Ástarteningar

lovediceSumt af því sem má finna á vefnum er þannig að mann langar til að bregðast við eins og Homer Simpson - slá sig í höfuðið og segja "Doh!".

Hér er eitt dæmi.

Þetta eru sjálflýsandi teningar, ætlaðir pörum til nota í myrkri.  Á öðrum er sagt hvað gera skuli, en á hinum við hvaða líkamspart það skuli gert.

Myndin talar sínu máli.

Verðið - aðeins nokkur hundruð krónur.  sjá hér


Íslenska - gott mál

icelandicPúkinn fagnar þessari úthlutun, enda er íslenskunám ein mikilvægasta forsenda þess að þeir útlendingar sem hingað koma geti aðlagast íslensku þjóðfélagi.

Púkanum finnst hins vegar svolítið skorta á að upplýsingar um það íslenskunám sem er í boði séu aðgengilegar á þægilegan hátt, þannig að útlendingar geti fundið þær upplýsingar án aðstoðar íslenskumælandi aðila.

Það er hægt að nota Google til að leita að "íslenskukennsla" og þá finnur maður til að mynda síðu Alþjóðahússins, en þar eru allar upplýsingar á íslensku - sem er frekar gagnslítið fyrir útlendinga.  Þar eru einnig síður á fjölmörgum öðrum tungumálum, en engar upplýsingar virðist þar vera að finna um íslenskunámið.

Á vef Vinnumálastofnunar má finna upplýsingar á ensku, en þær eru takmarkaðar og virast ekki vera á fleiri tungumálum.

Er einhver staður þar sem upplýsingum um íslenskunám er safnað saman á helstu tungumálum?


mbl.is 90 milljónir króna veittar í íslenskukennslu fyrir útlendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúarfasismi

cautionAf hverju á ein trúarstofnun að hafa þau völd að geta sagt þeim sem ekki aðhyllast hennar trú fyrir um hvað þeir mega og hvenær?

Hvar er réttlætið í því að búddistum eða múslímum sé til að mynda bannað að spila bingó á þeim dögum sem teljast helgidagar samkvæmt tímatali kristninnar?

Þetta er að sjálfsögðu mismunun.  Búddistinn eða múslíminn má ekki fara eftir sínu trúarlega dagatali um það hvenær honum leyfist t.d. að spila bingó - aðeins sá kristni má gera slíkt.

Það er ekkert eðlilegt við þetta - hér er um að ræða leifar af úreltu fyrirkomulagi frá þeim tíma er völd kirkjunnar voru yfirgnæfandi í þjóðfélaginu.   Sá tími er liðinn, en því miður sitjum við enn uppi með óæskilegar leifar eins og þessar.

Púkinn er að sjálfsögðu trúlaus með öllu og ef hann hefði einhvern áhuga á bingó myndi hann sjálfsagt leita að öðrum skoðanabræðrum sínum til að spila við sig á páskadag, svona til að mótmæla þessum trúarfasisma. 


mbl.is Bannað að spila bingó á ákveðnum tímum um páska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttfyrirkosninganefnd?

Vestfirðir..að skipa nefnd til að fjalla um leiðir til að...

Óskapleg kosningalykt er af þessu máli.  Nú er ég ekki að segja að það sé allt í lagi með atvinnulífið á Vestfjörðum, síður en svo.

Vestfirðingar vita vel að stjórnmálamenn eru aldrei jafn reiðubúnir til að hlusta á kjósendur eins og rétt fyrir kosningar.   Stjórnmálamennirnir vita líka að þeir verða að halda atkvæðunum sínum góðum - það gengur ekki að tapa þeim burt svona á endasprettinum.

Kanski er Púkinn bara svona skeptískur að eðlisfari, en heldur virkilega einhver í alvöru að svona nefnd geri eitthvað raunverulegt gagn?  Jú, jú, hún gæti búið til fallega skýrslu á gæðapappír, með mörgum línuritum, en eru einhverjar líkur að niðurstaðan verði eitthvað sem getur snúið við hinni stöðugu hnignun margra vestfirskra byggða?

Púkinn efast um það. 


Bruðl dagsins - harðkornadekk með stæl

diamond-studded-wheels_12Frá og með deginum í dag mun (ó)reglulegur bloggliður hefja göngu sína. "Bruðl dagsins" mun benda á eitthvað sem Púkinn telur yfirgengilega sóun á peningum, þar sem hægt er að ná sömu virkni fyrir mun, mun minni pening.

Að sjálfsögðu vonast Púkinn til þass að hann geti aðstoðað einhverja auðmenn sem eru í vandræðum með milljónirnar sínar og vantar hugmyndir til að toppa hver annan - það er einfaldlega ekki "kúl" að flytja inn einhverjar miðaldra stjörnur til að syngja í afmælinu sínu, ef einhver annar er búinn að því á undan.

Nei, það það sem þarf eru nýjar og ferskar hugmyndir að áður óþekktum leiðum til bruðls.

Hér kemur sú fyrsta, sem hentar vel bílaáhugamönnum - hjólfelgur með ígreyptum demöntum.  26.000 samtals á einum umgangi af dekkjum.

Verðið? Um 130 milljónir króna, auk flutningskostnaðar, vörugjalda og virðisaukaskatts - ætli það verði ekki nálægt 200 milljónum hingað komið.

Þetta eru sko harðkornadekk með stæl. 


Reykingamenn - annars flokks fólk

nosmokingÞað vinna nokkrir reykingamenn í fyrirtæki Púkans, en að sjálfsögðu er reynt að venja þá af þessum ósóma - til dæmis með því að láta þá híma reykjandi út undir norðurvegg, skjálfandi í næðingnum.

Púkinn ætlar ekki að prédika hér um heilsufarsleg áhrif reykinga, eða þau jákvæðu áhrif sem reykingamenn hafa á ellilífeyriskerfið með því að lifa skemur.  Nei, athugasemd dagsins er frá sjónarhóli þess sem þarf að velja milli margra umsókna um sama starf.

Ef tveir jafn hæfir umsækjendur eru um sama starf og annar er reyklaus í vinnunni en hinn ekki, er sá reyklausi ráðinn - svo einfalt er það.  Reykingamenn þurfa að vera hæfari en reyklausir umsækjendur til að fá starfið.

Púkinn fagnar annars mjög fyrirætlunum um reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum hér á landi, en það er ekki umræðuefnið í þetta skiptið. 


mbl.is Breskir reykingarmenn taka sér hálftíma reykingapásur frá vinnu á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Namm, namm, brúðarkjóll

puffy dress.img_assist_custom Valenty Shtefano var að fara að kvænast og hann átti sér draum - hann langaði til að búa til brúðarkjól handa konunni sinni tilvonandi.  Það var bara eitt smáatriði - hann var útlærður kokkur, en ekki fatahönnuður.

Ekki vandamál.

Niðurstaðan varð þessi kjóll hér, búinn til úr 1500 litlum rjómabollum.

Það sem Púkinn veltir fyrir sér er hvað varð um kjólinn á eftir.  Ætli brúðhjónin hafi tekið hann með sem nesti í brúðkaupsferðina?


Skyndi-skyndibitar

turbochef-oven_12Sumum finnst hraðinn stöðugt fara vaxandi í þjóðfélaginu - of mikið sé um það að fólk sé að flýta sér að hlutum sem það ætti njóta þess að gera rólega.

Púkinn rakst nýlega á gott dæmi um þetta - bakaraofn sem framleiðendurnir segja að geti eldað matinn 15 sinnum hraðar en hefðbundinn ofn.

Þetta nýja tækniundur nefnist  TurboChef Speedcook og byggir á öflugum blástursofni sem beinir heitum loftstraumi bæði ofan og neðan að réttinum.  Þar að auki er örbylgjutæknin notuð til að hita réttinn innanfrá á sama tíma.

Verðið er rúm hálf milljón, en nánari upplýsingar má fá hér.

Púkinn er nú ekki alveg sannfærður um að hann myndi vilja svona skyndi-skyndi-skyndibita. 


Endurteknar dóprassíur

Pyschoactive_DrugsPúkinn ætlar ekki að fara út í umræðuna um lögleiðingu kannabisefna, eða hvort harðari efnum skuli dreift til fíkla til að daga úr glæpatíðni.  Nei, það sem Púkinn ætlaði að minnast á er frasinn um að þetta kvöld eigi eftir að endurtaka sig.

Auðvitað á það eftir að endurtaka sig - við hverju búast menn eiginlega...menn eru teknir með eitthvað lítilræði, málið telst upplýst og þeim sleppt til að fara út aftur og ná sér í næsta skammt.

Það þarf að ráðast að rótum vandans - ekki vera bara með síendurteknar rassíur sem engu skila til lengri tíma.

Púkinn vill sjá fíkla skikkaða í meðferð, en til þess verður að bæta meðferðarúrræðin verulega.

Púkinn vill líka sjá sölumennina (þá stóru, ekki bara smáfíklana sem selja til að fjármagna eigin neyslu) dæmda til mun harðari refsinga - ekki til að bæta þá, ekki til að "senda skilaboð út í þjóðfélagið", heldur til að vernda þjóðfélagið gegn viðkomandi.

Meðan ekkert róttækt er gert í málinu munum við bara sjá endurtekningar á þessu kvöldi og ekkert annað. 


mbl.is "Þetta kvöld á eftir að endurtaka sig"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Týnd í fjögur ár á Íslandi?

mummy-manÞessi frétt vakti Púkann til umhugsunar um hvort einhver gæti legið látinn heima hjá sér árum saman hér á Íslandi, án þess að það myndi uppgötvast.

Svipuð  mál hafa komið fyrir hérlendis, en þá hefur verið um að ræða daga eða vikur, jafnvel mánuði, en aldrei ár.  En samt, gæti þetta skeð? Það eru margir einstæðingar hér á landi, því miður, fólk sem á fáa eða enga vini og ættingja - fólk sem lifir út af fyrir sig og engir eftirlitsaðilar fylgjast með.   

Fólk getur verið á bótum sem renna inn á reikning sem rafmagn, sími, hiti og jafnvel húsaleiga eru sjálfkrafa greidd af - það er helst skattskýrslan sem gæti valdið því að þetta uppgötvaðist - nú, eða þá lyktin.

Það er í rauninni ekki svo fáránlegt að þetta gæti gerst.

Því miður. 

Myndin hér til hliðar er frá Tula í Rússlandi, en þar fannst lík sem hafði setið við borð í sex ár og var lýst sem "múmíu". Sjá hér.


mbl.is Fannst á heimili sínu eftir að hafa verið týnd í fjögur ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband