Mánudagur, 13. október 2008
Þegar blóðið flæðir um göturnar...
Einn af þekktari fjárfestum heims sagði eitt sinn að rétti tíminn til að fjárfesta væri þegar blóðið flæddi um göturnar - þegar allir væru uppfullir af vonleysi og svartsýni og eignir væru á útsölu.
Philip Green virðist fylgja þessari stefnu og lífeyrissjóðirnir eru nú að horfa til þess sama. Það er þó full ástæða til að fara varlega - þótt hlutir hafi fallið í verði er engan veginn víst að þeir geti ekki fallið enn frekar. Íslendingar mega ekki við því að lífeyrissparnaður þeirra sé settur í neitt nema fullkomlega traustar fárfestingar.
![]() |
Lífeyrissjóðir skoða Kaupþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 13. október 2008
Ætli forsetinn skammist sín núna?
Í apríl síðastliðnum gagnrýndi Púkinn að Baugur skyldi hafa fengið útflutningsverðlaun forseta Íslands, enda væri þetta ekki útflutningsfyrirtæki og hagsmunir þeirra stönguðust á við hagsmuni raunverulegra útflutningsfyrirtækja. (sjá þessa grein)
Eins og Spaugstofan benti á um helgina var útflutningur Baugs aðallega í formi peningaútflutnings til Bahamaeyja.
Þótt forsetinn beri í raun ekki neina ábyrgð á því hvernig komið er fyrir þjóðinni er Púkinn samt á þeirri skoðun að hann ætti að skammast sín - og biðja þjóðina opinberlega afsökunar á undirlægjuhætti sínum gagnvert útrásarmógúlunum undanfarin ár.
Púkinn á hins vegar ekki von á því hann geri neitt slíkt.
![]() |
Ástandið verra en þjóðargjaldþrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 12. október 2008
Fátt er svo með öllu illt....
Svona til að fá smátilbreytingu frá neikvæðum og niðurdrepandi blogggreinum um ástand efnahagsmála vill Púkinn benda á að einstaka jákvæðar hliðar fylgja yfirstandandi ósköpum.
Þar er Púkinn ekki að tala um að þjóðin læri vonandi einhverjar lexíur á þessu og að græðgivæðingin verði ekki eins áberandi á komandi árum - nei, Púkinn er að horfa til jákvæðu smáatriðanna.
Íbúar við Skerjafjörðinn hafa á undanförnum misserum orðið fyrir ónæði af auknu flugi einkaflugvéla og þyrlna, en nú er útlit fyrir að verulega dragi úr því, þegar sumir neyðast til að selja þessi faratæki sín úr landi.
Já, fátt er svo með öllu illt....
![]() |
Stjórn Nýja Glitnis skipuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 11. október 2008
Útflutningsfyrirtækin: Ljós í myrkrinu
Þegar bankamanían stóð sem hæst voru útflutningsfyrirtækin algerar hornrekur. Þessi fyrirtæki sem hafa tekjur í erlendum gjaldmiðli en útgjöld að hluta (eða jafnvel mestu leyti) í íslenskum krónum, urðu að sæta því að fá færri og færri krónur fyrir dollarana sína og evrurnar.
Þetta gerðist á sama tíma og launakostnaður rauk upp í mörgum greinum, þegar bankarnir soguðu til sín tölvufræðinga, stærðfræðinga, verkfræðinga og viðskiptafræðinga.
Ef útflutningsfyrirtækin báru sig aumlega og reyndu að benda á að hin óeðlilega sterka króna ógnaði hag þeirra, var þeim efnislega sagt að halda sér saman - það væru bara eðlileg ruðningsáhrif ef þeim væri ýtt út af markaðnum.
Núna er staðan breytt. Þau útflutningsfyrirtæki sem ekki tókst að útrýma horfa nú fram á betri tíma. Sum þeirra fluttu að vísu starfsemi sína að hluta úr landi þegar ástandið var sem verst, önnur drógu saman seglin eða steyptu sér í skuldir, en einhver eru þó enn eftir.
Núna er allt í einu gott að eiga skuldlaust útflutningsfyrirtæki, sem flytur út vörur eða hugvit en fær í staðinn harðan gjaldeyri.
Það var kominn tími til.
![]() |
Hagnaður Össurar eykst um 480% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 11. október 2008
Mannlegir harmleikar
Íslenska þjóðin minnir Púkann á hóp fólks sem hefur flúið brennandi hús - stendur fyrir utan og horfir á eldsvoðann. Sumir eru með allar eigur sínar í höndunum, en aðrir eru bara vafðir inn í handklæði og horfa á aleigu sína fuðra upp.
Allir eru að fylgjast með slökkviliðinu fást við eldinn en ekki er enn búið að athuga hvort allir hafi virkilega sloppið út.
Nú þegar eru farnar að ganga sögur um að fleiri en einn hafi ekki höndlað álagið og stytt sér aldur - menn sem voru ríkir fyrir skömmu síðan, en standa nú uppi slyppir og snauðir og geta ekki horfst í augu við það.
Hvort sem þær sögur eru sannar eða ekki, er víst að margir mannlegir harmleikar eru í uppsiglingu. Púkinn veit um ungt fólk sem hefur aldrei á ævinni þurft að horfast í augu við erfiðleika fyrr en núna. Fólk sem vinnur í banka og keypti hlutabréf í bankanum sínum, fullt bjartsýni - já, fékk sér jafnvel myntkörfulán (til viðbótar við bílalánið og húsnæðislánið) til að kaupa fleiri hlutabréf. Nú er allt farið - Fólkið stendur uppi eigna- og jafnvel atvinnulaust og er að reyna að átta sig á hvað gerðist.
Púkinn veit líka um námsmenn erlendis, sem horfa á allar sínar áætlanir í algeru uppnámi - fjárhagsáætlanir í rúst og framtíðin í óvissu.
Jafnvel þeir sem hafa allt sitt á hreinu, sofa með evrubunka undir koddanum og eiga engar innlendar fjárfestingar nema skuldlausar fasteignir og ríkisskuldabréf finna fyrir því sem er að gerast - flestir eiga sennilega vini eða ættingja sem eru í alvarlegum vandræðum.
Það er vonandi að sem flestir hugsi ekki bara um sjálfa sig, heldur líka þá sem verr eru staddir - það er vont að vera eignalaus, en það er verra að vera einmanna og vinalaus líka.
![]() |
Rússar og IMF sameinist um lán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 10. október 2008
Það sem Rússarnir segja
Púkinn rakst á áhugaverða grein í Moscow News um stöðuna á íslandi og ástæður þess að Rússar ættu að lána Íslendingum pening - frá sjónarhóli Rússa.
Hér er hlekkur á greinina.
![]() |
Brown gekk allt of langt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 10. október 2008
Skammaryrðið "Íslendingur"
Það er ekki gott að vera Íslendingur í útlöndum þessa dagana. Það er ekki vegna smávægilegra óþæginda eins og að kreditkortin séu hætt að virka - nei, það er vegna ímyndarhruns þjóðarinnar. Það er ekki litið á Íslendinga eins og hörkuduglega athafnamenn, tilbúna til að taka áhættu.
Nei - hin nýja ímynd þjóðarinnar er óprúttnir, vafasamir fjárglæframenn, sem best er að forðast.
Takk fyrir....eða þannig.
![]() |
Hollensk stjórnvöld tryggja hag Icesave reikningshafa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 9. október 2008
Tekur einhver Framsókn alvarlega?
"Faglegar ráðningar", segir Framsóknarflokkurinn.
Einmitt það já.
Þegar þetta kemur frá þeim flokki sem á sennilega met í að pota vanhæfum flokksgæðingum í feit embætti er nú eiginlega ekki hægt að taka þetta mjög alvarlega.
Heldur Framsókn virkilega að þjóðin muni ekki eftir þeirra "afrekum" í fortíðinni?.
![]() |
Faglegan Seðlabanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 9. október 2008
Er núna rétti tíminn til að lækka stýrivexti?
Eins og lesendum Púkabloggsins undanfarin ár ætti að vera kunnugt, hefur Púkinn haldið því fram að vaxtahækkunarferli Seðlabankans hafi verið mistök.
Reyndar mætti jafnvel ganga enn lengra og rökstyðja að það ferli sýni að þeir háu herrar hafi í grundvallaratriðum misskilið eðli verðbólgu á Íslandi. Hækkun stýrivaxta til að slá á verðbólgu getur virkað undir ákveðnum kringumstæðum, en þá þarf tvennt að vera til staðar. Í fyrsta lagi verður verðbólgan að stafa af þenslu í þjóðfélaginu, ekki utanaðkomandi áhrifum eins og t.d. olíuverðshækkunum. Í öðru lagi verða stýrivextirnir að bíta - í þeim skilningi að þeir verða að ráða þeim kjörum sem einstaklingum og fyrirtækjum býðst fjármagn á.
Þetta er raunin í Bandaríkjunum og flestum siðmenntuðum löndum - þar tekur fólk lán í sínum eigin gjaldmiðli og hækkaðir stýrivextir bíta beint - fólk dregur saman seglin, það hægist um í þjóðfélaginu og þenslan minnkar.
Þetta var ekki raunin hér á Íslandi, þar sem bankarnir beinlínis otuðu erlendum lánum að fólki. Það má deila um hvort bankarnir hafi nýtt sér almanna fáfræði fólks um hagfræði, en málið er að vaxtahækkanir Seðlabankans höfðu af þessum sökum ekki tilætluð áhrif - og í stað þess að beita bindiskyldutækinu til að hemja bankana hélt Seðlabankinn bara áfram að hækka og hækka vextina.
Hækkanirnar höfðu hins vegar önnur, óæskilegri áhrif - stuðluðu að útgáfu jöklabréfa og innstreymi fjár til landsins, sem styrkti krónuna langt umfram það sem eðlilegt mátti teljast. Þetta setti útflutningsfyrirtækin í erfiða stöðu, enda er styrking krónunnar bein atlaga að rekstrargrundvelli þeirra - en, hinir háu herrar töluðu bara um "eðlileg ruðningsáhrif".
Málið er það að vextina hefði aldrei átt að hækka eins mikið og gert var. En, ef Seðlabankinn hefði lækkað vextina fyrr, hefði það valdið flótta jöklabréfafjármagnsins úr landi, sem aftur hefði valdið veikingu krónunnar, sem hefði skilað sér í hækkuðu vöruverði, sem hefði mælst sem verðbólga.
Seðlabankinn mátti ekki gera þetta vegna þess að samkvæmt lögum er meginmarkmið hans að halda verðbólgu niðri - ekki að viðhalda stöðugleika eða reyna að halda hjólum efnahagslífsins gangandi - nei - lögum samkvæmt varð hann að einblína á verðbólguna og ekkert annað.
Núna er staðan hins vegar breytt. Verðgildi krónunnar er fallið niður úr öllu og engum heilvita manni dettur í hug að gefa út jöklabréf. Hvað myndi gerast ef Seðlabankinn snarlækkaði vextina núna - t.d. niður í 8-10%?
Það er að vísu svolítið erfitt að segja fyrir um hvaða áhrif það myndi hafa, en Púkinn metur það samt svo að það myndi ekki gera ástandið verra. Áhrifa myndi gæta í peningamarkaðssjóðum (sem eru að vísu lokaðir sem stendur), í genginu (en ástandið þar er svo slæmt að óljóst er hvort það myndi versna nokkuð meira) og í fjármögnun ríkissjóðs (sem er í molum hvort eð er).
Vaxtalækkunin myndi hjálpa verulega þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem skulda í íslenskri mynt. Hún myndi að vísu ekki hjálpa þeim sem eru með erlend lán á bakinu, en eins og Púkinn hefur sagt þá var það hrein heimska að taka slík lán og það er spurning að hve miklu leyti eigi að bjarga fólki og fyrirtækjum frá þeirra eigin heimsku.
Nei, vaxtalækkun núna mun sennilega ekki gera vont ástand verra og mun hjálpa hluta fyrirtækja og þjóðarinnar. Hugsanlega hafa sérfræðingar IMF komið ráðamönnum í skilning um þetta og við gætum þá jafnvel séð vaxtalækkun í dag, en það væri sennilega illskásta aðgerðin í stöðunni.
Eins og eitt ágætt fyrirtæki segir: "Ekki gera ekki neitt".
![]() |
Nýi Landsbanki tekur við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 8. október 2008
Seðlaskortur í landinu?
Það virðist vera að a.m.k. sum útibú sumra banka séu komin í vandræði með íslenska seðla.
Púkinn þarf að inna af hendi smágreiðslu á næstunni. Nú, ef svo kynni að fara að viðskiptabankinn yrði lokaður þann dag (annað eins hefur nú gerst), þá ákvað Púkinn að taka þessa aura út í íslenskum seðlum.
Neibb.
Það var komið þak á úttektir í íslenskum krónum í útibúi Púkans, þannig að Púkinn fékk ekki að taka út nema helming þess sem hann vantaði. Púkinn vill minna á að hann er ekki að tala um gjaldeyrisúttektir - takmarkanir á þeim eru skiljanlegar - nei, það sem Púkinn er að tala um er venjulegar íslenskar krónur.
Ástæðan?
Jú - bankinn var að verða uppiskroppa með 5000kr seðla. Það voru engar hindranir ef menn vildu bara millifæra, en seðlar...nei, þeir liggja ekki á lausu.
Forsætisráðherra lofar eðlilegri bankastarfsemi hvað almenning varðar...Ætli það þurfi ekki að flytja einhver vörubretti af seðlum úr geymslum Seðlabankans (þ.e.a.s. ef seðlarnir eru yfirhöfuð til í landinu) til að það loforð standist.
![]() |
Viðskipti milli landa verða tryggð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |