Sunnudagur, 25. nóvember 2007
Dópistar, drykkjurútar....og sjúklingar undir stýri
Það er að sjálfsögðu alvarlegt mál að hætta á umferðarslysum vegna sjúkdóma eða neyslu lyfja þeim tengdum sé sambærileg hættunni sem hlýst af ölvun eða neyslu fíkniefna.
Það er hins vegar ekki einfalt að bregðast við þessu. Sagt er að stærsti staki flokkurinn sé þegar fólk með hjartasjúkdóm fær slag undir stýri, en hvað er hægt að gera í því? Hópur þeirra sem er í áhættuhópi vegna hjartasjúkdóma er mjög stór - á að banna þeim öllum að keyra?
Margir aðrir gera sér ekki grein fyrir því að þeir séu í áhættuhópi - á að skikka fólk í læknisskoðanir á 5 ára fresti og láta menn framvísa vottorði til að fá ökuskírteinin sín endurnýjuð? Hefði það verið gert á því tímabili sem hér er rætt um, þá hefði ef til vill mátt koma í veg fyrir hluta dauðsfallanna með því að svipta viðkomandi ökuleyfi, en hætt er við því að hundruð eða jafnvel þúsundir annarra hefðu verið metnir í jafn mikilli áhættu og hefðu líka verið sviptir ökuleyfi. Er það ásættanlegt?
Púkinn er ekki viss, en honum finnst hins vegar ástæða til að taka mun harðar á akstri undir áhrifum áfengis eða fíkniefna en nú er gert. Tillaga Púkans er einföld:
Sé einstaklingur sviptur ökuleyfi vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, skal ökutækið kyrrsett þann tíma sem sviptingin varir. Sé sviptingin ævilöng, eða sé viðkomandi ökumaður réttindalaus, skal ökutækið gert upptækt.
Það þarf að vísu að hafa undantekningarklausu fyrir þau tilvik þegar ökutækinu er stolið, eða það fengið að láni til reynsluaksturs á bílasölu. Það er bara verst að á Alþingi virðist lítill vilji eða áhugi á að gera nokkuð í þessu máli.
![]() |
13 dauðaslys í umferðinni rakin til veikinda ökumanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 24. nóvember 2007
Ekki-femínísk fréttastofa
Í tilefni af opnun femínísku fréttastofunnar, sem Sóley Tómasdóttir segir frá hér, þá fannst Púkanum við hæfi að minnast á nokkrar aðrar fréttastofur sem verða seint sakaðar um femínisma.
Efst á blaði er að sjálfsögðu þessi hér, sem hefur sent út frá Toronto frá árinu 2000.
Nú, ef fólki hugnast hvorki femíníska fréttastofan né sú ofanfarandi, þá mætti e.t.v. reyna þessa hér.
Ef engin af ofanfarandi fréttastofum höfðar til ykkar, þá er alltaf hægt að fara bara hingað og skoða lista yfir þær sjónvarpsútsendingar sem eru aðgengilegar á netinu - allt frá barnaefni til íranska ríkissjónvarpsins.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 24. nóvember 2007
Ungfrú Jarðsprengja 2008
Það eru sumar fréttir sem fá Púkann til að staldra aðeins við og hugsa - hér er ein þeirra.
Á næstunni verður haldin fegurðarsamkeppni kvenna sem hafa misst einn eða fleiri útlimi eftir að hafa stigið á jarðsprengju.
Undankeppninni er nú lokið og hafa verið valdir keppendur í lokakeppnina sem fer fram í Luanda, Angola í apríl á næsta ári.
Markmið keppninnar er að vekja athygli á að jarðsprengjur eru enn vandamál í mörgum löndum, jafnvel árum eða áratugum eftir að stríðsátökum þar lauk.
Það er líka annað markmið, sem kemur fram í slagorði keppninnar "Everybody has the right to be beautiful" - það er ekki nauðsynlegt að uppfylla hina stöðluðu ímynd.
Heimasíða keppninnar er hér.
Púkinn getur ekki að því gert að hann veltir ósjálfrátt fyrir sér hvaða skoðanir femínistar hafa á þessari keppni.
Föstudagur, 23. nóvember 2007
Má bjóða þér hnetusteik, væni?
Það hefur nú heyrst áður að rautt kjöt sé ekki heilsusamlegt, en hingað til hafa yfirlýsingar um að það sé beinlínis krabbameinsvaldandi fyrst og fremst verið takmarkaðar við reykt kjöt, en sumir hafa sagt tengsl milli neyslu þess og blöðruhálskrabbameins.
Púkinn veltir því fyrir sér hvort fréttir eins og þessi verði til þess að fleiri gerist jurtaætur, eða hvort fiskneysla muni aukast, en komst svo að þeirri niðurstöðu að flestir munu bara yppa öxlum og halda áfram að borða sínar svínakótelettur, nautalundir og lambalæri.
Púkinn prófaði reyndar eitt sinn sjálfur að gerast jurtaæta, en sú tilraun stóð yfir tíu ár - þá var nóg komið af eplum og baunabuffum.
Það er hins vegar allt annað mál að Íslendingar (og sér í lagi börn) borða allt of lítið af grænmeti og mætti alveg reyna að auka það. Það myndi ekki gera neinn skaða - nú nema fólk fái ofsafengin ofnæmisviðbrögð við hnetunum...nú eða gulrótum.
![]() |
Bannfæra allt rautt kjöt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 22. nóvember 2007
Tónlist meðalmennskunnar - 500 bestu lög allra tíma
Púkinn hefur fengið að heyra það oftar en einu sinni að hann hafi hræðilega "mainstream" tónlistarsmekk og enn ein staðfesting fæst á þessu þegar listi Rolling Stone tímaritsins yfir 500 bestu lög allra tíma er skoðaður (sjá þennan hlekk).
Púkinn er nefnilega alveg virkilega sáttur við þann lista og finnur á honum mörg af sínum uppáhaldlögum.
Við athugun á listanum kom meira að segja í ljós að af 100 efstu lögunum á listanum var Púkinn með 72 inni á tölvunni hjá sér, en þangað er nú allt geisladiskasafnið komið.
Fyrir þá sem ekki nenna að fylgja hlekknum hér að ofan, þá er topp-10 listi Rolling Stone svona:
1. Like a Rolling Stone, Bob Dylan
2. Satisfaction, The Rolling Stones
3. Imagine, John Lennon
4. What's Going On, Marvin Gaye
5. Respect, Aretha Franklin
6. Good Vibrations, The Beach Boys
7. Johnny B. Goode, Chuck Berry
8. Hey Jude, The Beatles
9. Smells Like Teen Spirit, Nirvana
10. What'd I Say, Ray Charles
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 22. nóvember 2007
Taser drepur trúð
Trúðurinn "Klutzo" er látinn, eftir að hafa verið skotinn með Taser rafstuðbyssu - enn eitt fórnarlamb þessarar tækni, sem sumir vilja innleiða hér á Íslandi.
Klutzo þessi kom fram sem "kristilegur trúður". Á vefsíðu hans mátti lesa að Klutzo og kona hans
...are available for vacation Bible schools, childrens crusades, Sunday school, childrens church, church parties and special occasions. Programs and emphasis can be customized to fit your needs and purpose.
Bible stories, object lessons, gospel magic, skits, gospel balloon illustrations, bible games, and more can be used to present the gospel of Jesus Christ to your children.
In addition, these same techniques can be used to illustrate moral truths and life skills.
Hin opinbera dánarorsök Klutzo er að vísu hjartaáfall, en lögreglumennirnir sem skutu hann tóku eftir því þegar þeir reistu hann við að allur litur hvarf úr andliti hans og hann átti erfitt um andardrátt. Hann var fluttur á sjúkrahús en úrskurðaður látinn skömmu síðar.
Púkann langar hins vegar til að bæta tvennu við þessa frétt.
- Taser byssurnar eru nú boðnar almenningi til sölu í flestum ríkjum Bandaríkjanna. Pöntunarsíðan er hér. Það verður væntanlega mikið stuð....eða þannig.
- Áður en einhverjir syrgja trúðinn of mikið, ber þess að gæta að hann var í haldi lögreglu eftir að hafa verið að skemmta á munaðarleysingjahæli á Filippseyjum. Hann virðist hins vegar aðallega hafa verið að skemmta sjálfum sér, miðað við það magn barnaklámmynda sem hafði tekið þar. Þar fóru þessi "moral truths" fyrir lítið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 21. nóvember 2007
MIlljarðamisferli eða eðlileg viðskipti?
Skoðanir fólks á því hvort eðlilega hafi verið að málum staðið að sölu íbúðanna á varnarsvæðinu eru nokkuð misjafnar, svo ekki sé meira sagt.
Sumir einblína á það hverjir koma að þessu máli - sjá samsæri og misferli í hverju horni en aðrir benda á að það megi ekki útiloka menn frá því að eiga viðskipti, þótt þeir séu tengdir tilteknum ráðamönnum.
Það er hins vegar ljóst að ef einhver ástæða er til að ætla að ásakanir um óeðlileg hagsmunatengsl gætu komið upp, þá verða menn að fara sérstaklega gætilega og gæta þess að allar staðreyndir séu uppi á borðinu frá upphafi.
Það virðist ekki hafa tekist í þessu tilviki.
Nú ætlar Púkinn ekki að leggja dóm á það hvort þau sérlög sem sett voru um skil á varnarsvæðinu stangist á við lög um sölu á eignum hins opinbera - slíkt er deiluefni fyrir lögfræðinga og Púkinn er ekki í þeim hópi. Púkinn er hins vegar þeirrar skoðunar að sé um árekstur að ræða, þá hefðu menn átt að benda á hann fyrr, en ekki rúmum mánuði eftir að Klasi, Glitnir, Þrek, Teigur og Sparisjóðurinn í Keflavík kaupa eignirnar.
Það er einnig deilt um hvort verðið sem greitt var, um 9 milljónir á íbúð, sé eðlilegt. Það er að sjálfsögðu ljóst að það kaupir enginn 1660 íbúðir á markaðsverði - kaupandinn ber jú umtalsverðan fjármagnskostnað, auk þess sem hann ber áhættuna af því að geta ekki selt íbúðirnar aftur þegar að því kemur. Miðað við markaðsverð svipaðra eigna í Keflavík má segja að kaupendur hafi fengið 40-50% afslátt frá markaðsverði. Er það eðlilegt? Púkinn er ekki viss, en vill gagnrýna að ekki skuli hafa verið fenginn óháður utanaðkomandi aðili til að meta það á þann hátt að upphæðin væri hafin yfir alla gagnrýni. Slíkt er einmitt sérstaklega mikilvægt í tilvikum eins og þessum þegar hætta er á ásökunum um misferli vegna tengsla.
Annað sem ergir suma er að ekki kemur fram opinberlega hverjir standa í raun á bak við þessi viðskipti. Eftir að upplýst var að Klasi væri í eigu bróður fjármálaráðherra vaknar spurningin um hverjir eigi Þrek og Teig. Það myndi eyða hluta tortryggninnar ef þær upplýsingar lægju á borðinu.
Það sem er ef til vill það mikilvægasta í þessu máli er að ef menn hafa í raun ekkert að fela, þá verða þeir að gæta þess að hlutirnir líti ekki út eins og eitt stórt samsæri.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 20. nóvember 2007
Hommahatur og kristinfræði
Hafa "samkynhneigðir" veiðileyfi á börnin okkar?
Svona var fyrirsögn greinar í Morgunblaðinu nýlega, en höfundi þeirrar greinar virðist sérlega uppsigað við að minnst sé á samkynhneigð í unglingadeildum grunnskóla.
Púkinn á reyndar svolítið bágt með að skilja þá mannfyrirlitningu sem kemur fram í umræddri grein í frösum eins og "svokallaðri mannréttindabaráttu", "guðleysi", já, og svo að sjálfsögðu tilvísunum í Biblíuna.
Það sem Púkinn vildi hins vegar gera að umræðuefni var hins vegar eftirfarandi kafli úr greininni.
"Samkynhneigðir" virðast hafa nánari aðgang að börnum okkar á viðkvæmu aldursskeiði heldur en við höfum gert okkur grein fyrir og það í menntastofnunum sem við treystum fyrir börnum okkar. Hvernig geta 13 ára börn ákveðið að þau séu "samkynhneigð" ... Við sem eigum börn og barnabörn þekkjum vel hversu viðkvæmt tilfinningalíf unglinga er og hve áhrifagjörn þau eru.
Látum um stund liggja milli hluta þá afstöðu greinarhöfundar að samkynhneigð sé einhver ákvörðun viðkomandi, frekar en það sem er almennt viðurkennt - að um flókið samspil erfða, hormóna á meðgöngu, heilastarfsemi og umhverfisþátta sé að ræða. Í dag er frekar litið á það að vera samkynhneigður eins og að vera örvhentur - meðlimur minnihlutahóps sem fólk lendir ekki í samkvæmt eigin ákvörðun, en fólk getur hins vegar valið hvort það hegðar sér í samræmi við sínar hneigðir eða ekki.
Nei, það sem Púkinn vill gera athugasemd við eru þau ummæli að 13 ára börn séu áhrifagjörn og ófær um að taka ákvarðanir sem teljast mikilvægar. Greinarhöfundur virðist hins vegar ekkert sjá athugavert við að þessum sömu 13 ára börnum sé ýtt í kristinfræðikennslu og til að "staðfesta" þá ákvörðun að þau séu "kristin" með fermingu. Fræðslan um samkynhneigð er ef til vill ekki nema einn tími eða tveir, en kristinfræðin er reglulega á stundarskrá í nokkur ár. Það er verulegur munur á þessu. Ef greinarhöfundur telur sig hafa yfir einhverju að kvarta, hvað geta trúleysingjar (og aðrir sem ekki eru kristnir) þá sagt?
Umorðum aðeins ofanfarandi tilvitnun.
"Kristnir" virðast hafa nánari aðgang að börnum okkar á viðkvæmu aldursskeiði heldur en við höfum gert okkur grein fyrir og það í menntastofnunum sem við treystum fyrir börnum okkar. Hvernig geta 13 ára börn ákveðið að þau séu "kristin" ... Við sem eigum börn og barnabörn þekkjum vel hversu viðkvæmt tilfinningalíf unglinga er og hve áhrifagjörn þau eru.
Sömu frasar, bara skipt út nokkrum litlum orðum. Þessi ákveðna tegund innrætingar er hins vegar greinarhöfundi væntanlega þóknanleg og það kæmi Púkanum ekki á óvart þótt hann hafi verið framarlega í hópi þeirra sem fóru í hommahatursgönguna um daginn til að krefjast meiri kristinfræðslu í skólum - betri aðgangs að áhrifagjörnum ungmennum.
Púkinn hefur fengið sig fullsaddan af svona. Kristinfræði á ekkert erindi inn í skólana. Þeir foreldrar sem vilja endilega láta heilaþvo börn sín ættu að geta sent þau í einhverja sunnudagsskóla, nú eða þá bara sinnt fræðslunni sjálf. Það væri nær að bæta í námsskrána kennslu í gagnrýnni hugsun og svolítilli heimspeki - það myndi skila fleiri einstaklingum sem eru færir um að hugsa sjálfstætt, frekar en að lifa í blindni eftir árþúsunda gömlum boðum og bönnum sem eiga lítið sem ekkert erindi til nútímans.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
Mánudagur, 19. nóvember 2007
Istorrent þjófarnir stöðvaðir ... í bili
Eins og önnur fórnarlömb Istorrent þjófagengisins fagnar Púkinn því að þessi starfsemi skuli hafa verið stöðvuð.
Púkinn gerir sér hins vegar grein fyrir því að þessi stöðvun verður væntanlega ekki til frambúðar - það mun væntanlega verða komið í veg fyrir að sams konar starfsemi verði rekin áfram hér á Íslandi, en sennilegt er að hún muni þá bara flytjast úr landi - það er fjöldinn allur af sambærilegum stöðum erlendis þar sem þjófar geta skipst á efni.
Púkinn sagðist vera fórnarlamb þjófa en það mál er þannig vaxið að Púkinn er höfundur forrits sem nefnist "Púki". Þetta forrit er selt, en um tíma var því dreift í leyfisleysi gegnum istorrent, en fjöldi niðurhalaðra eintaka var á því tímabili mun meiri en fjöldi seldra eintaka.
Hinir raunverulegu glæpamenn í þessu dæmi eru að sjálfsögðu þeir sem dreifðu forritinu, ekki forsvarsmenn istorrent (sem Púkinn flokkar bara sem gráðuga siðleysingja), og því er frá sjónarhóli Púkans eðlilegt að eltast við þá, en ekki torrent.is.
Þessir aðilar hafa verið kærðir og takist að hafa upp á þeim mun Púkinn ekki hika við að draga þá niður í Héraðsdóm Reykjavíkur og leggja fram skaðabótakröfur upp á nokkrar milljónir.
![]() |
Lögbannskrafa tekin til greina og Torrent vefnum lokað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 17. nóvember 2007
Kann enginn að spara?
Það sló Púkann að í þessum útreikningum um hvað fólk þyrfti að hafa í mánaðartekjur til að hafa efni á íbúð er ekki gert ráð fyrir neinum sparnaði.
Engum virðist koma til hugar að fólk gæti hafa lagt til hliðar einhverjar krónur frá því að það byrjaði að vinna og þangað til að íbúðarkaupum kom, en þannig er raunveruleikinn í dag - allir kunna að eyða, en enginn kann að spara.
Það er að vísu hægt að fara út í öfgar með sparnað - Japanir spara það mikið að það stendur efnahagslífinu þar hreinlega fyrir þrifum, en Púkinn er nú á þeirri skoðun að það geti allir launamenn lagt til hliðar eitthvað ofurlítið af mánaðarkaupinu.
Sumir barma sér yfir því að eiga aldrei peninga aflögu, en ef málið er athugað koma oft í ljós ógáfulegir og ónauðsynlegir útgjaldaliðir, eins og reykingar eða lottómiðar. Síðan er líka sá ósiður margra Íslendinga að kaupa hluti á raðgreiðslum, í stað þess að spara fyrir þeim, safna vöxtunum og fá síðan staðgreiðsluafslátt þegar hluturinn er keyptur.
Nei, fólk hefði gott af að venja sig á að spara meira en það gerir. Kannski hefur sparnaður fengið á sig óorð vegna sögunnar, þegar sparnaður fólks brann upp á verðbólgubálinu og fólk varð að koma peningunum í lóg sem fyrst, en sú afsökun gildir ekki í dag.
![]() |
Launin 680.000 til íbúðarkaupa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |