Teiknimyndasögur fyrir alla

FCBD_07_BongoÞað ríkja ekki sömu viðhorf til myndasögublaða á Íslandi eins og í Japan, þar sem þær eru vinsælt lestrarefni meðal allra aldurshópa, en hér á landi virðast vinsældirnar takmarkaðri við yngri aldurshópa.

Séu þau blöð sem verða í boði í Nexus hins vegar þau sömu og þau sem eru í boði í Bandaríkjunum (sjá hér), þá er þar á meðal ýmislegt efni sem ætti að höfða til víðari hóps. 

Púkinn á sjálfur reyndar oft leið í Nexus - ekki vegna teiknimyndasagnanna, heldur vegna bóka ("Fantasy" og "Science Fiction") og spila, en Nexus býður upp á mikið úrval borðspila og handbóka fyrir alls kyns hlutverkaleiki.

Með öðrum orðum - góð búð - gott mál. 


mbl.is Jóakim aðalönd gefins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðfræðilegar rannsóknir?

atheist-ghost-buster.thumbnailPúkinn á ofurlítið bágt með að skilja eðli guðfræðilegra rannsókna.  Gott og blessað ef rannsóknirnar byggja á einhverju áþreifanlegu, svo sem samamburði á gömlum handritabrotum, en hvernig "rannsóknir" geta leitt eitthvað í ljós um tilvist Limbo er Púkanum hulin ráðgáta.  

Menn myndu hlæja sig máttlaus ef út kæmi niðurstaða eftir áratuga rannsóknir á jólasveinunum og fjölskyldu þeirra þar sem komist væri að þeirri niðurstöðu að í rauninni borðaði Grýla ekki óþekk börn - nún bara lokaði þau inni.

Að nota orðið "rannsóknir" yfir svona kjaftæði jaðrar við að vera móðgun gagnvart öllum þeim vísindamönnum sem stunda raunverulegar rannsóknir á raunverulegum fyrirbærum.

Púkanum stendur reyndar rétt á sama um vandræðaganginn hjá Vatíkaninu, enda er hann ekki kristinn, hvað þá kaþólskur.

Það er hins vegar von Púkans að svona umræða verði til að vekja einhverja til umhugsunar um á hversu veikum fótum öll trúarbrögð heims standa í raun - ef einhverjir fara að hugsa sjálfstætt í staðinn fyrir að taka mark á árþúsunda gömlum skáldsögum er það gott mál.


mbl.is Óskírð börn ekki lengur í forgarði vítis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir jafnir fyrir lögunum?

Enn einu sinni eru Íslendingar minntir á að ekki eru allir jafnir fyrir okkar lögum.  Nú ma vel vera að einhverjar málefnalegar ástæður hafi verið fyrir þessari undantekningu, þegar umræddri stúlku var veittur ríkisborgararéttur, en Púkanum finnst undarleg lykt af þessu máli.

Þetta er sérstaklega undarlegt þegar hugsað er um 24-ára regluna, sem hefur hreinlega verið beitt til að stía fjölskyldum í sundur, en í þessu tilviki er tekið allt öðruvísi á málunum.  Púkinn vill þó taka fram að hann hefur ekkert á móti umræddri stúlku - þekkir hana ekkert og þetta er vafalaust ágætis manneskja, hvort sem hún er tilvonandi tengdadóttir Jónínu eða ekki.

Púkanum finnst bara að þegar gerð er undantekning frá 7-ára reglunni beri mönnum skylda til að gera grein fyrir ástæðunum.  Það er í sjálfu sér ekkrt nýtt að gerðar séu undantekningar frá þessari reglu - það hefur til dæmis verið gert svo tilteknir erlendir leikmenn gætu leikið með íslenska landsliðinu - það eru e.t.v. ekki allir sáttir við þá undantekningu, en það eru að minnsta kosti rök.

Hér eru engin rök - engin skýring, og þess vegna túlkar þjóðin þetta sem enn eitt dæmið um spillinguna. 

Flokkurinn hennar Jónínu ætlar nú væntanlega að reyna að þegja þetta mál í hel og vonast til að kjósendur verði búnir að gleyma þessu öllu á kosningadag.  Væntanlega verður þeim að ósk sinni, enda virðist minni kjósenda verulega lélegt.


mbl.is Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syngjandi salerni

Salernamenning Japana er svolítið sérstök.  Margir kannast við salerni með innbyggðum þvottabúnaði, sem senda vatnsbunu upp í loftið þegar notkun er lokið, enda hafa þau verið fáanleg hérlendis.

Japanska fyrirtækið Inax hefur hins vegar nýlega framleitt salerni með ýmsum athygliverðum nýjungum. 

Það á meðal má nefna upplýsta skál (mynd D), væntanlega til þess að karlmenn eigi auðveldara með að nota salernið í myrkri.

Að auki inniheldur salernið stereo-hátalara og MP3 spilara, sem kemur forhlaðinn með tónlist eftir Bach, Chopin og Mendelsohn (mynd A),

Einnig er sjálfvirkur setulyftibúnaður (mynd C).

Það sem Púkinn skilur hins vegar ekki er mynd B, en hún hlýtur að túlkast sem svo að salernið sé sérlega æluvænt.  Ætli einhverjum verði flökurt meðan þeir hlusta á Bach og gera sín stykki í upplýsta skál? 


Að búa til betra blogg

blogÁ þeim tíma sem Púkinn hefur verið hér á blog.is, hefur hann rekið augun í nokkra hluti sem mætti lagfæra að hans mati.

Það má vera að ekki séu allir sammála, en vonandi komast einhverjar þessara ábendinga til skila.

Hverjar eru svo tillögurnar?

Skoðum fyrst bloggelítuna, en það er hinn handvaldi hópur 50-60 einstaklinga sem lenda í "Umræðunni".  Þar eru margir góðir pennar, málefnalegir og skemmtilegir, en að sumu leyti er svolítið einhæft að sjá alltaf sömu einstaklingunum hampað á þennan hátt.  Það mætti að skaðlausu stækka hópinn og auka þannig fjölbreytnina.

Í öðru lagi eru það bloggflokkarnir, en það mætti gjarnan endurskoða þá svolítið - Púkinn saknar þess að sjá  ekki flokk eins og "Verslun og viðskipti" til dæmis.

Í þriðja lagi er það misnotkun fólks á aukaflokkakerfinu.  Það eru allt of margir sem hafa þann leiða ávana að troða greinum sínum í flokka þar sem þær eiga alls ekki heima, og "ýta" þannig burt greinum þeirra sem reyna að sýna almenna kurteisi.  Það er í raun engin ástæða til að leyfa meira en 2-3 aukaflokka. 


Undirstöðuatvinnugreinar framtíðarinnar

yuppie beachVel launuð störf sem krefjast góðrar menntunar - það er það sem Púkinn vill sjá, en þó eru nokkrir gallar á gjöf Njarðar.

Púkanum þótti jákvætt að heyra að 19.9% telja upplýsinga- og hugbúnaðariðnaðinn vænlegan til að verða drifkraftur atvinnulífsins á næstu áratugum.  Það væri gaman ef þetta yrði raunin, en Púkinn hefur sínar efasemdir.  Hinn öri vöxtur fjármálageirans hefur nefnilega valdið nokkurri röskun í hugbúnaðargeiranum.

Vandamálið er að íslenska menntakerfið er ekki að skila þeim fjölda sem þyrfti til að viðhalda vextinum í þessum greinum, þannig að allnokkur samkeppni er nú þegar um starfsmenn og það ástand virðist ekki fara batnandi.

Til að þær atvinnugreinar sem byggja á hugviti og menntun geti fengið nægjanlega marga hæfa einstaklinga út úr skólakerfinu þarf að bæta ýmislegt, sér í lagi á neðri skólastigum, en það er efni í annan pistil.

Hvað efni fréttarinnar varðar, þá óskar Púkinn fjármálafyrirtækjunum til hamingju með góðan árangur, en viðhorf VG til þeirra er nú ein ástæða þess að "hægri-grænir" eins og Púkinn geta ekki með góðri samvisku stutt VG.  Það er nefnilega ekkert að því að vera grænn en styðja samtímis uppbyggingu kerfis sem leyfir duglegum mönnum að græða.


mbl.is Yfir þúsund störf urðu til í fjármálastarfsemi á síðasta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cantat - loksins

fiberopticPúkinn fagnar því að Cantat skuli nú loksins vera kominn aftur í lag.

Léttir Púkans er sjálfsagt meiri en flestra (sem fólk ætti að skilja ef það athugar höfundarupplýsingarnar til að sjá hver stendur á bak við Púkann) því fyrirtæki Púkans byggir jú á því að geta dreift gögnum fljótt og vel yfir Netið.

Meðan Cantat hefur verið bilaður, hefur öll umferðin farið í gegnum FarIce strenginn, sem hefur nú ekki verið til fyrirmyndar hvað bilanir snertir, þannig að síðustu 4 mánuðina hefur Púkinn haft af því verulegar áhyggjur að þessar sæstrengsbilanir gætu kippt fótunum undan fyrirtæki hans.

Eftir sem áður er staðan sú að Cantat er kominn til ára sinna og Teleglobe fyrirtækið er ekki það besta og áreiðanlegasta í þessum geira.

Það eru uppi fyrirætlanir um nýjan streng til Evrópu, en þegar Cantat verður aflagður þá munum við vera í þeirri stöðu að hafa enga beina tengingu vestur um haf.

Það lítur ekki vel út því ef einhverjir ætla að reyna að markaðssetja Ísland sem vænlegan kost til hýsingar á netþjónabúum, þá er hætta á að þeir verði hreinlega ekki teknir alvarlega miðað við núverandi stöðu mála.

Við værum betur sett ef sá kostur hefði verið valinn að leggja streng í suður til að tengjast Hibernia strengnum sem liggur þvert yfir hafið, en Púkanum skilst að Síminn hafi verið því mótfallinn, enda hefur hann lagt í verulegan kostnað við hafsbotnsathuganir annars staðar.

Púkinn vill að lokum lýsa þeirri skoðun sinni að skeytingaleysi varðandi sæstrengina lýsir því betur en margt annað hversu lítið er að marka orð stjórnmálamanna um upplýsingaþjóðfélag.  Ef þeir vilja ekki byggja upp undirstöður slíks þjóðfégs mun það aldrei verða að veruleika.

Nei, þá er nú betra að þeirra mati að byggja nokkur Héðinsfjarðargöng. 


mbl.is Viðgerð á CANTAT-3 sæstrengnum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjársvikamál?

lamb"Dvergpúðlur til sölu, aðeins 80.000 krónur". Dvergpúðlur eru vinsælar í Japan, og þegar þær voru boðnar til sölu nýverið á um helmingi venjulegs markaðsverðs stukku þúsundir kvenna til og keyptu sér púðlu.

Eða þannig.....

Sumum kaupandanna fannst að vísu svolítið skrýtið að nýju púðlurnar þeirra fúlsuðu við hundamat, en það var ekki fyrr en japanska kvikmyndastjarnan Maiko Kawakami lýsti þeim vandræðum í spjallþætti í sjónvarpinu og sýndi mynd af púðlunni sinni að sannleikurinn kom í ljós.

Þetta voru nefnilega lömb. 

Já, lömb.  Þau eru nefnilega mjög sjaldgæf í Japan og margir Japanir vita ekki nákvæmlega hvernig þau líta út.

Þetta kallar maður víst fjársvikamál, eða hvað?


Korter-fyrir-kosningar undirritun

Púkinn er í sjálfu sér hlynntur því að samfélagið greiði stærri hluta af tannlækniskostnaði barna - tannheilsa barna á ekki að gjalda fyrir það að foreldrar hafi ekki ráð á að senda börnin til tannlæknis.  Það er reyndar spurning hvort ekki verði áfram einhverjir hirðulausir og óábyrgir foreldrar, sem ekki senda börnin í tannskoðun fyrr en allt er komið í óefni, en svona er það nú eftir að gamla kerfið með skólatannlækningar var aflagt.

Hins vegar finnst Púkanum nú óttaleg kosningalykt af þessu máli - eins og Siv sé að reyna að slá eitt af vopnunum úr höndum Samfylkingarinnar - það er eins og beðið hafi verið með þessa breytingu fram á síðustu stundu.

Það er reyndar spurning hvort Siv sé ekki næstum vanhæf til að koma að þessu máli, þar sem faðir hennar og systir eru tannlæknar og hagnast ef til vill því beint á auknum viðskiptum, en Púkinn ætlar ekki að fara út í þá sálma.

Hitt er síðan allt annað mál, að þeir sem barma sér yfir háum tannlæknakostnaði barna geta oft sjálfum sér um kennt - fólk á að vita að það að leyfa ungum börnum að drekka sykraða gosdrykki er ekkert annað en ávísun á tannskemmdir.  Nei, fólk getur sparað pening með því að reyna að halda börnunum frá gosdrykkjunum, sem einnig mun þýða lægri tannlæknareikninga í framtíðinni.


mbl.is Reglugerð undirrituð um aukinn þátt í tannlæknakostnaði fatlaðra og langveikra barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snoop Dogg - fyrir ári síðan

Í dag, 26. apríl er slétt ár síðan hann var handtekinn á Heathrow flugvelli vegna óláta, þegar honum var meinaður aðgangur að VIP-stofu þar.  

Sjö lögreglumenn slösuðust í sklagsmálunum, en síðan þá hefur honum verið bannað að koma til Bretlands og sömuleiðis er hann á svörtum lista hjá British Airways.

Með þessu áframhaldi fer ferðamöguleikum hans væntanlega að fækka verulega.

Púkanum stendur rétt svo á sama - tónlist þessa manns er nokkuð sem hann hlustar ekki á ótilneyddur og fólk sem hagar sér eins og erki-hálfvitar verður bara að taka afleiðingum gjörða sinna.  Svo einfalt er það.


mbl.is Snoop Dogg óvelkominn til Ástralíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband