Eru íslensk greiðslukort ónothæf erlendis?

img00070_693456.jpgÞær fréttir berast nú að ekki sé hægt að nota íslensk greiðslukort erlendis - a.m.k. sé ekki lengur hægt að taka út úr hraðbönkum.

Einn fyrrverandi starfsmanna Púkans er um þessar mundir staddur á Bahamaeyjum og sendi þessa mynd hingað - en þetta er það sem hann fékk upp þegar hann reyndi að taka út vesæla 10 dollara, svona til að prófa þetta.

Úps......


mbl.is Greiðslustöðvun í Lúxemborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöfalda gengið - munu útflutningsfyrirtækin koma með gjaldeyrinn heim?

500kronurÍ dag ríkir algjör óvissa um gengi íslensku krónunnar, en í raun er tvenns konar gengi - annars vegar það sem Seðlabankinn reynir að halda uppi með handafli og hins vegar það sem bankarnir (innlendir eða erlendir) nota.

Svona staða er óstöðug og getur ekki gengið til lengdar - það eru aðeins fjórir möguleikar í stöðunni.

  • Seðlabankinn gæti gefist upp, ákveðið að vernda þann litla gjaldeyrisvarasjóð sem hann hefur og leyft gengi krónunnar að falla, með tilheyrandi verðbólgu og áföllum fyrir almenni
  • Seðlabankinn gæti farið í þrot og gjaldeyririnn klárast vegna þess áhlaups á krónuna sem þessi staða býður upp á.  Þessi staða myndi á endanum valda enn meira falli krónunnar.
  • Trúverðugleiki ríkisins og Seðlabankans gæti vaxið að því marki að gengi krónunnar verði stöðugt á því gengi sem hann er að reyna að halda uppi.  Þetta er æskilegasta útkoman fyrir þjóðfélagið, en byggir á því að menn sannfærist um að hvorugur fyrri möguleikanna tveggja sé líklegur.
  • Seðlabankinn sættir sig við tvöfalt gengi krónunnar, með því að taka upp strangar hömlur á flutningi gjaldeyris úr landi.  Krónan verður þá eins og rússneska rúblan á tímum Sovétríkjanna - nothæf innanlands, en er orðin verðlaus utan þeirra - hún er ekki lengur "hard currency".

Það eru því miður líkur á að þetta síðasta sé að gerast.  Útflutningsfyrirtæki með gjaldeyri í bankanum eru nú í þeirri stöðu að geta ekki borgað starfsmönnum erlendis laun, vegna þess að bankarnir millifæra ekki gjaldeyri til útlanda.  Vonandi er hér aðeins um tímabundið ástand, sem mun leysast innan nokkurra daga, því annars gætu afleiðingarnar orðið alvarlegar, því fyrirtækin munu ekki sætta sig við að mega ekki borga laun.

Lausn fyrirtækjanna mun væntanlega verða sú að hætta að taka gjaldeyrinn heim - skipta honum erlendis á "erlendu" gengi, til útlendinga sem verða fegnir að fá eitthvað fyrir þær verðlausu krónur sem þeir sitja uppi með, en ef útflutningsfyrirtækin hætta að flytja gjaldeyrinn sem þau afla til landsins af þessum ástæðum, mun gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins versna enn frekar en orðið er.

---

Uppfærsla - nú, nokkrum tímum síðar er ljóst að seðlabankinn valdi kost #1 hér að ofan.  Ekki besta lausnin, en illskárri en #2.  Kostur #3 hefði verið bestur, en til þess hefði þurft að vera búið að dæla a.m.k 10 milljörðum evra inn í gjaldeyrisvarasjóðinn.

Jæja, þetta kemur ekki á óvart og var e.t.v. illskásti kosturinn í stöðunni. 


mbl.is Seðlabanki miðar áfram við sama gengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamál erlendra starfsmanna íslenskra fyrirtækja

Mörg íslensk fyrirtæki hafa erlenda starfsmenn og hvort sem þeir fá borgað í krónum eða evrum vilja margir þeirra senda peninga úr landi og heim til sín eða ættingja sinna.

Nú í dag bregður hins vegar svo við að settar eru hömlur á þá fjármagnsflutninga.   Ég vona sannarlega að hér sé einungis um tímabundnar ráðstafanir vegna atburða gærdagsins, en standi þetta ástand lengur en nokkra daga er ljóst hvað mun gerast: Öll þau fyrirtæki sem hafa tekjur í erlendum gjaldeyri munu hætta að flytja hann til Íslands, en leyfa honum að sitja á sæmilega öruggum reikningum erlendis og borga launin þaðan.  

Þetta mun gera gjaldeyrisstöðuna hérlendis enn verri en áður.   Já - enn eitt dæmið um "pissa-í-skóinn-sinn" efnahagsstjórnina á Íslandi.


mbl.is Gengið getur verið frábrugðið á milli banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru íslenskir námsmenn erlendis í útrýmingarhættu?

Gengisfall krónunnar undanfarið er mikið áfall fyrir íslenska námsmenn erlendis, enda eru námslán þeirra ekki bundin gjaldmiðli þess lands sem þeir stunda nám í.

Leiðrétting - jú, lánin munu víst vera bundin gjaldmiðlinum, en ekki á "opinberu" gengi Seðlabankans, heldur eru menn að fá gjaldeyrinn sinn á því gengi sem kreditkortafyrirtækjunum þóknast, þannig að vandamálið er til staðar - bara aðeins öðruvísi en Púkinn hélt...það er langt síðan Púkinn var blankur námsmaður.

Ef hér á Íslandi hefði verið "alvöru" efnahagsstjórn, hefðu námslánin átt að vera gengistengd við "opinbert" gengi, þannig að námsmenn þyrftu ekki að bíða upp á von og óvon eftir fréttum af gengi krónunnar til að sjá hvort þeir hafi efni á salti í grautinn næsta mánuðinn.

Ef ekkert er að gert, má búast við að einhverjir hrökklist úr námi - einstaklingar sem þjóðin hefði þurft á að halda, svona til lengri tíma litið, ef við viljum halda þekkingar- og menntunarstigi hér á landi viðunandi.

Púkinn hefur hins vegar fulla trú á því að í samræmi við þá stefnu sína að taka rangar ákvarðanir (eða réttar ákvarðanir á röngum tíma), muni stjórnvöld ákveða að gera ekki neitt.


mbl.is Evran dýr hjá kortafyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymið öryggisráðinu!

Íslensk stjórnvöld ættu að sjá sóma sinn í því að tilkynna strax í dag að hætt hafi verið við framboð Íslands til Öryggisráðsins - sem stendur verði skattpeningum Íslendinga eytt í aðra og þarfari hluti.

Við höfðum ekkert þangað að gera í upphafi og við eigum ennþá minna erindi þangað núna - það er nú ekki eins og við séum æskileg fyrirmynd um þessar mundir.

Að aflýsa framboðinu væru slæmar fréttir fyrir Kristínu Árnadóttur, kosningastjóra framboðsins ... en góðar fréttir fyrir afganginn af þjóðinni.


mbl.is Áhrif á framboð til öryggisráðsins óljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitað að sökudólgum

prisonÞegar hægist um og þjóðin fer að horfa yfir brunarústir efnahagslífsins munu margir svipast um eftir sökudólgum - Hverjum er um að kenna?

Yfirstandandi atburðir koma Púkanum svosem ekkert á óvart - síðustu tvö árin hefur verið ljóst að ástandið væri óstöðugt og að skuldadögum myndi koma fyrr eða síðar.

Púkinn þarf hins vegar ekki að svipast um eftir sökudólgum.  Þeir eru auðfundnir.

Alþingismenn og ráðherrar

Efstir á blaði Púkans eru þeir ráðamenn sem hafa tekið arfavitlausar ákvarðanir undanfarin ár.   Þeir sem hafa lesið skrif Púkans ættu að hafa séð þessa gagnrýni, en meðal þess sem um ræðir er sú ákvörðun að leggja niður Þjóðhagsstofnun og setning rangra laga um markmið Seðlabankans.

Púkinn vill endurtaka það sem hann sagði áður (sjá þessa grein):

Ráðamenn munu halda áfram að taka rangar ákvarðanir, eða taka réttar ákvarðanir á röngum tíma.  Þeir munu þakka sér allt sem fer til betri vegar, en kenna óviðráðanlegum eða óvæntum ytri aðstæðum um allt sem aflaga fer.

Púkanum finnst ekki mikið mark takandi á ráðamönnum sem segja að núverandi ástand komi þeim á óvart.  Fólk með vit í kollinum sem fylgdist með því sem var á seyði, sá að hverju stefndi og margir gerðu sínar ráðstafanir í samræmi við það.  

Hvað varðar þau afdrifaríku mistök sem gerð voru varðandi Seðlabankann vill Púkinn vísa á þessa grein og sömuleiðis þessa.

Það má rökræða hvort það hafi líka verið mistök að einkavæða bankana - Púkinn er nú reyndar ekki þeirrar skoðunar, en það ferli hefði mátt vera öðruvísi og eftirlitið meira.

Seðlabankinn

Púkinn er þeirrar skoðunar að Seðlabankinn hafi brugðist þjóðinni, með því að beita ekki öllum þeim verkfærum sem hann hafði til að hafa stjórn á ástandinu áður en allt var komið í óefni.

Það sem er efsta á blaði er að Seðlabankinn hefði getað sett hömlur á útlánagleði bankanna með því að  hækka bindiskyldu þeirra.  Það hefði haldið aftur af styrkingu krónunnar, hefði dregið úr neyslufylliríinu og hefði dregið úr þörf bankanna að slá lán erlendis.

Vandamálið er bara það að hefði Seðlabankinn tekið þessar (réttu) ákvarðanir hefði verið ráðist að honum úr öllum áttum.  ASÍ (og fleiri) hefðu sakað hann um að koma í veg fyrir að Íslendingar gætu eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum, með því að draga úr möguleikum bankanna til að veita húsnæðislán og SA (og fleiri) hefðu sakað um að reyna að hefta útrás íslenskra fyrirtækja.

Nei, það er ekki auðvelt að taka réttar en óvinsælar ákvarðanir og Seðlabankinn var ekki fær um það.  

Bankarnir

Hluti af sökinni liggur að sjálfsögðu hjá bönkunum sjálfum - þeir sköpuðu sér gífurlega áhættu með misræmi í löngum og stuttum lánum.  Tóku skammtímalán og veittu langtímalán.  Þetta virkar meðan menn geta rúllað boltanum á undan sér, en það eru margir mánuðir síðan hættumerki tóku að sjást.  Sumir hluthafa bankanna gerðu sér fyllilega grein fyrir þessu og komu sér út í tíma, en aðrir sitja í súpunni.

Gráðugir, skammsýnir Íslendingar

Enn einn hluti af sökinni liggur hjá þeim stóra hluta þjóðarinnar sem tók þátt í vitleysunni.  Fólk sem fagnaði þegar gengi krónunnar var allt, allt of sterkt og eyddi langt um efni fram - keypti sér húsnæði, pallbíla og risaplasmaskjái eins og peningar væru eitthvað sem spryttu upp eins sveppir í september.  

Velkomin til raunveruleikans - partýið er búið og nú taka timburmennirnir við.
mbl.is Lokað fyrir viðskipti áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólreiðastígar...huh!

Púkinn fer venjulega fótgangandi til vinnu, enda með hundinn sinn í för.  Leiðin liggur að hluta meðfram hjólreiðastígnum við Lönguhlíð - ef hægt er að nefna hann því nafni, því hann er oft á mörkum þess að vera nothæfur sem slíkur.

Ástæðan er einfaldlega sú að íbúar nærliggjandi húsa nota stíginn sem bílastæði og til undantekninga heyrir að stígurinn sé hindranalaus - nánast alltaf eru einhverjir bílar á stígnum - og þessa dagana er jafnvel einn gámur þar.

Púkinn hefur aldrei orðið var við að neinn þessara bíla fái sektarmiða fyrir að leggja á hjólreiðastíginn, en honum er spurn - hvers vegna er Reykjavíkurborg að þykjast vera að leggja hjólreiðastíga hér og þar, en hirðir síðan ekkert um að halda þeim opnum fyrir hjólreiðafólki?

