Jólavertíð hjá Íslendingabók

islendingabok.isPúkinn hefur veitt því athygli að óvenjulega margir virðast vera að nota íslendingabok.is þessa dagana.  Eftir ofurlitla umhugsun áttaði Púkinn sig á því sem er væntanlega skýringin - jólakort.

Fólk er að athuga hluti eins og "Hvað heitir nýja konan hans Sigga frænda fyrir vestan?", eða "Hvað skírðu Jón og Gunna aftur þriðju stelpuna sína?"

Það er nefnilega skemmtilegra að hafa rétt nöfn í jólakveðjunum.


Spilaborgin - hluti 2

house of cards fallingÞann 18. október skrifaði Púkinn grein (sjá hér) um orðróm sem hann hafði heyrt úr bankageiranum um aðila sem stefndu í alvarleg vandræði.  Þótt engin nöfn væru nefnd sáu einhverjir hverja var átt við ... og mikið rétt, vandræði FL Group urðu öllum ljós nokkrum vikum síðar.

Nú í dag heyrði Púkinn annan orðróm - þar var ekki um fyrirtæki að ræða, heldur verulega umsvifamikinn einstakling, en samkvæmt sögunni hefur verðfall ýmissa bréfa gert það að verkum að í stað þess að vera milljarðamæringur er hann tæknilega nánast gjaldþrota.

Sagan sagði að hann yrði að sjálfsögðu ekki gerður gjaldþrota - til þess væru ítök viðkomandi of mikil.  Hvort þetta er rétt eða ekki, veit Púkinn ekki fyrir víst, þannig að viðkomandi aðili verður ekki nafngreindur hér, en kannski finnur einhver út hvern Púkinn á við - en það verður hver að eiga við sig.

Fólki er hins vegar  velkomið að velta fyrir sér ástæðum þess að svona sögur fara á kreik - er það vegna illkvittni eða öfundar - hafa allir  bara gaman af því að smjatta á slúðri, þótt þeir vilji kannski ekki kannast við það?


Greetings in Jesus name!

Þessi grein fjallar ekki um trúmál, þrátt fyrir titilinn, heldur um ruslpóst eða réttara sagt þá íþrótt að eltast við þá sem senda ruslpóst og gera þá að fíflum.

Það kannast flestir við þann tölvuruslpóst sem hefur tekið við af gömlu Nígeríubréfunum - ruslpóst sem gerir út á fáfræði, trúgirni og fyrst og fremst græðgi viðtakendanna.

Fólki er boðið að gerast milligönguaðilar vegna fjármagnsflutninga, nú eða að því er sagt að þeirra bíði arfur, eða jafnvel bara að það hafi unnið í Microsoft happdrættinu.

Flestir sjá auðvitað við þessu,  en það eru alltaf einhverjir sem eru nógu gráðugir eða heimskir til að láta glepjast.

Það eru hins vegar líka til þeir sem stunda það að "veiða" sendendur ruslpóstsins - látast bíta á agnið en eru í raun bara að draga viðkomandi á asnaeyrunum og fá þá til að eyða tíma sínum...já, og helst peningum líka, svo ekki sé nú minnst á fíflagang eins og að fá viðkomandi til að tattóvera sig með merkjum tilbúins sértrúarhóps eða annað í svipuðum dúr.

Það eru auðvitað ákveðnar reglur - það þarf að fara varlega - ekki gefa upp neinar raunverulegar upplýsingar, nöfn, heimilisföng eða símanúmer og gæta þess að ekki sé hægt að rekja tölvupóstföngin, heldur nota þjónustur eins og hotmail eða gmail.

Nú hafa nokkrar sögur af þessum samskiptum verið gefnar út í bókinni  Greetings in Jesus Name! The Scambaiter Letters en Púkinn mælir með þeirri bók hafi menn gaman af að sjá þá gerða að fíflum sem eiga það skilið.


mbl.is Hlutfall ruslpósts komið í 95% af öllum tölvupósti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afspyrnuléleg fréttamennska

Northern lightsSumar fréttir eru vel unnar, en aðrar ekki - og sú sem hér er vísað í tilheyrir síðari hópnum.  Það verður að gera kröfu um að fjölmiðlar hafi lágmarksþekkingu á málum sem þeir fjalla um og geti skilið aðalatriðin frá aukaatriðunum.  Þetta er því miður allt of algengt vandamál þegar kemur að vísindatengdu efni.

Upphaflega fréttin snýst nefnilega ekki um orku úr hlöðnum eindum frá sólinni - tilvist þeirra hefur verið vel þekkt áratugum saman. Nei, raunverulega fréttin varðar uppgötvun á eins konar flæktum segulsviðum, sem líkt hefur verið við "segulreipi" sem tengir jörð og sól.

Það er fréttin - ekki það sem stendur í íslensku fréttinni.  Til að sjá "alvöru" útgáfu af umræddri frétt vill Púkinn t.d. vísa áhugasömum hingað.


mbl.is Telja orkuuppsprettu norðurljósanna fundna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byssur og eldflaugar - úr Lego

Púkinn er sjálfsagt ekki einn um að brosa þegar hann sér frétt um "forboðin" LEGO leikföng, enda voru LEGO kubbarnir óhemju vinsælir fyrir 30 árum síðan og eitthvað rámar Púkann nú í að hafa búið til valslöngvur og annað í svipuðum dúr.

Ef Forbidden Lego bókin hefði verið á boðstólum á þeim tíma, þá hefði hún sjálfsagt endað ofarlega á jólagjafaóskalistanum.

Það er reyndar ótrúlegt hvað LEGO kubbarnir hafa verið vinsælir í gegnum tíðina, en þeir voru fyrst hannaðir 1949 og komu fram í sinni núverandi mynd 1963.  Gífurlegur fjöldi af þessum kubbum hefur verið framleiddur í gegnum árin -  það hefur verið reiknað út að framleiðslan jafngildi 62 kubbum á hvern einasta jarðarbúa.  Þótt einhverjir þeirra kubba safni sjálfsagt ryki í dag eru milljónir og aftur milljónir þeirra festir saman og losaðir í sundur á hverjum degi út um allan heim, enda eru þetta góð leikföng - veita mörgum ánægju og styðja við sköpunargleðina - jafnvel þó það sé hægt að búa til byssur og önnur vopn úr þeim.


mbl.is Kennt að smíða byssur úr Lego-kubbum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jack Nicholson og hinir hundarnir

Jack Nicholson segir karlmenn líkjast hundum.  Nú á Púkinn hund, en sá er tæplega fjögurra ára, sem í hundaárum mælt mun víst jafngilda "twenty-something" karlmanni. 

Þótt sá hundur hafi aldrei komist í náin kynni við tík, þá er áhuginn fyrir hendi.  Ef hann sér tík á götu gerir hann allt hvað hann getur til að vekja athygli hannar og áhuga á nánara sambandi og ljóst er að þá stundina er aðeins eitt sem kemst að í hans litla hundsheila.

Þetta er ef til vill ekki svo ólíkt sumum "twenty-something" karlmönnum sem Púkinn hefur þekkt í gegnum tíðina og vel má vera að Jack Nicolson myndi sóma sér vel í þessum hópi.

Af þessu tilefni finnst Púkanum við hæfi að birta mynd af "hundaleikfangi" sem er til sölu á Netinu, en það er fáanlegt í tveimur stærðum, fyrir litla og stóra hunda.

Það ætti kannski að senda Jack Nicolson eitt svona leikfang, ásamt aukabúnaðinum - tíkarlykt á brúsa?


mbl.is Líkjast hundum meira en konum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk fyndni 2008 - frumvarp til fjárlaga

Það er ýmislegt í fjarlagafrumvarpinu sem ekki er hægt annað en að brosa að, en það er jafnvel fleira sem flestir hrista væntanlega hausinn yfir og velta fyrir sér geðheilsu ráðamanna þjóðarinnar.

Margir bestu brandararnir eru í því sem nefnist "Sundurliðun óskiptra liða í A-hluta".

Til dæmis eru veittar 1.500.000 vegna "árs kartöflunnar", en til samanburðar  fær Daufblindrafélagið 1.200.000.

Það eru veittar 10.000.000 vegna niðurrifs frystihúss í Flatey, en það er sama upphæð og samanlagðar fjárveitingar til Félags áhugafólks um Downs-heilkenni, Barnaheilla, Félags einstæðra foreldra, Félags heyrnarlausra, Samhygðar og Samtaka áhugafólks um spilafíkn.

Púkinn vill að gefnu tilefni taka fram að hann hefur ekkert á móti selum, en honum finnst athyglivert að Selasetur Íslands og selaskoðunarstaður á Illugastöðum á Vatnsnesi fá samanlagt 20.000.000 - en það er fjórfalt meira heldur en veitt er til Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.

Já, það er nú aldeilis gott að forgangsröðunin er á hreinu þegar það kemur að því að úthluta peningum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Áhugasamir geta lesið meira hér


Gyllti áttavitinn - hættulegur börnum?

golden_compassVera má að ein ástæða þess að Gyllti áttavitinn skilaði minni peningum í kassann um síðustu helgi en vonir stóðu til sé að ýmsir "kristnir" hópar hafa staðið fyrir aðgerðum til að hvetja fólk til að sniðganga myndina og meðlimir þeirra keppast nú við að senda hver öðrum tölvupósta um þessa voðalegu mynd.

Boðskapur myndarinnar er stórhættulegur að sumra mati - eitt þemað í henni er nefnilega um sjálfstæða, gagnrýna hugsun, í stað þess að trúa bara í blindni því sem trúarleg yfirvöld boða.

Að vísu virðist sem þessir gagnrýnendur hafi hvorki horft á myndina, né lesið bókina, því tölvupóstarnir eru uppfullir af beinum rangfærslum, en það kemur Púkanum svosem ekkert á óvart. 

Trúleysingjar eru margir hverjir ekkert sérstaklega ánægðir með myndina heldur, því þessi boðskapur hennar hefur verið útvatnaður verulega í myndinni - það er miklu betra að lesa bara bækurnar beint.  Það er hins vegar einmitt það sem sumir fyrrnefndir aðilar eru hræddir um - þeir líta sumir hverjir svo á að höfundur bókanna,Philip Pullman, sé einn af þremur hættulegustu mönnum samtímans, ásamt Richard Dawkins og Sam Harris.

Púkinn hins vegar glottir.  Þetta upphlaup verður bara til þess að vekja meiri athygli á myndinni. 


mbl.is Vonbrigði með aðsókn á Gyllta áttavitann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill er máttur trúarinnar....eða þannig

manwithoutfaceÞegar Jose Mestre var á unglingsaldri fékk hann æxli á neðri vör.  Það hefði verið tiltölulega auðvelt að fjarlægja það með einfaldri skurðaðgerð, en trúin kom í veg fyrir það - slíkt kom ekki til greina að mati móður hans, sem ól hann upp samkvæmt ströngustu túlkunum Votta Jehóva, því skurðaðgerð hefði hugsanlega krafist blóðgjafar.

Nú, 40 árum síðar er andlitið á Jose orðið eins og hægri myndin sýnir og enn hafnar hann hefðbundinni skurðagerð af trúarlegum ástæðum.

Já, mikill er máttur trúarinnar - að einhver skuli hennar vegna frekar kjósa að eyða lífinu á þennan hátt, afmyndaður, atvinnulaus, konulaus og vinafár, frekar en að þiggja einfalda læknisaðgerð sem hefði lagað vandamálið.  Jafnvel þrýstingur frá systkinum hans hefur ekki dugað, en þau hafa flúið söfnuðinn.

Ástand Jose gæti þó lagast á næstunni, því læknir í Bretlandi hefur boðist til að beita aðferð sem felur í sér notkun á hátíðnihljóðbylgjum til að koma í veg fyrir blæðingar, þannig að blóðgjöf yrði ekki nauðsynleg.

Sjá nánar hér.


Útlendingar á Íslandi

Margir Íslendingar virðast trúa því að þeir séu lausir við fordóma gegn útlendingum, en sé skyggnst aðeins undir yfirborðið verður stundum annað uppi á teningnum.

Það er nefnilega auðvelt að sýna enga fordóma, þegar engir minnihlutahópar eru til staðar í samfélaginu sem fordómarnir geta bitnað á.

Staðan er hins vegar að breytast.  Í sumum sveitarfélögum hafa til dæmis sest að hópar fólks frá ákveðnum löndum og vandamál og fordómar hafa sprottið upp í kjölfarið - fordómar sem bitna jafnvel á fólki frá sömu löndum sem höfðu áður búið þar án árekstra og vandræða árum saman.

Besta dæmið um þetta eru væntanlega Pólverjarnir í Reykjanesbæ.   Þar hafa árum saman búið nokkrar pólskar fjölskyldur í sátt og samlyndi við nágranna sína frá Íslandi eða öðrum löndum.

Svo gerist það að þangað flytja nokkur hundruð Pólverjar - nánast allt einhleypir ungir karlmenn, og margir með einhvern sakaferil í heimalandinu.  Í kjölfarið verður allt vitlaust - slagsmál á skemmtistöðum og blásaklausir Pólverjar eru litnir hornauga af sumum Íslendingum.

Það að skella nokkur hundruð einhleypum, ungum karlmönnum inn í bæjarfélag þar sem þeir eiga ekki rætur er nokkuð líklegt til að valda vandræðum af einu eða öðru tagi, en málið er hins vegar það að það skiptir engu hvaðan mennirnir eru - þetta hefðu allt eins getað verið Íslendingar - það urðu nú oft slagsmál milli heimamanna og aðkomumanna á sumum sveitaböllum hér áður fyrr og þar var nú bara um Íslendinga að ræða.

Þegar aðkomumennirnir eru útlendingar, þá spretta hins vegar upp fordómar gagnvart öllum öðrum af sama þjóðerni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband