"Hátæknilandið" Ísland

hightechPúkinn lenti um daginn í rökræðum um framtíð hátækni á Íslandi.  Þetta er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, nema hvað Púkinn fór að hugleiða mismunandi skilgreiningar á hátækni, og í framhaldi af því hvort öll hátækni væri æskileg hér á landi.

Sumir skilgreina "hátækni" sem notkun á þeirri tækni sem telst þróuðust á hverju sviði á hverri stundu.  Samkvæmt því telst t.d. olíuhreinsunarstöð sem byggð er þannig að hún nýti sér nýjustu tækni til olíuhrinsunar vera "hátæknifyritæki".

Þetta er gott og blessað, það er bara ekki svona "hátækni" sem Púkinn vill sjá hér á landi - nei, Púkinn vill hátækni sem byggir á þekkingu og menntun.  Fyrirtæki sem ekki byggja eingöngu á því að þjálfa starfsmenn til að nota innfluttan hátæknibúnað, heldur fyrirtæki sem nota menntun og þekkingu starfsmanna til að framleiða hátæknivörur.

Púkinn vill sjá fyirtæki í lyfja-, líftækni-, rafeinda, upplýsingatækni- og jafnvel fjármálageiranum.  Fyrirtæki þar sem stór hluti starfsmanna hefur langskólamenntun og nýtir þá menntun við vinnu sína.

Púkinn er búinn að fá nóg af orkufrekum mengunarfyrirtækjum.


Að kaupa tónlist á Netinu

ipod_videoÞað munu víst vera fáir sem slá Íslendinga út í iPod eign - miðað við fólksfjölda að sjálfsögðu. Púkanum finnst það þess vegna dapurlegt hversu erfitt það er fyrir Íslendinga að kaupa tónlist fyrir slík tæki. 

Apple selur yfir 1.500.000 lög í gegnum iTunes Store, en því miður er Ísland ekki meðal þeirra landa sem geta nýtt sér þá þjónustu.  Hún er í boði í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, en hvorki á Íslandi né Noregi.

Hvers vegna?  Tja, annað hvort vill Apple ekki selja hingað, eða þeir hafa af einhverjum ástæðum ekki náð samkomulagi við samtök rétthafa tónlistarinnar um sölu til Íslands.

Á meðan þessi staða varir vex úr grasi kynslóð sem lítur á það sem sjálfsagðan hlut að stela tónlist í gegnum kerfi eins og Limewire - krakkar sem líta á þetta sem sjálfsagðan hlut því þau hafa ekki aðra möguleika til að nálgast stök lög fyrir iPod tækin sín.

Það er gott mál að lag Bjarkar skuli vera boðið til sölu, en betur má ef duga skal.
 


mbl.is Smáskífa Bjarkar seld á netinu án afritunarvarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er matvöruverslunum treystandi til að selja áfengi?

liquorPúkinn hefur ekki látið sjá sig hér á blog.is síðustu vikurnar, enda hefur hann verið í fríi á sólarströnd, þar sem svo margt annað er hægt að gera en að hanga á Netinu.

Meðal þess var að sitja úti á góðum kvöldstundum, narta í osta og hráskinku og sötra rauðvín sem var keypt í matvöruversluninni á næsta horni.

Púkanum varð stundum hugsað til þess hversu notalegt það væri nú ef staðan væri svona á Íslandi - ef mann langaði í eina góða rauðvísflösku  væri nóg að skjótast út á næsta horn.

Ekki vantar áhugann hjá matvöruverslunum eða SVÞ, auk þess sem skoðanakannanir hafa sýnt að stór hluti landsmanna er fylgjandi því að léttvín og bjór verði selt í matvöruverslunum.

Hins vegar...

Púkinn er nefnilega ekki viss um að íslenskum matvöruverslunum sé treystandi til að selja léttvín. Í dag eru í gildi aldurstakmarkanir varðandi kaup á tóbaki, en reynslan hefur sýnt að á mörgum stöðum er auðvelt fyrir kaupendur undir þeim aldursmörkum að nálgast tóbakið.  Verslanirnar eru ekki að standa sig og ekki hefur Púkinn séð mikil merki þess að þessar verslanir séu sviptar heimild til að selja tóbak til lengri eða skemmri tíma, þannig að eftirlitið er ekki heldur í lagi.

Nú er það reyndar skoðun Púkans að tóbak sé mun hættulegra en léttvín, en hvað um það - samkvæmt landslögum gilda aldurstakmarkanir um kaup á hvoru tveggja. 