Er hagt að hringja í eitthvað númer til að leggja fram kvörtun - nú eða bara að láta draga bílana í burtu, eða eiga .þetta bara að vera þykjustuhjólreiðastígar?


mbl.is Nýtt kort fæst gefins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran inn um bakdyrnar...eða hvað?

euroPúkinn er að velta fyrir sér hvort ASÍ eða einhverjir aðrir muni reyna að koma evrunni inn með "bakdyraleiðinni" á næstunni.

Með því á ég við eftirfarandi leið:

  • Krónunni væri haldið áfram sem opinberum gjaldmiðli og gengi hennar látið fljóta gegn evru eins og verið hefur.  Evrur eru ekki notaðar sem almennur gjaldmiðill á Íslandi (Þetta er til að komast hjá þeim kröfum sem gerðar eru til þess að mega formlega taka upp evruna)
  • Öll laun væru gengistengd - ekki bara hjá einstaka starfsmönnum útflutningsfyrirtækja.  Launþegar myndu áfram fá útborgað í íslenskum krónum, en fjöldi króna myndi ráðast af gengi evrunnar á hverjum tíma.
  • Í stað vísitölutryggðra reikninga myndi fólk geyma eignir sínar í bönkunum í gengistryggðum reikningum.
  • Allar skuldir einstaklinga og fyrirtækja væru gengisbundnar.

Þeir sem mæla með þessari leið segja að með henni sé allri gengistengdri óvissu um afkomu heimilanna eytt. Skuldirnar sveiflast að vísu upp og niður, en eignirnar og tekjurnar gera það líka.

Málið er hins vegar ekki svona einfalt, en svo virðist sem þeir sem mæla með bakdyraleiðinni hugsi málið aldrei til enda.

Þetta myndi draga stórlega úr eftirspurn eftir krónum, með tilheyrandi gengishrapi krónunnar og óðaverðbólgu.  Áhrifin yrðu að vísu milduð af því að gengisfallið myndi þýða að fólk fengi sjálfkrafa fleiri krónur í vasann, en þeir sem væru nógu vitlausir til að eiga krónur myndu sjá þær brenna upp.

Útflutningsfyrirtæki (og aðrir sem hafa tekjur í raunverulegum "hörðum" gjaldeyri væru í góðum málum, en innflutningsfyrirtæki og hið opinbera væru í vandræðum.

Allar forsendur fyrir fjárlagagerð ríkisins myndu hrynja, nema ef fjárlögin væru í raun gerð í evrum -- en það myndi jafngilda algeru vantrausti ríkisins á krónunni - sem myndi gera hana að verðlausum gjaldmiðli.

Það eru allmargir gallar til viðbótar, en niðurstaðan er einföld - "bakdyraleiðin" gengur ekki.


Krónan - og þriðja leiðin.

500krÞví er stundum haldið fram að það séu aðeins tvær raunhæfar leiðir í gjaldeyrismálum íslendinga, en Púkinn vill hins vegar halda því fram að í boði sé þriðja leiðin, sem ekki aðeins sé raunhæf, heldur jafnvel besti valkosturinn.

Fyrrnefndar tvær leiðir eru annars vegar að halda í krónuna með öllum hennar kostum og göllum og hins vegar að ganga í ESB og stefna að því að taka upp evruna í framhaldi af því.  Aðrar leiðir eins og tvíhliða samstarf séu einfaldlega ekki raunhæfir kostir.

Þriðja leiðin er hins vegar í boði.

Sú leið er einfaldlega að stefna að því að uppfylla þær fimm kröfur sem eru gerðar til ríkja sem vilja taka upp evruna, en halda áfram í krónuna.  Sem hluta af þeirri lausn þarf hins vegar að breyta lögum um markmið Seðlabanka íslands, þannig að í stað þess að hafa aðeins verðbólgumarkmið, skuli hann hafa þau þrjú markmið fyrst eru talin hér á eftir.  Hin tvö markmiðin snúa að hinu opinbera, en á þeim bæ verða menn að viðurkenna að Seðlabankinn getur ekki sinnt sínu hlutverki ef hið opinbera vinnur beinlínis gegn honum.

Hver eru þá þessi fimm markmið?

  • Verðstöðugleiki (verðbólga minni en 1.5% hærri en í þeim 3 ESB löndum þar sem hún er lægst)
  • Vaxtamunur - vextir ekki nema 2 prósentustigum hærri en í ofangreindum 3 löndum.
  • Stöðugleiki í gengismálum - gjaldmiðillinn má ekki sveiflast nema 15% upp og niður.

Hin tvö markmiðin snúa að hinu opinbera og varða fjárlagahalla (innan við 3% af VLF) og skuldir hins opinbera (innan við 60% af VLF)

Seðlabankinn hafði áður einungis gengisstöðugleika sem markmið, en nú hefur hann einungis verðstöðugleika sem markmið - nokkuð sem vonandi flestir eru farnir að sjá að gengur ekki upp.  Markmið Seðlabankans verður að vera að viðhalda almennum stöðugleika og til þess dugar ekki að einblína á eitt markmið.

Ef við værum í ESB og uppfylltum ofanfarandi skilyrði, þá mættum við taka upp evruna, en Púkinn vill leyfa sér að fullyrða eftirfarandi:

Ef við uppfylltum skilyrði fyrir upptöku evru myndum við ekki þurfa á henni að halda.


mbl.is Vilja ekki krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningum illa varið í menntakerfinu

TeachingMiðað við hversu miklum peningum Íslendingar verja til menntamála, þá er það dapurlegt hve lélegur árangurinn er - sérstaklega á grunnskólastiginu.

Púkinn hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að námsefni og kennsluaðferðir í sumum greinum , sér í lagi stærðfræði og raunvísindum, séu til háborinnar skammar.

Námsefnið er lélegt - kennsluaðferðir eins og "uppgötvanastærðfræði" eru til þess eins fallnar að drepa niður allan áhuga nemenda á námsefninu og tryggja að þeir öðlist aldrei djúpan skilning á því.

Samræmdu prófin í stærðfræði eru illa samin, eins og Púkinn minntist á í þessari grein og benda til þess að þeir sem bera ábyrgð á náminu séu ekki hæfir til þess.

Allmargar staðreyndavillur má líka finna í kennslubókum í náttúruvísindum, eins og t.d. að gler sé seigfljótandi vökvi við eðlilegt hitastig (og bent á að gamlar glerrúður í miðaldadómkirkjum séu þykkari að neðan en ofan), en þetta er firra sem hefur verið afsönnuð fyrir löngu.

Til að bæta gráu ofan á svart er stærðfræði- og náttúrufræðikunnáttu kennaranna oft verulega ábótavant - hugsanlega vegna þess að fólk með raunverulega hæfileika og þekkingu á þeim sviðum fær betur launuð störf en grunnskólakennslu.

Þetta er ef til vill ekki mikið vandamál fyrir þá nemendur sem eiga foreldra sem hafa sæmilega þekkingu sjálfir á þessum sviðum og geta stutt börn sín, þannig að þau þurfi ekki að reiða sig á lélegt námsefni, kennt í yfirfullum bekkjum af fákunnandi kennurum....en hvers eiga allir hinir að gjalda?

Er öllum sama öllum sama þótt börn í efstu bekkjum grunnskóla séu ennþá að telja á puttunum?

Að hluta til stafar vandamálið af atgervisflótta úr stéttinni - margir góðir kennarar leita í önnur, betur launuð störf, þannig að eftir sitja þeir sem kenna af hugsjón og þeir sem fá ekkert annað að gera.

Púkinn myndi vilja sjá laun grunnskólakennara hækkuð verulega, en Púkinn myndi líka vilja sjá laun kennara ráðast af hæfileikum þeirra, árangri og getu til að miðla námsefninu.  Eins og staðan er í dag, þá starfa arfaslakir og frábærir kennarar hlið við hlið með sömu laun - nokkuð sem ekki myndi gerast í eðlilega reknu fyrirtæki


mbl.is Ísland ver mestu til skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband