Af hverju í öryggisráðið?

Púkinn auglýsir hér með eftir svari við spurningunni um hvaða erindi Ísland eigi í öryggisráðið?  Hvers vegna að eyða tíma og peningum í þetta?

Er það vegna þess hve við höfum miklu að miðla vegna áratuga reynslu okkar af öryggismálum?

Er það vegna starfs Íslands við að koma á heimsfriði?

Er það vegna þess að við erum hin fullkomna þjóð - fyrirmynd allra annarra?

Eða er það vegna þess að einhverjir íslenskir pólitíkusar þjást af minnimáttarkennd og vilja gera allt til að þykjast vera mikilvægir?


mbl.is Rætt um framboð Íslands til öryggisráðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetnis-, rafmagns-, etanól-, bíodísel-, metan- og vatnsbílar

Púkinn minntist fyrir nokkrum dögum á svikahrappa sem reyna að telja fólki trú um að það geti knúið bílana sína með vatni (sjá hér).

Hvað um það - þótt hækkandi eldsneytisverð um þessar mundir sé að hluta til afleiðing óheftrar spákaupmennsku, þá er ljóst að til lengri tíma litið þurfa menn að horfast í augu við að framboð á olíu  er ekki ótakmarkað.  Á næstu áratugum munu fleiri og fleiri skipta úr bensín- og díselknúnum ökutækjum fyrir bíla sem ganga fyrir vetni, rafmagni, etanóli eða metan.

Púkinn gæti vel hugsað sér að vera í þeim hópi, en hvert á að stefna?  Sú umræða sem hér hefur verið um vetnissamfélag er góð og gild, en Púkinn verður þó að viðurkenna að hann skilur hana ekki alveg.

Einhverjir hafa drauma um að flytja út vetni, en hagkvæmni þess er minni en að flytja út rafmagn eftir sæstreng, sem aftur er minni en að nýta rafmagnið hér innanlands til að framleiða vörur til útflutnings.  Það er einnig að koma betur og betur í ljós að orkuauðlindir Íslands eru ekki ótæmandi og Púkinn skilur ekki hvernig nokkur getur haldið á lofti hugmyndum um vetniútflutning.

Að auki - hvers vegna ættu vetnisbílar að vera betri en rafbílar? Um allan heim eru í gangi rannsóknir á notkun á vetni sem orkugjafa.  Í þeim löndum sem rafmagn er framleitt með bruna kola eða olíu er gjarnan leitað að hagkvæmum leiðum til að framleiða vetni á annan hátt en með rafgreiningu, eins og til dæmis með því að nota bakteríur sem framleiða vetni sem úrgangsefni.  Verði þessi tækni þróuð frekar er sennilegt að hún verði notuð í stað rafgreiningar.

Það er orkutap fólgið í því að rafgreina vetni og brenna því síðan aftur til að framleiða rafmagn til að knýja vetnisbíla með rafmagnsmótor - hvers vegna ekki nota bara rafmagnið beint? 

Vetnisbílar eru takmarkaðir af því að eingöngu verður hægt að "fylla á" þá á þar til gerðum stöðvum, en rafmagnsbílar stefna í þá átt að hægt verða að stinga þeim í samband heima hjá fólki - hlaða þá yfir nótt í bílskúrnum.

Saga rafmagnsbílanna er athygliverð og Púkinn mælir með því að fólk horfi á myndina Who killed the Electric Car sem mun vera fáanleg á einhverjum vídeóleigum.

Kannski Púkinn fái sér rafmagnsbíl frá Toyota aftir tvö ár eða svo, en það eru fleiri möguleikar í stöðunni og ljóst að margvíslegar breytingar eru að verða á orkubúskap heimsins. 

Við lifum á áhugaverðum tímum. 


mbl.is Bíll sem gengur fyrir vatni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um húsnæði

Mörgum kemur á óvart að vísitala íbúðaverðs skuli hækka á höfuðborgarsvæðinu, miðað við þá snöggu kólnun sem hefur orðið á fasteignamarkaðinum, en í raun er þetta mjög eðlilegt.

Vísitalan mælir jú ekki annað en verðbreytingar á þeim eignum sem seljast - hún mælir ekki breytingar á seljanleika.  Hún sýnir ekki ástandið hjá þeim sem sitja uppi með eignir sem þeir geta ekki selt eins og staðan er í dag, enda á hún ekki að gera það.

Fasteignaverð var orðið óraunhæft hér á Íslandi - það var svipuð bóla hér og í mörgum öðrum löndum og þeir sem keyptu þegar verðið var sem hæst gerðu mistök, svo einfalt er það.  Þessi hópur er í þeirri stöðu að skulda jafnvel mun meira en sem nemur verðmæti eignanna, sem er erfitt fyrir marga að sætta sig við.

Það er veruleg tregða hjá mörgum gegn því að lækka verð á húsnæði - það sem sennilega mun gerast er að verðið haldist nokkurn veginn óbreytt næstu mánuðina, en lækki að raunvirði.  Fasteignamarkaðurinn verður ekki eðlilegur aftur fyrr en bólan er að fullu sprungin - spáin um 20% raunverðslækkun er hugsanlega ekki svo fjarri réttu lagi.

Á meðan seljast góðar eignir á góðum stöðum - kannski ekki jafn vel og áður, en þær seljast...og það heldur vísitölunni uppi.   


mbl.is Fjársterkir menn að kaupa húsnæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úldinn matur, klúður og léleg þjónusta

Hvers vegna eru íslenskir skyndibitastaðir svona lélegir?

Þótt ekki sé réttlætanlegt að gera sömu kröfur til skyndibitastaða og "alvöru" veitingastaða, þá ætlast maður nú til ákveðinna lágmarksgæða - skyndibitinn er ekki gefins á Íslandi, en því miður er það nú oft svo að staðir standa ekki undir væntingum.

Púkinn er mikill áhugamaður um góðan mat, en stundum er tíminn af skornum skammti, þannig að úrræðið verður að koma við á skyndibitastað. 

Ef staðurinn stendur ekki undir væntingum Púkans bregst Púkinn við með því að fara ekki aftur á þann stað í einhvern tíma, sem getur verið mislangur eftir atvikum.

Eitt það alversta sem Púkanum hefur verið boðið upp á er úldið hráefni.  Það átti sér stað hjá KFC, strax eftir opnun á sunnudagsmorgni.  Ætlunin var að kaupa barnabox handa dóttur Púkans og nokkra bita handa foreldrunum, en tilhlökkun barnsins var fljót að hverfa þegar ýldulyktin gaus upp.  Svona eftir á að hyggja þykir Púkanum sennilegast að hráefnið hafi ekki verið geymt í kæli yfir nóttina, þannig að fyrstu viðskiptavinum dagsins var boðið upp á mat sem tæplega var boðlegur hundum.

Púkinn ákvað því að gefa KFC langt frí, en gerði aðra tilraun 6 árum síðar. Það gekk ekki mikið betur.  Á leiðinni heim fékk frú Púki svo heiftarlegt ofnæmiskast að fjölskyldunni stóð ekki á sama.  Eftir þetta var KFC settur á varanlegan bannlista hjá Púkanum.

Annar staður sem er kominn á bannlistann er kjúklingastaðurinn í Suðurveri.  Synd og skömm, því þetta er sá skyndibitastaður sem er næst heimili Púkans.  Ástæða bannsins í því tilviki er ekki gæði matarins, heldur endalaust klúður í afgreiðslu.  Um þverbak keyrði í gær - þegar Púkinn kom heim og opnaði pakkann gerði hann sér ferð til baka og skilaði bitunum á þeirri forsendu að þetta væri ekki það sem hann hefði pantað.  Til hvers í ósköpunum er verið að spyrja viðskiptavininn hvernig bita hann vilji, þegar ekkert mark er tekið á svarinu?

Ruby Tuesday er líka á svarta listanum hjá Púkanum, vegna hræðilegrar þjónustu og matar sem ekki uppfyllir væntingar miðað við verð. 

Annar staður sem lenti á svarta listanum var Svarti svanurinn við Hlemm, en eftir að eigendaskipti urðu þar hrapaði þjónustan niður úr öllu, Púkinn gafst upp á staðnum og sennilega hafa fleiri gert það líka, því hann lagði upp laupana.

Það eru líka nokkrir staðir sem klikka stöku sinnum, en Púkinn stundar samt - Nings (þar sem stundum gleymist eitthvað af því sem pantað var) og American Style (þar sem sumir starfsmenn virðast ekki skilja orðin "enga sósu á hamborgarann").

Einu staðirnir sem alltaf uppfylli væntingar Púkans eru pizzustaðir - áður fyrr var Púkinn fastagestur á Hróa Hetti og Eldsmiðjunni, en þar sem þeir staðir eru ekki lengur innan göngufæris er Devitos (við Hlemm) sá staður sem Púkinn stundar einna helst.

Púkinn minntist ekki á McDonalds, enda hefur hann ekki farið þangað síðan dóttirin óx upp úr því að vilja barnabox með leikfangi - ef Púkinn vill hamborgara fær hann sér "Heavy Special" hjá American Style, ekki einhverja dvergvaxna eftirlíkingu af hamborgara.

Það eru reyndar ekki bara skyndibitastaðir sem hafa valdið Púkanum vonbrigðum hér á landi - alversta þjónusta sem hann hefur fengið var á einum af dýrari veitingastöðum bæjarins, en það er efni í aðra sögu, sem ef til vill verður sögð síðar.

Hvað um það, hafa einhverjir aðrir sínar eigin hryllingssögur af íslenskum skyndibitastöðum - eða sérstök meðmæli með einhverjum stað sem ekki veldur vonbrigðum?


Röntgensjón - að horfa gegnum föt

Nú er komin fram tækni sem leyfir notandanum að "horfa" gegnum föt og önnur efni, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Það sem er notað er svokölluð "Terahertz" tækni, en hún byggir á rafsegulbylgjum sem hafa hærri tíðni en örbylgjur, en lægri en innrautt ljós.

Þessar bylgjur fara auðveldlega í gegnum efni eins tau, pappa, tré og plast, en vatn og málmur stöðvar þær hins vegar.

Það eru reyndar fleiri not af þessari tækni en bara að horfa í gegnum föt farþega -  Þessi tækni getur hugsanlega komið í stað röntgengeisla í tannlæknastofum, þar sem hún er mun hættuminni.


mbl.is Gægjast gegnum föt farþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Water4Gas - keyrðu bílinn á vatni

water4gas-longbannerFyrir aðeins $97 getur þú fengið leiðbeiningar um smíði tækis sem leyfir þér að keyra bílinn þinn á vatni og hlæja að hækkandi eldsneytisverði. 

Hljómar þetta eins og það sé of gott til að geta verið satt?

Einmitt.

Þetta er að sjálfsögðu ekkert annað en svikamylla, en nú á tímum ört hækkandi eldsneytisverðs eru margir sem falla fyrir svona bulli.

Aðalvefsíðan sem selur þetta er hér.  Þar er ýmislegt sem lítur sannfærandi út við fyrstu sýn, en skoðum þetta aðeins nánar.

Tæknin byggir á því að nota rafgreiningu - kljúfa vatn í vetni og súrefni, sem síðan er blandað saman við eldsneytið - en við bruna þess myndast síðan vatn aftur. 

Það er vissulega hægt að knýja vélar á vetni, en það er einn smágalli á því ferli sem hér er lýst - sú orka sem fæst við bruna vetnisins er jafn mikil og sú sem þarf til að rafgreina það í upphafi - eða, reyndar er hún minni, því það er alltaf visst tap í svona kerfum.  Þessi orka kemur úr rafkerfinu, sem þýðir að alternatorinn þarf að vinna meira sem því nemur - nokkuð sem krefst aukinnar eldsneytisnotkunar.

Sumir þeirra sem flagga þessari tækni halda því fram að eldsneytissparnaðurinn stafi af því að vegna íblöndunar vetnisins nýti vélin bensínið betur - þannig að í stað þess að nýta aðeins 30% orkunnar sem er bundin í eldsneytinu nýti vélin nú 60%.

Hljómar vel, ekki satt?

Vandamálið er bara það að þetta er ekki það sem rannsóknir sýna - a.m.k. ekki aðrar rannsóknir en þeir sem selja vöruna segjast hafa gert.

Þessi tækni er seld á vefnum og þar sem flestir vita að þar eru margvísleg svik á ferðinni, þá eru sumir sem "gúggla" eftir leitarorðum eins og "Water4Gas scam".

Viti menn - þá kemur upp fjöldi síðna eins og þessi - en þessar síður segja allar það sama: "Ég efaðist fyrst um að þetta gæti staðist, og hélt að þetta væri svikamylla, en svo prófaði ég þetta og það virkar - hallelúja"  Síðan kemur hlekkur til að kaupa vöruna.  Ætli þessir aðilar fái ekki prósentu af sölunni?

Það er til fjöldinn allur af "eldsneytissparandi" tækjum, sem eiga það sameiginlegt að "vísindin" á bak við þau eru rugl (t.d. seglar til að festa meðfram eldsneytisrörunum til að rétta úr sameindunum) og að raunverulegar rannsóknir sýna að þessi tæki eru í besta falli gagnslaus, en í versta falli auka þau eldsneytiseyðsluna eða geta skapað hættu.

Samt fellur fólk fyrir þessu - já, það eru margir sem lifa góðu lífi á trúgirni annarra.


mbl.is Olíubirgðirnar duga í 41 ár að mati BP
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarthöfði, svartstakkar og aðrir

darthvaderÞótt Púkinn eigi að mörgu leyti samleið með þeim aðilum í Vantrú sem stóðu fyrir Svarthöfðauppákomunni, þá er hann ekki að öllu leyti sammála aðferðinni.  Það má túlka svona aðgerðir eins og menn líti þannig á að ekki eigi að taka trúarbrögð alvarlega - þau séu eitthvað til að gera grín að.

Þar er Púkinn ósammála - honum finnst trúarbrögð nefnilega vera alvarlegt vandamál -  ein versta uppfinning mannkynsins frá upphafi. Að gera grín að trúarbrögðum er svona eins og að gera grín að fíkniefnanotkun, farsóttum eða þrælahaldi - það er einfaldlega ekkert fyndið við viðfangsefnið.

Púkinn vonast að sjálfsögðu til þess að mannkynið vaxi einhvern tíman upp úr því að telja sig þurfa á trúarbrögðum að halda, en líkurnar á því eru því miður minni en að trúarbrögð verði til þess að mannkynið útrými sjálfu sér.

Púkanum finnst það ekki heldur fyndið. 


mbl.is Svarthöfði á vegum félagsmanna í Vantrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Netþjónustufyrirtæki, barnaklám, Usenet og ritskoðun

Margir fagna því að þrjú stærstu netþjónustufyrirtæki Bandaríkjanna skuli nú reyna að loka barnaklámssíðum.  Þessi þróun er hins vegar ekki endilega eins mikið fagnaðarefni og sumir virðast halda.

Það er ekki um það að ræða að verið sé að gera fyrirtækin þrjú (Verizon, Sprint og Time Warner Cable) ábyrg fyrir efni sem þau hýsa - þetta eru ekki hýsingarfyrirtæki.  Það sem er fyrst og fremst verið að loka er aðgangur að Usenet "grúppum" sem dreifa barnaklámi, en á þeirri vinsælustu (sem heitir einfaldlega "Child porn") er dreift yfir 7000 myndum á dag.

Og hvers vegna er þetta ekkert sérstakt fagnaðarefni?   Fyrir því eru nokkrar ástæður.

  • Í fyrsta lagi er mikið af því efni sem hér um ræðir ekki barnaklám.  Af öllu því efni sem var rannsakað í 88 grúppum reyndust 11.390 myndir vera óumdeilt barnaklám - en það er aðeins lítið brot þess efnis sem verið er að loka á.  Raunverulegu barnaklámi er sjaldnast dreift með opnum hætti - því grófasta er dreift milli manna í lokuðum hópum - milli manna sem gera sér fyllilega grein fyrir þeim refsingum sem fylgja því að framleiða svona efni eða hafa það undir höndum.  Mikið af því efni sem hér verður lokað á er efni sem er á gráu svæði - efni sem sýnir í raun ekki börn, en gæti litið út fyrir að gera það.  Þar er annars vegar um að ræða myndir af fyrirsætum sem eru orðnar 18 ára (sem er lágmarksaldurinn fyrir klámmyndir til að teljast löglegar í Bandaríkjunum) en líta út fyrir að vera yngri, eða myndir sem hefur verið breytt (t.d. í Photoshop) til að láta viðfangsefnin sýnast yngri en þau eru.
  • Það er hins vegar vissulega ofbeldisfullt, raunverulegt og viðbjóðslegt barnaklám inn á milli, en sú aðgerð að loka á dreifingu tiltekinna Usenet fréttagrúppa mun í raun engin áhrif hafa á dreifingu þess.  Þeir sem vilja dreifa þessu efni munu ef til vill færa sig yfir í aðrar grúppur - jafnvel stofna nýjar grúppur daglega, nú eða þá dreifa efninu einfaldlega í öðrum "saklausum" grúppum sem þegar eru til.  Þeir notendur sem virkilega vilja nálgast þetta efni munu líka gera það áfram eftir öðrum leiðum, svona á sama hátt og kínverskir Falun Gong meðlimir geta nálgast efni á "lokuðum" vefsíðum eftir krókaleiðum, þrátt fyrir miklar tilraunir kínverskra aðila til að stöðva það.
  • Með þessum aðgerðum er verið að stíga stórt skref í þá átt að gera netþjónustuaðila ábyrga fyrir því efni sem þau dreifa.  Það eru hömlur í stjórnarskrá Bandaríkjanna á rétti hins opinbera til að beita ritskoðun, en þær hömlur eiga ekki við um einkafyrirtæki.  Það hefur verið reynt að setja lög í sumum fylkjum Bandaríkjanna sem ganga í sömu átt, en þeim lögum hefur verið hnekkt á þeirri forsendu að þau standast ekki stjórnarskrá.  Ef stjórnvöld geta neytt netþjónustuaðila með þvingunaraðferðum til að taka upp ritskoðun þá er í raun verið að fara á svig við stjórnarskrána, en ritskoðunin er orðin að veruleika.
  • Þegar búið er að fá einkafyrirtæki til að beita ritskoðun á ákveðið efni, sem er ekki ólöglegt nema að hluta, er spurning hversu langt verði að bíða þess að fyrirtækin verði þvinguð til að ritskoða annað efni sem er stjórnvöldum ekki þóknanlegt.
  • Með því að loka á Usenet grúppurnar fá stjórnmálamennirnir viðurkenningu frá almenningi sem heldur að þeir hafi gert eitthvað gagn, þegar raunveruleikinn er sá að þessar aðgerðir gera ekkert til að vinna gegn raunverulega vandamálinu - framleiðslu og dreifingu barnakláms. 

mbl.is Netþjónustufyrirtæki munu loka fyrir barnaklámssíður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

deCODE og önnur penny-stock fyrirtæki

deCODE er ekki eina hátæknifyrirtækið sem hefur hrapað á hlutabréfamarkaðinum, en það sem margir vita ekki er hvers vegna $1 márkið er svona mikilvægt.

Ef kaupgengi (bid price) fyrirtækis er fyrir neðan $1 30 viðskiptadaga í röð, hefst afskráningarferli af Nasdaq sjálfkrafa.  Fyrirtækinu eru gefnir 180 dagar til að koma sínum málum í betra lag, en takist það ekki er það afskráð.

Einfaldasta leiðin til að koma hlutabréfaverðinu upp yfir $1 er að gera svokallað "reverse split", sem þýðir í raun að hlutabréfunum er skipt út fyrir færri, en verðmeiri bréf - heildarverðmæti bréfanna breytist ekki.  Í stað þess að eiga t.d. 1000 hluti, metna á $0.7 gætu menn haft 100 hluti, metna á $7.

Slíkt "reverse split" er hins vegar litið ákaflega neikvæðum augum - túlkað sem neyðarúrræði til að halda fyrirtækinu á markaði og vísbending um að stjórnendur sjái ekki önnur ráð til að auka verðmæti bréfanna.

Önnur ráð felast í því að gera fyrirtækið áhugaverðara með því að bæta afkomu þess, eða með því að fá inn fjármagn á einhvern annan hátt.  Hvort tveggja gæti hins vegar reynst nokkuð erfitt eins og markaðsaðstæður eru.

Takist ekkert af þessu er fyrirtækið afskráð af meginlista Nasdaq - orðið svokallað "penny stock" fyrirtæki.  Margir fjárfestingasjóðir mega ekki eiga hluti í slíkum fyrirtækjum og neyðast þá til að selja bréfin, sem að sjálfsögðu sendir verð þeirra enn lægra.  Það er áfram unnt að eiga viðskipti með bréf "penny stock" fyrirtækja, en það er erfiðara og einnig er erfiðara fyrir slík fyrirtæki að afla sér fjármagns.

Púkinn vonast til að deCODE nái að rífa sig upp úr öldudalnum, en til þess er nauðsynlegt að afkoma fyrirtækisins batni eða að góðar fréttir komi frá þeim á næstunni.  Það síðarnefnda er reyndar nokkuð líklegt, þannig að fyrir þá sem fjárfesta í deCODE akkúrat núna gæti verið möguleiki á skjótfengnum gróða á næstunni.  Hvort deCODE er góð fjárfesting til langframa verður tíminn að leiða í ljós.


mbl.is Gengi deCODE niður fyrir 1 dal á hlut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaþólska kirkjan á eftir að biðjast afsökunar á mörgu

Pius_ixPúkanum finnst hlálegt  þegar kaþólska kirkjan lýsir vandlætingu á hegðun annarra.  Hvernig er hægt að taka stofnun alvarlega sem vill taka mann í dýrlingatölu sem ber ábyrgð á barnsráni?

Fyrir 150 árum síðan, í júní 1858 ruddist lögreglan inn á heimili gyðingsins Salomone Mortara í Bologna og tók eitt barna hans - hinn sex ára Edgardo Mortara.

Hvers vegna?

Jú, nokkru fyrr hafði hann verið alvarlega veikur og var varla hugað líf.  Á heimilinu var fjórtán ára kaþólsk þjónustustúlka, sem hafði skírt barnið, án vilja eða vitundar foreldra hans.

Samkvæmt lögum kaþólsku kirkjunnar var barnið þá kaþólikki og gyðingar máttu ekki ala upp kaþólsk börn - jafnvel ekki sín eigin.  Því var gefin út tilskipun um að taka barnið frá foreldrum sínum og ala það upp í kaþólskum sið.

Bologna var á þessum tíma hluti Páfaríkisins, sem þýddi að hið veraldlega vald var í höndum kirkjunnar.  Það var hins vegar tekið að fjara undan kirkjunni á þessum tíma og hjá mörgum var þetta barnrán dropinn sem fyllti mælinn.  Svipuð tilvik höfðu átt sér stað áður, en ekki vakið athygli - vald kirkjunnar var of sterkt, en það var að breytast. 

Í konungsríkinu Piedmont, sem var um þessar mundir í forystu fyrir sameiningu Ítalíu var þessi atburður tekinn sem sönnun þess að veraldlegt vald kirkjunnar væri tímaskekkja sem ekki ætti að líða og er af mörgum talið hafa ráðið úrslitum um að önnur ríki hreyfðu ekki mótmælum þegar Piedmont lagði Páfaríkin undir sig með hervaldi ári síðar, en síðan hefur hið veraldlega vald kirkjunnar verið takmarkað við Vatikanríkið eitt.

Hvað varð um Edgardo?  Jú, þrátt fyrir kröfur foreldra hans og umheimsins neitaði kirkjan að skila honum - hann var "heilaþveginn", alinn upp sem kaþólikki, gerðist síðar prestur og dó 1940. 

Páfinn á þessum tíma var Pius IX - maður sem er verið að taka í dýrlingatölu, en fyrstu skrefin til þess voru tekin 1985 og 2000 af Jóhannesi Pál II páfa.  Hann iðraðist aldrei barnsránsins - þvert á móti sagði hann 1865:

Ég hafði rétt og skyldu til að gera það sem ég gerði fyrir þennan dreng og ef ég þyrfti þess, þá myndi ég gera það aftur.

Það hefur stundum tekið kaþólsku kirkjuna nokkrar aldir að biðjast afsökunar á misgjörðum sínum - það tók hana til dæmis 400 ár að lýsa iðrun yfir aftöku Giordano Bruno.  Ef til vill mun kirkjan biðjast afsökunar á barnaránum eftir nokkrar aldir - hver veit.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband