..og man hann eftir þessu öllu?

Miðað við sögurnar af ólifnaðinum gegnum tíðina, finnst manni nú furðulegt ef minnið hjá Steven Tyler er í það góðu lagi að hann muni eftir öllu sukkinu og uppátækjunum á ferlunum.

Var þetta ekki einmitt vandamál sumra annarra í svipuðum sporum?  Mörg árin voru bara í þoku hjá þeim.


mbl.is „Sláandi sögur af ólifnaði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinsælasti gagnagrunnur í heimi

Við Íslendingar eigum sennilega heimsmet (miðað við íbúafjölda) í því að eiga heimsmet miðað við íbúafjölda.

Eitt af okkar metum er að hér er vinsælasti gagnagrunnur í heimi (miðað við íbúafjölda að sjálfsögðu).  Þetta er að sjálfsögðu gagnagrunnurinn Íslendingabók, en rúmlega hálf íslenska þjóðin hefur beðið um aðgang að grunninum til að skoða ættir sínar og annarra.

Rúmlega hálf þjóðin......

Það er enginn annar gagnagrunnur í heiminum sem getur státað af neinu sambærilegu.  Púkinn getur ekki að því gert, en hann er pínulítið montinn.


mbl.is NBC fjallar um íslenskar erfðafræðirannsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra, húrra, krónan fellur!

Púkinn fylgir ekki alveg straumnum, því hann fagnar gengisfalli krónunnar - eða, réttara sagt, leiðréttingu krónunnar, því frá sjónarhóli Púkans er gengi krónunnar eðlilegt um þessar mundir, eftir að hafa verið allt, allt of hátt á síðasta ári.

Nú er fólk ekki lengur að sýna þá heimsku að taka myntkörfulán til að fjármagna kaup á risapallbílum eða öðrum óþarfa, viðskiptajöfnuðurinn er að komast í lag, og loksins er orðið lífvænlegt hér fyrir raunveruleg útflutningsfyrirtæki.

Púkinn er þar ekki að tala um álfyrirtækin, sem byggja á innflutningi á hráefnum, nota sér niðurgreidda raforku og flytja á endanum hagnaðinn út til erlendra eigenda.  Púkinn er heldur ekki að tala um Baug, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands.  (e.t.v. fyrir að flytja út peninga, eða hvað).

Nei, Púkinn er að tala um raunveruleg útflutningsfyrirtæki, hvort sem þau flytja út fisk, hugvit eða eitthvað annað þar á milli.  Fyrirtæki sem hafa tekjur í evrum og dollurum, en launakostnað í íslenskum krónum - fyrirtæki sem koma með gjaldeyrinn inn í landið. 

Síðasta ár ver erfitt þessum fyrirtækjum en nú, með gengisfalli krónunnar, eru þau loksins orðin samkeppnishæf - launakostnaður hérlendis er sambærilegur við það sem gerist erlendis, þannig að þessi fyrirtæki þurfa ekki lengur að flytja störfin út landi til að lifa af.

Húrra fyrir krónunni!


mbl.is Krónan veiktist um 2,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...fullorðið fólk með meðalgreind..."

Eftirfarandi athugasemd barst við síðustu grein Púkans:

Á ekki fullorðið fólk með meðalgreind að geta sagt sér að það sé áhætta í því að skulda of mikið og einnig hitt að það kosti einfaldlega mikið að taka fé að láni.

Púkinn fór að velta fyrir sér hversu stór hluti þeirra sem er að lenda í vandræðum sé einmitt ekki í hópnum "fullorðið fólk með meðalgreind".

Mikið af ungu fólki hefur enga reynslu af öðru en góðæri - það hefur aldrei lent í raunverulegu gengisfalli, verðbólgu eða atvinnuleysi - er það nokkur furða að einhverjir úr þessum hópi kunni hreinlega ekki að fara með fé?

Og hvað með þá sem ekki ná meðalgreind? Það er jú helmingur þjóðarinnar.

Ég skal endurtaka þetta

Helmingur þjóðarinnar hefur greind undir meðaltali.

Er hægt að gera þær kröfur til allra í þeim hópi að þeir skilji áhættuna?  Það er svosem ekki hægt að gera mikið í þessu - ekki er hægt að krefjast þess að fólk fari í greindarpróf áður en það fær að taka lán, en það er vel hugsanlegt að vandræði einhverra stafi einmitt af því að fólk skilur ekki áhættuna - skilur ekki hvað er t.d. varasamt við myntkörfulán.


Komið að skuldadögunum

Þegar allt stefnir í óefni leitar fólk að sökudólgi.  Sumir kenna bönkum um - þeir hvöttu fólk til að taka lán til að fjármagna kaup á megnasta óþarfa, ýttu gengistengdum lánum að fólki þegar ljóst var að krónan var allt, allt of hátt skráð og stuðluðu að því að þrýsta húsnæðisverði upp úr öllu. 

Aðrir kenna fjármálaspekúlöntum um - með fjárfestingum í jöklabréfum og öðrum tugmilljarðaviðskiptum mögnuðu þeir upp sveiflur í hagkerfinu.

Enn aðrir kenna þjóðinni sjálfri um - of margir hegðuðu sér eins og þeir væru að fá peninga gefins - hunsuðu varnaðarorð um stöðu krónunnar og fasteignabóluna. - slógu baralán og eyddu og eyddu.

Sannleikurinn er einhvers staðar þarna á milli - það er enginn einn sökudólgur.


mbl.is Eiga erfitt með að borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Seðlabankinn verri en gagnslaus?

Eftir að hafa skoðað málið er Púkinn þeirrar skoðunar að hér á Íslandi sé í gangi "pissa-í-skóinn-sinn" efnahagsstjórn. 

Púkinn hefur oft lýst þeirri skoðun sinni að aðgerðir Seðlabankans séu rangar, eða a.m.k. rangt tímasettar.  Það er reyndar ekki við bankann einan að sakast - margar af ákvörðunum stjórnvalda eru sama marki brenndar - þjóna skammtímahagsmunum en eru gagnslausar eða beinlínis skaðlegar, svona til lengri tíma litið.

Skoðum til dæmis einhverja heimskulegustu ákvörðun undanfarinna ára - þegar ákveðið var að hækka lánahlutfall Íbúðalánasjóðs.

Jó, sem skammtímalausn leit þetta vel út - með því að lána stærri hlutakaupverðsins gætu fleiri eignast sína eigin íbúð....eða hvað?

Raunverulegt verðmæti þeirra tekna sem fólk aflar sér eykst ekki við þessa aðgerð - það eina sem gerist er að meiri peningar eru settir í umferð - fleiri krónur að keppa umtakmörkuð gæði.  Að sjálfsögðu leiddi þetta til hækkunar á húsnæðisverði.  Húsnæðisverð mun að sjálfsögðu ná jafnvægi á endanum - það þarf bara hressilega raunlækkun til, sem mun á endanum leiða til þess að fjöldi fólks skuldar meira í íbúðunum sínum en sem nemur mögulegu söluverði þeirra.  Þangað til þessari stöðu er náð, helst íbúðaverð hins vegar enn hátt, þannig að erfiðara verður fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð - já, þegar upp er staðið verður þetta hinn endanlegi afrakstur hækkunar lánahlutfallsins.

Þeir sem keyptu íbúðir á þeim tíma sem bólan var í hámarki geta sjálfum sér um kennt - það voru margir sem vöruðu við ástandinu.

Þetta hækkaða húsnæðisverð var túlkað af Seðlabankanum sem verðbólga sem yrði að berjast gegn.  Púkinn lítur á það sem grundvallarmistök, enda hefur það sýnt sig að aðgerðir Seðlabankans (vaxtahækkanirnar) voru gjörsamlega áhrifalausar og gerðu í raun ástandið bara verra.

Háu vextirnir gerðu vaxtaskiptasamninga og útgáfu jöklabréfanna að áhugaverðum kosti, sem þýddi umtalsvert streymi gjaldeyris inn í landið.

Ef hér hefði verið alvöru Seðlabanki, myndi hann hafa notað tækifærið og styrkt gjaldeyrisvarasjóðinn á þessum tímapunkti, en nei...það var ekki gert, með þeim afleiðingum að gengið fór bara hækkandi og hækkandi.  Útflutningsfyrirtækin voru hrakin úr landi, eða neydd til að draga saman seglin, en þjóðin fór á eyðslufyllerí - flatskjáir, pallbílar og einkaþyrlur streymdu inn í landið.

Gerði Seðlabankinn eitthvað til að sporna gegn þessari þróun?  Hann hefði getað haldið gengi krónunnar eðlilegu með því að auka gjaldeyrisvarasjóðinn, eða sett hömlur á bankana með því að auka bindiskyldu þeirra, en nei ... bankinn gerði ekkert nema að hækka vextina meir og meir ... gagnslaus og jafnvel skaðleg aðgerð.

Það er þannig með alvarleg fyllirí að þeim fylgja timburmenn, og þeim hefur þjóðin fengið að kenna á núna þegar spilaborgin hrundi.

Gengi krónunnar er loks orðið eðlilegt og jöfnuður er að nást milli útflutnings og innflutnings, en það hefur hægst á hjólum atvinnulífsins - a.m.k í mörgum greinum.  Sú kólnun er óhjákvæmileg, jafnvel nauðsynleg, en það er líka ljóst að það getur tekið tíma að koma hlutum af stað aftur.  Sú ákvörðun Seðlabankans að gera ekki neitt í bili bendir ekki til þess að neinn viðsnúningur verði næsta árið.


mbl.is Stýrivaxtalækkun frestast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigendur hvítra hunda og katta....

...eru varaðir við að sleppa þeim lausum í Skagafirði, þar sem dýrin gætu verið tekin í misgripum fyrir bjarndýr.

Svona í alvöru...hvernig er hægt að ruglast á hvítabirni og hesti?


mbl.is Bjarndýrsútkall í Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangslaus atvinnubótavinna?

Sumum finnst skrýtið að hluti mótvægisaðgerða stjórnvalda felist í því að tölvuskrá manntöl - sér í lagi vegna þess að flest þeirra hafa þegar verið tölvuskráð og unnt væri að birta þau á vefnum nú þegar með lítilli fyrirhöfn.

Menn velta því fyrir sér hvort þarna sé verið á búa til 22 ársverk á landsbyggðinni í algeru tilgangsleysi, en málið er ekki alveg svona einfalt.

Þau manntöl sem þegar hafa verið tölvuskráð voru tekin 1703, 1729, 1801, 1835, 1845, 1860, 1870, 1880, 1890, 1901, 1910 og 1930.   Sú tölvuskráning sem þar var unnin var gerð með þarfir ættfræðinnar í huga og upplýsingum sem ekki teljast beinar ættfræðiupplýsingar var sleppt. Ennfremur voru upplýsingar ekki skráðar stafréttar, heldur var stafsetning nafna samræmd, auk þess sem fjöldi villna í manntölunum var leiðréttur

Einnig var manntalið 1870 endurskapað að hluta.  Það er nefnilega því miður þannig að hluti manntalsins 1870 er glataður.  Við fyrri tölvuskráninguna var sá hluti "endurskapaður" með því að tölvuskrá upplýsingar úr sóknarmanntölum 1869-1871 á því svæði sem var glatað.

Þessi skráning var því ekki nákvæm skráning frumhandrita manntalanna, enda eingöngu ætluð til þess að búa til skrár sem nýttust ættfræðingum, ekki til að búa til nákvæmt afrit af þessum merkilegu gögnum á tölvutæku formi - sem er allt annar hlutur, en það mun vera það sem ætlunin er að gera núna.

Að auki stendur til að skrá manntölin 1840, 1850, 1855 og 1920, en þau hafa ekki verið tölvuskráð áður.

Púkinn hefði að vísu sjálfur frekar viljað sjá kirkjubækurnar tölvuskráðar og settar á vefinn, því þær hafa aðeins verið tölvuskráðar fram til loka 18. aldar, en mótvægisaðgerðir stjórnvalda duga víst ekki til þess í þetta skiptið.  Ætli kirkjubækurnar verði ekki að bíða eftir næsta kvótaniðurskurði, hvenær svo sem það nú verður.

Hvað um það, fyrir þá ættfræðigrúskara sem ekki hafa haft þægilegan aðgang að  manntalsgögnunum fyrr, þá er birting þessara manntala verulegt ánægjuefni.


mbl.is Manntalið 1870 komið á netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer eldsneytislíterinn í 200 kr. á árinu?

gas_prices.jpgMörgum finnst sjálfsagt stutt síðan eldsneytislíterinn skreið í 100 kr., en nú sjá menn fram á að hann fari í 200 kr. á næstunni.

Eða hvað?

Eins og allir vita ákvarðast eldsneytisverð af nokkrum þáttum - olíuverði í dollurum, gengi krónunnar gegn dollara, álagningu olíufyrirtækja, en síðast en ekki síst, álagningu ríkisins.

Nú er Púkinn ekki að segja að ríkið eigi að hlaupa til og lækka álögur á eldsneyti - Púkanum finnst það af ýmsum ástæðum ekki endilega vera réttasta leiðin, en í samræmi við þá skoðun Púkans að íslensk stjórnvöld grípi ýmist til rangra aðgerða, eða grípi til réttra aðgerða á röngum tíma, þá kæmi það Púkanum ekki svo mikið á óvart þótt tilkynnt yrði um einhverja tímabundna lækkun álagningar á næstunni.

Eða hvað?

Munum við kannski sjá eldsneytislítrann fara vel yfir 200 kr. eftir allt saman?


mbl.is Eldsneytisverð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekara gengisfall væntanlegt?

Það fór ekki mikið fyrir fréttinni um að sennilega yrði lítið um endurnýjun krónubréfa að ræða á næstunni., en þetta getur haft meiri áhrif en marga grunar.

Eitt af því sem skapaði núverandi erfiðleika í íslensku efnahagslífi var útgáfa þessara krónubréfa með tilheyrandi flæði gjaldeyris inn í landið, sem styrkti krónuna langt umfram það sem eðlilegt og heilbrigt gat talist.  Þessi sterka króna gekk nærri útflutningsfyrirtækjunum, en sendi þjóðina á neyslufyllirí - pallbílar og flatskjáir flæddu inn í landið.

Núna er dæmið að snúast við - krónubréfin eru ekki endurnýjuð, þegar þau renna út, en það þýðir í raun flæði gjaldeyris úr landi, sem undir eðlilegum kringumstæðum mun veikja krónuna.  Stóru endurnýjunardagarnir eru að vísu ekki fyrr en í haust en þá gæti vaxtalækkunarferli Seðlabankans verið hafið, sem mun draga úr áhuga fjárfesta á krónubréfum, þannig að allt er óvíst um hvort þau bréf verða endurnýjuð heldur.

Að mati Púkans er líklegast að krónan haldi áfram að síga og eigi eftir að falla um ein 10% í viðbót á þessu ári, sem að sjálfsögðu mun þýða verðhækkanir á innfluttum varningi sem sem aftur mun stuðla að samdrætti í neyslu.


mbl.is Endurútgáfa krónubréfa ólíkleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband