Mánudagur, 20. október 2008
Skoðanakönnun - hvað myndir þú kjósa?
Ef alþingiskosningar væru haldnar í dag, hvað myndir þú kjósa? Taktu þátt í skoðanakönnuninni hér til hliðar og lýstu þinni afstöðu.
![]() |
Ísland á hagstæðu verði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 20. október 2008
Ekki nema 2.000.000 á hvert mannsbarn
Þetta smálán sem þarna er sótt um jafngildir um 2 milljónum króna á hvert mannsbarn í landinu. Þetta hljómar eins og hin sæmilegasta tala, en er í rauninni aðeins hluti þess sem þarf.
Heildarupphæðin sem íslenska ríkið gæti þurft að fá gæti verið fjórum sinnum hærri en þetta lán, en þetta er skref í áttina.
Púkinn vonast hins vegar til að IMF setji skilyrði um aukinn aga í ríkisfjármálum - en sum þeirra skilyrða gætu orðið sársaukafull. Það verður t.d. að útrýma fjárlaga- og viðskiptahalla - og halda launahækkunum og útþenslu hins opinbera niðri. Þetta mun þýða niðurskurð og seinkun framkvæmda - með meðfylgjandi samdrætti og atvinnuleysi - slæmt fyrir þá sem lenda í þessu en nauðsynlegt fyrir þjóðarbúið í heild.
Það er reyndar spurning hvort þetta lán dugar eitt og sér til að styðja við gengi krónunnar, þannig að eðlilegt gengi myndist á henni erlendis. Þegar Seðlabanki Evrópu afskrifaði í raun krónuna var gengi evrunnar um 300 krónur, sem er tæplega raunhæft. Hvort það tekst að ná fram stöðugu gengi í kringum 150 kr/evra eins og reynt er að halda uppi þessa dagana er hins vegar óljóst. Púkinn er hins vegar á því að engin von sé til að gengi krónunnar styrkist frá því gildi.
![]() |
Óska eftir 6 milljörðum dala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 17. október 2008
Húrra! Við náðum ekki kjöri!
Fyrst Ísland náði ekki kjöri er einni vitleysunni færra til að eyða peningum í. Það má vera að einhverjir líti á þetta sem álitshnekki fyrir Ísland, en fyrir þjóðina eru þetta góðar fréttir.
Það eru aðrir og betri hlutir sem ber að eyða peningum í núna.
![]() |
Ísland náði ekki kjöri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 17. október 2008
Geta Íslendingar sjálfir rannsakað bankana?
Flestir eru sammála um að nauðsynlegt sé á að ítarleg rannsókn fari fram á því hvað fór úrskeiðis hjá bönkunum, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og stjórnvöldum.
Púkinn er hins vegar ekki viss um að mögulegt sé að fá hæfa aðila hér á landi sem geta framkvæmt slíka rannsókn, þar sem flestir hafa jú persónulega orðið fyrir einhverjum skaða af bankahruninu, eða tengjast fyrrnefndum stofnunum eða þeim stjórnmálaflokkum sem bera ábyrgð á einkavæðingu bankanna.
Verða Íslendingar ekki hreinlega að fá hóp sérfræðinga erlendis frá til að hægt sé að gera fullkomlega óhlutdræga skýrslu um málið?
![]() |
Bankarannsókn eðlileg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 16. október 2008
Ætli prófin hafi skánað?
Púkinn benti í fyrra á hve hræðilega óvönduð samræmd próf í stærðfræði væru (sjá þessa grein).
Vonandi hefur orðið breyting til batnaðar, en Púkinn hefur sínar efasemdir. Það virðist nefnilega flestum aðilum í skólakerfinu vera nákvæmlega sama þótt námsefnið í stærðfræði og raungreinum sé óvandað, kennslan léleg og þekking kennara takmörkuð.
Það eru einstaka undantekningar sem ber að hrósa, til dæmis Ólympíustærðfræðiverkefnið, en því miður er slík viðleitni undantekning, ekki regla.
Þetta er allt annað viðhorf en ríkir t.d. til íslenskukennslu, þar sem metnaðurinn er mun meiri og sömuleiðis stuðningur ráðamanna - það eru t.d. haldnar lestrarkeppnir fyrir alla grunnskóla, en kannast einhver við að hafa séð sambærilega náttúruvísindakeppni?
Hvað um það, þótt prófin séu léleg er Púkinn samt þeirrar skoðunar að þau séu nauðsynleg, þótt ekki sé til annars en að veita foreldrum vísbendingu um hvar börnin þeirra standa miðað við önnur.
Það sem má hins vegar ekki gera er að nota prófin til að bera saman skólana og draga þær ályktanir að einhverjir skólar séu "betri" en aðrir, bara af því að meðaleinkunnir nemenda þar eru hærri. Málið er ekki svo einfalt.
![]() |
Könnunarpróf í grunnskólum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 15. október 2008
Krísa útflutningsfyrirtækjanna.
Innflutningur til landsins er í hættu vegna gjaldeyrisskorts og af þeim sökum hefði mátt búast við að stjórnvöld myndu gera allt sem þau gætu til að liðka fyrir aðstreymi gjaldeyris til landsins.
Sú er þau ekki raunin og ástandið er að komast á það stig að útflutningsfyrirtæki munu brátt hætta að flytja gjaldeyri til landsins, heldur bara leyfa honum að safnast fyrir á reikningum erlendis.
Ástæða þess er einfaldlega sú að útflutningsfyrirtækin fá ekki fyrirgreiðslu til að senda hluta þess gjaldeyris sem þau afla aftur úr landi - fá ekki að greiða erlendum starfsmönnum laun eða greiða birgjum sínum erlendis.
Það gildir einu þótt um sé að ræða gjaldeyri sem fyrirtækin eiga þegar liggjandi á reikningum á Íslandi eða aðeins sé um að ræða örlítið brot þess gjaldeyris sem fyrirtækin afla. Nei, sökum þess að fyrirtækin stunda ekki innflutning á nauðsynjavöru eins og mat, lyfjum eða eldsneyti fá þau ekki fyrirgreiðslu.
Viðbrögð fyrirtækjanna eru auðvitað fyrirsjáanleg - til hvers ættu fyrirtæki sem afla gjaldeyris að flytja hann hingað, ef þau fá ekki að nota hluta hans til að geta viðhaldið eðlilegum rekstri? Af hverju ekki bara leyfa honum að sitja á reikningum erlendis eða hjá erlendum dótturfyrirtækjum?
Afleiðingin mun á endanum verða sú að minni gjaldeyrir berst hingað, en það er síst af öllu það sem þjóðarbúið þarf á að halda þessa dagana.
![]() |
Lán IMF fullnægir ekki þörf ríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 14. október 2008
Ha..ég, Íslendingur? Neeeiii....
Það er af sem áður var, þegar það var stíll yfir því að vera Íslendingur erlendis - meðlimur þjóðar sem spreðaði peningum út um allt - já, þá vildu allir vera vinir Íslendinga.
En, nú er staðan breytt - og íslendingar stefna í það að verða álíka velkomnir og...tja, samkynhneigðir, múslímskir kommúnistar í Alabama.
Eigum við ekki bara að segjast vera frá Garðarshólma?
![]() |
Vilja ekki íslensku sinfóníuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 14. október 2008
Fyrirsjáanlegt verðhrun fasteigna á Íslandi
Því hafði verið spáð að um 20% raunlækkunar á fasteignaverði væri að vænta á Íslandi - aðallega þannig að fasteignaverðið stæði í stað meðan verðbólgan æddi áfram og allt annað hækkaði. Nú er hins vegar hugsanlegt að hér hafi verið um bjartsýnisspá að ræða.
Margir verktakar og byggingaraðilar eru í alvarlegum vandræðum - "Bankinn hegðar sér eins og asni" sagði einn þeirra nýlega við Púkann og ljóst er að yfirstandandi ástand gæti rekið marga þeirra í þrot. Þessir aðilar geta ekki allir leyft sér að sitja og bíða með fasteignirnar uns ástandið batnar - nei, þeir þurfa að losa fjármagn núna. Á sama tíma er líklegt að margir kaupendur haldi að sér höndum - það eru aðeins örfáir Íslendingar sem beinlínis græða á hruni fjármálakerfisins - flestir tapa einhverju, bara mismiklu. Undir þeim kringumstæðum er skiljanlegt að fólk sé hikandi við að ráðast í meiriháttar fjárfestingar, eins og kaup á nýju húsnæði.
Afleiðingin af auknu framboði og minnkandi eftirspurn verður því líklega sú að verðið lækkar - sem aftur leiðir til þess að enn fleiri sitja uppi með illseljanlegar húseignir með áhvílandi skuldum sem eru langt yfir markaðsverðmæti eignanna.
Endanleg niðurstaða? Enn fleiri en áður munu eiga minna en ekki neitt. Já, Púkinn er svolítill svartsýnispúki í dag.
![]() |
Verðhrun á fasteignum í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 14. október 2008
Er grundvöllur fyrir hlutabréfamarkaði á Íslandi?
Fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði fer stöðugt fækkandi. Þessi þróun kemur Púkanum að vísu ekki á óvart, en Púkinn vill í því sambandi benda á grein sem hann skrifaði í maí (sjá hér)
Afskráningar nokkurra fyrirtækja eru á döfinni og ekki er útlit fyrir að sú þróun snúist við á næstunni. Það skyldi þó aldrei enda þannig að fyrr eða síðar verði færeysk fyrirtæki þau einu sem verða skráð á íslenska hlutabréfamarkaðinn?
![]() |
Engin viðskipti með fjármálafyrirtækin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 14. október 2008
Fjármálakreppan og bandarísku kosningarnar
Púkinn er nokkuð sannfærður um að þegar sagnfræðingar framtíðarinnar skoða yfirstandandi atburði munu þeir komast að þeirri niðurstöðu að efnahagskreppan hafi haft úrslitaáhrif á niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum.
Málið er bara að þau áhrif gætu orðið á hvorn veginn sem er. Ef núverandi stjórnvöldum tekst að sleppa fyrir horn, bjarga bönkunum og ná bandaríska hlutabréfamarkaðinum upp úr þeirri lægð sem hann er í, þá gæti það orðið til þess að repúblikanar myndu sigra eftir allt saman - og heimurinn sæti upp með "trúarnöttara" í embætti varaforseta - hársbreidd frá valdamesta embætti heims.
Það er hins vegar nokkuð ljóst að húsnæðiskreppan í Bandaríkjunum mun ekki leysast fyrir kosningar og milljónir Bandaríkjamanna munu (með réttu eða röngu) láta reiði sína bitna á núverandi valdhöfum og kjósa demókrata, en það gæti fleytt Obama í forsetastólinn.
Púkinn er að vísu á þeirri skoðun að það sem Bandaríkin þyrftu á að halda væri að kjósa Ralph Nader til forseta, en af þeim tveim kostum sem eru raunhæfir er Obama nú sennilega illskárri.
![]() |
250 milljarðar dala til bandarískra banka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)