Föstudagur, 11. janúar 2008
Miðbæjarvígvöllurinn
Enn og aftur er umræðan komin aftur í sama farið - að hér á landi séu of margir útlendingar með sakaferil, sem stundi það að berja mann og annan og það ætti að senda þá alla úr landi. Já, og að þátttaka Íslands í Schengen hafi verið mistök.
Þetta er bara ekki málið.
Fólk fær það á tilfinninguna að útlendingar beri ábyrgð á óeðlilega stórum hluta ofbeldisglæpa og alvarlegri afbrota hérlendi, enda hika fjölmiðlar ekki við að flagga því í hvert sinn sem útlendingar eiga í hlut.
Þetta er ekki aðalmálið heldur.
Það sem Púkinn telur aðalmálið er að ástandið í miðbænum virðist vera orðið þannig að fólki er varla óhætt þar á vissum tímum nema í fylgd lífvarða. Lögreglan segir stefnuna að hreinsa upp miðbæinn, en hún er undirmönnuð og lögreglumennirnir undirborgaðir. Meðan það ástand varir er ósennilegt að ástandið batni mikið.
Við höfum að vísu ekki yfir miklu að kvarta miðað við sumar aðrar þjóðir - hér tíðkast ekki götubardagar með bensínsprengjum, eins og sumar nágrannaþjóðir okkar hafa þurft að fást við, en engu að síður eru væntanlega flestir sammála um að ástandið sé ólíðandi.
![]() |
Ráðist á lögreglumenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 10. janúar 2008
Kvótakerfið dautt ... eða bara með skrámu?
Dómurinn í Genf segir að íslenska kvótakerfið uppfylli ekki alþjóðalög og því verði að breyta. Þetta er að mati Púkans ein stærsta frétt það sem af er þessu ári og búast má við því að nú fari umræðan um kosti og galla kvótakerfisins á fullan gang í þjóðfélaginu enn á ný.
Það eru margvísleg vandamál við kvótakerfið, en það sem þetta ákveðna dómsmál snýst um er sú mismunun að nýliðar sitja ekki við sama borð og þeir sem höfðu veiðireynslu við upptöku kerfisins, heldur þurfa að kaupa kvóta af þeim forréttindahópi sem fékk hann "gefins" á sínum tíma (eða þeim sem þeir seldu kvótann).
En hvað geta stjórnvöld gert?
Augljósasti valkosturinn er auðvitað sá að reyna að hunsa úrskurðinn - breyta ekki kerfinu, en borga sjómönnunum einhverjar bætur til að málið detti dautt niður hvað þá varðar.
Annar valkostur er að setja plástur á kerfið. Segja t.d. að 2% kvótans fyrnist á hverju ári og sé endurúthlutað - að hluta endurgjaldslaust til nýliða, en afgangurinn sé seldur á uppboði - sem kæmi þá í stað auðlindaskatts á útgerðirnar. Til að koma í veg fyrir misnotkun þá yrðu að vera einhverjar takmarkanir á framsali "nýliðakvóta" - hann myndi renna aftur til ríkisins sé hann ekki nýttur, og væri ekki framseljanlegur fyrstu 5-10 árin.
Þriðji valkosturinn er að lýsa kerfið dautt og koma með eitthvað betra í staðinn. Púkinn efast um að nokkuð fullkomið fiskveiðistjórnunarkerfi sé til, en þykist nú samt geta séð fyrir sér kerfi sem hefur alla kosti núverandi kerfis en færri galla.
Hvað um það - það er næsta ljóst að þessi þriðja leið verður ekki valin - það er of mikið í húfi hjá of mörgum ráðandi aðilum. Bankarnir sem eiga veð í óveiddum kvóta yrðu t.d. ekki hamingjusamir ef ríkið legði niður núverandi kerfi með einu pennastriki og kvótaveðið yrði verðlaust með öllu - og það gildir einu þótt ríkið hafi fullan rétt til að gera það. Menn munu ekki þora að fara þessa leið.
Nei, Púkinn er nokkuð viss um að sjúklingurinn verður ekki lýstur dauður, heldur verður bara skellt á hann nokkrum plástrum.
![]() |
Íslensk stjórnvöld breyti fiskveiðistjórnunarkerfinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 10. janúar 2008
"Besti tíminn til að kaupa hlutabréf ...
...er þegar blóðið flæðir um göturnar." Púkinn man reyndar ekki hver sagði þessi orð, en þau eiga ágætlega við í dag. Ef fólk er að leita að skammtímagróða á hlutabréfamarkaði, í stað þess að fjárfesta jafnt og þétt, þá skiptir tímasetningin miklu máli, og besti tíminn til að kaupa er þegar allir eru uppfullir af örvæntingu, múgsefjun hefur gripið um sig meðal fjárfesta og allir eru að reyna að selja.
Frá þeim sjónarhóli er það hrein heimska að hlaupa til þegar markaðurinn hefur verið á brjálaðri uppleið mánuðum saman. Það er enn meiri heimska að vera "gíraður" undir þeim kringumstæðum - leggja bréfin fram sem veð til að geta fengið lán til að kaupa enn fleiri (veðsett) bréf.
Púkinn er þeirrar skoðunar að hafi einhverjir verðbréfaráðgjafar ráðlagt fólki að gera slíkt um mitt síðasta ár, þá hafi þeir annað hvort ekki verið starfi sínu vaxnir, eða notað sér græðgi og þekkingarleysi fjárfestanna á hátt sem jaðrar við að vera glæpsamlegur.
Nei, þeir sem höfðu vit í kollinum losuðu sig væntanlega við sín bréf með góðum hagnaði og sitja nú með feit veski og bíða eftir góðu tækifæri til að koma aftur inn á markaðinn.
Er þá rétti tíminn til að kaupa núna? Púkinn er ekki viss - þó þykir honum sennilegt að tímabundnum botni hafi verið náð og einhver hækkun gæti orðið í dag og á morgun....en það kæmi alls ekki á óvart þótt enn meiri lækkanir yrðu síðan, og botninum ekki náð fyrr en eftir mánuð eða jafnvel lengur.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 9. janúar 2008
Var spilaborg að hrynja?
Það ætti ekki að koma neinum á óvart að fjárfestingafélagið Gnúpur skuli hafa verið meðal þeirra fyrstu sem lentu í vandræðum, þar sem meginhluti eigna þeirra var bundinn í FL Group og Kaupþingi, en þau bréf hafa fallið það mikið í verði að væntanlega standa þau ekki lengur sem veð undir þeim lánum sem Gnúpur hefur tekið.
Samkvæmt vefsíðu Gnúps eru eigendur sem hér segir:
1. SK Holding Company II ehf. | 28.2% |
2. SKE Holding Company II ehf. | 18.2% |
3. MK-44 II ehf. | 29.5% |
4. Suðurey ehf. | 17.0% |
5. Brekka Investment Company II ehf. | 7.1% |
Þeir sem vilja geta síðan dundað sér við að rekja eignarhald félaganna, en sem dæmi eru SKE II ehf. og SK II ehf. í eigu Björns Hallgrímssonar ehf. sem er í eigu Kristins Björnssonar og systra hans, en Magnús Kristinsson og Þórður Már Jóhannesson eru einnig meðal eigenda Gnúps.
Samt...þá kemur þetta Púkanum á óvart. Hann hélt nefnilega að önnur spilaborg myndi hrynja á undan.
![]() |
Samið um endurskipulagningu Gnúps |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 9. janúar 2008
Uppsagnir hjá fjármálafyrirtækjunum?
Þótt fjármálafyrirtækin neiti því öll að uppsagnir séu á döfinni, þá mislíkar þeim væntanlega ekki að þessi orðrómur sé í gangi.
Ástæðan er augljós - þetta gefur þeim tækifæri til að halda aftur af launahækkunum - starfsmenn eru ekki líklegir til að pressa á miklar hækkanir ef þeir telja starfsöryggi sitt ekki tryggt.
Hvað raunverulegar uppsagnir varðar, þá er líka ljóst að enginn stóru bankanna vill verða fyrstur til að hefja þær - slíkt væri veikleikamerki og gæti haft neikvæð áhrif á ímynd fyrirtækisins - og þar með gengi hlutabréfanna, sem ekki má við meiri áföllum.
Ef svo fer að fyrirtækin neyðist til að grípa til uppsagna, verður að sjálfsögðu reynt að gefa því jákvæða ímynd - kynna það sem merki um sveigjanleika fyrirtækisins og það hversu fljótt það sé að bregðast við breyttum aðstæðum.
Nei, Púkanum þykir sennilegast að fyrirtækin muni í lengstu lög reyna að ná fram fækkun án uppsagna - með því að ráða ekki í stöður sem losna einhverjum ástæðum, heldur færa fólk til eftir þörfum. Það gæti hins vegar orðið lítið um nýráðningar á næstunni, sem eru slæmar fréttir fyrir þann fjölda viðskiptafræðinga sem er að ljúka námi og taldi sig geta gengið að vísum, vel launuðum störfum í fjármálafyrirtækjunum.
Góðærinu er lokið...í bili að minnsta kosti.
![]() |
Fækkar um 650 í fjármálageiranum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 8. janúar 2008
Nokia veikin?
Íbúar bæjarins Nokia í Finnlandi hafa verið tengdir samnefndu fyrirtæki órjúfanlegum böndum síðustu 150 árin og ganga að sjálfsögðu um í Nokia stígvélum og tala í Nokia farsíma.
Nýlega fékk stór hluti bæjarbúa niðurgangspest, sem gengur nú undir nafninu "Nokia veikin".
Ósköpin byrjuðu með því að starfsmaður í skolphreinsistöð bæjarins sneri röngum krana og sendi 400.000 lítra af skolpi inn í vatnsból bæjarbúa, með þeim afleiðingum að gerlamagn í vatninu varð mörghundruðfalt hærra en leyfilegt er.
Það er eins gott að í Finnlandi er í boði Nokia salernispappír.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 7. janúar 2008
Forvarnar...hvað?
Púkanum finnst svolítið skrýtið að veita Ölgerðinni forvarnarverðlaun. Púkinn hefur alls ekkert á móti því ágæta fyrirtæki og er reglulegur viðskiptavinur þess, en þetta fyrirtæki framleiðir líka bjór og furðulegt má þykja ef sá bjór hefur ekki komið við sögu í einhverjum þeirra ölvunarakstursóhappa sem sem orðið hafa í umferðinni.
Það skiptir TM hins vegar litlu máli, að því er virðist - kannski vegna þess að slíkt tjón lendir jú á endanum á ökumanninum sjálfum - þeir þurfa ekki að borga það.
Ef tilkynningin er skoðuð nánar, má lesa "Ölgerðin hefur um árabil unnið mjög vel að forvörnum. Sérstakt átak var gert til að fækka óhöppum innan bílaflotans á síðasta ári og unnu Ölgerðin og TM saman að verkefninu. Saga System aksturstölva frá ND var notuð sem hjálpartæki. Tölvan sýnir aksturslag á rauntíma og gefur einkunn út frá frávikum í akstri. Árangurinn lét ekki á sér standa. Ökutækjatjónum fækkaði um 60% sem er mjög gott miðað við stóran ökutækjaflota".
Sem sagt - forvarnarverðlaun vegna minnkunar tjóna sem lenda á TM, en skítt með fjölda tjóna sem starfsemi fyrirtækisins veldur að öðru leyti.
Jó, svona er Ísland í dag.
![]() |
Ölgerðin fær forvarnarverðlaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 5. janúar 2008
Þín bíður sending ....
Púkinn ætti fyrir löngu að vera hættur að verða hissa á stirðbusaganginum í kerfinu, en þó er ennþá unnt að koma honum á óvart.
Meðal þess sem Púkinn er áskrifandi að er erlent tímarit sem kemur út mánaðarlega og því dettur öðru hverju inn um lúguna hjá Púkanum tilkynning frá Íslandspósti: "Þín bíður sending..."
Þá þarf Púkinn að taka sér frí úr vinnunni næsta dag, keyra bæjarenda á milli (því það er nú ekki svo gott að pósthúsið sé í göngufjarlægð frá heimili eða vinnustað), til þess að borga 64 krónur í virðisaukaskatt.
Já - heilar 64 krónur.
Það er nú ekki þannig að Púkinn sé því eitthvað mótfallinn að ríkið fái sinn virðisaukaskatt - síður en svo, en sé heildarmyndin skoðuð - dettur einhverjum heilvita manni í hug að þetta sé í raun þjóðhagslega hagkvæmt - vinnutap og akstur - allt til þess að borga 64 krónur einu sinni í mánuði?
Föstudagur, 4. janúar 2008
Trúðurinn í framboð ... aftur
Sumum gremst að Ástþór skuli ætla í framboð enn og aftur, með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðina, en það er nú svo að einn af göllunum við að búa í lýðræðisþjóðfélagi er að trúðar hafa sömu réttindi og aðrir.
Það gildir einu þótt Ástþóri hafi áður verið hafnað í þetta embætti.
Það skiptir ekki máli þótt margir telji hann gersamlega óhæfan til að sinna því.
Það skiptir ekki máli þótt maðurinn hafi ítrekað gert sig að algjöru fífli í augum þjóðarinnar, t.d. með póstsendingum um yfirvofandi hryðjuverkahættu eða jólasveinaflugferðir.
Það skiptir ekki máli þótt hann telji sig vera þann mann sem Nostradamus spáði fyrir um - boðbera friðarins úr norðri.
Nei, Ástþór hefur rétt á að sólunda peningum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna í tilgangslausar kosningar. Reglurnar eru einfaldlega þannig - trúðar hafa sinn rétt.
Það er hins vegar spurning hvort reglurnar séu ekki gallaðar. Kröfurnar um fjölda meðmælenda voru til dæmis settar á þeim tíma þegar fjöldi kosningabærra einstaklinga var mun lægri en hann er í dag. Væri ekki réttlátara að gefa kröfu um að ákveðið hlutfall þjóðarinnar mælti með viðkomandi - frekar en að miða við fasta tölu sem verður ómarktækari eftir því sem landsmönnum fjölgar. Ef t.d. væri þess krafist að 1.5% kosningabærra landsmanna væru meðmælendur viðkomandi, myndi það ekki hafa áhrif á þá frambjóðendur sem ættu raunverulega möguleika, en það gæti útilokað trúðana
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 4. janúar 2008
"Einstæðir" foreldrar að svindla á kerfinu
Púkanum finnst að ákveðinn hluti þjóðarinnar kunni ekki að skammast sín, en þar á meðal eru sumir þeirra einstaklinga sem stunda það að svindla á opinbera kerfinu - ná út úr því hærri bótum en þeir eiga rétt á.
Ein margra leiða til þess er að hjón skilji á pappírnum, eða að sambýlisfólk skrái sig ekki í sambúð og annað þeirra, nánast alltaf konan, sé skráð sem einstætt foreldri með börn á framfæri.
Sumir einstaklingar sem stunda þetta líta sennilega svo á að þetta sé gert af illri nauðsyn - sjálfsbjargarviðleitni til að reyna að nálgast mannsæmandi lífskjör, en skammast sín auðvitað fyrir þessi svik.
Svo eru það þeir sem ekki kunna að skammast sín.
Eins og þeir vita sem þekkja Púkann þá hefur hann allnokkuð með starfrækslu Íslendingabókar að gera. Þar hefur komið fyrir að fólk hafi haft samband, hundfúlt yfir því að á vef Íslendingabókar standi að þau hafi skilið eða slitið samvistum.
Halló...er ekki allt í lagi? Fólk velur að skrá sig úr sambúð og fær fyrir vikið hærri mæðralaun og barnabætur - bætur sem það í raun á ekkert tilkall til og væru betur greiddar þeim sem raunverulega þurfa á þeim að halda - og síðan er fólk reitt yfir því að Íslendingabók vilji ekki taka þátt í því að hylma yfir svikin með þeim.
Púkinn spyr - kann sumt fólk virkilega ekki að skammast sín?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)