Púkinn og þjóðsöngurinn

Púkinn er ekki sáttur við þjóðsönginn og ef hann lendir í þeim ósköpum að vera þar sem ætlast er til að þjóðsöngurinn sé sunginn, þá þegir Púkinn sem fastast.

Þetta er ekki bara af því að þjóðsöngurinn er illsyngjanlegur fyrir fólk með venjulegt raddsvið, heldur bara einhverja söngelítu sem nær öllum þeim tónum sem þarf að ná. Nei, það er allt annað sem gerir það að verkum að Púkinn þegir.

Þjóðsöngvar eiga að mati Púkans að vera sameiningartákn viðkomandi þjóðar, en sá íslenski nær því bara ekki - hann er ekki þjóðernis- eða þjóðræknislegur á nokkurn hátt. Þetta er lofsöngur til guðs kristinna manna.  Púkinn er ekki í þeim hópi.

Hvernig er ætlast til að tríleysingjar og þeir sem ekki telja sig kristna geti með góðri samvisku tekið undir frasa eins og "..sem tilbiður guð sinn..", ".. guð faðir, vor drottinn, frá kyni til kyns.."eða "..sem þroskast á guðsríkis braut." ?

"Ísland ögrum skorið" er þó illskárra, því þrátt fyrir trúarlegt ívaf er sá texti að minnsta kosti um Ísland, en helst myndi Púkinn nú vilja sjá eitthvað eins og ´"Island er land þitt" - þjóðsöng fyrir alla.


Ekki auðvelt að vera drottning

Ferð Elísabetar Bretlandsdrottningar til Bandaríkjanna byrjaði ekki vel.  Til að byrja með þá er að sjálfsögðu ekki ásættanlegt að drottning gangi inn um rana eins og hver önnur almúgamanneskja.  Nei, hún verður að fara niður tröppur, svo hún geti gengið eftir rauða dreglinum.

Hvað gæti farið úrskeiðis?

Þeir hafa væntanlega verið farnir að svitna flugvallarstarfsmennirnir þegar þeir uppgötvuðu að tröppurnar sem rúllað var út til flugvélar Elísabetar voru ... tja - aðeins of lágar, eins og sjá má á myndinni.

Það átti hins vegar eftir að versna.

Þegar búið var að leggja rauða dregilinn uppgötvuðu menn að dregillinn var 5 metrum of stuttur.

Neyðarástand!

Drottningin þurfti því að bíða 20 vandræðalegar mínútur um borðí vélinni meðan framlenging á dregilinn var sótt.

Jamm.   Það hefur sína galla að vera drottning.


Enn um ofurkrónuna

Púkinn á bágt með að skilja hvers vegna ekkert heyrist í talsmönnum útflutnings- og ferðaþjónustufyrirtækja vegna stöðugrar styrkingar krónunnar.  Árið 2005 var mörgum þessara fyrirtækja erfitt, þegar undir 60 krónur fengust fyrir hvern dollara, en 2006 sýndust hlutirnir vera að stefna til betri vegar.

Nú er krónan hins vegar stöðugt að styrkjast, þannig að staða þessara fyrirtækja ætti að fara versnandi, en ekki heyrist eitt einasta hljóð frá þeim - hvað er á seyði - hafa Íslendingar týnt niður listinni að kvarta?

Púkanum finnst hann vera voðalega einmanna að barma sér yfir þeim áfrifum sem ofurkrónan og ofurvextirnir hafa á þau íslensk fyrirtæki sem byggja starfsemi sína á skapa gjaldeyristekjur með því að flytja út þjónustu og hugvit, þegar öllum öðrum virðist standa á sama.


mbl.is Krónan styrkist enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Púkinn áhrifavaldur?

Púkanum þótti athyglivert að lesa hverjir væru skilgreindir áhrifavaldar í þessari könnun.  Púkinn er nefnilega háskólamenntaður einstaklingur á aldrinum 35-64 ára, sem fylgist með fjölmiðlum og hefur heildartekjur yfir 400.000 á mánuði, þannig að samkvæmt þessu er Púkinn skilgreindur áhrifavaldur.

Það er einmitt það, já.

Púkinn myndi nú reyndar varla vilja skilgreina sjálfan sig sem áhrifavald - enda eru áhrif hans takmörkuð utan heimilisins og þess fyrirtækis sem hann starfar í.  Þegar Púkinn fór að hugleiða yfir hverjum hann hefði mest áhrif var niðurstaðan reyndar sú að áhrif Púkans væru mest gagnvart hundinum hans, en hann virðist telja Púkann vera það stærsta og mikilvægasta í sinni tilveru.

Voff, voff.


mbl.is Treysta ríkisstjórninni betur en viðskiptalífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frumlegasta farartækið?

jetlooMannfólkið virðist stundum hafa þörf á að gera hluti bara af því að þeir eru skrýtnir - sumir vilja vekja svolitla athygli og fá sínar fimm mínutur af frægð.

Paul Stender er einn af þessum, en hann vakti nýlega athygli með því að smíða hraðskreiðasta útikamar í heimi.

Kamarinn notar 1000 hestafla túrbínu frá Boeing og standa eldtungurnar 10 metra aftur úr honum þegar hann er á ferð, en hámarkshraðinn er rúmlega 100 km/klst þannig að hann nær ekki hámarkshraða þessa fararækis.

Paul tekur fram að hann hafi upphaflega haft rúllu af salernispappír inni á kamrinum, en hætti því, þar sem blöðin vildu sogast inn í loftinntakið - sem hefði getað verið hættulegt.

Þetta er væntanlega útikamar fyrir þotuliðið...eða hvað?


Byrgið - þreytt mál

byrgid_gudmundurPúkinn var að velta fyrir sér hver hinn raunverulegi Byrgisskandall væri eiginlega og spurningunni um ábyrgð.

Það myndi ekki koma Púkanum svo voðalega á óvart þótt saksóknari myndi leggja áherslu á hvernig farið var með féð og kæra yrði lögð fram vegna fjárdráttar, enda er auðveldast að sanna slíkt

Mannlegi harmleikurinn, meint misnotkun og samband vistmanna og starfsmanna mun fá minna vægi, ef nokkuð.

Ábyrgð eftirlitsaðila mun gleymast með öllu og hlutur þeirra sem héldu áfram að moka pening í Byrgið eftir að viðvörunarbjöllur hefðu átt að vera farnar að hringja.

Annars finnst Púkanum þetta mál vera orðið þreytt - þjóðin velti sér upp úr því um tíma, en nú eru væntanlega flestir orðnir leiðir - þetta er ekki forsíðumatur lengur, síst af öllu svona rétt fyrir kosningar.


mbl.is Byrgisrannsókn lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afrit...afrit....afrit!

BackupRecoveryÁ þeim 27 árum sem eru liðin frá því að Púkinn komst fyrst í kynni við tölvur hefur honum tekist að týna miklu magni af gögnum.  Gögnum sem ekki væru týnd ef afritunarmál hefðu alltaf verið í góðu lagi - en þótt þau séu í lagi í dag, hefur það ekki alltaf verið þannig.

Púkinn hefur einnig lent í því að reyna að bjarga fólki sem hefur lent í hremmingum eins og að uppgötva að eina eintakið af lokaritgerðinni þeirra var týnt, nokkrum dögum áður en skilafrestur rann út.

Með tilliti til þeirrar reynslu sem Púkinn hefur í að týna (og bjarga) gögnum, ætlar hann að leyfa sér að prédika ofurlítið um afrit og afritatöku.

  • Afrit er lítils virði ef það er geymt á sama stað og upphaflegu gögnin.  Til hvers að taka afrit af skrá og geyma hana annars staðar á harða diskinum?  Ef diskurinn bilar er sennilegt að afritið týnist líka.  Sama á við ef afrit af mikilvægum gögnum er t.d. tekið á DVD disk og hann geymdur í sömu tösku og ferðatölvan - ef tölvunni er stolið er ósennilegt að þjófurinn sé það tillitssamur að hann skilji afritið eftir.
  • Afrit er einskis virði ef það er ekki í lagi. Það er nauðsynlegt að athuga afrit öðru hverju, sækja eina og eina skrá úr því og ganga úr skugga um að þær hafi verið rétt afritaðar.
  • Afrit er einskis virði, nema það sé tekið af réttum hlutum.  Það er til dæmis gagnslaust að eiga afrit af mikilvægum skrám, dulkóðuðum með PGP ef ekkert afrit er til af PGP lyklinum.
  • Afrit er lítils virði ef það er úrelt.  Sumar skrár úreldast aldrei, svo sem stafrænar ljósmyndir, en öðrum er breytt daglega.  Sé afritið of gamalt, miðað við úreldingartíma skráarinnar, er það oft ónothæft.

mbl.is Týndu tímaritinu við hrun tölvukerfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð sagði mér að gera það....

godtoldmetoÍ gegnum tíðina hafa ýmsir notað afsökunina "Guð sagði mér að gera það" til að útskýra hegðun sem öðrum finnst undarleg, órökrétt eða jafnvel glæpsamleg.

George W. Bush sagði að Guð hefði sagt sér að koma Saddam frá völdum í Írak.

Ísraelsmenn Gamla Testamentisins notuðu sömu afsökun fyrir þeim þjóðernishreinsunum sem þeir beittu þegar þeir voru að leggja undir sig "fyrirheitna landið".

Margir fjöldamorðingar hafa einnig gefið sömu ástæðu fyrir verkum sínum og það sama hafa nokkrir leiðtogar sértrúarsafnaða gert þegar þeir hafa stýrt hópsjálfsmorðum safnaðarmeðlima.

Núna nýlega bættist Ronnie Turner í þann hóp sem notaði þessa afsökun.  Og hvað var það sem Guð sagði honum að gera?  Jú, að festa poka með marijúana við róðuþurrkur bíla, meðan eigendurnir voru við messu. 

Hvor skyldi nú hafa gert meiri skaða með því að fara eftir þessum ímynduðu fyrirmælum...hann eða Bush?


Hærri hiti - fleiri meindýr

Margvísleg óþægindi fylgja hlýnandi veðurfari undanfarinna ára.  Í þetta sinn er Púkinn ekki að hugsa um óþægindi skíðafólks á suðvesturhorninu vegna lokunar skíðasvæða, heldur þau óþægindi sem garðræktendur verða fyrir vegna þess að ýmis meindýr eiga nú möguleika á því að lifa af veturinn á Íslandi og fjölga sér.

Spánarsnigillinn sem myndin hér er af er eitt þessara meindýra, en hlýir vetur hafa líka gert það að verkum að grenilúsin þrífst vel, eins og sjá má á fjölda brúnna grenitrjáa á höfuðborgarsvæðinu.

Reyndar - fátt er svo með öllu illt ... ýmsar fuglategundir hafa einnig náð fótfestu vegna hlýnandi veðurs og grenilúsin mun víst vera á matseðli sumra þeirra - en því miður vill víst ekkert dýr éta Spánarsnigilinn.

Það eru hins vegar önnur jákvæðari áhrif fyrir áhugafólk um gróður og garðrækt - með hlýnandi veðurfari verður auðveldara að rækta ýmislegt eins og epla- og kirsuberjatré.  Munum við með þessu áframhaldi ef till vill sjá eikarskóga á Íslandi?


mbl.is Ekki verið heitara í Danmörku frá því á víkingaöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1. maí - tímaskekkja?

red-flagÁrið 1886 var 1. maí gangan haldin í fyrsta skipti.  Það var í Chicago, en þar voru verkamenn að krefjast átta stunda vinnudags - krafa sem ekki náði fyllilega fram að ganga fyrr en 1938 þar í landi.  Já, þetta var tími kúgaðs og undirokaðs verkalýðs.

Í dag virðist hins vegar skortur á verkalýð í 1. maí göngum.  Nú er Púkinn ekki að segja að allir hafi það afbragðsgott, eins og sumir pólitíkusar vilja meina - nei, það eru hópar sem hafa það virkilega skítt og kröfum þess fólks er haldið á lofti í 1. maí göngunni.

Menn vekja athygli á gloppunum í velferðarkerfinu og því hvernig aldraðir og öryrkjar verða út undan, en göturnar eru ekki fullar af verkafólki - þeim sem "áttu" 1. maí gönguna í upphafi.  Það sjást femínistar við hlið þroskaheftra, ásamt einstaka NATO-andstæðingum, en hvar er hinn kúgaði verkalýður?  Er hann ekki til lengur?

Er 1. maí gjörsamlega búinn að glata hinum upphaflega tilgangi sínum og orðinn að almennum umkvörtunardegi þeirra sem hafa það ekki alveg nógu gott, meðan kúgaði verkalýðurinn samanstendur af innfluttum verkamönnum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband