Sunnudagur, 11. nóvember 2007
Hundalíf
Á flakki sínu um netið rekst Púkinn stundum á myndir sem honum finnst þess virði að deila með öðrum. Guinness heimsmetadagurinn var nýlega og eitt af því sem gert var í tilefni hans var að taka mynd af stærsta og minnsta hundi heims saman.
Gibson er Stóridani, sem er rúmlega 2 metrar á hæð þegar hann stendur á afturfótunum, en Boo Boo er hins vegar Chihuahua sem nær rétt rúmlega 10 cm hæð og væri ekki meira en hálfur munnbiti fyrir stóra frænda sinn.
Já, "frænda", því allir hundar eiga jú sameiginlega forfeður í hópi úlfa, fyrir ef til vill ekki nema 10.000 árum síðan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 10. nóvember 2007
"Bænaganga" á fölskum forsendum?
Þessi "bænaganga" er athyglivert fyrirbæri, eða öllu heldur markmið þeirra sem að henni standa, en þarna ægir saman hinum undarlegustu jaðarhópum ef eitthvað er að marka þá umræðu sem Púkinn hefur séð.
Sumir hommahatarar líta á þessa göngu sem andsvar við "Gay Pride" göngunni. Ef Fred Phelps (sem Púkinn minntist á hér) á sér einhverja skoðanabræður á Íslandi, þá eru þeir væntanlega mættir á staðinn - en varðandi þá umræðu vill Púkinn vísa á þessa grein.
Svo eru þeir sem líta á sjálfa sig sem frelsaða úr einhverjum myrkum fjötrum - fyrrverandi ofbeldismenn og afturbatadópistar sem hafa skipt út dópfíkninni fyrir trúarfíkn og telja sig betri menn. Púkinn getur reyndar tekið undir það - ef menn þurfa endilega að flýja veruleikann er af tvennu illu betra að flýja í trú en dóp - þar þarf enginn að stela til að fjármagna næsta skammt.
Væntanlega eru líka þarna einhverjir sem líta fyrst og fremst á gönguna sem göngu gegn myrkrinu í þjóðfélaginu, frekar en sem trúarlega göngu - göngu gegn almennu þunglyndi, böli og mannskemmandi tilveru, sem því miður allt of margir þurfa að búa við. Um það viðhorf er svosem allt gott að segja - það sem Púkinn efast hins vegar um er að "trú" í hvaða mynd sem er sé einhver lausn á þeim vandamálum. Betri félagsleg úrræði, geðlyf eða sálfræðimeðferð eru vænlegri leiðir til árangurs.
Fólk sem mætir í gönguna á þessum forsendum er hins vegar að láta blekkja sig. Myrkrið virðist nefnilega alls ekki vera aðalatriðið í hugum margra þeirra sem standa að göngunni, samanber fréttina á visir.is:
Hópur kristinna trúfélaga sem stendur fyrir svokallaðri bænagöngu á laugardag hefur sent alþingismönnum og sveitarstjórnarmönnum bréf þar sem farið er fram á það að kristinfræðikennsla verði efld í grunnskólum og að kristið siðferði fái aukið vægi í menntun og uppeldi komandi kynslóða.
Það er nefnilega það. Ekki senda þeir alþingismönnum og sveitarstjórnarmönnum bréf og biðja um fleiri gistiskýli fyrir heimilislausa, fleiri meðferðarúrræði fyrir dópista, menntunarstyrki fyrir öryrkja, eða hækkaðar húsaleigubætur fyrir einstæða foreldra.
Nei, þeir vilja fá að stunda sitt trúboð í friði - halda áfram að innræta börnum sinn boðskap eins og þeir hafa gert öldum saman - reyna að ala á sektarkennd ómótaðra barna og þykjast síðan vera með einu lausnina sem virkar. Það er gott að þeir hafa forgangsröðina á hreinu.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Laugardagur, 10. nóvember 2007
Viljum við fólkið heim?
Einn kunningi Púkans hefur undanfarin ár kennt við bandarískan háskóla, en er nú að hugsa um að koma heim til Íslands. Þróun húsnæðismála setur þó svolítið strik í reikninginn. Hann keypti sér lítið hús í Bandaríkjunum, sem hefði sjálfsagt selst á $300.000 fyrir nokkrum árum, en miðað við gengi dollarans þá hefðu það verið um 30 milljónir íslenskra króna, sem hefðu dugað vel á þeim tíma til húsakaupa.
Nú hefur fasteignaverð hins vegar lækkað í Bandaríkjunum, þannig að hann fær sjálfsagt ekki nema $250.000 fyrir húsið þar, og vegna gengislækkunar dollarans eru það 15 milljónir. Það fæst ekki mikið fyrir þá upphæð á fasteignamarkaðinum á Íslandi í dag, eins og verðlagið hefur þróast hér.
Samt ætlar þessi maður að koma heim - hann er nefnilega ennþá þeirrar skoðunar að það sé gott að búa á Íslandi.
Púkinn er hins vegar hræddur um að margir aðrir hugsi sig tvisvar um - mun fólk sem hefur farið í framhaldsnám og á lítið annað en námslán á bakinu hafa áhuga á að koma aftur inn í þann okurmarkað sem nú er hér?
Er þjóðfélagið að hrekja unga, menntaða fólkið úr landi?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 9. nóvember 2007
Tæki dagsins (Varúð: Ekki fyrir femínista)
Karlmenn með tækjadellu eru stór markhópur og á mörgum vefsíðum má finna hluti sem ætlað er að höfða til þess hóps.
Tækið hér er eitt af því, en það sýnir veðurupplýsingar á einfaldan og myndrænan hátt - með mynd af ljósku sem fækkar fötum, eða klæðir sig aftur - allt eftir því hvernig veðrið er.
Fyrir þá sem hafa áhuga, þá er heimasíða fyrirtækisins hér. Púkinn verður því miður að tilkynna þeim sem hefðu áhuga að ekki er til útgáfa af þessu tæki með fáklæddum karlmanni.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 8. nóvember 2007
Istorrent: Glæpasamtök eða bara gráðugir siðleysingjar?
Púkanum finnst með ólíkindum hve hægt gengur að stöðva starfsemi Istorrent-gengisins, en þessir þjófar eru látnir í friði meðan lögreglan leggur áherslu að að uppræta gengi nokkurra vesælla dópista sem stela smáhlutum til að eiga fyrir næsta skammti.
Samt er hér um mun stærri upphæðir að ræða - en kannski er málið það að yfirvöld líta ekki á þjófnað á hugverkum á sama hátt og annan þjófnað.
Þessi þjófnaður bitnar þó á þeim sem fyrir honum verða, en Púkinn er einn af þeim. Á Istorrent var um skeið dreift hugbúnaði sem Púkinn samdi ásamt öðrum. Frá sjónarhóli Púkans var þarna stolið af honum hans hugverkum fyrir milljónir.
Það er aðeins eitt orð sem Púkinn á yfir þá sem þetta stunda.
ÞJÓFAR!
Púkinn hefur megnustu skömm og fyrirlitningu á þeim sem standa að baki Istorrent vefnum, en þeir skýla sér bakvið að þeir séu í raun akki að gera neitt ólöglegt - þeir séu bara að aðstoða þjófana við iðju sína.
Það er kominn tími til að stöðva þetta gengi - stöðva Istorrent, leita uppi þá ræfla sem setja annarra hugverk í dreifingu í leyfisleysi, leggja hald á tölvur þeirra og sekta þá.
Þriðjudagur, 6. nóvember 2007
Að eitra fyrir börnum ... með leikföngum
Í leit sinni að skjótfengnum gróða stytta margir sér leið og reyna að fara á svig við kostnaðarsamar reglur um vörugæði og eftirlit.
Bindeez leikföngin eru aðeins nýjasta dæmið af mörgum. Þetta eru litskrúðugar perlur sem hægt er að raða upp og festast saman þegar vatni er úðað á þær.
Perlurnar eru nefnilega húðaðar með efni sem verður að eins konar fljótþornandi lími þegar það blotnar.
Það virðist engum hafa dottið í hug að ef börn gleypa perlurnar komast þær líka í snertingu við vatn í meltingarveginum, þannig að .. ja, börnin eru í raun að gleypa fljótþornandi lím.
Hvað er að þeim sem framleiða þetta? Hvað er að þeim sem útnefna þetta "leikfang ársins 2007"? Hvað er að þeim sem kaupa þetta?
Þegar síðan kemur í ljós að límefnið er efnafræðilega skylt ofskynjunarlyfi, þá verður það frétt - en börnin sem hafa lent á sjúkrahúsi fóru ekki þangað vegna ofskynjunaráhrifa, heldur vegna þess að samanlímdir kögglar af perlum sátu í meltingarvegi þeirra.
Ofskynjunarefnið er í raun aukaatriði - en það er leið til að vekja athygli á hættunni og losna við þessi leikföng úr verslunum.
Vonandi eru þessi leikföng ekki seld hér á landi, en Púkinn myndi gjarnan vilja sjá það staðfest af Leikbæ og Toys'r'us.
![]() |
Vinsæl leikföng innihalda ofskynjunarlyf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 5. nóvember 2007
Að deyja fyrir trú sína
Púkinn er stundum sakaður um að bera ekki virðingu fyrir skoðunum annarra. Mikið rétt - það eru nefnilega ekki allar skoðanir þess eðlis að réttlætanlegt sé að bera hina minnstu virðingu fyrir þeim.
Sú skoðun Votta Jehóva að þeim beri að hafna blóðgjöf, jafnvel þegar þeirra eigið líf er í hættu er dæmi um þetta. Fólk kýs að stofna lífi sínu í hættu, vegna skoðana sem byggja á 19. aldar túlkun á Biblíunni - túlkun hóps sem er einna þekktastur fyrir að hafa oftar haft rangt fyrir sér en flestir aðrir varðandi ýmsa spádóma gegnum tíðina - spádóma (sem að sjálfsögðu rættust ekki) varðandi endurkomu Krists og tengda atburði árin 1874, 1878, 1914, 1918, 1920, 1925, 1975.
Rannsóknir hafa sýnt að sú afstaða að hafna blóðgjöfum hundraðfaldar dánarlíkur kvenna vegna fæðinga - fara úr 1/100.000 í 1/1000, (sjá Khadra et al (2002). "A criterion audit of women's awareness of blood transfusion in pregnancy". BMC Pregnancy and Childbirth og Singla et al (October 2001). "Are women who are Jehovah's Witnesses at risk of maternal death?". American Journal of Obstetrics and Gynecology)
Þessir tvíburar eru ekki fyrstu börnin sem verða móðurlaus vegna þessa.
Sem betur fer geta Vottar Jehóva þó aðeins framið sjálfsmorð með þessu - sú regla mun víst vera í gildi í flestum löndum að þurfi ólögráða börn þeirra nauðsynlega á blóðgjöf að halda og foreldrarnir neiti, þá eru foreldrarnir tímabundið sviptir forræði svo unnt sé að bjarga lífi barnanna.
Það sem er dapurlegast við þetta snýr auðvitað að börnunum - þau þurfa að alast upp vitandi það að móðir þeirra kaus frekar að fremja sjálfsmorð vegna trúarskoðana en að vera með þeim.
Vonandi tekst börnunum að losna undan þeim heilaþvotti sem leiddi til dauða móður þeirra.
![]() |
Þáði ekki blóð og lést af barnsförum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 2. nóvember 2007
Öryrkjar og aðrir auðmenn
Öllum (nú, nema kannski ráðamönnum) er orðið ljóst að tekjutengingar í bótakerfinu eru komnar í óefni, því núverandi kerfi festir fólk í raun í gildru.
Það er unnt að breyta bótakerfinu á marga vegu, en sé ekki vilji fyrir því að endurhugsa það frá grunni, er lágmark að tekjutengingakerfið sé endurskoðað.
Það eru nefnilega ekki allar tekjur jafngildar - nokkuð sem auðmenn þessa lands hafa uppgötvað fyrir löngu.
Tillaga Púkans er sú að öðrum tekjum öryrkja verði skipt í þrjá flokka.
I - Tekjur sem ekki skerði bætur
Í þessum flokki séu tryggingabætur, t.d. skaðabætur vegna tjóns sem fólk verður fyrir og miskabætur sem fólk hlýtur samkvæmt dómi eða samkomulagi. Í þessum tilvikum er verið að bæta eitthvað sem hefur tapast, en tengist ekki lágmarksframfærslu örorkubótanna. Námsstyrkir ættu einnig að vera í þessum flokki - það er þjóðhagslega hagkvæmt að öryrkjar afli sér menntunar, sem ef til vill gæti gefið þeim betri starfsmöguleika.
II - Tekjur sem skerði bætur að hluta
Í þessum flokki séu hefðbundnar launatekjur. Sumir öryrkjar geta t.d. unnið hlutastarf (sem er þjóðhagslega hagkvæmt) en kerfið verður að vera þannig að það sé hagkvæmara fyrir fólk að vinna heldur en að sitja heima og lifa á bótagreiðslum. Púkinn myndi vilja sjá bótaskerðinguna vaxa með auknum launatekjum, þannig að örorkubæturnar féllu niður þegar mannsæmandi launum væri náð.
III - Tekjur sem skerði bætur að fullu (eftir skatt)
Í þessum flokki séu fjármagnstekjur, arðgreiðslur, erfðatekjur, happdrættisvinningar og þvíumlíkt.
Þessar tillögur fela að sjálfsögðu ekki í sér fullkomna lausn vandamálsins, en myndu lagfæra nokkra verstu hnökrana á núverandi kerfi.
![]() |
Stórtapaði á að þiggja bætur eftir slys |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Fimmtudagur, 1. nóvember 2007
God hates fags!
"The most hated family in America" er sjónvarpsþáttur um hommahatarann Fred Phelps og fylgismenn hans. Reyndar er nú ef til vill ekki rétt að kalla hann "hommahatara", því hann hatar líka kaþólikka, múslíma, gyðinga, Bandaríkjamenn, Kanadamenn og ... Svía.
Af hverju Svía?
Jú, samkvæmt vefsíðu safnaðarins virðist það vera vegna þeirra réttinda sem samkynhneigðir njóta þar í landi og sökum þess að sænskur prestur og skoðanabróðir Phelps var sakfelldur fyir þau ummæli að samkynhneigðir væru "krabbamein á þjóðfélaginu". Fred Phelps myndi þá væntanlega hata Íslendinga líka, en hann virðist væntanlega ekki vera nægjanlega kunnur stöðu mála hér að landi til að vera byrjaður að hata okkur ennþá.
Séra Phelps og fylgismenn hata þó samkynhneigða mest af öllum - telja þá ábyrga fyrir öllum heimsins vandamálum. Þessir fylgismenn hans eru reyndar ekki margir - sennilega á bilinu 50-150, en nánari upplýsingar um þá má finna hér.
Við höfum sem betur fer ekki svona brenglaða ofsatrúarmenn á Íslandi - og vonandi kemur aldrei til þess.
![]() |
Kirkja dæmd til skaðabótagreiðslna fyrir að mótmæla við jarðarför |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 1. nóvember 2007
Alvöru seðlabanki óskast!
Stundum líður Púkanum eins og sérvitringi sem stendur á trékassa í almenningsgarði og hrópar einhvern boðskap um yfirvofandi heimsendi, en áheyrendur labba framhjá og hrista í mesta lagi höfuðið - segja að allt sé í lagi.
Púkinn er nefnilega þeirrar skoðunar að stefna Seðlabankans sé eins arfavitlaus og unnt er.
Vandamálið er að hér á Íslandi er í raun bullandi, falin verðbólga. Klassísk einkenni falinnar verðbólgu lýsa sér í minnkandi vörugæðum eða vöruúrvali, en hér er verðbólgan falin með því að láta krónuna styrkjast langt út fyrir öll velsæmismörk. Ef gengi krónunnar væri "eðlilegt" myndu innfluttar vörur snarhækka í verði, sem kæmi fram sem verðbólga - en það ber Seðlabankanum að forðast umfram allt, samkvæmt þeim lögum sem gilda um hann.
Á meðan okurvaxtastefna Seðlabankans heldur ofurkrónunni uppi, þá blæðir útflutningsfyrirtækjunum. Sum þeirra eru betur sett en önnur - álfyrirtækin borga fyrir hráefni með ódýrum gjaldeyri og fá orkuna á niðurgreiddu verði, þannig að þau kvarta nú ekkert sérstaklega - en sjávarútvegurinn er í vondum málum og versnandi.
Verst af öllu eiga þó þau fyrirtæki sem eru með alla starfsemi sína hér á Íslandi og allan launakostnað í íslenskum krónum, en tekjurnar í dollurum og evrum. Seðlabankinn mun sjálfsagt ná fram markmiðum sínum að kæla efnahagslífið með því að slátra þeim fyrirtækjum eða hrekja þau úr landi, en það virðist ljóst að stefna stjórnvalda sé að héðan megi ekkert flytja út annað en ál og fisk.
Nei, svona fer þegar Seðlabankanum er stjórnað af afdönkuðum pólitíkusum samkvæmt lögum sem eru meingölluð.
Það er margt sem hægt er að gera - Púkinn vill nefna tvennt - setja þak á vexti Seðlabankans - þeir megi t.d. ekki vera meira en 5 prósentustigum hærri en sambærilegir vextir í helstu viðskiptalöndum. Það sem er hins vegar mikilvægast er að forgangsröð Seðlabankans verði endurskoðuð. Nú undanfarin ár hefur forgangurinn verið að halda verðbólgu niðri - sem hefur tekist þokkalega, en hefur í raun ekki skilað neinu í vasa fólks, en aðeins valdið gífurlegri aukningu á innflutningi, fáránlegri eyðslu í "ódýrar" innfluttar vörur (pallbíla, flatskjái o.s.frv.) og gengdarlausum tekjum innflytjenda.
Verði haldið áfram á sömu braut, blasir hrun margra útflutningsfyrirtækja við. Er ekki eitthvað að peningastefnu sem veldur svona röskun?
Eftir nokkur ár geta menn síðan skoðað brunarústirnar af efnahagslífinu og velt fyrir sér hvers vegna íslenskt atvinnulíf sé svona einhæft, samanborið við atvinnulíf nágrannalandana - velt fyrir sér hvað hafi orðið af öllum þeim fyrirtækjum sem ætluðu að flytja út eitthvað annað en ál.
Er ekki bara kominn tími til að flýja land - fara til einhvers lands með alvöru seðlabanka?
![]() |
Stýrivextir Seðlabanka Íslands hækkaðir um 0,45% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)