"Öðruvísi" tölvur

Ertu þreyttur á tölvum sem allar líta eins út?  Viltu vera öðruvísi en aðrir?  Viltu að vinir og ættingjar segi "vá!" (eða flýti sér að loka þig inni á hæli)?

Ef þú svarar þessum spurningum játandi, þá gætu þessir tölvukassar verið fyrir þig.  

Annar gengur undir nafninu "Optimus Prime", en hinn er verk tréskurðarmeistara frá Úkraínu.  Púkinn ætlar annars bara að láta myndirnar tala sínu máli.

 


Lyklaborð fyrir þá sem búa í snjóhúsum?

warmkeyboardPúkinn viðurkennir alveg að hann er með svolitla tækjadellu, en stundum rekur hann augun í hluti sem eru þess eðlis að hann staldrar við.

Annaðhvort hefur einhver markaðsmaður rekið höfuðið illilega í, eða að í heiminum eru nægjanlega margir með tækjadellu á mun hærra stigi en Púkinn til að sumir hlutir geti borgað sig.

Sjáið til dæmis þetta lyklaborð hér.  Það lítur ósköp venjulega út, en er sérstakt fyrir þær sakir að það er með innbyggða hitara í  hnöppunum.  Já, það er hægt að skrifa á borðið og hlýja sér á fingurbroddunum samtímis.

Ef einhverjir íbúar snjóhúsa þurfa á þessu að halda, þá fæst þetta á amazon.com.


"Hey, we can speak Icelandic today"


Fyrirtæki Púkans er ekki stórt, en í því vinnur fólk úr fjölmörgum löndum.  Samskipti fólks innan fyrirtækisins verða að ganga hnökralaust og því er eina lausnin að nota ensku sem vinnumál fyrirtækisins.  Við skrifum á ensku - allar leiðbeiningar, ferillýsingar og nánast öll önnur skjöl, hvort sem þau eru til notkunar innandyra eða til dreifingar.  Stundum er þörf á íslenskum skjölum eða leiðbeiningum, en það er þá unnið eftirá - þýtt af enskunni.

Þeir innannúsfundir sem Púkinn tekur þátt í eru líka venjulega haldnir á ensku, þar sem venjulega er a.m.k. einn erlendur starfsmaður viðstaddur.  

Þessi staða er ekki komin upp vegna skipulagðrar enskuvæðingar - þetta er bara raunveruleikinn sem fyrirtæki búa við í dag - nokkuð sem Púkinn áttaði sig á nýlega þegar hann horfði yfir fundarsalinn og tók eftir að allir viðstaddir voru Íslendingar.

Titill greinarinnar verður þá vonandi auðskilinn.


mbl.is Vigdís ósátt við skilaboð um tvítyngi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

100.000 flettingar, takk, takk, takk ...

Teljarinn skreið í 100.000 í dag og Púkanum fannst því tímabært að þakka fyrir sig, en í leiðinni að velta fyrir sér hvers vegna nokkur nennir að lesa það sem svona lítið skrýtið blátt fyrirbæri hefur að segja um mannlífið.

Á þeim mánuðum sem eru liðnir frá því að Púkabloggið byrjaði eru greinarnar orðnar 348, en misgáfulegar eins og gengur og gerist.  Ef einhver myndi nenna að lesa í gegnum allar greinarnar myndi viðkomandi sjá að Púkinn skrifar sjaldan um persónuleg málefni, en flestum greinunum má skipta í nokkra hópa, sem er lýst að neðan, ásamt hlekkjum yfir á nokkrar valdar greinar.

Þar sem sá sem stendur á bak við Púkann er mikill áhugamaður um tölvur, tækni og önnur "nördaleg" efni ætti ekki að koma á óvart að allmargar greinar fjalla um þau mál.

Púkanum er uppsigað við vaxandi firringu í þjóðfélaginu, sem meðal annars kemur fram í gengdarlausu bruðli og virðingarleysi fyrir eigum og réttindum annarra.

Púkinn er ekki trúaður, en skrifar oft um trúmál, því meira því fjarstæðukenndari sem trúarskoðanirnar eru og því meiri mannfyrirlitningu sem þær lýsa á "öðrum".

Púkinn á fáa samkynhneigða kunningja, en nokkrar af greinunum fjalla um þeirra mál, eða frekar um þá fordóma sem þeir þurfa að fást við.

Þótt Púkinn sé ekki mjög pólitískur að eðlisfari  finnur hann sig stundum knúinn til að hnýta í heimskulegar ákvarðanir ráðamanna landsins.

Góð menntun er að mati Púkans mikilvægari en flest annað.

Það má í rauninni segja að rauði þráðurinn í gegnum greinar Púkans sé "blogg gegn heimsku", í hvaða mynd sem hún birtist.

Að lokum vill Púkinn aftur þakka þeim sem hafa haft þolinmæði til að lesa skrif hans á þessu ári.


"Brúðkaup aldarinnar" - hvað á að gefa fólki sem á allt?

jon_og_ingibjörgpgPúkinn er ekki á gestalistanum fyrir "brúðkaup aldarinnar", en hann leyfir sér samt að velta fyrir sér vandamálinu við að finna viðeigandi gjafir handa fólki sem á allt .. og á líka verslanir þar sem hægt er að kaupa nánast allt.

Púkinn og félagar hans ræddu þetta vandamál í gær og ýmsar hugmyndir komu fram - sumar raunhæfar, en aðrar litaðar svolítilli hæðni eða öfund.

Hvað um það - hér er topp-5 listinn

  1. Sérsmíðaður, gullhúðaður iPod, eða annað sambærilegt tæki (sjá mynd hér að neðan). 
  2. Segl fyrir lystisnekkju.  Þetta er ætlað til að bæta ímynd snekkjunnar og gera hana vistvæna. (sjá mynd hér að neðan)
  3. Gjafabréf í Nóatúni. ("Alveg öruggt að þetta eiga þau ekki")
  4. Fjarðarkaup. (Þ.e.a.s. að kaupa verslunina, setja bleikan borða utan um hana og gefa þeim hana)
  5. Láta gera brunn í Afríku, merkja hann hjónunum í bak og fyrir og gefa þeim bréf upp á að þessi tiltekni brunnur sé nú tileinkaður þeim.

Fleiri tillögur?

gold-ipod_48kite-sailing-kitano-yacht_48


Trúarviðhorfapróf á vefnum - í hvaða söfnuði áttu heima?

belief_o_maticErtu trúaður eða trúlaus - áttu samleið með einhverju sérstöku trúfélagi, eða eru einfaldlega óflokkanlegur og alltaf á rangri hillu í lífinu?

Púkinn rakst á lítið próf á vefnum, þar sem fólk er spurt spurninga varðandi trúarskoðanir og síðan sagt hversu mikla samleið það á með hinum ýmsu trúarsöfnuðum.  Þetta próf á að vísu ekki fullkomlega við hér á Íslandi, þar sem sumir söfnuðirnir eru ekki til hér, en látum það gott heita.

Þeir sem hafa áhuga geta tekið prófið hér:  Belief-O-Matic prófið

Í tilviki Púkans sjálfs voru niðurstöðurnar nokkurn vegin eins og búist var við - "Secular humanist" (100%) , "Unitarian/Universalist" (93%) og "Nontheist" (79%) efst á listanum, en kaþólska kirkjan og Vottar Jehóva voru neðstir.  Þeir síðastnefndu voru með 0%, sem Púkinn var mjög sáttur við, en hins vegar var vísindakirkja Tom Cruise með 39% - nokkuð sem kom á óvart, því þeir eru fáir söfnuðirnir sem Púkinn hefur minna álit á.

Hvað um það, takið prófið og látið vita hvort þið eruð sátt við niðurstöðurnar.


Næturgisting fyrir pör ... í IKEA

ikeaAf einhverjum ástæðum leiðist mörgum karlmönnum að versla með konum sínum.  Nú hefur IKEA ákveðið að gera átak í því að fá eiginmenn og unnusta til að tengja ferðir í IKEA við  ánægju, þar sem pörum er boðið upp á ókeypis næturgistingu í einhverju af þeim fjölmörgu rúmum sem eru til sýnis og sölu í versluninni.

Einnig eru tvær máltíðir innifaldar.  Þetta mun eiga sér stað 23. nóvember í IKEA versluninni í Gentofte.

Púkinn hefur ekki fregnað hvort til standi að endurtaka leikinn hér á Íslandi. Nánari upplýsingar, auk mynda af rúmunum má sjá hér.

Efter denne aften og nat vil han elske IKEA. Og du får det nemmere i fremtiden, når du skal have din mand med i IKEA.


Ósiðleg Beyonce?

Hvar annars staðar en í Bandaríkjunum gætu viðbrögð ömmu við auglýsingaskilti orðið að frétt sem berst út um allan heim?

Púkinn gróf upp mynd af skiltinu (og ömmunni), þannig að nú getur hver dæmt fyrir sig.

Æ, já...og þetta er í Nevada, sem er annað tveggja fylkja í Bandaríkjunum (ásamt Rhode Island) þar sem vændi er löglegt.  Ætli umrædd amma mótmæli því líka, eða stendur henni á sama, þar sem hún sér það ekki úr bakgarðinum hjá sér?

Púkinn bara spyr. 


mbl.is Bikíníklædd Beyonce veldur uppnámi í Las Vegas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir rasistar og aðrir aumingjar

racistÞað er því miður staðreynd að rasismi er eitt af þeim vandamálum sem fer vaxandi hér á Íslandi og kemur meðal annars fram í nýlegri opnun tiltekinnar vefsíðu.

Það er að sjálfsögðu möguleiki að þessi vefsíða (skapari.com) sé bara ætluð sem brandari - svona einhver misheppnaður unglingahúmor til að athuga hvað hægt er að fá marga til að æsa sig upp yfir þessu, en Púkinn er hálf-hræddur um að sú sé ekki raunin - þessum greyjum sem standa að síðunni gæti verið fúlasta alvara.

Það er nú annars spurning hverjir raunverulega standa að síðunni, því skráður eigandi hennar er þekktur bandaríkur rasisti: 

 Hal Turner Radio Show 
  1906 Paterson Plank Road
   North Bergen, NJ 07047
   US

Hal þessi er frekar ómerkilegur og óskemmtilegur náungi, frægur fyrir hótanir og að hvetja til ofbeldis, eins og til dæmis þegar hann birti heimilisfang Joan Lefkow, dómara í máli gegn Sköpunarkirkirkjunni, en skömmu síðar var brotist inn hjá dómaranum og eiginmaður hennar og móðir skotin til bana.  "Sköpunarkirkja" þessi er reyndar tæplega kirkja sem slík, heldur bara samtök rasista sem hika ekki við að beita ofbeldi, en tengslin milli hennar og skapari.com eru nokkuð augljós.

Væntanlega eru nú einhverjir stuðningsmenn þeirra hér á Íslandi, því efnið er á íslensku, þótt ekki beri orðaforðinn né málfarið nú vott um að nein andleg mikilmenni sé að ræða.

Þetta er í stuttu máli frekar ógeðfelldur félagsskapur einstaklinga með minnimáttarkennd -  en Púkanum sýnist ekki minni ástæða til að hafa áhyggjur af þeim en t.d. þessum útsendurum Hell's Angels sem voru gerðir afturrækir nýlega.

Halló, Björn Bjarnason, hvernig væri nú að skoða þetta mál?


Bruðl dagsins: Dýrasti eftirréttur heims

Púkinn er áhugamaður um góðan mat og skammast sín ekkert fyrir að borga vel fyrir það. 

En það eru takmörk fyrir öllu og $25.000 eftirréttur er eiginlega utan þeirra takmarka. 

Serendipity 3 veitingahúsið í New York býður nú upp á súkkulaðiísrétt, sem nýtur þess (vafasama) heiðurs að vera dýrasti eftirréttur heims.

Verðið skýrist aðeins að hluta til með því að í réttinn eru notaðar 14 dýrustu súkkulaðitegundir heims og að á ísinn er sáldrað  5 grömmum af gulldufti.  Að auki er ísbikarinn þakinn gullflögum að innan, en ætlast er til að þær séu borðaðar líka.

Í fæti bikarsins er 18-karata gullarmband með gimsteinum og rétturinn er borðaður með demantaskreyttri gullskeið, en hvort tveggja mun víst fylgja með í kaupunum.

Er ekki fyrirhafnarminna að eyða $25.000 bara beint í skartgripaverslun, heldur en að vera að blanda einhverjum súkkulaðiís í málið? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband