Mánudagur, 22. október 2007
"Hinsegin hjónabönd"
Púkinn var að hugleiða þessa "útvíkkun" á hjónabandshugtakinu, þannig að það nái yfir tvo samkynja einstaklinga.
En hvers vegna að láta þar staðar numið? Er það ekki mismunun gagnvart þeim sem viðurkenna enn önnur tilbrigði við hjónabönd. Hvers eiga fjölkvæningar t.d. að gjalda? Setjum svo að hingað til lands flytji múslími með tvær eiginkonur - er það ekki mismunun gegn honum að íslenska kerfið viðurkenni bara eina eiginkonu?
Nú ef réttur hans til að vera í hjónabandi með báðum konum sínum verður viðurkenndur, þá hlýtur það sama að gilda fyrir þá sem aðhyllast önnur (eða engin) trúarbrögð - annað væri mismunun eftir trúarskoðunum, þannig að óhjákvæmilegt er að leyfa fjölkvæni í framhaldinu, ekki satt?
Síðan þarf auðvitað að lagfæra kynjamisréttið - það gengur auðsjáanlega ekki að leyfa körlum að eiga margar konur nema konur megi eiga marga menn - sem að sjálfsögðu opnar möguleikann á hóphjónaböndum, þar sem margir einstaklingar eru giftir mörgum einstaklingum af sama eða gagnstæðu kyni. Annað væri mismunun, eða hvað?
En bíðum við - það er enn mismunun til staðar - það er enn gert ráð fyrir að fólk geti einungis gifst öðrum mannverum - þetta er að sjálfsögðu tegunda-ismi af verstu gerð - það verður að halda þeim möguleika opnum að fólk geti gifst vélmennum í framtíðinni.
(Að gefnu tilefni vill Púkinn taka fram að umræður um giftingar barna, dýra og náskyldra koma þessu ekki við og athugasemdir um slíkt eru ekki velkomnar).
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.10.2007 kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Mánudagur, 22. október 2007
Útlendingarnir mínir
Það er enginn maður með mönnum nema hann hafi útlendinga í vinnu þessa dagana - já og helst heilan hóp. Ýmsir kvarta yfir mörgu sem þessu fylgir - sumir tala um undirboð á íslenskum vinnumarkaði, en aðrir kvarta yfir því að fá ekki lengur viðunandi afgreiðslu í verslununum sínum þar sem afgreiðslufólkið talar ekki íslensku.
Í gegnum tíðina hefur Púkinn unnið með fólki frá mörgum löndum - Argentínu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Búlgaríu, Filippseyjum, Kanada, Póllandi, Rússlandi, Þýskalandi og sjálfsagt fleiri löndum. Oft er þetta fólk ráðið þar sem ekki finnast Íslendingar með þekkingu á því viðfangsefni sem um ræðir.
Það er hins vegar vandamál þegar ekki finnast heldur umsækjendur innan EES. Nýlega auglýsti fyrirtæki Púkans nokkur störf og tveir hæfustu umsækjendurnir voru frá Indlandi.
Uss-fuss, það má ekki ráða "þannig fólk" til landsins. Ef atvinnuleyfi fengist yfir höfuð, þá myndi það taka marga mánuði. Púkinn getur ekki beðið eftir því. Niðurstaðan - starfinu er núna sinnt af starfsmenni búsettum erlendis. Þekkingarsköpunin verður eftir erlendis og skattarnir líka, en það er víst þannig sem Útlendingastofnun vill hafa það.
Önnur lönd sem einnig búa við skort á sérfræðingum hafa sveigjanlegra kerfi - í Danmörku mun reglan t.d. vera sú að ef laun starfsmanna eru yfir ákveðnum mörkum er litið á viðkomandi sem "sérfræðing" og atvinnuleyfisumsóknin fær flýtimeðferð gegnum kerfið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 20. október 2007
Illa samin samræmd próf?