Ef verslunum er ekki treystandi til að selja tóbak nema til þeirra sem hafa náð tilsettum aldri, er einhver ástæða til að ætla að eitthvað annað verði uppi á teningnum með léttvínið?


Bruðl dagsins - fljúgum hærra

rocketbeltEnn heldur Púkinn áfram að aðstoða þá sem vita ekki hvað þeir eiga að gera við peningana sína.  Í dag er það hins vegar þannig að Púkinn verður samt að viðurkenna að hann langar í þennan hlut ... bara pínulítið, sko.

Og hvað er þetta?  Jú, eldflaugabelti sem notandinn festir á bakið og flýgur svo af stað.  Með í kaupunum fylgir búnaður til að framleiða eldsneyti og þjálfun í notkun tækisins.

Menn þurfa að vísu að skreppa til Mexíkó og borga 250.000 dollara, en samt....

Nánari upplýsingar má sjá hér.


Burt með bókabúðir - inn með spilavíti!

one-armed-banditNú er illa komið fyrir þjóðinni sem einu sinni kallaði sig "bókaþjóð".

Bókabúðin við Hlemm leggur upp  laupana og í stað hennar kemur stækkað og endurbætt spilavíti.

Hvað segir þetta um þróun íslensks þjóðfélags?

Íslendingar gefa jú enn hverjir öðrum mikið af bókum í jólagjafir - það er sterk hefð fyrir þeirri tegund "harðra pakka", en er bókalestur að öðru leyti ekki að dragast saman - sérstaklega meðal yngra fólks?  Það er í sjálfu sér ekki skrýtið, það er svo miklu meira framboð af annars konar afþreyingarefni en fyrir nokkrum áratugum - fleiri sjónvarpsrásir og  tölvuleikir til dæmis.  Púkinn fær ekki betur séð en að bókamenning íslendinga sé á undanhaldi...því miður.

Spilavítin eru að sjálfsögðu önnur tegund afreyingar - afþreying sem sem beint er til heimskingja og fíkla.  Það eru sjálfsagt einhverjir aðrir sem detta inn einstöku sinnum, en "fastakúnnarnir", þeir sem halda uppi rekstrinum eru annað hvort of heimskir til að átta sig á tilgangsleysi þess að henda peningunum svona frá sér, nú eða þá orðnir of háðir spilafíkninni til að geta hætt.

Það er skoðun Púkans að það ætti að loka þessum stöðum, ekki stækka þá.


mbl.is Háspenna ætlar að stækka spilasal við Hlemm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ælukeppnin mikla

vomitingÞað er dapurlegt ef einu hæfileikar manna liggja á sviði drykkjuþols.  Það er jafnvel enn dapurlegra að einhverjir fást til að gera sig að fíflum á almannafæri með því að taka þátt í kappdrykkjukeppni.

Púkinn vorkennir reyndar þeim sem þurfa að þrífa upp æluna á eftir, en uppákomur eins og þessar eru dæmi um það hvers vegna Púkinn skilur stundum ekki mannfólkið.

Nú svo er auðvitað möguleiki að menn drepi sig á þessu, annað hvort fljótlega ef þeir kafna í eigin ælu, eða fá áfengiseitrun, nú eða ef menn leggja ofneyslu áfengis á vana sinn, þá á lengri tíma með skorpulifur eða öðrum vandamálum.

Kannski eru þeir bara að gera genamengi þjóðarinnar greiða með því að fjarlægja sig á þann hátt úr því?


mbl.is Getur leitt til dauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fórnarlömb tölvuglæpa

fraud_computerÞað eru ekki bara þeir sem láta glepjast af upplognum lottóvinningstilkynningum og slíku sem er hægt að kalla fórnarlömb tölvuglæpa, heldur er einnig um annan hóp að ræða.

Það eru þeir sem eiga tölvurnar sem eru notaðar til að dreifa óþverranum um Netið. Þeir sem standa á bak við dreifingu efnisins nota sjaldnast sínar eigin tölvur - ef þeir gerðu það væri auðvelt að loka á þá.

Nei, í staðinn eru notaðar tölvur fólks sem hefur óafvitandi sett svonefndar "bakdyr" inn á tölvurnar sínar - forrit sem leyfa hvaða utanaðkomandi aðila sem er að yfirtaka tölvuna og nota hana til hvers sem er.

Eigandi tölvunnar þarf ekki einu sinni að verða var við athæfið, en getur lent í margvíslegum vandræðum, svo sem:

  • Þjófnaður á heimabanka- eða kreditkortaupplýsingum.
  • Lokun á nettengingu vegna ruslpóstdreifingar.
  • Tölvan notuð sem geymslustaður fyrir ólöglegt efni - allt frá stolinni tónlist til barnakláms.
  • Erfiðleikar í notkun tölvunnar - annar hugbúnaður virkar ekki sem skyldi.

Það er hins vegar þannig að margir verða ekki varir við að verið sé að misnota tölvur þeirra á þennan hátt.  því miður.


mbl.is Innrásir tölvuþrjóta jukust í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ZERO áhugi

zeroÞað er ekki oft að auglýsingar virka öfugt á Púkann - gera það að verkum að hann einsetur sér að sniðganga viðkomandi vöru.

Þessum "Coca Cola ZERO" auglýsingum sem hefur rignt yfir Púkann nýlega tókst þetta þó.  Púkinn skilur vel að gallharðir femínistar setji sig upp á móti auglýsingunum, en sjálfur hefur Púkinn aldrei talið sig til þess hóps.

Nei, það sem ergir Púkann er að auglýsingarnar eru svo hallærislegar að þær vekja með honum þörf til að skipta um útvarpsrás ef hann heyrir þær.

Það má vera að Púkinn sé bara orðinn of gamall - hafi ekki þann húmor sem til þarf til að meta auglýsingarnar, enda virðist þeim fyrst og fremst vera beint að karlmönnum undir tvítugu, en hvað Púkann varðar, þá er niðurstaðan ZERO áhugi.

Nei, Púkinn heldur sig við sódavatn eða sykurlaust 7up.


Bruðl dagsins - hefðbundið

bugatti-veyron-bigBruðl dagsins er "klassískt", eða jafnvel bara gamaldags bruðl.  Myndin hér sýnir dýrasta bíl sem er í fjöldaframleiðslu í dag, Bugatti Veyron.  Það er hægt að fá dýrari bíla sérsmíðaða, en þessi hér er raunverulega fjöldaframleiddur.

Reyndar er fjöldinn ekki mjög mikill, því verðið væri um 120 milljónir fyrir bílinn kominn hingað á götuna.

Hvað fá menn svo fyrir peninginn?  Jú, bíl með tvöfaldri V8 vél,  1001 hestöfl, sem nær 400 km/klst hraða á 56 sek.

Jamm, einmitt það.

Það er reyndar eitt sem Púkinn skilur ekki - hvernig gátu menn gert nokkuð svona dýrt þetta ljótt?


Tækniþróunarsjóður - og svo hvað ?

Íslenskir stjórnmálamenn eru enn við sama heygarðshornið - halda að öll vandamál sé hægt að leysa með því að moka í þau peningum.

Nú er Púkinn ekki að segja að það sé slæmt að styrkja Tækniþróunarsjóð, en leysir það raunverulega vandamálið?  Staðreyndin er sú að ekki gengur eins vel að breyta hugvitinu í framleiðsluvörur hér á landi eins og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Og hvers vegna skylkdi það nú vera?  Jú, það skyldi þó aldrei vera vegna þess að aðstæður fyrir hátæknifyrirtæki eru einfaldlega mun lakari hér á landi en erlendis.

Það er margt sem spilar þar inn, en Púkinn ætlar sem stendur bara að nefna nokkur atriði:

  • Fjandsamlegt skattaumhverfi fyrir einyrkja sem vilja stofna fyrirtæki sem byggir á hugviti.
  • Alger skortur á fjárfestum sem hafa áhuga á fjárfestingum í fyrirtækjum af millistærð.
  • Öryggisleysi í gagnaflutningsmálum
  • Enginn  stuðningur við R&Þ í gegnum skattakerfið.
  • Verulegur skortur á hæfu fólki.
  • Ósanngjörn samkeppni opinberra aðila.
  • Ofurkrónan, sem er að murka lífið úr útfluningsfyrirtækjunum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að meðan umhverfið er þannig að fyrirtækin eru að flytja starfsemina að stærri og stærri hluta úr landi, þá skiptir það einfaldlega ekki máli hvort einhverjum milljónahundruðum meira eða minna er hent í Tækniþróunarsjóð - það mun ekki breyta neinu til lengri tíma litið.


mbl.is Stefnt að tvöföldun framlaga til Tækniþróunarsjóðs til ársins 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband