Galdrabók?

handritÁ forsíðu Fréttablaðsins í dag er sagt frá dularfullu handriti, rituðu með torkennilegu letri - var hér ef til vill um galdrabók að ræða, ritaða með einhverri þeirra leturtegunda sem Íslendingar notuðu til slíks á miðöldum?

Það munu vera til einhver galdrakver rituð með "haugbúaletri" eða öðrum skyldum leturtegundum, en því miður þá er þetta nú öllu meinlausara - letrið er nú bara venjulegt eþíópískt letur (sjá hér) og innihaldið er sennilegast trúarlegs eðlis ... nú eða kannski bara mataruppskriftir.

Synd og skömm -  það hefði verið gaman ef heil íslensk galdrabók hefði fundist.


Forsendur fyrir netþjónabúum

fiberopticÞað er athyglivert að lesa hverjar forsendurnar fyrir rekstri netþjónabúa eru , samkvæmt þeirri frétt sem hér er vísað til: "öruggt háhraða fjarskiptasamband við umheiminn, möguleikar á því að tengjast alþjóðlegum samtengipunktum, langtímasamningar um orku á samkeppnishæfu verði og menntað starfsfólk"

Það er fullyrt að allt sé til staðar nema örugga sambandið sem Farice ætlar að taka að sér að leysa.

Púkinn er ekki sammála.

Það er krónískur skortur á menntuðu starfsfólki hér á landi og fyrirtæki eru að hrekjast úr landi með hluta starfsemi sinnar af þeim sökum.

Það er líka eitt sem Púkinn saknar í þessari upptalningu.  Nú rekur fyrirtæki Púkans netþjóna - ekki stórt bú, en samt er gagnamagnið ekki mælt í MB eða GB, heldur TB.  Vandamálið er að það er ekki raunhæft að dreifa þessum gögnum frá Íslandi og það er ekki bara vegna núverandi óöryggis, heldu líka vegna verðlagningarinnar.  

Kostnaður við að leigja pláss í stóru netþjónabúi í Bandaríkjunum og dreifa gögnum þaðan var við síðustu athugun um 10% þess sem það hefði kostað að dreifa gögnunum héðan.

Dettur einhverjum heilvita manni í hug að gagnaflutningsverð muni lækka, ef Farice rekur tvo strengi í stað eins og er bara í samkeppni við sjálft sig?


mbl.is Orkuveitan aðili að Farice
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland - meinlausasta land heims?

Púkinn var að velta fyrir sér ímynd Íslands úti í hinum stóra heimi og spurningunni hvaða skoðun stjórnvöld í fjarlægum löndum hafa á okkur.

Nýlega var einn fyrrverandi samstarfsmanna Púkans að velta fyrir sér að skreppa yfir til Pakistan og athugaði hvers konar vegabréfsáritun Íslendingar þyrftu.

Í ljós kom að þeir þurfa enga áritun og mega dvelja þar eins og þeir vilja.  Aðeins nokkrar aðrar þjóðir eru í svipaðri stöðu, nefnilega Maldives, Nepal, Tobago, Tonga, Trinidad, Western Samoa og Zambia.

Góður félagsskapur, þetta - en öll þessi lönd eiga það sameiginlegt að vera frekar meinlaus - væntanlega flokkuð sem engin ógn við þjóðarhagsmuni Pakistan.

Já, svona er Ísland í dag...meinlaust.


Útför íslensku krónunnar

100000Að fylgjast með umræðunni um krónuna þessa dagana er eins og að horfa á lélegt leikrit um hóp fégráðugra ættingja sem sitja í kringum sjúkrabeð ríka frændans og bíða eftir því að hann gefi upp öndina, þannig að þeir geti skipt eignunum á milli sín.

Sá grunur læðist að Púkanum að bankarnir séu að reyna að halda gengi krónunnar uppi, þangað til þeir er sjálfir búnir að skipta yfir í evrur og séu með allt sitt á hreinu.

Þá verður gengi krónunnar leyft að hrynja, þannig að almenningur situr eftir með sárt ennið, verðlitlar krónur í vasanum og gengistryggð lán.  Bankarnir eru jú ekki góðgerðastofnanir og að sjálfsögðu hugsa þeir fyrst og fremst um eigin hag, eins og önnur fyrirtæki.

Sökina á þessum krónuvandræðum á auðvitað hin arfavitlausa efnahagsstjórnun sem er hér á Íslandi.  Púkinn vill helst kenna um því að fasteignaverð skuli vera tekið inn í vísitöluna.  Hækkað fasteignaverð bjó síðan til ímyndaða verðbólgu sem Seðlabankinn reyndi að berja niður með síhækkandi vöxtum, sem leiddi til gengdarlausrar hækkunar krónunnar og innflæðis á erlendu fjármagni, sem er núna að murka líftóruna úr útflutningsfyrirtækjunum.  

Vera má að "Hvað fór úrskeiðis á fyrsta áratug 21. aldar á Íslandi?" verði kennsluefni í hagfræðibókum framtíðarinnar, en við Íslendingarnir munum væntanlega sitja uppi með að þegar hrunið verður munu sömu aðilar verða látnir "bjarga" því og ollu vandræðunum í upphafi.


mbl.is Kaupþing breytir starfrækslugjaldmiðli í evrur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfðabreytt gæludýr!

glo-fishMá bjóða þér sjálflýsandi gullfiska eða hárlausa naggrisi?

Þessa dagana eru erfðabreytt gæludýr að koma á markað í ýmsum löndum og Púkinn veltir fyrir sér hversu langt sé í það að farið verði að hanna gæludýr eftir pöntun - kannski munum við sjá auglýsingar um sértilboð á dverggíröffum eða grænum köttum í framtíðinni.

Sem stendur eru þó ekki allir sannfærðir um hversu jákvæð þessi þróun sé - í Evrópu hafa einhverjir gæludýrasalar verið handteknir fyrir að selja sjálflýsandi fiska - en þeir flokkast þar undir ósamþykktar erfðabreyttar lífverur.  Þessir fiskar eru hins vegar til almennrar sölu í Bandaríkjunum (sjá hér) og sumum Asíulöndum, þannig að ekki er ósennilegt að þeim verði smyglað til Evrópu.

Erfðabreyttar lífverur hafa verið vinsælt viðfangsefni vísindaskáldsagnahöfunda, sem hafa margir velt fyrirsér þeirri spurningu hvað muni gerast þegar (ekki "ef") genum úr mönnum verðu bætt í gæludýr.  Kannski eigum við eftir að sjá þá umræðu í raunveruleikanum.


Svikahrappar vikunnar

Það er nú ekki svo að Púkinn sé syndandi í peningum eins og Jóakim Önd eða íslenskir bankastjórar, en samt eru á hverjum degi einhverjir sem reyna með vafasömum hætti að komast yfir peninga Púkans.

Svona til gamans kemur hér listi yfir nokkrar tilraunir þeirra síðustu vikuna.

Charles James

Fyrst er dæmigert "Nígeríubréf", sem fylgir hér:

Dear Friend,

From the over drafts records of outstanding contracts award due for payment in our bank, we discovered that the next person on  the list to be paid for this contract named: Mr. Charles James had just died recently due to heart related diseases. His heart condition was due to the death of all the members of his family in the Gulf Air Flight Crashes in Persian Gulf Near Bahrain

none of his family has shown up to claim the money for this contract. Records in our Department shows that late Mr. Charles James had already finished the contract before he died and he was only awaiting his payment from us.The said money ($30,000,000.00) had been in our custody in our Bank since the last government regime. I have the mandate of my  colleagues to look for a reliable and trustworthy person (foreign partner) that we shall present as the next-of-kin to late Mr. Charles James to enable us claim the said amount $30m.

I wish to inform you that the said payment will be processed and the money will be released to you as soon as you respond to this letter.

Kindly send to me the followings:
1)    Your full name.
2)    Phone, fax and mobile #.
3)    Company name, position and address.
4)    Profession, age and marital status.

As soon as this information is received, the payment will be processed and wired to your nominated bank account directly from the CBN our bank. Please e-mail me back via this address [eytt út]  as soon as you receive this letter for further communication.

NB. I REALLY NEED YOUR TOTAL HONESTY AND TRUST IN THIS MATTER.

Regards,

CLIFF ARMSTRONG

Þetta er illa skrifað, ótrúverðugt og til að falla fyrir þessu þurfa fórnarlömbin að vera fáfróð, fégráðug og með vafasamt siðferði.  Það er nóg til af slíku fólki - annars hefðu sendendurnir væntanlega gefist upp á þessu fyrir löngu.

European City Guide

Þetta bréf datt inn um lúguna - Púkanum er þar boðið að leiðrétta upplýsingar um fyrirtæki sitt.  Í smáa letrinu kemur síðan fram að fyrir þetta þarf Púkinn að borga 987 evrur á ári.  Þetta hefur gengið árum saman og væntanlega gabba þeir nógu marga til að þetta borgi sig.

IRS Tax refund

Nú hefur Púkinn aldrei greitt skatt í Bandaríkjunum, þannig að tölvupóstur um að hann eigi rétt á endurgreiðslu er ekkert sérstaklega trúverðugur.  Hins vegar var umræddur tölvupóstur vel gerður - HTML síða með trúverðugum hausum, vönduðu orðalagi og sannfærandi upphæð, $282.15.  Nægjanlega há upphæð til að fólk nenni að eltast við hana, en ekki það há að hún virðist ótrúverðug.  Í tölvupóstinum er tengill sem virðist benda á irs.gov, en bendir í rauninni á vefsíðu í Frakklandi, þar sem fólk þarf að gefa upp ýmsar persónulegar upplýsingar, þar á meðal bankareikning til að leggja endurgreiðsluna inn á.

eComTrainers.com

Það kom bréf heim til Púkans, þar sem frú Púka er boðið (ásamt gesti) í hádegisverð eða kvöldverð á Radisson SAS þann 22 eða 23.  Púkanum finnst nú alltaf gaman að láta bjóða sér í mat, en það eru takmörk - og að hluta á sölufyrirlestur frá vafasömu fyrirtæki í 90 mínútur, það sem beitt er þrýstingi til að fá fólk til að skrifa undir samninga sem fyrir flesta þýða tapað fé og tapaðan tíma ... nei, það eru takmörk fyrir því hvað Púkinn er til í að gera til að fá að borða á kostnað annarra.

Yahoo happdrættið

CONGRATULATIONS!Yahoo! Mail announces you as one of the 10 lucky winners in the ongoing 12 Years Yahoo lottery Award of the new year2007. All 10 winning email addresses were randomly selected from a batch of 50,000,000 international emails each from Canada. Australia. United State.Asia.....

Púkinn á bágt með að trúa að nokkur falli fyrir þessum gerfihappdrættisvinningstilkynningum en svo virðist vera, því þær koma aftur og aftur - aðeins nöfn fyrirtækjanna breytast.  Þeir sem standa á bak við þetta vita að sumt fólk er tilbúið til að senda þeim vegabréfa- og bankareikningaupplýsingar sem síðan nýtast þeim til að svíkja út peninga á einn eða annan hátt.


Léttvín eða ekki?

wine-bottlesÁ að selja léttvín í matvöruverslunum?  Púkinn hefur átt í ofurlitlum erfiðleikum með að mynda sér skoðun á þessu máli og getur tínt til ýmis rök, bæði með og á móti.

Það er skiljanlegt að verslanaeigendur vilji selja léttvín, enda myndi slíkt að sjálfsögðu þýða aukin viðskipti og meiri hagnað. Púkinn er hins vegar ekki sannfærður um að verslunum sé treystandi til þessa - reynslan hefur sýnt að mörgum verslunum er ekki treystandi til að selja tóbak eingöngu til þeirra sem eiga að hafa aldur til að kaupa það.  Hvers vegna ætti annað að gilda um áfengið?  

Púkinn horfir hins vegar einnig til vöruúrvals.  Stundum hefur Púkinn fundið einhverja tegund sem honum líkar (t.d. sérlega gott Malbec vín frá Argentínu fyrir 2 árum), en næst þegar átti að kaupa sömu tegund þá kom í ljós að hún hafði verið tekin úr sölu, vegna of lítillar sölu.  Púkinn myndi gjarnan sjá kerfi sem leyfði opnun einkarekinna sérverslana, þar sem meiri áhersla er lögð á gæði en veltu.

Það er því miður staðreynd að stór hópur fólks kann ekki að fara með áfengi - verður sjálfu sér til skammar og öðrum til ama.  Það mun sennilega ekki breytast mikið þótt aðgangur að léttvíni verði gerður þægilegri - en spurningin er hvort þessi hópur muni stækka.   Það er óvíst, en hins vegar er ljóst að hann mun ekki minnka. 

Aukið aðgengi er til þæginda fyrir suma - en munar svo miklu?  Í sumar komu nokkrir góðir dagar þegar gott veður var eftir vinnu og alveg tilvalið að henda nokkrum bitum á grillið, setjast á sólpallinn og sötra eitt eða tvö glös að rauðvíni.   Stundum þurfti Púkinn að skjótast út í búð eftir kjötbitum og ef hægt hefði verið að kaupa léttvínsflösku í leiðinni, þá hefði e.t.v. mátt gera það - en raunin var bara sú að Púkinn átti alltaf nokkrar mismunandi flöskur heima, þannig að fyrir hann breytti þetta í rauninni engu.

Sumir velta fyrir sér hvort Íslendingar hafi í raun þroska til að umgangast vín eins og hverja aðra vöru - við erum ekki í landi þar sem léttvín er talinn eðlilegur hluti hverrar máltíðar.  Ástandið hefur batnað verulega hvað þetta varðar - það er nánast liðin tíð að hópar Íslendinga missi alla stjórn á sér þegar þeir koma til sólarlanda þar sem áfengi er selt í hverri matvörubúð, en samt er ljóst að Íslendingar eiga enn margt ólært - fjöldi þeirra sem teknir eru ölvaðir undir stýri vitnar um það.

Svo - hver er niðurstaðan?  Púkinn er hreinlega ekki viss. 


Doris Lessing og pláneta 5

shikastaFyrir 25 árum eða svo gerði Púkinn heiðarlega tilraun til að lesa bækur þær sem Doris Lessing hafði skrifað, en fátt er nú í dag eftirminnilegt úr þeim bókum.

Samt eru nokkrar bækur sem standa uppúr í minningunni, en það merkilega er að það eru bækur sem næsta litla athygli hafa hlotið, samanborið við meginverk hennar.

Þetta eru vísindaskáldsagnaverk hennar, "Canopus in Argos" í 5 bindum.  Sú fyrsta er "Re: Colonised planet 5, Shikasta", sem er rituð sem skýrsla um sögu jarðarinnar og mannkynsins, frá sjónarhóli geimvera sem eru að fylgjast með mannkyninu og skipta sér af þróun þess.

Þessar bækur höfða ef til vill ekki til sama lesendahóps og Afríkusögur höfundarins, en Púkinn vildi svona aðeins minna á þær í tilefni Nóbelsverðlaunanna - það er ekki svo algengt að höfundar vísindaskáldsagna fái Nóbelinn.


Bláa kortið - Ísland situr eftir

Á Indlandi útskrifast árlega fleiri tölvu- og tæknimenntaðir einstaklingar en sem nemur öllum íbúafjölda Íslands.  Allnokkur hluti þessa hóps vill flytja til Vesturlanda, þar sem krónískur skortur er á fólki með svona menntun.  Nokkur lönd hafa reynt að laða þennan hóp til sín, með því að auðvelda þeim að fá vegabréfaáritanir og atvinnuleyfi, en þar eru Ástralía, Kanada og Bandaríkin efst á blaði, en í Ástralíu eru t.d. 9.9% alls aðkomufólks menntaðir sérfræðingar. 

Evrópusambandið er nú að fara að leika sama leik, en hlutfallið þar er víst innan við eitt prósent sem stendur.

Og hvað gerist?

Ísland situr eftir.

Það er illgerlegt að koma svona fólki til landsins, og ef það tekst virðist Útlendingastofnun gera sitt besta til að hrekja viðkomandi starfsmenn úr landi aftur.  

Púkinn telur hér um að ræða enn eina sönnun þess að íslenskum stjórnvöldum er ekki alvara með að vilja þekkingariðnað á Íslandi - margt fleira mætti tína til, en það er efni í annað blogg síðar.


Betri gerast blogg ekki

Nýr bloggari birtist um daginn hér á blog.is og er ljóst að ef framhald verður á skrifum viðkomandi mun Púkinn lesa þær greinar samviskusamlega jafnóðum og þær eru birtar.

Púkinn öfundar reyndar viðkomandi bloggara svolítið, því sennilega mun viðkomandi komast upp með að skrifa greinar sem engum öðrum myndi líðast.

Og hver er nú umræddur bloggari?  Jú, enginn annar en Sverrir Stormsker (sjá hér).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband