem íslensk stjórnmál eru.
Ef hér væri sterkur, óumdeildur forseti, væri skipun þjóðstjórnar sterkur kostur, en sá kostur er tæplega fyrir hendi heldur.
Nei, ekki búast við of miklu, þó efnt yrði til kosninga.
Menntamálaráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég myndi vilja sjá "Flokk eldriborgara", "Flokk námsmanna", "Íslands- og umhverfisflokkinn" (hans Ómars) og fleira í þeim dúr!
Allt betra en þessi viðbjóður sem við höfum haft yfir okkur sl. árin + svo getulausu flokkana s.s. Kvennalistann!
Baldur Gautur Baldursson, 4.11.2008 kl. 20:10
Tja, Púkinn kaus Íslandshreyfinguna í síðustu kosningum og skammast sín ekki fyrir það - en áherslur þeirra voru á mál sem ekki eru í eins miklum brennidepli núna.
Púkinn, 4.11.2008 kl. 22:12
Friðrik, hvers vegna ekki að stíga fram og taka þátt?
T.d. Íslandshreyfingin getur án vafa á sig blómum bætt. Er ekki málið bara að verða aktífur gerandi?
Baldvin Jónsson, 4.11.2008 kl. 22:36
Mér finnst bara að allir þeir sem setið hafa á þingi síðustu 8 - 12 ár eigi að sjá sóma sinn í því að hleypa nýju fólki að. Kannski mun það takast að bjóða fram nýjan flokk með fersku fólki. Ég get ekki séð að það bjargi þjóðfélaginu að gömul drop-out frá gömlu flokkunum komi saman í nýjum flokki eða endurreistum flokki. Það þarf eitthvað meira. Við skulum hafa í huga að stefna Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafa beðið skipbrot í umróti síðustu vikna. VG og Frjálslyndir hafa ekkert boðið.
Þjóðin þarf fyrst og fremst aðila sem eru til búnir að leiða okkur út úr núverandi ástandi. Einstaklinga sem eru framsýnir og víðsýnir en jafnframt að mestu lausir við öll tengsl við gömlu valdaklíkuna. Þetta verða að vera einstaklingar sem eru hafnir yfir allan vafa. Ég sé þessa einstaklinga mynda utanþingsstjórn og þeirra hlutverk verði að koma þjóðarskútunni á lygnan sjó.
Annars setti ég fram eftirfarandi hugmynd í athugasemd við færslu hjá mér:
Marinó G. Njálsson, 4.11.2008 kl. 23:26
ég ætla áfram að láta mig dreyma um endurreisnarflokkinn...
katrín atladóttir, 4.11.2008 kl. 23:28
Mér líður mikið eins og þér Friðrik en hef lesið Animal Farm og hef því takmarkaða trú á 'endurreisn'.
Marinó snertir á því sem ég teldi mest til bóta: raunveruleg þrískipting ríkisvaldsins myndi hjálpa til. Er ekki lexía bæði fjármálakreppunnar vestanhafs og hér heima að of mikið vald á hendi of fárra manna er hættulegt?
Árni Steingrímur Sigurðsson, 5.11.2008 kl. 11:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.