Atlantsolía - eina leiðin til að halda verðinu niðri?

atlantsoliaÞað er athyglivert að gömlu olíufélögin þrjú virðast ekki vera í bullandi samkeppni við hvert annað, samkvæmt þessu - þau keyra a.m.k. ekki niður bensínverðið á þeim stöðum þar sem þau eru að keppa við hvert annað, heldur aðeins þar sem Atlantsolía hefur raskað því jafnvægi sem var á milli þeirra.

Nú er Púkinn ekki stór bensínnotandi - gengur oft í vinnuna og ekur bílnum ekki nema um 4000 kílómetra á ári að meðaltali, en engu að síður vill Púkinn kaupa sitt bensín á eins lágu verði og kostur er.  Lægsta verðið er ekki alltaf hjá Atlantsolíu, en engu að síður beinir Púkinn nánast öllum sínum bensínviðskiptum þangað.  

Hvers vegna?

Jú - það er skoðun Púkans að Atlantsolía veiti hinum olíufélögunum nauðsynlegt aðhald.  Ef Atlantsolía hyrfi af markaðinum færi allt aftur í sama horfið.


mbl.is Atlantsolía sakar gömlu olíufélögin um að gera atlögu að fyrirtækinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiríkur og veðmangararnir

bettingBreskir veðmangarar eru almennt ekki hrifnir af Eiríki, en þessa dagana virðist helst vera veðjað á Serbíu, Svíþjóð og Sviss.

Línuritið hér til hliðar sýnir hvernig  tölurnar hafa breyst hjá veðmöngurunum síðan 10. mars - bláa línan er íslenska lagið en hinar þrjár tákna þau þrjú lönd sem minnst var á að ofan.

Heildartöfluna  má sjá hér, en samkvæmt henni er Ísland í 17-18 sæti.

Það er líka hægt að veðja um hvort Ísland komist í úrslitaþáttinn, en miðað við tölur veðmangaranna virðist það ekki öruggt.


mbl.is Ekki hrifnir af Eiríki og Valentine Lost
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruðl dagsins - Zzzzzzzzzzz

expensive-floating-bedEnn og aftur er Púkinn reiðubúinn að hjálpa þeim sem hafa of mikla peninga milli handanna, en í þetta skipti er horft inn í svefnherbergið og dýrasta rúm heims skoðað - ríka fólkið þarf jú að sofa eins og aðrir, en það sem skiptir máli er að það sé gert með stæl.

Reyndar er spurning hvort þetta megi kallast rúm - það er í rauninni fyrst og fremst dýna sem svífur í lausu lofti - nokkuð sem myndi sóma sér vel í hvaða vísindaskáldsögu sem er.

Tæknin byggir á notkun segla sem hrinda hver öðrum  frá sér, en rúmið var þróað í samvinnu Universe Architecture og Bakker Magnetics.

Og verðið? Lauslega áætlað yrði það um 150.000.000 íslenskar krónur hingað komið.

Svo verða menn bara að vona að rafmagnið fari ekki af rúminu, því þá gætu þeir hlunkast niður á gólf á frekar óvirðulegan hátt.


Konur gera aldrei mistök...

"Konur gera aldrei mistök og karlmenn mega ekki hafna óskum kvenna".  Þetta mun vera slagorð Longshuihu þorpsins í Shuangqiao héraði.  Kínversk yfirvöld hafa nefnilega ákveðið að eyða 200-300 milljón yuan í að byggja upp þorp þar sem kynjahlutverk eru alveg skýr - konurnar ráða og mennirnir hlýða.

Ætlunin er að laða ferðamenn til þorpsins og munu ákveðnar reglur gilda um hegðun ferðamanna sem þangað koma - ætlast er til að konurnar stjórni, velji gististaði og þess háttar.

Tekið er fram að óhlýðnum karlmönnum verði meðal annars refsað með því að láta þá þvo upp diska. 

Sjá nánar hér

Púkinn er svona aðeins að velta fyrir sér hver viðbrögðin yrðu ef einhver vildi stofna svona þorp á Íslandi og nota þetta skipulag tll að draga að ferðamenn.


Enn og aftur um hjónabönd samkynhneigðra

gay_marriageEins og Púkinn hefur oft sagt áður er hann hvorki trúaður né samkynhneigður, þannig að þessi umræða snertir hann ekki beint.

Það virðist hins vegar aðeins vera ein ásættanleg lausn á þessu máli til lengri tíma litið.

  • Í fyrsta lagi verði borgaralegar hjónavígslur samkynhneigðra heimilaðar sem slíkar - ekki bara hálf-opinber athöfn til staðfestingar á samvist, heldur verði hlutirnir nefndir sínum réttu nöfnum.  Sumir kirkjunnar menn munu gera athugasemdir við þetta, en staðreyndin er bara sú að það kemur þeim hreinlega ekki við.
  • Í öðru lagi verði (eins og Siðmennt vill) þeim trúfélögum sem þess æskja veitt heimild til að gefa samkynhneigða saman í hjónaband.

Það er hins vegar ekki hægt að skylda trúfélög til að samþykkja og framkvæma hjónavígslur samkynhneigðra.  Trú byggir ekki á því sem rökrétt er, eða því sem samfélagið telur ásættanlegt á hverjum tíma, heldur alda- eða árþúsundagömlum skræðum sem voru samdar við allt aðrar aðstæður en við búum við í dag.  Það verður ekki bæði sleppt og haldið - þeir sem kjósa að lifa eftir slíku geta ekki sveiflast til eins og vindhanar eftir því hvernig tíðarandinn blæs hverju sinni.

Og hvað eiga þeir samkynhneigðu að gera sem eru í þeirri stöðu að vera í trúfélagi sem ekki vill leyfa þeim að giftast?  Er ekki augljósast að þeir viðurkenni að þeir séu á rangri hillu?  Ef trúfélagið þeirra hafnar þeim eiga þeir að gera slíkt hð sama og segja sig úr því.


mbl.is Trúfélög fái heimild til að gefa saman samkynhneigð pör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örkin hans ... Jóhanns?

story.ark.apPúkinn skilur ekki þá sem taka söguna í Biblíunni um syndaflóðið bókstaflega.  Hvort sem í henni leynist eitthvað sannleikskorn eða ekki, þá er ætti öllum hugsandi mönnum að vera löngu orðið ljóst að hún getur einfaldlega ekki verið sönn í heild.

Samt, það er örlítill hópur fóllks í flestum löndum sem tekur hana trúanlega (og reyndar allstór hópur í Bandaríkjunum), fólk sem telur hvert einasta orð í Biblíunni vera bókstaflega satt og kýs að byggja líf sitt á þessum gömlu sögum í stað staðreynda.

Johan Huibers er einn þeirra, en nú nylega opnaði hann aðgang að líkani af örkinni sem er á stærð við þriggja hæða hús - um einn fimmti af því sem lýst er í biblíunni.

Það sem vekur athygli er að Johan er ekki bandarískur heldur hollenskur, en kannski er það ekki svo skrýtið þegar allt kemur til alls.  Holland er jú eitt þeirra landa sem eru í hvað mestri hættu ef sjávarmál hækkar, þannig að öllu umfjöllum um flóð fær sennilega góðan hljómgrunn þar.


Novator og Novator

Púkinn var að leita á Netinu að upplýsingum um Novator og komst að því að þetta nafn er notað af mörgum mismundandi aðilum á mörgum mismunandi sviðum.

  • Novator KS-172 AAM-L er langdrægt rússneskt flugskeyti,  sem reyndar er ekki í framleiðslu sem stendur, en viðræður munu vera í gangi milli Rússlands og Indlands um sameiginlega þróun og framleiðslu þess.
  • Novator.com novator1er í eigu bandaríska fyrirtækisins Novator sem sérhæfir sig í útvistun hugbúnaðarlausna fyrir markaðssetningu á Netinu.
  • Novator.co.uk og Novator.is er í eigu fjárfestingafyrirtæki Björgólfs.
  • Novator.se er í eigu sænska fyrirtækisins Novator, sem sérhæfir sig í umhverfisvænni orku.
  • Novator er einnig nafn skips sem nú er statt undan strönd Norður-Noregs.  Hér má sjá hvar það er á hverri stundu.
  • Novator mun einnig vera nafn á krossviðarverksmiðju í Vologda héraði í Rússlandi, samkvæmt þessari vefsíðu.
  • Novator.nu er í eigu fyrirtækis sem virðist sérhæfa sig í að búa til göt.

Ætli það hafi aldrei orðið ruglingur vegna þessa?


mbl.is Novator selur 65% hlut í búlgörsku fjarskiptafélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver seldi fálkaorðuna?

falkaordaUndanfarið hefur fálkaorða verið til sölu á eBay.  Þetta er að sjálfsögðu óeðlilegt - það er ætlast til að svona orðum sé skilað inn við andát þess sem fékk orðuna.

Það sem veldur Púkanum hins vegar heilabrotum er spurningin um hver átti þessa orðu.

Á ljósmyndinni sem fylgir af afhendingarskjalinu er greinilegt að um stórkross er að ræða, veittur af Vigdísi Finnbogadóttur, og ártalið er 1990 að því er virðist.

Spurningin er hver viðtakandinn er - Púkinn getur hreinlega ekki lesið það, en sýnst vera um "Dr. Gerhard ....... sendiherra" að ræða, en textinn er nokkuð óskýr.

Ekki reyndist mikið gagn að vefnum í þessu tilviki, a.m.k. fann Púkinn ekki upplýsingar um orðuveitingar fyrir 1996, en ef til vill er einhver sem sér hvaða orða það er sem verið er að selja.

falkaorda2


Kristilegt klám

sex_in_christStundum rekst Púkinn á undarlegar bandarískar vefsíður.  Síður sem eru þess eðlis að hann getur ekki annað en hrist höfuðið, og verið feginn að þrátt fyrir að íslenskt þjóðfélag sé (því miður) stöðugt að líkjast því bandaríska mekra og meira, þá eigum við enn alllangt í land með að ná þeim í vitleysisgangi.

Bandaríkjamenn framleiða víst meira af klámefni en nokkur önnur þjóð en þeir eru líka sú vestræna þjóð sem tekur trúmál hvað alvarlegast.  Það er því ef til vill ekki undarlegt að upp komi spurningar um kristilegt klám, eða réttara sagt, hvaða skilyrði klámefni þurfi að uppfylla til að teljast kristilegt.

Þessi vefsíða svarar þeirri spurningu.

Jamm, jamm og jæja - enn einn moli af upplýsingum sem ég þurfti virkilega ekki að vita.


Sorglegt mál

Það er ljóst að í máli þessa fimmtán ára pilts hefur eitthvað brugðist.  Nú þekkir Púkinn ekkert til þessa máls, þannig að hann veit ekki hverjar orsakirnar eru fyrir því að hann leiðist út í fíkniefnaneyslu og glæpi, en þær geta auðvitað verið margar - erfðir, fjölskylduaðstæður, uppeldi, ofbeldi eða bara slæmur félagsskapur.

Eftur stendur unglingur sem er á góðri leið með að eyðileggja líf sitt og er orðinn hættulegur samfélaginu.  Hver verður framtíð hans - mun hann eyða stærstum hluta ævi sinnar innan rimla og eyða þeim tíma sem hann dvelur utan fangelsis í heimi eiturlyfja og afbrota?  Eða, er á einhvern hátt unnt að koma honum á rétta braut?

Púkinn getur nú ekki annað en velt því fyrir sér hvort þessi ákveðni einstaklingur sé einn þeirra sem verið hefur á biðlistum á ýmsum stöðum í kerfinu stóran hluta æfi sinnar, en sé svo er ljóst að "kerfið" ber einhvern hluta ábyrgðarinnar á því hvernig komið er.

Aðgerða er þörf til að koma í veg fyrir að svona vandamálum fjölgi, en þær aðgerðir kosta pening, sem ekki virðist alltaf liggja á lausu.  Við erum víst svo blönk í þessu þjóðfélagi....eða þannig.


mbl.is Unglingur í gæsluvarðhald á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband