Fimmtudagur, 6. desember 2007
Ofsaakstur - hvað þarf að drepa marga?
Það að aka á 212 km/klst er nokkuð sem allir ættu að geta samþykkt að sé ofsaakstur, en því miður heyrist allt of oft að ökumaðurinn hafi áður verið tekinn fyrir slíkt athæfi, eða jafnvel sviptur ökuréttindum ævilangt (þótt svo hafi að vísu ekki verið í þessu tiltekna tilviki).
Púkanum finnst nóg komið - það er greinilegt að núverandi úrræði eru ekki að virka. Á meðan sitja hæstvirtir alþingismenn (og -konur) og gera ekki nokkurn skapaðan hlut í þessu máli - finnst það greinilega mikilvægara að ræða hluti eins og bleik eða blá föt fyrir ungabörn.
Hvað þarf að gerast til að ráðamenn þjóðarinnar taki við sér? Er verið að bíða eftir að einhver ökuníðingurinn keyri þeirra eigin börn (eða barnabörn) niður?
Nei, Púkanum finnst nauðsynlegt að gripið sé til aðgerða til að draga úr þessari plágu sem ofsaakstur er (svo ekki sé nú minnst á akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna). Þær aðgerðir þurfa að vera í formi lagasetningar frá Alþingi.
Púkinn hefur áður lýst sinni tillögu, en vill nú ítreka hana:
Sé réttindalaus einstaklingur tekinn við akstur skal ökutækið gert upptækt og selt á uppboði.
Sé einstaklingur sviptur ökuréttindum ævilangt vegna ofsaaksturs eða aksturs undir áhrifum skal ökutækið gert upptækt og selt á uppboði.
Sé einstaklingur sviptur ökuréttindum tímabundið, sem áður hefur hlotið tímabundna sviptingu skal ökutækið gert upptækt og selt á uppboði.
Sé einstaklingur sviptur ökuréttundum tímabundið í fyrsta sinn, skal ökutækið kyrrsett meðan sviptingin er í gildi. Sé kyrrsett ökutæki notað við akstur skal það get upptækt og selt á uppboði.
(að vísu verður að hafa undanþágu í þeim tilvikum sem um stolið ökutæki er að ræða)
Já, þetta eru harkalegar reglur. Já, þær munu bitna illa á fólki sem þarf að halda áfram að borga af bílalánunum sínum, þrátt fyrir að bílarnir hafi verið gerðir upptækir. Já, þetta mun bitna illá á þeim sem sýna þann dómgreindarbrest að lána vanhæfum ökumönnum bíla. Æ.Æ - Púkinn vorkennir ekki viðkomandi - það verður að kenna fólki að taka afleiðingum gerða sinna.
Þessar aðgerðir geta hins vegar ekki gert annað en að auka umferðaröryggið.
Það er hins vegar einn galli við hertar aðgerðir - líkurnar á að ökumenn reyni að stinga lögregluna af (með tilheyrandi ofsaakstri) gætu aukist. Spurningin er hins vegar hvort það sé réttlætanlegt ef unnt er að koma ökumönnunum úr umferðinni.
Finnist mönnum upptaka ökutækis of harkaleg, þá mætti beita kyrrsetningu ökutækis í ofangreindum tilvikum - taka lyklana tímabundið.
![]() |
Sautján ára á 212 kílómetra hraða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 5. desember 2007
Hundheiðin jól
Er einhver mótsögn í því að trúleysingjar haldi upp á jól - þetta er jú "Fæðingarhátíð frelsarans", eða hvað?
Ekki að mati Púkans (sem mun víst flokkast sem róttækur trúleysingi), enda er ákaflega lítið kristilegt við jólin, eins og þau eru haldin hér á Íslandi.
Skoðum aðeins nokkur mest áberandi einkenni jólahátíðarinnar.
Tímasetningin. 25 desember er ekki nefndur sem fæðingardagur Jesú fyrr en í ritinu Chronographiai, sem Sextus Julius Africanus skrifaði um 221. Jafndægur á vori var talinn sköpunardagur Adams, og því hlaut það að vera getnaðardagur Jesú líka (samkvæmt 3. aldar guðfræði) og fæðingardagur hans því 9 mánuðum síðar. Það skipti hins vegar líka máli að heiðin vetrarsólstöðuhátíð var haldin um svipað leyti og með því að velja þennan dag gat kirkjan yfirtekið þá hátíð án mikillar andspyrnu. Staðreyndin er hins vegar sú að hafi umræddur Jesús yfirhöfuð verið til, eru líkurnar á því að hann hafi raunverulega fæðst 25. desember ekki miklar.
Nafnið. Eins og tímasetningin, þá er nafnið "jól" ættað aftur úr heiðni, hugsanlega skylt orðunum "Ýlir" eða "Jólnir" en þó er það allt óvíst. Við erum ekki að burðast með orð eins og "Kristsmessa" eða neitt þvílíkt - nei - bara gott og gilt heiðið nafn. Púkinn sér ekkert athugavert við það.
Jólamatur. Það eru litlar heimildir til um hvernig heiðnir menn héldu jólafagnaði, en mikill og góður matur er nefndur á nokkrum stöðum. Það tíðkaðist til dæmis að fórna svíni í nafni Freys. Púkinn sér því ekkert athugavert við að fá sér Hamborgarhrygg á jólunum - það eru bara leifar af gömlum og góðum heiðnum venjum.
Jólatré. Jólatréð í sinni núverandi mynd er væntanlega upprunnið í Þýskalandi á 16. öld, en í raun er ekkert sérlega "kristilegt" við tréð sem slíkt. Það væri þá helst sá siður sumra að setja stjörnu á toppinn, því geta trúleysingjar auðveldlega sleppt án vandræða.
Mistilteinn. Hann tíðkast sem hluti jólaskreytinga í nálægum löndum en fáar plöntur voru jafn merkilegar í heiðnum sið.
Jólagjafir og jólaverslun. Jólin eru hápunktur efnishyggjunnar, þegar fólk eyðir peningum sem það á ekki í gjafir handa fólki sem hefur ekki þörf fyrir þær. Gjafir sem slíkar eru að sjálfsögðu mun eldri siður en kristnin og ekki veit Púkinn til þess að nokkur telji óbeislaða efnishyggju sérstaklega "kristilega".
"Hátíð ljóss og friðar". Hugmyndin um "hátíð ljóssins" er hluti hinnar upphaflegu vetrarsólstöðuhátíðar - haldin í dimmasta skammdeginu áður dagana tekur að lengja að nýju - ekkert kristilegt við það eða við ljósaskreytingar í einni mynd eða annarri. Hvað friðinn varðar, þá hafa kristnir menn nú ekki einkarétt á honum - hafa ekki "kristnar" þjóðir háð fleiri og blóðugri stríð en flestir aðrir?
Íslensku jólasveinarnir. Það má túlka jólasveinana 13 á ýmsa vegu, til dæmis sem fulltrúa ýmis konar perragangs, en kristilegir eru þeir ekki. Engin vandamál hér fyrir trúleysingjana heldur.
Hvað er þá eftir?
Niðurstaða Púkans einfaldlega sú að eins og jólahefðin er, þá er ekkert kristilegt við hana - ekkert sem skapar mótsögn fyrir sannfærða trúleysingja.
Púkinn mun því óska öllum gleðilegra hundheiðinna jóla.
Þriðjudagur, 4. desember 2007
Veggjakrotsræflarnir
Það dylst engum að það hefur orðið sprenging í veggjakroti í Reykjavík á undanförnum árum, en hvaða annarlegu hvatir reka þessi grey áfram til að sóða svona út umhverfi sitt?
Eru þetta bara ræflar sem ekkert eiga og aldrei munu eignast neitt og bera þess vegna enga virðingu fyrir eignum annarra?
Eru þetta strákar frá heimilum þar sem þeir fá ekki athygli og veggjakrotið ber því að skoðast sem eins konar neyðarkall eftir athygli? Það eru einstaka graffarar sem virðast hafa sæmilega listræna hæfileika, en meirihluti veggjakrotara eru ekkert annað en hæfileikalausir "taggarar" sem krota bara frasa eins og "AS", "WTC", "OHY3A" og annað í svipuðum dúr.
Eru þetta bara illa öguð grey, sem reyna að komast eins langt og þeir geta með að brjóta reglur sem þeim hafa í raun aldrei verið settar - er sökin foreldranna sem ekki hefur tekist að kenna börnunum muninn á réttu og röngu?
Gegnir þetta tjáningarform svipuðu hlutverki og sú hegðun hunda að míga utan í ljósastaura og önnur kennileiti? Halda greyin að þeir séu í einhverjum skilningi að merkja sér svæði?
Þegar um fullorðið fólk er að ræða, þá veltir Púkinn fyrir sér hvort um einhver geðræn vandamál sé að ræða, sem brjótast svona út í skemmdarfýsn.
Sennilega er um margar skýringar að ræða og mismundandi ástæður fyrir því að fólk leiðist út í svona, en eitt er ljóst - þessi grey þurfa aðstoð...nú og svo mætti alveg sekta foreldrana hressilega - sýna þeim fram á afleiðingar þess að klúðra uppeldinu á börnum sínum.
Púkinn tók um daginn eftir fullorðinni manneskju með stafræðan myndavél að taka myndir af nýlegu veggjakroti á vegg nálægt húsi sínu. Ef einhver getur vísað púkanum á þessar umræddu vefsíður þar sem graffarar birta myndir af "verkum" sínum myndi Púkinn vera þakklátur. Það væri þá e.t.v. möguleiki að kæra viðkomandi.
![]() |
Netvæðing veggjakrotsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Mánudagur, 3. desember 2007
Burt með vefauglýsingarnar!
Púkanum leiðist að fara á vefsíður sem eru allar útbíaðar í auglýsingum, en sem betur fer er til einföld lausn á því vandamáli.
Sú lausn felst í því að setja upp lítið forrit sem nefnist Adblock Plus. Þetta forrit er ókeypis og getur hreinsað burt mikið af þeim auglýsingum sem birtast á vefsíðum - en með því að "þjálfa" forritið aðeins má losna við nánast allar auglýsingar.
Þess ber að vísu að gæta að forritið virkar bara með Firefox og skyldum vöfrum, en þar sem Púkinn var hvort eð er löngu hættur að nota Internet Explorer af öryggisástæðum, þá var það bara hið besta mál.
Það eru til önnur svipuð forrit, en þetta hefur reynst Púkanum best.
Sem sagt - ef ykkur leiðast auglýsingar, setjið upp Firefox og Adblock Plus. Forritið má nálgast hér.
![]() |
Netið að verða þriðji stærsti auglýsingamiðillinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 30. nóvember 2007
Íslenska menntakerfið - það er vont, það er vont og það versnar
Púkinn er ekki hissa að heyra að að íslensk börn standi sig undir meðallagi í náttúrufræði og skyldum greinum.
Þetta er í raun ekki skrýtið, ef gæði námsefnisins og kennslunnar eru athuguð. Púkinn ætlar reyndar ekki að halda því fram að allt námsefni í grunnskólum landsins sé slæmt og vissulega finnast góðir kennarar inn á milli.
Vandamálið er bara að það er allt of mikið af arfaslökum kennurum að kenna illa samið og óvandað námsefni.
Það er nú kannski ekki skrýtið að illa gangi að fá hæft fólk í skólana - launin eru nú ekki beint neitt til að hrópa húrra fyrir og Púkinn skilur vel að kennarar með góða þekkingu í stærðfræði og náttúrufræði skuli ekki vilja vinna við kennslu, þegar þeir geta fengið tvöfalt eða þrefalt hærri laun annars staðar. Þetta er ekki eins mikið vandamál í greinum eins og íslensku, sögu og samfélagsfræði, þannig að betri líkur eru á að börnin fái viðunandi kennslu þar.
Viðunandi kennsla ætti hins vegar að vera reglan, ekki undantekning.
Ástandið er hins vegar ekki bara sök kennaranna.
Námsefni í stærðfræði í grunnskólum á Íslandi er til háborinnar skammar að mati Púkans. Það eru einstaka góðir hlutir inn á milli, eins og svonefnd "Ólympíustærðfræði", en svo eru hlutir og kennsluhættir eins og "uppgötvanastærðfræði", sem Púkinn getur ekki litið á öðru vísi en tilraun til skemmdarverka á stærðfræðigetu og stærðfræðiáhuga nemenda.
Annað dæmi um skammarlega óvandvirkni og metnaðarleysi í stærðfræði eru "gæði" samræmdu prófanna í þeirri grein, eins og Púkinn hefur sagt áður (sjá þessa grein). Af hverju eru stærðfræðiprófin svona miklu óvandaðri en íslenskuprófin?
Námsefnið í náttúrufræði er síðan kafli út af fyrir sig - allt of mikið af þurru og leiðinlegu staðreyndastagli og ekkert gert til að vekja raunverulega áhuga nemenda á faginu.
Það eru enn fleiri samverkandi þættir.
Lestrargetu bana hefur farið verulega aftur frá því sem var fyrir nokkrum áratugum. Ástæður þess eru margvíslegar, en efst á blaði er að sjálfsögðu minni lestur - minni æfing. Ef ekki væri fyrir Harry Potter og nokkrar aðrar bækur er hætt við að mörg íslensk börn myndu hreinlega ekkert lesa ótilneydd. Minni lestrargeta þýðir meðal annars að erfiðara er að tileinka sér námsefni á rituðu formi.
Aðstoð foreldra er enn einn þátturinn - Púkinn efast um að allir foreldrar í dag telji sig hafa tíma eða getu til að fara yfir námsefnið með börnum sínum, heldur varpi margir allri ábyrgðinni yfir á skólana og verða svo undrandi þegar börnin standa sig illa.
Niðurstaða Púkans er sú að hann hefur verulegar áhyggjur af þeirri kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi - skólakerfið er ekki að undirbúa þessi börn fyrir 21 öldina.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Fimmtudagur, 29. nóvember 2007
Elsta atvinnugreinin
Púkinn ætlaði nú upphaflega ekki að skrifa neitt um þessa vændiskonu í Chile sem seldi 27 tíma "þjónustu" til styrktar góðgerðarmálum, en hér kemur nú samt mynd af viðkomandi auk hlekks á viðtal við hana.
Líf hennar hefur ekki verið eintómur dans á rósum samkvæmt því sem þar segir.
Góðgerðarstofnunin sem upphaflega átti að fá peningana mun hins vegar hafa hafnað þeim, samkvæmt þessari grein.
Meira hefur Púkinn ekki að segja um þetta mál.
![]() |
Kynlíf í góðgerðarskyni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 27. nóvember 2007
Mætið í vinnu í nærfötunum!
Fyrirtæki nokkurt í Taizhong í Taiwan mæltist til þess að hinir 500 kvenkyns starfsmenn þess mættu til vinnu í nærfötunum einum þann 21 nóvember til að halda upp á metsölu (og að sjálfsögðu til að vekja athygli á fyrirtækinu).
Að sögn urðu um 90% þeirra við þessum tilmælum.
Púkinn veltir nú aðeins fyrir sér hver viðbrögðin yrðu ef svipuð tilmæli kæmu frá stjórnendum íslensks fyrirtækis.
Það skal að vísu tekið fram að framleiðsluvörur fyrirtækisins eru, jú...nærföt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 27. nóvember 2007
Besta kjöt í heimi?
Nú hefur frést að til standi að bjóða Íslendingum upp á svokallað Kobe nautakjöt. Það er að vísu ekki gefins, en talað er um 16.000 kr/kg.
En hvað er svona merkilegt við þetta kjöt?
Jú, það er af mörgum talið besta nautakjöt í heimi, en það er upphaflega frá sérstökum nautgripastofni í Japan, sem hefur verið ræktaður í gegnum aldirnar til að ná fram ákveðnum eiginleikum.
Kjötið er mjög fitusprengt, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, en þar að auki er nautgripunum haldið innandyra í Japan og þeim gefinn bjór. Sums staðar tíðkast það líka að nudda gripina, láta þá hanga í eins konar hengirúmum, þannig að þeir þurfi ekki að stíga í fæturna, eða jafnvel að spila fyrir þá klassíska tónlist.
Þetta er auðvitað mjög streitulítil tilvera sem hefur þau áhrif að kjötið inniheldur mikið af omega-3 og omega-6 fitusýrum, auk þess sem hlutfall einómettaðrar fitu er mun hærra en venjulega gerist.
Þar að auki er þetta einfaldlega gott. Púkinn fékk bita af þessu fyrir um 15 árum síðan og hefur dásamað þetta alla tíð síðan, sem það besta kjöt sem hann hefur fengið - það bráðnaði hreinlega í munninum.
Er kílóið 16.000 króna virði? Dæmi hver fyrir sig.
Þriðjudagur, 27. nóvember 2007
Af hverju ekki samræmd próf?
Af hverju er svo mörgum kennurum illa við samræmdu prófin? Er hin raunverulega ástæða sú að þeir eru hræddir við að foreldrar beri saman meðaleinkunnir í skólum landsins?
Púkinn er ekki alveg sáttur við samræmdu prófin, enda eru mörg þeirra illa samin og innihalda slæmar villur. Þau gegna hins vegar ákveðnu hlutverki, sérstaklega fyrir nemendur sem hyggja á hefðbundið bóknám í menntaskólum landsins, því þau leyfa þeim skólum að velja inn nemendur á sanngjarnan hátt.
Ef samræmd próf í 10. bekk eru lögð niður, mun það þá ekki þýða að skólarnir verða annað hvort að taka upp inntökupróf eða aka bara mark á skólaeinkunnum, sem eru sennilega ekki fyllilega sambærilegar milli skóla. Er það eitthvað betra?
Samræmdu prófin í 4. og 7. bekk eru einnig nytsamleg fyrir foreldra - leyfa þeim að sjá hvar börnin standa miðað við jafnaldra þeirra á landsvísu - nokkuð sem skólaeinkunnir og umsagnir kennara gera ekki. Af hverju á að taka þessar upplýsingar frá foreldrum?
Foreldrar sem hafa metnað varðandi menntun barna sinna geta í dag valið sér búsetu í nánd við þá skóla sem koma einna best út í samræmdu prófunum - ekki svo að skilja að þær einkunnir segi neitt um gæði kennslunnar við viðkomandi skóla, en þær segja hugsanlega eitthvað um bakgrunn þeirra barna sem stunda nám þar. Þetta verður erfiðara ef samræmdu prófin verða lögð af.
Nei, samræmdu prófin eru ekki fullkomin, en það leysir engin vandamál að henda þeim burt - það er margt að íslenska skólakerfinu og þessi aðgerð gerir ekkert til að bæta það.
![]() |
Samræmd próf aflögð og kennaranám lengt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 26. nóvember 2007
Nýtt útlit mbl.is og blog.is
Það má vel vera að Púkinn sé bara íhaldssamur í eðli sínu, en hann er ekki alls kostar sáttur við nýja útlitið á mbl.is og blog.is. Það er reyndar ekki auðvelt að skilgreina nákvæmlega í hverju sú óánægja felst - kannski sá Púkinn bara enga þörf fyrir breytingar breytinganna vegna.
Það er hinsvegar ergilegra að sumir hlutir virka bara hreinlega ekki. Nú er búið að bæta við nokkrum nýjum bloggflokkum, eins og "Menntun og skóli", "Spaugilegt" og "Viðskipti og fjármál".
Gott mál, en sé einhver af þessum flokkum valinn af forsíðunni birtist
Internal Server Error
The server encountered an internal error or misconfiguration and was unable to complete your request.Please contact the server administrator, webmaster@mbl.is and inform them of the time the error occurred, and anything you might have done that may have caused the error.
More information about this error may be available in the server error log.
Sömuleiðis, ef Púkinn skrifar nýja grein, þá standa þessir nýju flokkar ekki til boða í flokkalistanum. Var einhver að flýta sér aðeins of mikið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)