Nú í vikunni voru haldin samræmd próf í 7. bekk grunnskóla. Eins og margir aðrir foreldrar sem eiga börn á þeim aldri, þá sótti Púkinn eldri próf sem liggja á vefnum, en þegar þau voru athuguð og yfirfarin kom í ljós að prófin voru morandi í villum - dæmum sem voru óleysanleg miðað við gefnar forsendur, eða þar sem "rétt" svör voru einfaldlega röng.
Skoðum nokkur dæmi, sem öll eru tekin úr einu og sama prófinu:
Dæmi 11
Í 30 manna bekk vill 21 ost á ristað brauð og 15 vilja sultu. Einhverjir vilja bæði ost og sultu á brauðið. Hver margir eru í þeim hópi?
Það vantar eitt atriði í þetta dæmi - upplýsingar um hversu margir nemendur vilja hvorki ost né sultu, þannig að nemendur verða að gefa sér þá forsendu. Stærð þessa hóps getur í mesta lagi verið 9, en í minnsta lagi 0, þannig að réttasta svarið við spurningunni er:
6-15, eftir því hversu margir vilja hvorki ost né sultu.
Samkvæmt svarblaðinu telst hins vegar aðeins svarið "6" vera rétt - þ.e.a.s. ætlast er til þess að nemendur gefi sér þá forsendu að allir í hópnum vilji ost og/eða sultu. Hvers eiga þeir nemendur að gjalda sem hugsa dæmið til enda?
Dæmi 21
Merktu við svarið þar sem brotin eru jafnstór.
[ ] 1/3; 2/6
[ ] 1/6; 2/6
[ ] 2/3; 3/6
[ ] 1/3; 1/5
Einfalt og augljóst dæmi, ekki satt? Svarið er greinilega "1. liður" - eða hvað? Samkvæmt svarblaðinu er rétta svarið "3. liður". Púkinn ætlar nú rétt að vona að þessi mistök hafi uppgötvast áður en nemendum voru gefnar einkunnir, en þá vaknar spurningin hvers vegna Námsmatsstofnun birti óleiðrétt svarblað á vefnum.
Dæmi 33
Dýpt Öskjuvatns er 220 m. Þorvaldsfell, sem stendur þar við, er 1510 m hátt. Hver er hæðarmunurinn á botni Öskjuvatns og toppi Þorvaldsfells?
Þetta er einhver sú versta spurning sem Púkinn hefur séð í nokkru prófi. Hæð fjalla er er miðuð við hæð yfir sjávarmáli, en til að unnt sé að reikna þetta dæmi vantar allar upplýsingar um hæð Öskjuvatns yfir sjávarmáli. Nú veit Púkinn ekki nákvæmlega hversu hátt Þorvaldsfell gnæfir yfir Öskjuvatni, en það eru ekki nema nokkur hundruð metrar, þannig að rétta svarið við spurningunni er líkindum 500-600 m. Nemendur fá hins vegar eingöngu stig fyrir spurninguna ef þeir svara "1730 m".
Með öðrum orðum, þá verða nemendur að gefa sér að Öskjuvatn liggi við sjávarmál og að botn þess nái langt niður fyrir það, eða að höfundar prófsins séu það fákunnandi að þeir geri ekki mun á hæð yfir sjávarmáli eða hæð yfir jafnsléttu.
Það mátti einnig finna svipaðar villur í öðrum samræmdum prófum í stærðfræði, þannig að niðurstaða Púkans er að annað hvort séu þessi próf hroðvirknislega unnin, eða að þeir sem semja samræmd stærðfræðipróf fyrir 7. bekk séu hreinlega ekki starfi sínu vaxnir. Til að gæta sanngirni vill Púkinn þó geta þess að samræmdu íslenskuprófin voru í allt öðrum gæðaflokki - Púkinn fann aðeins eina villu í öllum þeim íslenskuprófum sem hann skoðaði.
Það er ef til vill ekki skrýtið að stærðfræðikunnátta íslenskra barna sé léleg, ef þetta próf er til marks um gæði kennslunnar.
Menntun og skóli | Breytt 30.11.2007 kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 19. október 2007
Dílerinn á þakinu?
Fyrir skömmu horfði Púkinn á lögregluaðgerð út um skrifstofugluggann - fjöldi lögreglumanna og bíla í kringum hús eitt. Það var svo sem fátt merkilegt við það, nema hvað þegar lögreglan fór sást maður nokkur klifra ofan af þaki (þar sem hann hafði falið sig bakvið skorsteininn) og niður á svalir.
Það vakti líka athygli að umræddur maður virtist önnum kafinn á þakinu við að tala í farsímann sinn.
Í dag mætti lögreglan síðan aftur, með bíla og hunda og hélt inn í sama hús. Sú ferð virtist árangursríkari, miðað við hve mikið var borið út.
Púkinn og samstarfsmenn hans veltu fyrir sér hvað hefði verið á seyði, en sennilegasta tilgátan var að hér væri ekki um að ræða "Fiðlarann á þakinu", heldur "dílerinn á þakinu".
Já....svona er Ísland í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 18. október 2007
Er spilaborgin að hrynja?
Slúður dagsins í fjármálageiranum mun víst vera að tveir aðilar sem hafa flogið hátt og mikið hefur borið á í íslensku viðskiptalífi séu í rauninni ekki eins stöndugir og flestir telja.
Sagt var að Glitnir og Landsbankinn ynnu nú að því að bjarga þessum aðilum fyrir horn, því ef þeir myndu rúlla er hætt við að fleiri fylgdu á eftir.
Eins og einhver sagði, "Ef þú ert með milljón í vanskilum þá ert þú í vandræðum, en ef þú ert með milljarð í vanskilum, þá er það bankinn sem er í vandræðum".
Púkinn ætlar ekki að nafngreina þessa aðila, enda hefur hann engar forsendur fyrir því að meta hvort þessi saga sé sönn. Það sem er hins vegar athyglivert að margir eru þeirrar skoðunar að þótt þessir aðilar gætu bjargast í þetta sinn, þá sé það aðeins spurning um tíma hvenær þeir, eða einhverjir aðrir álíka stórir aðilar lendi með stórum skell.
Eru einhverjar spilaborgir að hruni komnar?
Laugardagur, 8. september 2007
85% alkóhól á bílana!
Sumum finnst það nú sjálfsagt sóun á góðu 85% alkóhóli að nota það sem eldsneyti á bíla, en þessi eldsneytisblanda mun nú ekki vera drykkjarhæf - fyrir utan 85% spírann er jú 15% bensín í blöndunni auk litarefna og hugsanlega jafnvel tréspíra.
Púkanum finnst hins vegar merkilegt að það er alls ekki nýtt að framleiða bíla sem geta bæði brennt bensíni og etanóli. Ford Model T bíllinn var til dæmis einnig framleiddur fyrir bændur sem gátu framleitt sitt eigið etanól, en nú eru næstum 100 ár síðan hann fór í framleiðslu.
![]() |
Brátt hægt að dæla etanóli á bíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. september 2007
Hvað myndir þú gera við 320 milljónir?
Ef þú mættir ráðstafa þessum 320 milljónum sem ríkisstjórnin vill setja í framboð Íslands í Öryggisráðið, hvað myndir þú gera?
Myndir þú taka sömu ákvörðun og ríkisstjórnin, eða er þessum peningum betur varið annars staðar?
Púkinn er sjálfur þeirrar skoðunar að verið sé að varpa þessum peningum á glæ - orðstír Íslands er einfaldlega ekki þannig að margir utan Norðurlanda myndu vilja kjósa okkur.
- Hvalveiðar og íslenska sérákvæðið í Kyoto sáttmálanum hafa skemmt fyrir okkur í umhverfismálum.
- Aðgerðaleysi í friðarmálum (það að leyfa Yoko Ono að setja upp ljósasúlu í Viðey telst ekki með) gefur okkur ekki mörg atkvæði þar.
- Við erum ein ríkasta þjóð heims, en verjum skammarlega litlu í þróunaraðstoð - Púkinn efast um að fátækari þjóðir telji þessa ríku, nísku og snobbuðu Íslendinga góðan valkost í Öryggisráðið.
![]() |
Fá dæmi um jafn lítinn tilkostnað við framboð til öryggisráðsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 7. september 2007
Hverjir eru Íslendingar?
Það er svo sem gott og blessað að segja að Íslendingar hafi orðið 311.396 um mitt árið, en gallinn er bara sá að það er ekki rétt - raunveruleg tala er og hefur alltaf verið á reiki, að hluta vegna þess að það er ekki alveg fullkomlega ljóst hverjir eru í rauninni Íslendingar, en að hluta vegna þess að skráningin er ófullkomin
Hin opinbera tala er fengin úr skrám Hagstofunnar, en þótt þau gögn séu uppfærð samviskusamlega varðandi fæðingar og andlát fólks hér á landi, er það ekki endilega raunin varðandi Íslendinga búsetta erlendis. Tökum sem dæmi að ef íslenskir námsmenn eignast barn erlendis er ekki sjálfgefið að þau gögn skili sér samstundis heim til Íslands - það geta liðið mánuðir eða jafnvel ár þangað til börnin rata inn í kerfið á Íslandi. Sama á við um einstaklinga sem hafa flutt úr landi fyrir mörgum áratugum - þeir geta hangið inni í Þjóðskránni árum eða jafnvel áratugum eftir andlát sitt, því upplýsingarnar berast ekki endilega hingað.
Ástandið verður síðan enn flóknara þegar skoðaðir eru Vestur-Íslendingar eða aðrir útflytjendur - hvenær hætta menn að vera Íslendingar?
Ríkisborgararéttur segir heldur ekki allt - þess eru dæmi að aðilar hafi fengið hraðafgreiðslu á ríkisborgararétti, svona til að þeir gætu leikið með íslenskum landsliðum, en um leið og þeir fá íslenskt vegabréf í hendur eru þeir farnir - eru þessir aðilar Íslendingar?
Nei, málið er flóknara en svo að hægt sé að segja að Íslendingar séu nákvæmlega 311.396 - nema þá að telja upp alla nauðsynlega fyrirvara.
![]() |
Íslendingar orðnir 311 þúsund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 6. september 2007
E102, E104, E107, E110, E120, E122, E123, E124, E127, E128, E129, E131, E132, E133, E142, E150, E154 og E155.
Er einhver góð ástæða fyrir því að fóðra íslensk börn á tjörulitarefnum sem sum hver eru bönnuð í nálægum löndum, eins og Noregi?
Þegar erlend samtök foreldra ofvirkra barna ráðleggja að fenginni 30 ára reynslu að fólk sneiði hjá vörum með þessum "fæðubótarefnum", er þá ekki ástæða til að taka það alvarlega?
Það má vel vera að börnum finnist matur skemmtilegri útlits ef hann er litaður með sterkum tjörulitarefnum, en er foreldrum alveg sama þótt börnin láti svona efni ofan í sig?
Þessi breska rannsókn sem nú var kynnt hefur staðið yfir í þrjú ár, en á þessum hlekk má sjá þriggja ára grein um upphaf hennar.
![]() |
Aukaefni í matvælum ýta undir ofvirkni samkvæmt rannsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 5. september 2007
Verðmæti í gömlum vinylplötum?
Púkinn var að flakka um á eBay og rak þá augun í uppboð á íslenskri plötu, "Undir áhrifum" með hljómsveitinni Trúbrot.
Þótt flestir séu nú búnir að setja gömlu vinylplöturnar sínar í kjallarann eða upp á háloft eru samt furðu margir sem vilja greinilega eignast þessa plötu, því nú þegar eru komin 13 boð í hana og verðið er komið yfir 200 dollara. (sjá þennan hlekk)
Það skyldi þó aldrei vera að einhverjir ættu fjársjóði í gamla plötusafninu sínu án þess að vita af því?
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)