10.000 heimsóknir - takk

Púkinn hefur nú haldið til hér á blog.is í rúman mánuð og í gær fékk hann tíuþúsundustu heimsóknina, sem þýðir að meðaltali um 300 heimsóknir á dag á þessum tíma.

Púkinn vonar að fólk hafi gaman af skrifum hans um hið skrýtna í mannlegri tilveru, en núna er við hæfi að þakka fyrir áhugann.

Kærar þakkir, öll sömul.


Gott hjá tryggingafélaginu

Púkinn hefur margítrekað þá skoðun sína að fólk verði að taka ábyrgð á gerðum sínum og taka afleiðingunum.  Bíleigendur bera almennt ábyrgð á því hverjir aka bílum þeirra og í þessu tilviki er ljóst að bíleigandinn leyfði manni að aka bílnum sem ekki var þess trausts verður.

Púkinn á reyndar hreinlega bágt með að skilja rök þeirra sem vilja meina að tryggingarfélagið hefði átt að bæta skaðann, ekki nema þá þeir telji að kaskótryggingin fela líka í sér einhverja afglapatryggingu eigandans og að tryggingafélagið ætti síðan að endurkrefja ökumanninn um greiðslu tjónsins.

Sökin fellur á þá báða - eigandann sem sýndi það dómgreindarleysi að leyfa bróður sínum að nota bílinn og bróðurinn sem sýndi það dómgreindarleysi að aka ölvaður.  Leyfum þeim að jafna þetta sín á milli.  Tryggingarfélagið á ekki að bæta fyrir svona afglöp. 


mbl.is Fær ekki greidda kaskótryggingu vegna ölvunar ökumanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruðl dagsins - snobbskyndibiti

1000-pizza_12Pítsur eru fljótlegur og frekar ódýr matur, ekki satt?  Ef matseðillinn hjá Nino's Bellisima í New York má sjá þar pítsu með sýrðum rjóma, graslauk, humar, laxahrognum, wasabi  og fjórum tegundum af kavíar.

Verðið er "aðeins" 1000 dollarar, eða 250 dollarar fyrir hverja sneið.

Púkinn fær sér reyndar mjög oft pítsu, en af einhverjum ástæðum höfðar þessi ekki til hans - og það er ekki bara vegna verðmiðans?

Þetta er reyndar ekki dýrasta pítsa heims.  Sú er næstum fjórum sinnum dýrari, en það er væntanlega út af gullflögunum sem er sáldrað yfir hana.   Eins og Púkinn hefur minnst á áður er gull leyfilegt bætiefni í mat, með sitt eigið E númer.


Gengissveiflur ofurkrónunnar

kronurTilfinningar Púkans til íslensku krónunnar eru nokkuð blendnar - svona eins og "love-hate relationship" milli fólks sem getur stundum ekki slitið sig hvort frá öðru, en öskrar á hvort annað þess á milli.

Síðustu árin hefur sambandið hins vegar verið á hraðri niðurleið.  Tekjur fyrirtækis Púkans eru að langmestu leyti í erlendum gjaldmiðli, en útgjöldin í íslenskum krónum.  Þetta setur ákveðinn þrýsting á sambandið þegar krónan er of sterk, þannig að Púkinn fær færri krónur fyrir hverja evru eða dollara.  Það er þó ekki endilega stærsta vandamálið.

Nei, stærsta vandamálið eru sveiflur krónunnar - þær gera allar áætlanir mun erfiðari en ella.  Hvernig í ósköpunum eiga útflutningsfyrirtæki að geta unnið í svona umhverfi? 

Og núna er manni sagt að búast við meiri sveiflum.  Úff. 

Púkinn vorkennir reyndar aumingja Seðlabankanum, sem veit vel að ofurkrónan er hægt og rólega að murka lífið úr útflutningsfyrirtækjunum og hrekja störf úr landi.  Hátt vaxtastig heldur krónunni uppi, en ef Seðlabankinn lækkar það er hætta á verulegu útstreymi gjaldeyris ef útgefendeur jöklabréfanna taka að ókyrrast - það gæti síðan valdið snörpu gengisfalli með verðbólguskoti eftir á.

Nei, það er ekki gaman að vera seðlabankastjóri í dag - sama hvað þeir gera eru þeir skammaðir. 


mbl.is Skiljanlegar áhyggjur en tóninn of neikvæður segir Landsbankinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

American Idol - "vote for the worst"

simonseacrestPúkinn horfir á American Idol í hverri viku. Púkinn hefur sömuleiðis horft á bresku X-Factor þættina frá upphafi.  Hvað íslensku útgáfurnar af þessum þáttum varðar, þá verður Púkinn hins vegar að viðurkenna að áhugi hans nær ekki svo langt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.  Málið er nefnilega það að stór hluti af aðdráttaraflinu sem þessir þættir hafa byggir á dómurunum.

Hvort þessi meinta spenna milli Simon og Ryan er raunveruleg eða bara leikin er síðan annað mál.  Þessir þættir eru jú framleiddir sem skemmtiefni fyrst og fremst og hluti af því að skapa þeim vinsældir er að skapa umtal.  Sama á við um þróunaraðstoðarferð Simon og Ryan til Afríku - kannski er Púkinn bara skeptískur að eðlisfari en hann er ekki sannfærður um að 100% einlægni liggi þar á bakvið.

Hvað um það, þetta er skemmtilegt sjónvarpsefni, en hvers vegna vill Púkinn ekki horfa á íslnsku útgáfuna?

Jú, dómararnir verða nefnilega sjálfir að hafa "X-faktorinn" - þetta óskilgreinanlega "eitthvað" sem virkar eins og segull á fólk.  Simon hefur þennan X-Faktor og sömuleiðis hinir dómararnir, bæði í American Idol og bresku X-factor þáttunum.  Hér á Íslandi - tja ... jú Páll Óskar hefur þetta, en það er bara ekki nóg.   Þess vegna horfir Púkinn ekki á íslensku þættina.

Reyndar vildi Púkinn minnast á annað þessu tengt.  Vefsíðan votefortheworst.com  rekur harða baráttu fyrir því að kjósendur kjósi lélegasta keppandann í hverri viku, og stæra þeir sig af því að aðstoða við að halda Sanjaya Malakar inni meðan aðrir hæfari keppendur eru sendir heim.

Púkinn veit ekki til þess að sambærilegar vefsíður séu hér á landi, en kannski er þeirra ekki þörf?


mbl.is Svívirðingar í American Idol
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruðl dagsins - lausn á hækkandi sjávarmáli

subÍ gær ræddi púkinn um vandamál vegna hækkandi sjávarborðs.  Í dag kynnir Púkinn hins vegar lausn á því máli.

Eða...ja, ef til vill frekar lausn á því vandamáli hvernig á að komast leiðar sinnar þegar allt er komið á kaf.

Fyrirtæki í Hollandi hefur hafið framleiðslu á einkakafbátum, sem eru fáanlegir í eins eða tveggja sæta útgáfum.

Kafbátarnir eru rafdrifnir og geta verið nokkrar klukkustundir í kafi.  Púkanum tókst hins vegar ekki að finna verðið á kafbátunum, en gerir ráð fyrir því að hér gildi almenna reglan um svona lúxusvarning:

"Ef þú þarft að spyrja um verðið, þá er þetta ekki fyrir þig" 

Reyndar verður Púkinn að viðurkenna að það gæti sjálfsagt verið gaman að ferðast um Þingvallavatn í einum svona. 


Blúbb, blúbb í bílakjallaranum

ManhattanFlooded(bl)Nýlegar fréttir um flóð í bílakjöllurum vöktu Púkann til umhugsunar um möguleika á flóðum vegna hækkunar sjávarmáls.

Í því sambandi varð Púkanum hugsað til fyrirætlana um byggð á landfyllingum og þau vandræði sem almennt geta skapast við sjávarsíðuna ef saman fer hækkandi sjavarborð, stórsteymi og "röng" vindátt.  Hætt er við að fréttir af flóðum í bílakjöllurum verði þá algengari.

Til lengri tíma litið er auðvitað hrein heimska að búa alveg við sjóinn og það vita þeir sem ætla að byggja í Örfirisey mæta vel...en eftir nokkra áratugi verður það ekki þeirra vandamál.  Þangað til verða kaupendurnir bara að fara eftir "the greater fool theory" - sama hversu kaupin eru heimskuleg - þú getur sennilega fundið einhvern sem er enn heimskari en þú til að kaupa af þér...

...þangað til menn þurfa árabát til að komast að útidyrunum. 


Tölvuleikir fyrir fullorðna

philips-gaming-peripherals_12Verður fólk einhvern tímann of gamalt til að leika sér, eða breytast leikirnir bara eftir því sem fólk eldist?

Tölvuleikir eru óneitanlega vinsælir meðal margra barna og unglinga og þær niðurstöður að stór hluti fullorðinna spili tölvuleiki koma Púkanum ekki á óvart, síður en svo.

Vinnustaður Púkans er hugbúnaðarfyrirtæki og margir vina hans og kunningja eru menntaðir á því sviði, þannig að sá úrtakshópur er tæplega marktækur, en hlutfall tölvuleikjaspilara þar er mun hærra en 37%.  Púkinn sjálfur hefur spilað tölvuleiki af einhverjum tegundum  síðustu 30 árin, og á ekki von á að það breytist á næstunni.


mbl.is Tölvuleikir ekki lengur bara fyrir börn og unglinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruðl dagsins - það er gaman í baði

tv-bathtub_12Eins og Púkinn sagði frá í gær, mun hann reglulega benda íslenskum bruðlurum og öðrum áhugasömum á margvíslegan skemmtilegan óþarfa.

Óþarfi dagsins er baðker með innbyggðu sjónvarpi, útvarpi, DVD spilara og stafrænum hitamæli.

Ýmsar útgáfur eru í boði en sú sem myndin hér er af er frá Kóreu og myndi kosta um hálfa millján komin hingað til lands.

Sé þetta ekki nægjanlega flott, má benda á bandarískt fyrirtæki sem nefnist CalSpa, en þeir framleiða nuddpotta með innbyggðu heimabíói.  Aðeins þarf að ýta á einn takka og þá rís upp 42" flatskjár ásamt fullkomnu hljómflutningskerfi.


Krækiberjalíkjör

Empetrum-hermaphroditumPúkinn er hlyntur öllu sem stuðlar að aukinni fjölbreytni í íslensku atvinnulífi - sérstaklega þegar um er að ræða eitthvað sem er umhverfisvænt og er ekki bundið við einn ákveðinn landshluta.   Hver veit nema niðurstaðan af þessu verði til dæmis íslenskur krækiberjalíkjör, eins og sá sem er þegar framleiddur í Nova Scotia eða Noregi.

Fleiri tegundir standa til boða auk þeirra sem vaxa villtar á Íslandi eins og krækiber, bláber, aðalbláber.  Einnig vaxa jarðarber villt hér, þótt þau séu reyndar ekki eiginleg "ber".  Hrútaber eru líka til, en tæplega raunhæfur kostur.  Það er síðan spurning um orðalag í lögunum - mega menn brugga úr því sem þeir rækta í görðum sínum og gróðurhúsum?  Þá höfum við rifsber, sólber, stikilsber, hindber, brómber og jafnvel vínber, svo ekki sé nú minnst á margvíslegar grænmetis- og kryddjurtir.

Hins vegar finnst Púkanum vera ákveðin mismunun á ferðinni hér.  Hvers vegna er þetta takmarkað við íslensk ber og jurtir?  Í Finnlandi vaxa til dæmis rúmar 30 tegundir af berjum sem hægt er að brugga úr - Púkanum finnst svolítið óréttlátt að hann megi ekki brugga moltuberjasnafs, nú svo að ekki sé minnst á að greinarmunur er gerður á íslenskum vínberjum og innfluttum.

Hitt er síðan annað mál að með þessu er verið að lögleiða það sem hefur verið stundað á mörgum stöðum árum saman, mörgum til ánægju.  Gott mál.


mbl.is Megi brugga íslensk vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband